MORGUNKAFFI PARÍS – REYKJAVÍK

Nú er klukkan orðin tíu og þá er hún átta á Íslandi. Mig langar svo að hringja í einhvern, en veit að allir eru annað hvort sofandi í rúminu sínu eða hálfsofandi yfir kaffibollanum og langar ekkert til að síminn hringi. Ég er mjög oft í svona aðstæðum þar sem við vöknum svo snemma.

Ég man afmælisdaginn minn fyrir nokkrum árum. Þá var ég á Íslandi, það var sunnudagsmorgunn og ég vaknaði snemma og hress og ákvað að bjóða mér í kakó með rjóma niðri í bæ í tilefni dagsins. Ég gekk upp og niður fjandans Laugaveginn útbíaðan eftir eina af þessum heimsfrægu frábæru íslensku laugardagsnóttum og það var ekki ein einasta búlla opin. Hvílík einsemd sem helltist yfir mig. Svo opnaði að vísu Súfistinn og ég fékk dásamlegan kakóbolla OG fullt af erlendum tímaritum að lesa til að gleyma íslenskum raunveruleika.

En þetta er ein af ástæðunum fyrir því að ég get ekki búið á Íslandi. Ég get ekki búið á landi sem býður ekki upp á kaffihús að morgni til.

Einu sinni hitti ég ameríska fína frú sem var í sömu aðstæðum og ég, nema það var alls ekki sunnudagur heldur virkur dagur. Klukkan var ekki orðin átta, rétt um sjö, og því ekki hægt að fá kaffi neins staðar. Hún hafði tekið leigubíl ofan af hótel Esju til að njóta morgunasa borgarinnar. Sú fékk að kenna á því. Ég var eina fótgangandi manneskjan á öllum Laugaveginum, og engin kaffihús opin. Best að taka það fram að það var sól og gott veður. Það er ekki hægt að búa á landi sem býður ekki upp á kaffihús að morgni til.

Að vera í París, fara til dæmis að einni af stóru brautarstöðvunum og setjast inn á kaffihús upp úr sex og fylgjast með öllum fjöldanum sem kemur og fer. Sumir fínt klæddir með fínar skjalatöskur og hella í sig einum espressó á barnum. Sumir í bláum skítugum vinnugalla og sötra hægt og rólega púrtvín eða pernaud. Sumir bara að hanga svona ljóðrænir eins og ég, staddir inni í miðri ösinni án nokkurs ákveðins takmarks annars en að horfa á lífið sjálft. Það er einmitt við svona aðstæður sem maður sér lífið sjálft. Raunveruleikinn verður einhvern veginn áþreifanlegur og svo getur maður sagt sér að maður er ekki hluti af honum og þá svífur maður utan við hann og er ósýnilegur og það er þægileg tilfinning. Sérstök stórborgartilfinning.

Aðra morgna hef ég verið ein af þeim sem skvetti í mig einum bolla við barinn og þá er maður hluti af straumnum og það er líka stundum skemmtilegt. Sérstaklega þar sem maður er það ekki daglega. Næstum eins og maður sé orðinn leikari í raunveruleikanum. (Af hverju er „leik“ í orðinu raunveruleiki? Kemur það frá orðinu leikur, að leika?)

En Reykjavík er ekki stórborg og ekki hægt að vera ósýnilegur þar. Kannski er ekki hægt að bjóða upp á kaffi að morgni til í borg þar sem allir eru sýnilegir?

0 Responses to “”  1. Færðu inn athugasemd

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: