Sarpur fyrir nóvember, 2004að vera eða ekki að vera með gloss

Ég er kona. Ég er mjög ánægð með það, og er femínisti. Sem þýðir það sama og að vera jafnréttissinni. Ég hata ekki karlmenn, ég vil ekki láta breyta tungumálinu (sjá grein í Lesbók fyrir viku), ég vil alls alls ekki útrýma körlum af jörðinni. Þeir eru til margra hluta nýtilegir.

Hins vegar er ég svolítið með þessari „jákvæðu mismunun“ til að leiðrétta verulega skertan hlut kvenna í hærri stigum þjóðfélagsins. Það stríðir að vísu dálítið gegn réttlætisvitund minni, en það VERÐUR að fá fleiri konur í stjórnarstöður og líklega er eina leiðin til þess að ná upp eðlilegu jafnvægi, að mismuna þeim núna í smá tíma.

Ég held að það að vera kona, alveg eins og það að vera karl, hljóti að vera náttúrulegt. Þess vegna skil ég ekki allar þessar greinar, öll þessi tímarit, allar þessar bækur, sem fjalla um það hvernig maður á að vera kona. Ég skil það alls ekki. Ég hef aldrei haft sérstakan áhuga á þessum blöðum, þó ég gluggi stundum í þau af forvitni eða til að drepa tímann á biðstofum. Eiginlega finnst mér öll þessi glanstímarit sem fjalla um tísku og trend alveg gersamlega fyrir neðan mína virðingu. Ég þoli mjög illa að láta segja mér hvernig ég á að mála mig og klæða mig.

T.d. fer eitt alveg hrikalega í taugarnar á mér akkúrat núna. Gloss. Hvar ætlar þessi eigtís drullutíska að enda? Gloss! Ljótt. Á mér a.m.k. Og svo vefst það ægilega fyrir mér að um daginn sá ég brot af morgunþættinum á Stöð 2 og þar var sagt að allar konur yrðu núna að eiga einn fagurrauðan varalit í snyrtibuddunni. Nú? Ég er að sjá upp um alla veggi og í öllum búðum og blöðum að það eina sem blífur núna er gloss. Má maður þá eiga varalit? Þennan hárauða? Bara hann? Verð ég að henda þessum appelsínurústrauða sem ég fann eftir áratuga leit núna í sumar eða vor?

Í fyrsta sinn síðan ég fór að nota varaliti spari, get ég sett einn lit á varirnar. Þarf ekki lengur að blanda tvo til þrjá. Og þá kemur tískulöggan og segir mér að nú sé það gloss. Ég setti á mig gloss um daginn, fékk hjá vinkonu minni þar sem við vorum úti á lífinu og ég auðvitað hafði gleymt varalitnum heima og maður bara verður að bæta á áður en maður fær sér nýjan kampavínskokkteil. Mér fannst ég hrikalega hallærisleg með gloss. Passar mér álíka vel og að ég setti gerfiaugnahár og skærbleikan kinnalit í línu niður kinnbeinin. Líður eins og Pamelu Anderson og það finnst mér ekki gott.

Ef ég yrði svona meikdollutýpa, færi ég alveg yfir í Ninu Hagen. Sá hana í sjónvarpinu í gær í þessum frábæra þætti um þýska popptónlist fyrir og eftir múrinn. Hún er svo flott! Ég meina það, ég væri til í að breytast í meikdollu, ef ég gæti verið fullkomlega örugg um að ég yrði jafn flott og hún.

En þangað til ætla ég að halda mig við matta fína varalitinn minn. Sem á eftir að endast í 6-7 ár, jafnvel lengur, miðað við endingartíma annarra varalita minna.

Ég er kona. Ég er ánægð með að vera kona. En djöfull eruð þið nú samt heppnir með sumt þarna tippalingarnir ykkar! Og ekki bara þetta mánaðarlega!

Lifið í friði.

enn ein gúrkan

eða er þetta banani?

Skiptir þetta blessuð börnin nokkru máli? Hafa þau misst eitthvað úr? Má ég virkilega ekki búa í kofa úti á landi ef ég vil?

Edith Piaf

Hún skipti um karlmenn eins og nærbuxur. Og var stolt af því.

Pabbi hennar kyssti hana tvisvar sinnum, eftir því sem hún mundi sjálf. Fyrst þegar hún var níu ára gömul og fór upp á svið í kvikmyndahúsi til að syngja eins og um hafði verið samið þó hún væri með háan hita og sárlasin. Þá var hún í sínu sjö ára langa ferðalagi sem götulistamaður með pabba sínum.

Næst kyssti hann hana eftir að hún hafði átt litlu stúlkuna sína, Marcelle. Marcelle dó úr heilahimnubólgi tveggja ára gömul og Edith lagðist undir mann á hótelherbergi til að eiga fyrir kistu. Eina skiptið sem hún seldi sig.

Nóg um hana í bili.

Þegar ég bað ykkur um að hugsa til Arafat í morgun, vissi ég ekki að hann væri dáinn. Skrýtið. Það voru þrír rabbínar meðal þeirra sem vöktu yfir honum síðustu dagana. Þrír rabbínar sem eru algerlega á móti Ísraelsríki og sýndu samhug með Palestínu á þennan hátt. Það er fullt fullt af gyðingum sem eru á móti Ísrael. Fullt. Gleymum því aldrei.

Lifið í friði.

Lína Langsokkur

Ég hlusta á Línu Langsokk syngja um apann sinn og hvað það er gaman að vera til um það bil 400 sinnum á dag. Viðurkenni að þetta er skárra en ef hún væri farin að hlusta á Nælon eða Kryddpíurnar, en gvvvuð hvað maður verður allt í einu þreyttur þegar lagið byrjar í tuttugasta og tólfta sinn.

Sendi bréf til Æslander í þjónustudeild og þakkaði fluffunum og sagði að þær væru rósir í hnappagat flugfélagsins. Fékk þakkarsvar til baka sem kemur frá deild sem heitir „complaints“. Ef ég skil rétt, þýðir það kvartanir. Ætli þeir fái of fá hrós til að vera með „compliment department“? Hm…

Annars er það helst í fréttum að skyndilega er Blogger.com kominn á frönsku. Nú fæ ég „créer“ í staðinn fyrir „create“ o.s.frv. Maður stöðvar ekki framfarirnar.

Hugsum öll fallega til Yasser Arafats og fégráðugu konunnar hans og örvæntingarfullu þjóðarinnar hans.

LIFUM Í FRIÐI!

yfirgengilega pirrandi

AAARRRGGGGHHH! (næ ég Gretti ekki vel?)

Ég þoli ekki bloggara sem eru ekki með haloscan kommentaskjóður. Ég er hundrað sinnum búin að segja Emblu að ég get ekki skilið eftir komment hjá henni og nú var pönkamman svala með stórgóðan pistil og Embla með stórgott svar og mitt svar við því verður bara að birtast hér: Jú, tvennt er verra: 1. Blá og marin kona með sílíkon brjóst í g-streng og pinnahælum. 2. DAUÐ kona með sílíkon brjóst í g-streng og pinnahælum.

Og uppglenningurinn mætti líka fá sér haloscan, n’est-ce pas? Bara fara inn á haloscan.com og láta leiða sig í gegnum þetta alveg eins og þegar maður opnar bloggsíðuna sína.

Ég er andvaka og klukkan er þrjúfimmtán og Kári hefur vaknað klukkan fimmþrjátíu undanfarið og reikniði nú. Reyndar fer nú pabbinn yfirleitt fram með hann, en maður vaknar samt, mamman alltaf með andvara á sér og það allt…

Annars var ég ekki búin að vorkenna mér opinberlega eftir að hafa skroppið í forgarð vítis á föstudaginn. Fór í flugvél ein með börnin tvö með gubbupest í fullum gangi og drengurinn líka gubbandi. Hann gubbaði beint á mig tvisvar, ég fyllti nokkra svona pappírspoka sem hafa alltaf fengið mig til að glotta hingað til. Lofa því að glotta aldrei aftur og ætla SKO að senda hrósbréf til starfsmannastjóra Æslander, flugfreyjurnar voru yndislegar og gerðu allt sem þær gátu til að auðvelda mér ferðina. Þar sem vélin var full og margir í voða góðum gír að fá sér meira og meira að drekka, þurftu þær að vera þolinmóðar bargellur og brosa blítt að ódauðlega brandaranum: „má ég kannski borga með jólakorti?“ á milli þess sem þær hjúkruðu dauðveikri og líklega smitandi móðurinni með kjökrandi börnin og tóku þunga vel fyllta bréfpokana í burtu án nokkurra svipbrigða. Niðurlæging mín var mikil, mig langaði voðalega að geta horfið ofan í holu þar sem enginn gæti séð mig.

En þetta er búið, kláraðist m.a.s. í tíma fyrir gott útstáelsi með tilheyrandi drykkju á laugardagskvöldinu. Maður er svo harður og vanur, bæði í uppköstum og drykkju að smá harðsperrur í maganum gátu ekki stöðvað mig frá því að hitta fólk sem átti leið um bæinn bara þessa helgi.

Yndislegt að vera kominn aftur til Parísar. Langt frá Bush og Davíð og Birni og Þórólfi. Mér finnst að Ingibjörg Sólrún eigi ekki að taka við borgarstjóranum aftur, mér finnst hún eigi að flytja til Parísar. Og þið hin líka. Komiði!

Ekki hægt að vera þarna á Íslandi króknandi úr kulda, drukknandi í olíupolli með kjúklingaskítseyði í hermannahetjuleik á forsíðum allra blaðanna eins og þau væru öll orðin DV (blöðin sko). Komiði hingað!

Og ef þið eruð í vafa, lesið þá Uppglenninginn, hér er hægt að skoða löggur og barnunga hermenn og sjá umferðarslys og gaman gaman!!!

Farin inn í rúm að lesa Edith Piaf ævisöguna sem ég reyndi að sofna yfir áðan en tókst ekki. Horfði á þrjá þætti úr þriðju seríu af 24, kannski það skýri spennuna í mér. Djís, það sem hann lendir ekki í hann Bauer ma’r.

Lifið í friði.

námskeið í bloggun

Nú er ég með kennara við hlið mér (lille bror) sem er að uppfræða mig um undarlegan ritvöll netheimsins ógurlega. Og ég er búin að gera lista með tenglum yfir í aðra góða bloggara og annað skemmtilegt efni á netinu eins og t.d. Baggalútur sem mér finnst hreint aldeilis skemmtilegt og fræðandi. Næst förum við í það hvernig ég set inn myndir.

spennandi

Hádegisfréttir í dag voru svo spennandi að maturinn meltist heldur illa og ég er komin með brjóstsviða.

Gos í Grímsvötnum, fundur borgarráðsfulltrúa og borgarstjóra kl. 13, fer’ann eða verður’ann?, forsetakosningarnar okkar allra (kosningavöku sjónvarpað á stöð2 í alla nótt!!!) og líklega náði okkar ofvirki lögregluher einu grammi af hassi eða amfetamíni einhvers staðar í einhverju krummaskuðinu í nótt, ég held a.m.k. að sú hafi verið raunin á hverri nóttu síðan ég kom heim. Það gerir næstum 30 grömm, ekki gleyma því að margt smátt gerir eitt stórt.

Annars bið ég dygga lesendur mína forláts á þögn minni undanfarið. Hef oft verið að blogga í huganum, en ekki hefur enn verið fundin upp vélin sem mun koma hugsunum okkar milliliðalaust inn á netið. Ekki heldur vélin sem kemur draumum okkar beint á harða diskinn. Hlakka til þegar það verður.

Hef ekkert að segja því allt sem mig langar að gera er að kvarta, en nenni því samt ekki. Fór að djamma um helgina og „slysaðist“ til að fá mér sterkan drykk á bar nokkrum hér í bæ. Eftir það varð allt frekar skýjað, svona svipað og hlíðar Esjunnar minnar í dag. Hitti næstum engan og týndi smátt og smátt öllum sem ég var með og kom mér sem betur fer heim temmilega snemma.

Vitiði hvað? Ég hef aldrei gengið upp Esjuna. Aðeins upp í hlíðar hennar hinum megin frá, frá Meðalfellsvatni, en aldrei komist upp á toppinn og aldrei gengið upp Reykjavíkurmegin. Hvílík endemisvitleysa! Hef heldur aldrei komið til Vestmannaeyja. Og svona mætti kannski lengi telja. Sé mest eftir því að hafa ekki skotist í heimsókn til Lóu og Sigga eins og planið var, og þá væri ég kannski gosteppt þar núna! Það hefði verið kúl.

Jæja, ég ætla að hætta núna, enda hvorki haus né sporður á þessu bulli.

Lifið í friði.