Sarpur fyrir september, 2004

frí frí frí

Jibbí jei, ég er að fara í langþráð frí. Loksins! Mamma kemur í bæinn á morgun og við munum bruna til S-Frakklands í stórt hús í litlu þorpi rétt hjá Saint Emilion. Þar er 25 stiga hiti og sól í dag og er ég búin að ákveða að þannig verði öll næsta vika. Hver veit nema hægt verði að dýfa sér í laugina í garðinum? Eða slá nokkra tennisbolta í vegg á tennisvellinum? Eða hjóla um fagrar sveitir Bordeaux-svæðisins, gegnum vínekrurnar? Eða bara skutlast á bílnum niður á Atlandshafsströndina? MMMMmmmmmMMMMM Ég hlakka svo mikið til og er svo fegin að fara í frí, að ég er eiginlega að veikjast. Með hálsverki og beinbólgu. Nei, ég meina hálsbólgu og bein… æ þið vitið hvað ég meina. En mér er alveg sama. Ég svíf. Ég er að fara í frí.

Ég var aldrei búin að segja ykkur frá fjaðrafokinu sem framkvæmdastjóri TF1, valdamestu einkareknu sjónvarpsstöðvarinnar, þessari sem var fyrst ríkisstöð og var svo einkavædd fyrir nokkrum árum, þessari sem sýnir raunveruleikann á sama raunverulega hátt og DV gerir á Íslandi, dregur upp mynd af öllum ósómanum, klínir því á skjáinn og fær mesta áhorfið og halar inn helming allra sjónvarpsauglýsingatekna Frakklands, olli (jú, þetta er rétt setning þó hún sé dálítið Proustleg, fjaðrafokinu sem … olli).

Í einhverri nýútkominni samtalsbók segir hann starf sitt felast í því að gera heila fólks móttækilegri fyrir auglýsingum. Þannig sé hans starf í raun og veru að selja kók.

Frakkar eru mikið fyrir að segja það sem þeim finnst, og því hefur mikið verið rætt og ritað um þessa hræðilega berorðu yfirlýsingu. Sumum þykir gott mál að hann skuli vera svona hreinskilinn, að hann skuli ÞORA að vera svona hreinskilinn, meðan öðrum finnst vegið að öllum sjónvarpsáhorfendum og heilum þeirra. M.a. voru haldin mótmæli fyrir utan aðalstöðvar TF1 um daginn, þar sem 30 ungmenni sátu með spjöld eftir að hafa lagt átta ferska kálfsheila við þröskuld aðaldyranna.

Auðvitað hreyfir svona setning við okkur, þó að við vitum vel sjálf að megnið af sjónvarpsefni sem okkur er boðið upp á, er okkur ekki bjóðandi, og hversu óþolandi það er að allt miðast við áhorfunartölur, sem er afleiðing auglýsingakapphlaupsins, sem er afleiðing kapítalismans.

Ég horfi eiginlega aldrei á TF1. Ekki vegna fordóma, heldur vegna þess að mér finnst þættirnir þeirra vera leiðinlegir, eða það sem ég les um þá vekur a.m.k. ekki áhuga minn. Ég nenni ekki að horfa á fólk gera upp fjölskyldudeilur eða koma út úr skápnum. Nenni ekki að horfa á sérvitringa sýna hvað þeir eru skrýtnir eins og konuna sem elskar hundinn sinn út af lífinu og vill fá að gefa honum nýra, eða manninn sem heldur að hann sé strætisvagn og fer um bæinn og býður fólki að hoppa upp á sig (bæði dæmin eru heimatilbúin og ég er mjög montin af þeim, vil gjarnan fá hrós í væntanlegum orðabelgjum).

Auðvitað hef ég ýmislegt sagt um þessa setningu og margt hugsað um hana. Mér finnst maðurinn mikilmennskubrjálæðingur. Hann á ekki að sýna tryggum áhorfendum stöðvarinnar hversu hrottalega hann lítur niður á þá. Hann á að halda áfram að leika leikinn um að það sem þeir sýna, sé það sem fólkið vill horfa á, hann sé þeirra þjónn. Ekki að hann sé að ræna þau heilanum, þó það sé auðvitað sannleikurinn. Okkur hlýtur öllum að líða betur í þjóðfélagi sem við teljum vera að vinna okkur í hag. Að Davíð og Björn og Gunnar og Jón og kannski ein og ein Katrín eða Jóna, séu að vinna í okkar þágu og fyrir almannaheill. Þó að innst inni vitum við að bröltið fjalli fyrst og fremst um vald og að vald fjalli fyrst og fremst um peninga.

Lýðurinn hefur rétt á því að geta látið eins og ekkert sé. Lifi skeytingarleysi, fáfræði og almenn skítsemi (af skítsama).

Þessi pistill byrjaði sem saklaus tilhlökkunarmeðdeiling, en endaði í hápólitísku orgi. Hvað gerðist eiginlega? Hvert er þessi heimur að fara eiginlega?

Lifið í friði.

p.s. Ekki gleyma að heila jörðina sem þið gangið á, og viti menn, einn góðan veðurdag verður jörðin góður staður.

sigur steindórs

Var á tónleikunum Hrafnagaldur Óðins eftir Sigurrós, Hilmar Örn o.fl.

Það var voðalega gaman í kokkteilboðinu á undan, enda tókst mér að drekka fjögur kampavínsglös sem nær ekki upp í mikinn hluta af flugmiðanum heim, en telst þokkalegur árangur miðað við að þeir virtust nú eitthvað vera að treina kampavínið (ekki til í byrjun (þar til ég kom), ekki til í miðju (nema fyrir mig) og svo var aðeins til þarna í endann, en öllum sagt að þetta væri síðasta flaskan…) þarna á tíundu hæð í Holiday Inn við Porte de Pantin.

En aðalmálið var vitanlega tónleikarnir sem voru fínir þó að ég hafi orðið fyrir örlitlum vonbrigðum. Sándið var ekki nýtt, þetta minnir á Preisner (æ sorrí ef nafnið er rangt, tónskáldið sem gerði tónlistina við Tvöfalt líf Veróniku) og tónlistina úr Rómeó og Júlíu nútímaútgáfunni. Popp og klassík í bland hljómar kannski alltaf eins en samt… svona melankólísk konurödd og mollar og tvíundir… æ, ég var skömmuð fyrir að vera með neikvæðni áðan af vinunum eftir tónleikana og svo held ég áfram hér… hætt núna.

Sigurvegari tónleikanna er hins vegar söngvarinn, rímnamaðurinn, galdrakarlinn Steindór. Frábær. Fallegur. Góður. Galdrakarlslegur. Mikil og sterk ára. Allt sem þurfti til að fylla upp í tómið sem fiðlurnar og ásláttartækin náðu ekki að fylla. Óborganlegur.

Ég væri alveg til í að búa með útsýni yfir périphérique, hraðbrautina sem umlykur borgina. Mér finnst svona streymandi fjarlæg bílaumferð hreint augnayndi.

Lifið í friði.

ráð og ræna

Ég lýsi hér með eftir ráði og rænu sem tapaðist einhvern tímann upp úr miðnætti í gær í afmælinu hennar Bryndísar E. Til hamingju með afmælið elskan mín og takk fyrir frábært partý.

Reyndar er hún Bryndís með vonlausan tónlistarsmekk þó við getum stundum mæst í gömlum abbalummum og öðru diskói. Ég þoli ekki vælið í þessum píum í dag. Þoli það ekki. Þess vegna tók ég mig til og dauðarokksöskraði yfir sum þessara laga og lýsi því líka eftir rödd minni sem er atvinnutæki mitt og ég þarf að nota á morgun, ásamt ráðinu og rænunni.

Best að skríða aftur undir sæng. Börnin eru hjá ömmu og afa og verða fram á morgun svo við hjónin erum að upplifa allsherjar hvíldardag. Arnaud ætlar út að ná í vídeó og pizzu. Ykkur finnst þetta kannski hljóma banalt, en við gerum þetta ALDREI. Nema núna.

Lifið í friði.

Sko mína!

Svona er maður nú flinkur stundum þó maður sé örvæntingarfull móðir á laugardagsmorgni. Nú getið þið lagt orð í belgi og ég svarað þeim fullum hálsi. Sleppið ykkur nú alveg! Embla, þú getur sett þetta á hjá þér og ekki orð um þetta vandamál meir. Tekur innan við mínútu. Klikkaðu á titilinn á þessum pistli og þú ert á réttum stað.

Lifið í friði.

Haloscan commenting and trackback have been added to this blog.

stundum

Stundum hellist það yfir mig, eins og einhver fáránleg mistök, eitthvað Kafkadæmi þar sem ég skil ekki aðstöðu mína og ástæðurnar fyrir henni, að ég er orðin tveggja barna móðir og æðsti yfirmaður fjögurra manna fjölskyldu. (Ég get leyft mér að setja mig í æðstu stöðu þar sem maðurinn minn er útlendingur og kann ekki að lesa bloggið mitt – hí á hann.)

En það sem ég meina er, að jú, ég gekk með þessi tvö börn og fæddi þau á náttúrulegan hátt og man vel eftir því og GEKKST VIÐ ÞEIM í ráðhúsinu (já, móðirin þarf að fara og skrifa undir að hún gangist við barninu sem hún ber undir belti hér í Frakklandi…) og leik mér við þau á hverjum degi og skipti á bleijum og þvæ hári og bak við eyrun og og og… en svo bara stundum er ég að gera einhvern einfaldan hlut eins og áðan var ég að setja yfir kartöflur, og fór að spá í hvað þyrfti margar kartöflur og þá helltist yfir mig að ég var að setja yfir kartöflur fyrir fjóra, FJÓRA, alveg eins og þegar ég var tólf ára að setja yfir kartöflur fyrir mömmu og þá var ég bara að hlýða beinni skipun, en núna er ég að gera þetta vegna þess á ÉG ákvað að það yrðu kartöflur í hádegismatinn. Skilur mig einhver? Ég veit ekki hvort ég næ að útskýra hvað maður er týndur á svona stundum. Gersamlega sannfærður um að þetta séu allt saman einhver mistök, maður sé ekkert kominn í þennan pakka bara sisona allt í einu og óforvarendis.

Ég skil að sumar konur myrða börnin sín og sig á eftir. Ég skil að feður myrða börnin sín, konuna sína og sig á eftir. Þetta fólk leyfir sér að ganga alla leið í þessari týndu örvæntingu sem grípur mann, í staðinn fyrir að ég tek mér tak, hristi mig og segi við sjálfa mig að auðvitað sé ég núna tveggja barna móðir. Ég hafi viljað það og sé ánægð með það. Auðvitað er ég ánægð með það. Þetta bara hellist stundum yfir mann í augnablik og svo er það búið. Stundum.

Lifið í friði.

íslenskur lopi

Íslenski lopinn er SVO góður og það eina sem blívur þegar hitinn fer niður fyrir tíu gráður, já, mér er sem ég heyri ykkur glotta, ég veit að þið þarna uppi á skerinu í Norðri getið ekki séð neitt kalt við það, en ekki gleyma því að heimili mitt er óupphitað enn sem komið er þar sem hitunin er sameiginleg og líklega bíðum við eftir að klukkunni verði breytt yfir á vetrartímann eða eftir því að síðasta rósin fölni hér fyrir utan eða ég veit ekki hverju til að kveikja upp. Það liggur við að börnin séu látin sofa í lopanum, en lét þó dúnsængurnar og hlý náttföt duga. Þau sofa m.a.s. undir sængum sínum alla nóttina, sem er nýlunda.

Það eru til margar sögur um þjáða kalda Íslendinga í gisnum gömlum húsum í erlendri stórborg. Húsið mitt er ekkert voðalega gamalt né gisið, en mér er nú samt skítkalt. Því vil ég samúð ykkar þarna uppfrá í góðu upphituðu snjóhúsunum ykkar. Íshöllunum. Með dansandi álfana í garðinum. Og öll náttúrulega blindhaugafull af því það er föstudagskvöld.

Maður er búinn að lesa allt of mikið af afvegaleiðandi greinum um Ísland í frönsku pressunni út af þessari lista- og vísindahátíð sem gengur í garð í næstu viku. Við erum öll Björk og álfar og fyllibyttur.

Ég var að horfa á Femme fatale eftir Brian De Palma. Þrykkjufín afþreying. Þarf samt aðeins að fá að hugsa um hana áður en ég kveð lokadóm því hún er svo dæmalaust skrýtin að ég veit ekki hvort hún er karlrembuverk eða einhvers konar afsökunarbeiðni gagnvart afbökun konunnar í Film Noir-myndunum. Læt ykkur vita hvað ég ákveð ef ég einn daginn ákveð það. Ætli það sé hægt að fá örorkubætur fyrir að vera með lamaðan heila?

Lifið í friði.

afsakið menningarferna var það víst heillin

Bið afsökunar, var víst búin að ræða um menningu í þremur pistlum áður. Þannig að það var orðin ferna og núna komið upp í fimmu. Hvar endar þetta?

Lifið í friði.

kalt á tánum

Ég næ ekki úr mér einhverjum kuldahrolli. Sit hér í lopapeysu og vildi helst vera í ullarsokkum með grifflur á höndunum að pikka á tölvuna. Er búin að ferðast um aðrar bloggsíður í dag og fann fullt af skemmtilegum síðum. Þyrfti bara að kunna að setja svona bloggaralista á síðuna mína, en ég er klaufi og fæ ekki að skoða helpsíðuna hjá blogger. Nú bíð ég spennt eftir að vera komin til Íslands í fang litla bróður sem er tölvusnillingur og á að taka síðuna mína í gegn.

Svo bý ég vitanlega vonandi líka til Parísarsíðuna með ýmsum hagnýtum upplýsingum og svoleiðis.

Börnin ákváðu að fá sér ekki sinn daglega blund, og eru hér með Legó út um alla stofu meðan mamma er í tölvunni. Guði sé lof fyrir legókubba. Guði sé lof fyrir börn sem stækka og eru farin að leika sér soldiðsona saman stundum í smá stund. Reyndi að hvísla þetta á tölvuborðinu þar sem mín reynsla er sú að ef maður byrjar að hrósa þeim, breytast þau í skrímsli.

Við erum sem sagt á leið til Íslands 10. október og verðum í 3 vikur, ég og börnin. Karlinn verður eftir til að læra fyrir bókasafnsprófið sem hann ætlar í í nóvember. Í í, fáránlegt, en finn ekki aðra lausn. Jú, líklega … sem hann ætlar í um miðjan nóvember. Betra.

Og þá gýs upp lykt sem er í samræmi við stunur og rautt og þrútið andlit. Best að fara að þrífa bossa.

Eitt enn í sambandi við menningu og þá er komin pistlaþrenning: Hvort er verra, snobbið í kringum menningu, eða fælni við menningu? Bæði jafnvont?

Lifið í friði.

enn menning

Ég vildi bara koma því að að menning rímar líka við þrenning.

Annað hef ég ekki fram að færa héðan úr kuldanum í París. Engan veginn tilbúin í veturinn. Leiðist tilhugsunin um að þurfa að nota húfu og vettlinga. Leiðist að þurfa að klæða börnin mín í mörg lög af fötum. Leiðist kuldi. Flyt áreiðanlega til heitari landa einn daginn. Og skrifa ódauðlega bókmenntaverkið.

Lifið í friði.


Nýlegar athugasemdir

parisardaman um Kveðja
Margrét H um Kveðja
koparskál um Tau frá Tógó
Elín Kjartansdóttir um rafmögnuð kona
juliann um agnetha