Sarpur fyrir september, 2004menningarfælni

Takk fyrir innleggið svala amma. Það er einmitt mjög erfitt að henda reiður á þetta fyrirbæri bæði út af þessu snobbi og þessari leiðinda fælni sem margir hafa. Ég þekki nokkra sem eru svo ákveðnir í að allt sem gæti talist menningarlegt hljóti að vera leiðinlegt að þeir einmitt fara á mis við ýmislegt í lífinu. „Heimsbókmenntirnar“ eru t.d. í útrýmingarhættu því það er svo menningarlegt að taka sig til og lesa þær, að sumir forðast það í lengstu lög, án þess að vita að ýmsar bókmenntir sem teljast til „heimsbókmenntana“ geta verið bæði auðlesnar, fyndnar og spennandi sögur. Hvílík fásinna að leyfa ekki sjálfum sér að „neyta“ hluta sem menningarsnobbliðið fílar. Hvílík fásinna líka að leyfa sér ekki að gagnrýna hluti sem menningarsnobbliðið fílar. Hér get ég t.d. nefnt David Lynch og kvikmyndina hans Mulholland Drive sem enginn kvikmyndagagnrýnandi í Frakklandi (og á Íslandi?) hélt vatni yfir. Ég var næstum því dáin á myndinni, svo mikið leiddist mér. Mér leiddist svo mikið að í huganum lagaði ég til í fataskápnum mínum, gekk frá öllum hreina þvottinum og eldaði súkkulaðiköku. Þegar ég kom heim var sama óreiðan og engin kaka, en…

„Menning rímar við kenning“ og „I hate culture“ eru líklega bestu setningarnar um þetta ósnertanlega fyrirbæri. Það væri líklega eins hægt að reyna að sálgreina marsbúana eins og að reyna að skilja þessi hugtök.

Lifið í friði.

menning

Mikið hefur verið rætt og ritað um hvað menning er nákvæmlega. Ég hef enga töfraskilgreiningu á reiðum höndum, en mér þótti þó afskaplega undarlegt að sjá þetta á forsíðu Morgunblaðsins frá síðasta laugardegi:

Íslandsvinur í Survivor.

Einn keppendanna sigldi framhjá Bessastöðum.

MENNING.

Þetta er stórmerkilegt í einu og öllu. Í fyrsta lagi: Verður maður nú Íslandsvinur af því að sigla framhjá landinu okkar? Þurfa klúbbfélagar ekki einu sinni að stíga á land lengur? Hverjir verða skilmálarnir 2010? Verður þá nóg að hafa fengið tölvukeðjubréf sem farið hafði í gegnum íslenska tölvu? Mér hefur reyndar alltaf fundist þessi Íslandsvinaklúbbur skemmtilega fáránlegt fyrirbæri, og hef oft útskýrt það fyrir Frökkum þegar ég hef fundið þörf hjá mér fyrir að draga upp háðska mynd af landinu.

Í öðru lagi: „sigldi framhjá Bessastöðum“ Þarf að hafa orð um þennan hluta?

Í þriðja lagi: MENNING. Hvað er menningarlegt við þetta? Að verið er að fjalla um sjónvarpsþátt og að allt sjónvarpsefni er „menning“? Að verið er að fjalla um Ísland, nánar tiltekið Bessastaði, og hlýtur þar af leiðandi að tengjast „menningu“? Hvar kemur menning inn í þætti eins og Survivor? Getur einhver hjálpað mér? Ég er týnd. Ég er búin á því. Ég get ekki meir.

Ég ætla hér með bara að segja það sem ameríska konan sagði við Lottu vinkonu fyrir utan Louvre-safnið í París, til útskýringar á því að hún nennti ekki inn í safnið með karlinum sínum:

I HATE CULTURE!

Lifið í friði. Og passið glerboltana ykkar. Takk fyrir orðabelgina, Gvendólína, Helga og Svala.

heimurinn og ég

Það er alveg undarlegt, að þó maður sé svona áhugasamur um það sem er að gerast út um allan heim, þó maður láti sig varða vandamálin í hinum heimshornunum, þó maður þjáist pínulítið út af sjúkdómum og hungri í Afríku og á götum Parísar, þó hjarta manns blæði fyrir stríðshrjáða í Írak, Tjétsínu og Súdan, þá er maður samt svo einfaldur og sjónarhornið í raun svo lítið, að það miðast gersamlega við manns eigin nafla.

Ég hef verið að segja ferðalöngunum í París í sumar frá áhrifunum sem hitabylgjan hafði á okkur í fyrra, og frá myndunum sem við sáum í október/nóvember af flutningabílunum kældu sem voru að safna líkum sem var hrúgað inn í bílana, og frá öllum líkunum sem enginn vildi eiga. Þetta var allt saman mjög áhrifamikið og sorglegt, en fékk þó nýja vídd í huga mínum á laugardaginn var.

Arnaud rétti mér Télérama (sjónvarpsblaðið okkar) og sagði mér að lesa lítla umsögn um heimildarmynd sem átti að sýna þá um kvöldið. Heimildarmyndin heitir „Hinir gleymdu úr hitabylgjunni“ (Les oubliés de la canilcule). Kvikmyndagerðarkona fór á stúfana og leitaði uppi þessa ættingja sem voru níddir niður í fjölmiðlum fyrir að neita að taka við líkum systra, mæðra eða jafnvel barna sinna. Vitanlega var rætt um það að útfarir eru mjög dýrar, og með því að taka við líkinu, tekur fólk á sig að greiða fyrir útförina. Málið er, að þessir ættingjar voru ekki að gera þetta í einhverri illsku, sagan á bak við lokadramað var löng og oft sársaukafull saga um yfirgefin börn sem sátu eftir með móður sem hafði varla efni á að gefa þeim að borða, um fólk sem var yfirgefið aftur og aftur, þessir sem myndin sýnir voru í raun allir að halda áfram að virða val manneskjunnar sem dó ein og yfirgefin og leyfa henni að hvíla einni og yfirgefinni í hálfgerðri fjöldagröf í úthverfi Parísar, alveg eins og hún kaus að lifa ein og yfirgefin án nokkurra tengsla við fjölskylduna.

Í greinarstúfnum eru nöfnin talin upp og þar var eitt nafn sem við hér á heimilinu þekkjum vel. Auguste Von Briesen. Brjálæðingurinn, listmálarinn, sem Arnaud vann fyrir í nokkrun tíma, sem bjó einn með úlfinum sínum í pínulitlu stúdíói á avenu Montaigne, fallegustu breiðgötunni í fallegustu borginni í fegursta landi Evrópu (þetta kemur frá honum sjálfum skv. dóttur hans í myndinni). Það fór ískaldur hrollur um mann þegar maður hugsaði til baka til ágúst í fyrra, að innan um öll þessi lík var eitt lík sem við þekktum, (þó ég hafi aldrei hitt hann hefur Arnaud verið duglegur að segja mér frá honum og Von Briesen er fígúra sem erfitt er að gleyma og er oft hafður í flimtingum á heimilinu). Auguste Von Briesen var fluttur í íbúð á vegum Parísarborgar þegar hann dó, og hefur því vonandi þurft að losa sig við úlfinn sinn. En líkið var vitanlega óþekkjanlegt þegar dóttir hans kom til að „bera kennsl á hann“ um leið og henni barst bréfið frá borginni í hendur, daginn sem hún kom heim úr fríinu. Hún tók líkið og gróf föður sinn í „alvöru“ kirkjugarði að viðstaddri fjölskyldunni. Hann er því ekki alveg einn hinna gleymdu, en þar sem hún mætti ekki fyrr en daginn sem stóra útförin átti að fara fram, birtist nafnið hans ásamt hinum nöfnunum 54 í blaðinu Le Parisien, og í kjölfarið birtust greinar um þennan gleymda listamann í ýmsum fjölmiðlum. Dóttirin er, ásamt systkinunum, þannig samt einn af þessum ættingjum sem „fer bara í frí í ágúst og skilur gamalmennið eftir aleitt og ófært að hugsa um að drekka nóg vatn þegar hætta er á að hitinn fari yfir öll eðlileg mörk“. Vond vond, samkvæmt öllum fréttum um efnið í fyrra. (Nú er vert að segja frá fjölskyldunni í Suður Frakklandi sem hreinlega drekkti afanum, gáfu honum allt of mikið að drekka og líkaminn réði ekki við allan þennan vökva svo hann dó. Þarna á máltækið „of mikið af hinu góða“ afskaplega vel við.)

En dóttirin segir frá því að Von Briesen hafði aldrei hugsað um velferð barna sinna og hafði m.a.s. dregið þau fyrir rétt fyrir nokkrum árum, til að reyna að fá út úr þeim peninga. Arnaud man einmitt eftir að hafa vélritað hótunarbréf til barna hans, eitthvað sem hann bað þá manninn um að forðast í framtíðinni, hann vildi ekki taka þátt í svona löguðu. Þau bjuggu alltaf í örlitlum stúdíóum við avenue Montaigne, og hann tók allt plássið fyrir sig og listina, þau voru í þriggja hæða kojum á göngum eða inni í eldhúsi, og áttu að dúsa þar og þegja þegar hann tók á móti gestum.

Hvað móðurina varðar, vitum við ekki neitt um hana. Von Briesen sagði aldrei orð um hana, og dóttirin í myndinni ekki heldur, hún sýnir ljósmynd af henni með ungabarni, en fer ekkert nánar út í það hvað varð um hana. Furðulegt og vert að kanna nánar.

En systkinin tóku sem sagt við karlinum látnum og veittu honum „heiðarlega“ útför. Dóttirin segir þó, að ef hann sjálfur hefði mátt velja, hefði hann líklega heldur viljað vera fylgt til grafar af Jaques Chiraq en börnunum sínum, og Arnaud staðfestir þetta. Þannig má kannski segja að þau hafi náð fram einhvers konar hefnd. Með því að vera svona „ofsalega góð“ tóku þau frá honum þessa opinberu útför sem fór mikinn í fjölmiðlum, og var hluti af afsökunarbeiðni Chiraq um að hafa yfirgefið ósjálfbjarga lýð sinn og eytt þessum erfiða heita ágústmánuði í svölu fjallaþorpi í Kanada.

Ég verð svo að segja sögu barna Von Briesen alveg til enda. Þau neituðu að taka við arfi, þar sem hann átti aðallega skuldir. Því fer fyrst nefnd frá ríkinu í íbúðina og hirðir allt sem seljanlegt er. Sem í hans tilviki voru vitanlega málverkin hans. Von Briesen hafði aldrei gefið börnum sínum málverk. Við fylgjum dótturinni svo þegar hún kemur í íbúðina hans, í fyrsta sinn eftir dauða hans, til að finna ljósmyndir og annað sem hún gæti haft áhuga á. Íbúðin er eins og FBI hafi komið að leita að eiturlyfjum. Öllu umsnúið og viðbjóðsleg aðkoma. Dóttirin grætur með ekkasogum, bæði vegna þessarar ömurlegu aðkomu (það var reyndar alltaf mikið drasl hjá honum, en ekki svona) og líka vegna þess að hún hafði aldrei komið í þessa íbúð sem hann bjó í síðustu tvö ár ævi sinnar, því hún hafði aldrei hitt hann eftir réttarhöldin sem hann tapaði gegn henni. Eftir að hafa fundið slatta af ljósmyndum, finnur hún, falið uppi á skáp, pakka með þremur málverkum sem hafa farið fram hjá nefndinni opinberu. Þannig fá börnin hvert sitt málverkið frá föður sínum, þ.e.a.s. ef nefndin horfði ekki á heimildarmyndina og gerir kröfu í verkin.

Það er einhvers konar yfirvofandi réttlæti í þessum skrýtna heimi sem byrjar í naflanum á mér. Einhvern veginn uppsker maður sem maður sáir, einhvern veginn fær maður greitt fyrir góða hluti og greiðir skuldirnar á endanum.

…er dauðinn sá mikli rukkari réttir oss

reikninginn yfir það sem var skrifað hjá oss.

Þá verður oss ljóst að framar ei frestur gefst,

né færi á að ráðstafa nokkru betur,

því alls sem lífið lánaði, dauðinn krefst…

Hitabylgjan var vond minning um vondan tíma í yndislegu París. Nú er hún kaldur raunveruleiki um dauða skrýtna karlsins okkar, Von Briesen. Önnur upplifun, annar raunveruleiki.

Myndin bendir á, að á hverjum degi eru þrír til fjórir einstaklingar grafnir í þessum opinbera kirkjugarði, og þar af er meirihlutinn fólk sem á íbúðir og peninga, það á bara engan til að grafa sig. Fólk sem hefur valið að skera á öll fjölskyldubönd og viljað lifa eitt. Það fer þó aldrei aleitt í jörðina, því hér eru starfandi samtök sem senda þrjár manneskjur á hverjum degi til að fylgja þessu eina fólki til grafar, til að forðast það að hægt verði að líta á leifar manneskju sem rusl.

Lengi lifi allir brjálæðingar, en munið að ef þið viljið ekki deyja ein, verðið þið að hlúa að sambandinu við fjölskylduna ykkar og vinina.

Lifið í friði.

líttu vel út

Sá um daginn í búð í Mýrinni lítinn poka með pillu í, og á pokalokinu stóð: „Look good in your jeans“. Ætti kannski að skreppa á eftir og kaupa mér eina.

Annars er helsta jákvæða við stóra fína rassinn minn að manninum mínum finnst hann flottur og segir alltaf þegar ég byrja að gera leikfimisæfingar og minnka við mig í mat, að ég megi ekki missa gramm aftan af mér.

Annars er ég ekki með mikla fitukomplexa. Aðalmálið er að ná maganum aðeins betur inn, hann lafir einhvern veginn skringilega niður eftir þessar tvær meðgöngur sem voru með stuttu millibili. Gömul kerling bað mig að hjálpa sér í búðinni um daginn að taka upp sex mjólkurfernur í pakka, en hikaði svo og sagði: „Nei, fyrirgefið, þér eruð ófrísk“ Ég hló bara að henni og sagði að barnið væri komið út og að þetta væri ekkert mál. Auðvitað sagði ég henni ekki að barnið væri orðið tíu mánaða uppistandandi töffari. Vandamálið er bara að ég nenni ekki að gera magaæfingar. Mér finnst að maginn eigi bara að skilja það að nú sé komið nóg, hann eigi bara að fara. Nenni ekki að þurfa að hafa fyrir því að ná honum af. Mér finnst að styrkur hugans eigi að nægja til að breyta sér í laginu. Ég er sannfærð um að ef við gætum stýrt því auðveldlega hvernig við litum út, yrði minna um sjálfsmorð og þunglyndi og ég er líka sannfærð um að við myndum ekki öll líta út eins og barbí og ken þó auglýsendur vilji láta okkur halda að okkur dreymi um það. Lifi búlduleitar konur og mjóslegnir karlar!

Lifi hugarstyrkurinn.

Lifið í friði.

sumir dagar

Sumir dagar eru þannig einhvern veginn að manni finnst maður hafi vitað það allan daginn að best hefði verið að liggja í rúminu.

Enginn túristi (önnur vikan í röð, þetta er greinilega búið núna). Enginn baksýnisspegill. Eintómt rugl með öryggisgræjuna sem ég ætlaði að festa á gluggann. Byrjaði vitanlega í stofunni, hefði átt að vita betur og byrja inni í herbergi, en nú eru tvær holur í gluggakarminum í stofunni sem gapa þarna við mér.

Náði þó að gera tvennt sem stóð til lengi og gott að vera búin að:

Keypti mér gallabuxur í fyrsta sinn í þúsund ár að mér finnst. Nú á eftir að sjá hvort ég fari í þær… Þvoði og ryksugaði bílinn (fyrir túristana sem ég ætla að keyra á mánudaginn). Það var þarfaverk, hef ekki þrifið bílinn síðan ég keypti hann… í mars…

Nenni ekki að skrifa meira, enda nennir Kári ekki að ég skrifi meira.

Lifið í friði feita flotta fólk.

erfitt

Hvað er átt við því að erfitt sé að vera Davíð núna? Af því að hann er veikur? Ég held að það sé erfitt að segja um það hvort það sé erfitt að vera hann veikur.

Ég veit um fólk sem er veikt og hefur ekki kost á læknisþjónustu, fólk sem horfir upp á börnin sín svöng og getur ekki gefið þeim að borða. Fólk sem heyrir sprengjur springa nálægt heimili sínu, og getur ekki flúið neitt annað.

Þó ég viti allt þetta, finnst mér stundum erfitt að vera til. Mér finnst til dæmis stundum erfitt að þurfa að bera börnin mín upp stigana heima, þau södd og sæl og heilbrigð, ég líka, íbúðin yndisleg og hrein og hlý, þau líka.

Erfitt er eitthvað sem erfitt er að mæla. Erfitt er mjög skrýtið orð, þegar maður endurtekur það oft. Ervitt.

Ég finn ekki mikið til með Davíð. Ég óska honum alls ekki að vera veikur, og vona að honum batni.

Lifið í friði og elskið erfittið ykkar, því það er kannski ekki svo erfitt eftir allt saman. Svo er lífið leiðinlegt þegar ekkert erfitt er í því.

draumóramanneskja

Ég veit að þið vitið öll að ég er draumóramanneskja, eða að ykkur finnst ég a.m.k. vera það. En ég er ekki svo langt leidd að ég segi ADIEU við Davíð. Ég veit að hann er ekki að fara langt, eins og ég benti á, og ég veit líka alveg jafnvel og þið hin að við eigum eftir að sjá hann í framboði til annarrar stöðu, sem hann sjálfur var að þykjast reyna að minnka niður í einhvers konar diplómatskrautstöðu en auðvitað ætlar hann að reyna að komast í hana einn góðan…

Annars er ég gersamlega andlaus þessa dagana. Friðartímarnir í Bagdad eru blóðugri en eldhúsið hennar ömmu var á sláturdegi í gamla daga, Rússar ætla ekki að rannsaka málið með börnin sem dóu, í Súdan deyr fólk ekki eitt, á McDonalds í miðborg Parísar er löng biðröð í hádeginu. Heimurinn er samur við sig.

Lifið í friði.

au revoir

Au revoir Davíð. Bonjour Halldór.

Nú verður gaman að fylgjast með því hvað muni breytast… hm… Davíð er nú ekki að fara neitt langt…

„Sumir hlutir breytast aldrei“ virðist alltaf vera mottó bæði kjósenda og stjórnenda landsins. Kannski finnst öllum ég biluð að vera eitthvað að pæla í því að eitthvað ætti að fara að gerast.

Kannski finnst öllum allt vera í lagi. Eins og manninum sem var að detta niður af þaki blokkarinnar. Eftir hverja hæð sagði hann við sjálfan sig: Hingað til er allt í lagi. (Úr La Haine, Hatur, kvikmynd eftir Matthieu Kassovitz).

Lifið í friði.

takk embludísin mín

Mér líður miklu betur, kúlan farin og dahl-uppskriftin verður deffínettlí prófuð í vikunni.

Annars er ég svo þreytt að ég ætla alls ekki að fara að geysa um ritvöllinn. Þorði bara ekki öðru en að svara svona löngum og góðum orðabelg, og eins og dyggir lesendur vita, get ég ekki svarað honum með orðabelg sjálf. Veit einhver hvernig maður getur fengið orðabelgi „driven by haloscan“ eins og toggipop o.fl. eru með?

Lifið í friði og kyssið kviði.

kúlur

Mér er búið að vera illt í kúlunni sem magnumflaskan skildi eftir á mínu fagra og veluppfyllta höfði á sunnudaginn var. Í dag var ég að hlaða myndir inn á webshots-síðuna (þú getur smellt á titilinn og ferð þá beint inn þar til að skoða) með Kára í fanginu og þegar ég stóð upp gerði ég það sem kallinn minn gerir daglega og ég hlæ alltaf jafnhátt að honum: Ég rak hausinn í kojuna sem tölvan stendur undir. Ég man alltaf eftir þessu, en Arnaud bara getur það ekki, hann er svo einbeittur alltaf að skrifa bókmenntir í tölvuna, ekki bara svona bloggrugl og bréf til vina eins og ég. En hvað um það, ég rak sem sagt höfuðið upp undir og meiddi mig, en núna, tveimur tímum seinna, virðast allar kúlur farnar og mér er ekkert illt. Lífið er sannarlega skrýtið og skemmtilegt svona á stundum.

Lifið í friði og ekki gleyma að kíkja á myndirnar af Sólrúnu, Kára og Elmari litla.