Sarpur fyrir júní, 2004Æ, hvað maður er nú heppinn með lífið sitt. Áhyggjur manns snúast að mestu um svo jarðneska og ómerkilega hluti að það hálfa væri nóg.

Til dæmis engdist ég um í gær yfir því hvort ég ætti að kaupa freyðivín eða kampavín í veisluna sem við höldum fyrir vini um helgina í tilefni brúðkaupsins og nýju íbúðarinnar. Loksins höldum við almennilegt partý.

Mig dreymdi aldrei um risastórt brúðkaup með hljómsveit og mat en mig dreymdi stundum um gott partý með fullt af kampavíni. Málið er bara að það er svo déskoti dýrt að kaupa kampavín og svo déskoti miklu ódýrara að kaupa freyðivín þó það sé úr sömu þrúgum og gert á nákvæmlega sama hátt og samkvæmt sumum snillingum alveg jafn gott. Ég bara ræð ekki við það hvað ég snobba rosalega fyrir kampavíni. Ég finn annað bragð. Ég held því fram að ég finni annað bragð. Ég ímynda mér að ég finni annað bragð.

En það fór svo að ég kíkti út í vínbúð að ráðum einnar vinkonu sem er vínþekkjari og uppástendur sem sagt að freyðivín sé alveg jafn gott, og þar lenti ég á sölumanni sem er líklega vínþekkjari (annars væri hann varla þarna að selja vín) og uppástóð líka að freyðivín væri alveg jafn gott og þar sem ég er svo seint á ferðinni með allan undirbúning partýsins varð ég að panta á mínútunni til að fá kassana fyrir laugardaginn. Á mínútunni. Ekki strax í fyrramálið eftir að geta smakkað eina flösku og ákveðið með manninum mínum og svoleiðis. Nei, á mínútunni. Það er ekki alveg mín sterkasta hlið að taka ákvarðanir svo ég stóð þarna í búðinni og engdist í orðsins fyllstu merkingu. Reyndi að hringja í tvo snillinga sem ráðleggja mér oft og voru búnar að vera með puttana í þessum pælingum, en hvorug svaraði. HVAR ERU VINIRNIR ÞEGAR Á ÞARF AÐ HALDA? Sölumaðurinn reyndist nógu ýtinn og nógu sannfærandi til að ég keypti 10 kassa hjá honum af hvítu og bleiku freyðivíni. Fyrst ég er á annað borð komin út í freyðivín, þá er alveg eins gott að ganga dálítið lengra í lágkúrunni og bjóða upp á bleikt í stíl við bleika brúðarkjólinn.

Ég keypti eina flösku til að taka með heim og smakkaði hana í gærkvöld. Við hjónin vorum sammála um að ef við hefðum fengið glasið framborið á góðum veitingastað hefði okkur ekki dottið í hug að biðja þjóninn um að sýna flöskuna til að sanna að um freyðivín væri að ræða. Þetta bévítans freyðivín hefur m.a.s. þetta góða eftirbragð og allt! Eða ég ímynda mér það a.m.k. þar sem ég á tíu kassa pantaða og greidda hjá lítilli vínbúð í París.

Ég er sannfærð um að ég er að gera rétt þar sem ég er að lifa í samræmi við mína eigin getu, ekki eyða um efni fram og samt að vera dálítið grandíós í tilefni tilefnisins. Kampavín er alveg fáránlega dýrt og það er það auðvitað bara vegna þess að heimurinn er troðfullur af pæjum eins og mér sem bara hreinlea fá verki af fögnuði þegar opnuð er flaska með miða sem á stendur champagne. Orðið er fagurt og seiðandi á frönsku. Á ekkert skylt við kampakátan sjóara í íslenskum slagara. Champagne… fullt af loforðum um einhvers konar sældarlíf og pelsa og demanta… eitthvað er það… kannski ekki þetta þar sem ég tel mig lifa sældarlífi og mig langar ekki í pels og alls ekki í demant því ég kann ekki við svona lúxusvörur sem hafa ekkert annað hlutverk en að skreyta og búa til ímyndir og sem fólk og dýr þjást við að útvega ríka fólkinu en… eitthvað er það…

Ég er sannfærð um að ég er að gera rétt í þetta sinn, en ég get lofað einu: Kampavín hefur og mun alltaf hafa meiri áhrif á mig en freyðivín.

Óforbetranlega snobbuð og ánægð með það!

Ég ætla, eins og þið vitið flest, að fara út í sjálfstæða leiðsögn í París í sumar. Verð með göngutúra alla fimmtu- og föstudaga og hægt að panta mig í netfanginu mínu sem er parisardaman@free.fr

Það hafa komið heilmikil viðbrögð við greininni um mig í Fréttablaðinu. Meira en ég átti von á. Kannski á maður að vera hræddur við fjölmiðlaveldi á Íslandi?

Ég er annars mjög spennt og bjartsýn á það að vera á eigin vegum í sumar. Þetta er ekki mikil áhætta þar sem enginn beinn kostnaður er af þessu fyrir mig. Bara mín vinna. Hef verið heilmikið að svara bréfum og svoleiðis svo líklega verð ég aldrei hálaunamanneskja af þessu. En þetta er samt skárra en að vera láglaunamanneskja að jaska sér út fyrir einvhern annan, er það ekki?

Ég er búin að ákveða að enda hver greinaskil á spurningu. Hef fengið allt of lítið af commentum og þetta gæti hvatt fólk til að skilja slíkt eftir hjá mér. Hvernig líst ykkur á það?

Annars er klukkan orðin allt of margt. Glösin orðin miklu meira en tóm eins og Valgeir lét Ingunni syngja forðum í júróvisjón (þeirri sömu keppni og Gísli Mart sigraði í um daginn í… Tyrklandi? – var sko að borða foie gras og drekka kampavín með nýjasta eiginmanninum á meðan). Ég lofa því að það var bara Volvic eldfjallavatn í glasinu mínu í kvöld. Ekkert vín og engar pillur, bara svo gaman að lifa og veðrið svo gott og maður bara kófsveittur og glaður. Eruð þið það ekki líka?

RÚV bar fram afsökunarbeiðni kvöldið eftir ömurlegan fréttaflutninginn sem ræddur er í síðasta pistli. Ég veit ekki hvort það var ég eða hvort fleiri létu í sér heyra, efast um að RÚV lesi bloggið mitt… vonandi létu margir í sér heyra og sönnuðu þar með það sem ég var að reyna að segja um að við erum ekki þessi áhorfandi sem þeir vilja að við séum. Ég lofaði fleiri pistlum um þetta mál, en í raun sagði ég allt sem þurfti og nenni eiginlega ekki að ræða þetta lengur.

Nema kannski að mál er til komið að einhver fari af stað með gagnrýna skoðun á fréttaflutningi á Íslandi. Mál eins og fjölmiðlafrumprumpið er tilvalið til að taka og skoða frá A til Ö. Kíkja hversu mikið var um það fjallað á hvorri stöð (RÚV og Stöð 2), hvenær það var neikvætt eða jákvætt, hvort það breyttist meðan á fjargviðrinu stóð, hvort fréttaumfjöllunin gæti verið ástæða fyrir ákvörðun Ólafs Ragnars í gær um að undirrita ekki o.s.frv. En svona rýni í fjölmiðla á Íslandi er líklega fjarlægur draumur. Enda hvar ætti að finna hlutlausa manneskju til að taka þetta að sér? Allir virðast vera annað hvort með eða á móti Davíð og það virðist vera það eina sem skipar fólki í flokka varðandi þetta mál. Mér virðist a.m.k. einu gilda fyrir fólk hvað í frumvarpinu standi og hver áhrifin verða á fjölmiðlaflóruna.

Það fyndnasta í umræðunni og það sem mest fór í taugarnar á mér, var þegar menn tala um að þessi og hin lög séu við gildi „í útlöndum“. M.a.s. Gunnar Smári sem ég hef alltaf talið með kláru gæjunum okkar, gerði þetta í einhverju rifrildinu sem ég greip niður í. Hvað þýðir það að koma með svona „rök“? Það VERÐUR að nefna landið sem vísað er til, er verið að tala um Sádí Arabíu eða Danmörku? Eru lögin gömul, hver setti þau og hvernig hefur það gengið? Er fólk og þá helst fjölmiðlafólk, sátt við lögin í landinu? Var þeim troðið inn í lok þingsetu eða fór fram fjörug og frjó umræða í þjóðfélaginu áður en þau voru samþykkt? Svona „smáatriði“ geta nefninlega skipt sköpum. Hefði annars einhver gúrú í t.d. Svíþjóð getað sagt (ja, a.m.k. ef Ólafur Ragnar hefði skrifað undir eins og flestir bjuggust við) að svona væri þetta nú á Íslandi og getað talið sænskum þegnum trú um að þess vegna væri allt í lagi að gera svona hjá þeim? Úff, ekki viss um að þessi setning sé jafngóð og hún hljómaði í kollinum á mér, en nenni ekki að laga hana núna… Þið skiljið alla vega hvað ég meina. Ég sætti mig ekki við þá rakaleysu að svona sé þetta í útlöndum. Mér er sama um útlöndin. Það er hvort eð er yfirleitt svo vonlaust að bera litla góða Ísland við einhver risastór og þunglamaleg og erfið og hættuleg útlönd.

Að líkja Baugsveldi við Berlusconi veldið er eins og að etja saman maríuhænu og fíl.

Ísland er einangrað smáríki og skiptir afar litlu máli fyrir heiminn fyrir utan, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Mér líkar það betur, nota óspart smæð okkar og hvað við erum sérstök hér í Frakklandi. Við þykjum einmitt mjög spennandi hérna. Eins og ég útskýri alltaf fyrir túristunum mínum: við erum „rarítet“, við erum sjaldgæf, eins og gott vín eða gamalt skrifborð og þess vegna þykir Frökkum við merkileg og eru spenntir fyrir okkur. Þetta eigum við að nýta okkur betur, koma á framfæri listamönnum og vísindamönnum og öðru hæfileikaríku fólki sem gæti, eitt og sér, skipt sköpum fyrir heiminn.

Hver gefur út Moggann eða hver kemur í Moggann skiptir ekki miklu máli. En að sigra heiminn getur gefið mikla möguleika fyrir litla þjóð og það er það sem við ættum að einbeita okkur að. VOILA!