Sarpur fyrir ágúst, 2004gaman að vera ég

Æ, mér finnst svo gaman að vera ég í dag. Í fyrsta lagi komu fjórir ferðalangar í göngutúrinn í morgun, tvö indælispör og var ferðin skemmtileg, þó ég segi sjálf frá. En eins og ég segi fólkinu oft, er það ekki bara ég sem ræð því, heldur skiptir móttækileiki ferðalanganna miklu og í dag var mikið rabbað og rætt um það sem ég var að segja frá og prjónað út frá því.

Svo eru börnin mín svo frábær. Sólrún var að vísu að gubba í nótt og með háan hita, en hún er samt hress í dag og virðist þetta bara hafa verið stutt og laggóð veiki, eins og vani er á þessu heimili. Kári er í essinu sínu, neitar að sofa og er að reyna að standa upp við kubbakörfuna, nýtur þess í ystu æsar að Sólrún sefur.

Og um leið og ég sló inn orðinu sefur datt Kári og ég róaði hann niður og síminn hringdi og hann datt úr rúminu mínu meðan ég leitaði að honum og svo vaknaði Sólrún og nú þarf ég að fara. Börnin verða hjá ömmu og afa um helgina og við hjónin ætlum að vera í fríi hér í París. Út að borða og gaman gaman.

Lifið í friði.

paris og oslo dyrastar?

Meó segir að það sé sagt að París og Osló séu dýrustu borgirnar í Evrópu. Það er vitanlega afar erfitt að bera saman borgir eins og Reykjavík og París þar sem ýmis gæði eru svo mismunandi í þessum tveimur borgum. En mér finnst það samt nokkuð ljóst að ég get lifað ódýrara lífi hér heldur en ég gæti heima á Íslandi. Ég get alveg sleppt því að sitja á kaffihúsi við Notre Dame, en ég get t.d. alls ekki sleppt því að eiga Pastísflösku í vínskápnum og fá mér rauðvín með matnum við og við. Arnaud fær sér bjór svo til á hverjum degi og þetta, ásamt frábærum grænmetismarkaði þar sem við getum keypt gott grænmeti á góðu verði gerir það að verkum að hér er ódýrara að lifa fyrir mig. Öll föt sem ég kaupi, kaupi ég í HogM eða CogA, hræódýrar búðir og hvorug til á Íslandi (tel ekki þessa „tilburði“ þarna í Kringlunni með).

Annars sá ég hressilega skemmtilega mynd í dag. Bresk mynd með frönskum leikara og spænskri leikkonu og svertingja og gerist í Ammeríkunni góðu. Hún heitir Jump Tomorrow. Hermir ýmislegt eftir Hal Hartley og Jim Jarmush, leyfir sér að vera „öðruvísi“ og tekur sig ekki áberandi allt of alvarlega. Mér fannst ég verða tvítug á ný að uppgötva Stranger than Paradise. OH, það er svo gaman að vera tvítugur stundum. Mæli með þessari mynd sem er frá 2001 og var fyrst að koma hingað núna vegna Hippolyte Girardot (sem við Guðný migum næstum í okkur yfir tvítugar nýkomnar til Parísar í Un monde sans pitié). Myndin kemst áreiðanlega aldrei í sali á Íslandi, (það bólar a.m.k. ekki á neinum aksjónkalli í henni) þannig að það verður að tékka á henni á góðu leigunum. Eða á Amazon? Eða stela henni af netinu? Eða sleppa þessu?

Í myndinni var orðatiltækið „to settle down“ þýtt með frönsku orðatiltæki sem hefur verið að velkjast um í huga mér síðustu daga: „se ranger/un homme rangé“. Var nefninlega að lesa tilvitnun sem var skrifuð 1850 þar sem höfundurinn skammast yfir þessu „settlaða/rangé“ pakki sem líður vel og er skítsama um restina af heiminum sem líður ekki vel. Hvernig segir maður þetta á íslensku? Að settla sig? Að vera kominn á rétta hillu í lífinu? Hjálp óskast.

Takk fyrir kommentin Meó, Bryn og Sigurður. Þið hin megið éta það sem úti frýs.

Lifið í friði.

ísland í dag

Er það ekki sorglegt að um leið og ég get sagt útlendingum sem spyrja mig um landið mitt að veðrið hafi stórbatnað þar á síðustu árum, neyðist ég samt til að vara þá við því hvað það er hrottalega dýrt að lifa þar? Er það ekki ótrúlegt að Íslendingum finnst París dýr, og eru oft að reyna að sannfæra mig um að bjórinn heima kosti 300 krónur. Þau eru þá að tala um bari sem þau færu aldrei sjálf inn á, og þar að auki með tölur frá því fyrir þremur árum. Þetta er mjög algengt, Íslendingar virðast almennt hafa brynjað sig gegn háu verðlagi og eru alltaf að reyna að sannfæra sig og aðra um að það sé í það minnsta þess virði að borga of hátt verð fyrir hlutina því landið sé svo skemmtilegt og loftið svo gott.

Nú er Ísland að breytast í stóriðnaðarland, að mér skilst. Er ekki kominn tími til að verð á Íslandi verði líkara verðlaginu annars staðar í heiminum?

Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að smæð markaðarins og einangrun okkar gerir okkur erfiðara fyrir, en samt… ég held að styrkur markaðsaflanna sé aðallega fólginn í því að lýðurinn lætur allt yfir sig ganga og mótmælir aldrei almennilega. Hvers vegna vantar samstöðu og kraft til að mótmæla verðlaginu? Sigríður heimspekingur sagði að það væri margra alda hefð fyrir kúgun Íslendinga og við ættum því erfitt með að brjótast undan henni. Mér er sagt að nú sé dálítið komið „í tísku“ að mótmæla. Kannski það sé leiðin til að knýja kraft í liðið, fá einhvern BubbaSvavarÖrnSirrýhvaðþauheitanúöllsömul til að segja opinberlega að þetta sé IN og þá gerist eitthvað?

Lifið í friði, en látið ekki ganga yfir ykkur.

hvar er pönkarinn minn?

Ég held að ég hafi týnt pönkaranum mínum um helgina. Annað hvort drekkt honum í sundlauginni eða í áfenginu. Er a.m.k. í sérlega væmnu skapi í dag. Finnst börnin mín svo falleg og góð og veðrið er svo yndislega heitt og mollulegt, allt svona skemmtilega rakt og maður orðinn kófsveittur áður en maður nær að þorna eftir sturtuna. MMM… elska svona alvöru suðræn sumur. Nú má það bara endast fram í október. Þá ætlum við að leigja hús í Ölpunum með mömmu og pabba. Langþráð frí fyrir okkur öll.

Kári er farinn að skríða um allt á maganum og sýnir okkur vel hvar þarf helst að skúra. Sem er svo til alls staðar akkúrat núna. Hann er líka byrjaður að æfa raddsvið sitt, bæði tenórinn og bassann og stundum fer Sólrún að herma eftir honum þegar við erum úti að ganga og þá er við stundum litin hornauga. Fólk vorkennir mér kannski fyrir að eiga tvo fáráðlinga.

En ég veit betur og er ekki mikið að kippa mér upp við þetta.

Þau eru sofandi og hafa verið það í rúma þrjá tíma bæði tvö. Kannski er það þess vegna sem ég er svona jákvæð og glöð. Allir vita að börn eru fallegust þegar þau sofa.

Lifið í friði.

fólk að fara

Jæja, þá kvaddi ég enn og aftur fólk sem ætlar að flytja aftur til Íslands. Í þetta sinn voru það Þórey og Magnús sem hafa tekið þá ákvörðun að snúa aftur heim. Reyndar er það flóknara en það, því Magnús heldur áfram að vinna hérna og mun hoppa á milli landanna eins og mögulegt reynist.

Ég skil alveg að fólk vilji fara aftur til Íslands eftir áralanga búsetu erlendis. Ég gerði það nú sjálf á sínum tíma. Það er mjög margt gott við Ísland og maður er alltaf rifinn í tvennt, á tvö lönd og tilheyrir báðum um leið og maður er pínulítið útlendingur í þeim báðum. Mjög flókin aðstaða og ekki fyrir alla að þola. En það er alveg furðulegt hversu margir hafa farið núna nýlega. Fyrst fór Helga, svo Guðný og nú þau.

Það er einmitt einn af stóru göllunum við að búa í útlöndum að maður lendir mun oftar í því að kveðja. Maður kynnist fólki, tengist böndum og svo fer það bara. Svo kemur maður í heimsókn til Íslands og þá er rifist um mann og svo þarf maður að kveðja og fer iðulega örþreyttur og með samviskubit aftur út. Þreyttur eftir miklar heimsóknir og þeysing, með samviskubit af því að þrátt fyrir endalausan þeysing urðu einhverjir útundan.

Ég er ekki að kvarta, ég er þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast mörgum góðum manneskjum hérna úti, sem ég hefði líklegast aldrei kynnst á Íslandi. Ég er þakklát fyrir að eiga marga vini og kunningja og ég nýt þess út í ystu æsar að skrifa jólakortin og vera í tölvupóstsambandi og þó maður hittist ekki oft, er skemmtileg kvöldstund við og við með þessu fólki ómetanleg. Stundum líða tvö, þrjú ár og samt er eins og maður hafi hist í gær. Þetta er dýrmætt veganesti í lífinu.

Þegar maður tengist fólki böndum, tekur maður ákveðna áhættu. Áhættu á að vera svikinn og yfirgefinn. Þessi áhætta reynist í flestum tilvika vera vel þess virði, og þó að fólk færi sig um set og samverustundum fækki, er ekki þar með sagt að það hafi svikið mann. Takk öllsömul fyrir að vera til vinir mínir.

Lifið í friði.

p.s. ég er að reyna að skrifa jákvætt líka og sjáiði hvert það leiðir mig! Tóm væmni. Sverrir Stormsker snillingur sagði: Heldur klæminn, en vera væminn. Nokkuð til í því, en ég hef því miður ekki tíma til að laga pistilinn og skrifa dónalega hluti um vini mína svo þetta mun standa.

Guðni rektor

Ég var að lesa minningargreinarnar um Guðna rektor. Þar fór góður maður og merkilegur frá okkur. Ég var svo heppin að fá að komast einu sinni upp á teppi til hans. Þegar það gerðist fannst mér ég alls ekki heppin, ég var skjálfandi og titrandi af hræðslu og sá ógurlega eftir fíflaganginum sem var ástæðan fyrir þessum fundi. Elías konrektor fygldi mér upp, við vorum góðir vinir og hann sagði mér hvernig ég ætti að haga mér. „Byrjaðu á því um leið og þú kemur inn að biðjast afsökunar á brotinu“. Þetta gerði ég og fundur okkar Guðna fór á bestu leið. Hann gelti fyrst að mér: „Þér eruð róni!“ og það var líklega ekki alrangt hjá honum ef málið er skoðað til hlýtar. Ég man alltaf eftir þessu, og setningin hljómar stundum í kollinum á mér þegar ég er illa farin eftir erfitt kvöld…

Svo var hann hinn almennilegasti og sagði að nemandi eins og ég ætti að vita betur. Hann minntist svo á mig í ræðu sinni við ömurlegu útskriftina okkar sem fór fram eftir hræðilegt og langt kennaraverkfall. Ég valdi að fara bara í örfá próf og hækkaði mig heilan helling í ritgerð. Hann nefndi mig ekki á nafn þá, en sagði að sumir hefðu vitað hvað þeir voru að gera. Ég var mjög montin af þessu.

Guðni var einn af þessum mönnum sem gera lífið þess virði að lifa því, litríkur persónuleiki sem sannar að það er hægt að koma góðu til leiðar og að bleyðugangur borgar sig ekki. Takk fyrir Guðna og alla góða menn (og nú ætti að vera óþarfi að minna fólk á að konur eru líka menn, en ég þori samt ekki annað).

Lifið í friði.

persepolis

Vá! Ég var að ljúka við fjórða og síðasta bindi teiknimyndasögunnar Persepolis eftir Marjane Satrapi. Hún er írönsk og segir sögu sína frá barnæsku til ca 24 ára. Byltingin í Íran, kaþólskur skóli í Austurríki o.m.fl. Þetta er frábært verk og mæli ég með því að þið lesið það öll. Maður lærir sögu Írans um leið og maður nýtur frábærrar frásagnargáfu stúlkunnar. Hún skrifaði þetta á frönsku en ég er nokkuð örugg um að þetta hefur verið þýtt á ensku.

Ég grét í endann á hverju einasta bindi. Hún er bæði fyndin, hreinskilin og ótrúlega næm og hvernig hún segir ljótustu hlutina algerlega án orða er magnað. Það sem fólk þarf að lifa. Og maður er eitthvað að svekkja sig á sjampónotkun og öðru álíka fánýtu meðan rúmlega helmingur heimsins hefur ekki einu sinni vatn að drekka og upplifir sprengingar, blóð og morð á hverjum degi. Marjane komst að því að þegar maður vorkennir sjálfum sér þýðir það að það sem maður er að þola er þolandi. Þegar maður fer yfir strikið og þarf að þola hið óþolandi, hættir maður að vorkenna sér og fer að hlægja að öllu saman. Það er eina leiðin í gegnum alvöru hörmungar.

Og nú er ég byrjuð að lesa bók um ofríki Vesturlanda í Afríku, hvernig Frakkar eru sekir í þjóðarmorðinu í Rúanda, ásamt ýmsum öðrum ósóma. Maður þyrfti helst að hafa fötu við hliðina á sér, ég varð að hætta að lesa í Metró í morgun, fór hreinlega að skjálfa úr reiði og sektarkennd. Ef maður gæti nú sagt við sjálfan sig að maður ætlaði að búa í hinu hlutlausa ríki, Íslandi. Ó, nei, við höfum leyft stjórnmálamönnum að láta peningavafstur og glæpahyski draga okkur inn í atburðina, við erum jú atkvæði í SÞ og hvert atkvæði skiptir máli fyrir fjármálaveldin. Við erum því samsek.

Lifið í friði.

Flækja er skemmtileg

Það má ekki misskilja mig, mér sýnist á EINA kommentinu mínu að ég hafi móðgað hana Bryn mína þar sem ég minntist á ódýra klippingu. Hennar lífsstíll er allt allt öðruvísi en minn, hún vill garð, hún vill dýra klippingu og ýmislegt annað sem ég vil ekki. Það gerir hana ekki að verri manneskju, síður en svo.

Við erum jafn misjöfn og við erum mörg og það er það sem gerir lífið svo skemmtilegt. Málið er að Bryn gengur nokkuð vel að halda utan um fjármálin, ég þekki nokkrar konur og menn sem kunna að reikna út skatta og vexti o.fl. og Bryn er ein af þeim. Hún leyfir sér að fara í dýra klippingu eins og ég leyfi mér að fá mér kampavín á Hotel du Louvre. Og ég get lofað ykkur því að hvorug okkar er að gera þetta vikulega!

Ég held að aðalmálið sé að leyfa sér einhvern munað, maður þarf bara ekki að baða sig í munaði á kreditinu og það er það sem ég er að „skammast“ yfir í pistlinum mínum hér á undan. Málið er að finna þennan gullna meðalveg og halda sig á honum svona að mestu.

Að þessum orðum töluðum ætla ég að hoppa í vinnuna. Munið að skilja eftir komment! Takk Bryn.

Lifið í friði og kyssið kviði.

Er ojbara að spara?

Sparnaður hefur verið mér ofarlega í huga upp á síðkastið. Ég hef mikið spáð í lífsstíl, gerviþarfir, nauðsynjar og annað sem kemur peningaeyðslu við.

Mér finnst það mjög undarlegt viðhorf margra, að sparnaður sé ákaflega lummó. Líklegast er það að hluta til vegna þess að fólk ruglar saman sparnaði og nísku sem eru í mínum huga tveir ólíkir hlutir.

Mér finnst sparnaður einmitt vera andstæða þess að vera lummó. Fólk sem lifir sparlega, vandar sig við innkaup, kaupir ekki óþarfa og ber hæfilega virðingu fyrir peningum sem nauðsynlegu vopni í lífsins baráttu, á mína virðingu mun frekar en fólk sem lifir um efni fram, sullar peningunum upp úr veskinu eyðandi í alls kyns drasl sem er búið að sannfæra okkur um að við þörfnumst. Risastórt sjónvarp, leðursófi, flotta sumarfríið, nýjasti geisladiskurinn, allt þetta er gott mál ef maður hefur efni á því. Ef maður hefur ekki efni á því, en veitir sér það samt sem áður, er maður fallinn í þann forarpytt að vera þræll ÓVINARINS, kolkrabbans, drottnandi valdhafanum, þessum sem pælir út hegðun okkar og stýrir henni um leið. Hver getur borið virðingu fyrir þræl sem gengur sjálfviljugur í ánauð?

Sparnaður er líka ekki bara spurning um að eiga nóg fyrir lífinu, í sparnaði felst oft mikil verndun á plánetunni jörð, sem er í stórhættu hvort sem okkur líkar betur eða verr og hvort sem okkur finnst lummó að tala um það eður ei.

Nokkur dæmi um sparnað sem ég fíla vel:

Ein sem ég þekki sagðist þvo sér með sjampói og setja gel í hárið á sér annan hvern dag en ekki á hverjum degi þar sem hún sparaði fullt af geli á því. Henni fannst hún hálf hallærisleg þegar hún viðurkenndi þetta, var hrædd um að ég gæti hlegið að þessari vitleysu. Ímyndið ykkur ef allar sjampó- og gelkonur notuðu helmingi minna af þessum óþverra sem við skolum úr hárinu á okkur og út í sjó. Ein og sér gerir hún kannski ekki mikið fyrir heiminn, en hvert um sig getum við myndað stóran hóp og þá skiptir hver dropi sköpum. Eftir að ég heyrði þetta fór ég að minnka sjampónotkun töluvert, og finn engan mun, finnst ég alls ekki skítugri en áður.

Ég frétti af einni tæplega tvítugri sem keyrir bílinn sinn ekki alla leið heim til að spara smá bensín. Allir hlægja, en pælið í því ef allir Reykvíkingar tækju sig til og færu að spá í dropana. Mengun og hrikaleg völd bensínfyrirtækjanna myndu kannski dofna eitthvað. Fyrir utan hreyfinguna sem gerir öllum gott!

Við hjónin hættum að kaupa geisladiska fyrir nokkrum árum. Þegar ég segi hættum, þá meina ég auðvitað ekki að síðan hafi ekki einn einasti diskur bæst í safnið. Maður bara hugsar sig aðeins betur um en áður. Þetta er auðvelt fyrir okkur þar sem ég hlusta náttúrulega alltaf mest á gamalt og gott sem ég á í bunkum, og maðurinn minn fær lánaða óperudiska úti á bókasafni. ÓKEI, ég skal viðurkenna að tónlistarlega séð erum við hálfgerðar lummur, en ég skal ekki hnika í áliti mínu á því að fólk sem þarf alltaf að kaupa alla nýjustu tónlistina er að hamast við að fylla eitthvað tóm sem engin nútímapopptónlist mun nokkurn tímann ná að fylla.

Það er ekkert hallærislegt að fara í nokkrar mismunandi búðir til að gera alltaf bestu kaupin.

Það er ekkert hallærislegt að svíða í hjartað þegar maður hendir mat.

Það er ekkert hallærislegt að tíma ekki að kaupa sér pitsu á 2.000 kall (er það ekki annars gangverðið þarna heima?).

Það er ekkert hallærislegt við að fara bara upp í Munaðarnes í staðinn fyrir að fara til Flórída eitt og eitt sumar.

Það er ekkert hallærislegt að nota strætó.

Það er ekkert hallærislegt að eiga lítið sjónvarpstæki.

Það er ekkert hallærislegt að gefa skít í nýjustu tísku og fara í ódýra hárgreiðslu og lita sjálfur á sér hárið og svona mætti lengi áfram telja.

Ég er sparsöm og passa mig að vera helst aldrei undir núlli á reikningnum. Það kemur þó stöku sinnum fyrir, en ég veit alltaf að þá er það bara tímabundið og þá herði ég vitanlega sultarólina og barma mér ekki yfir því á meðan. Ég held alveg örugglega að enginn af mínum vinum myndi lýsa mér sem nískri manneskju og m.a.s. er ég viss um að sum hlægja sig máttlaus af því að lesa þetta, ég er mikil lífsnautnamanneskja og fer t.d. stundum á bari þar sem kampavínsglasið er selt á verði heillar flösku annars staðar, BARA til að njóta þess að vera prinsessa í klukkutíma.

Bankinn hirðir ekki stórfé af mér í vexti á hverju ári. Það finnst mér smart. Og þeir sem reyna að sannfæra mig um að það sé leiðinlegt að lifa þannig, finnst mér lummó. Ekki leiðinlegir, en lummó.

Lifið í friði.

P.S.

Ég er orðin leið á því að fólk segist t.d. ekki hafa tíma eða pláss til að flokka ruslið og að það skipti hvort eð er ekki máli. AUÐVITAÐ skiptir það máli!

Danmörk og rusl

Danmörk er, eins og Ísland, alveg indælt land. Verst að þeir kusu yfir sig öfgahægristjórn og verst hvað þeir kasta rusli úti á götu. Ég er orðin sérlega viðkvæm fyrir ruslkasti og hef hafið mitt einkastríð gegn því. Tókst um daginn að ganga að konu og benda henni á að hún hefði „misst“ og þegar hún sagði að þetta væri viljandi beygði ég mig eftir því og fór sjálf með það í ruslið. Hún varð eins og auli í framan og náði skilaboðunum. Kannski hún hætti að henda rusli? Gerði þetta líka í garðinum yndislega hans Gádí í Barcelona um árið. Hvet ykkur til að gera það sama. Ég hef lengi vanið mig á að t.d. týna upp stærsta ruslið í almenningsgörðum sem ég kem í og á ströndum sem ég ætla að leggjast á. Mér finnst það hreint ótrúlegt hvað fólk er ónæmt gagnvart þessu og þessi setning um að það sé fólk í vinnu við að týna upp ruslið gerir mig líklega bráðlega gráhærða.

Annars var ég að tala um Danmörku. Ég fór í lítinn heim á lítilli eyju og leið eins og prinsessu. Fékk gott að borða og drekka og heilun og árustillingu og skemmtilegar samræður og lá í hengirúmi og hlustaði aldrei á fréttir né sá á sjónvarp og þetta jafnast á við mánaðarfrí á sólarströnd svei mér þá.

Hitinn hérna í París sér svo um að maður er dauðuppgefinn eftir nokkra daga í móðurhlutverkinu á ný. En ég ætla þó ekki að kvarta, hér er gott veður og gott að fá sól og hita eftir þetta undarlega sumarleysi hérna.

Við skírðum Optimistann með pompi og pragt, þetta verður frábær staður þegar lati-Bauni nennir að gefa leyfið út.

Mæli eindregið með Óðinsvé sem er skemmtileg útfærsla á ekki ósvipaðri borg og Reykjavík.

Jæja, ég er þreytt og ætla að nota tækifærið meðan börnin sofa til að leggja mig sjálf. Fór sko í hypermarkað í morgun og það er nú bara til að færa mann skrefi nær lokahvílunni…

Lifið í friði. KKK.