Sarpur fyrir desember, 2004

einn fyrir stelpur og einn fyrir stráka

Í 90 sekúndna sturtunni minni áðan (sem foreldrar ungra barna þekkja svo vel) skolaðist lítill glitrandi engill undan il minni og ofan í niðurfallið. Þetta var síðasti engillinn af borða sem börnin leystu upp í öreindir í morgun og var sópað í ruslið rétt fyrir matinn.

Þá datt mér í hug sagan af konunni sem var að fara til kvensjúkdómalæknisins og þvoði sér vitanlega vel áður en hún fór. Læknirinn rak upp stór augu þegar hún afhjúpaði sig þarna fyrir framan hann og sagði: „vá, maður er bara fínn í dag.“ Konan skildi ekkert í þessu fyrr en næsta morgun þegar unglingsstúlkan á heimilinu kom organdi fram af baðinu: „Hver notaði glimmerþvottapokann án míns leyfis?“

Og þá datt mér í hug önnur saga sem er meira fyrir stráka:

Vitið þið af hverju gaurinn fór alltaf með smokk í sturtu?

Hann ætlaði sko að láta dömuna hafa það óþvegið!

Lifið í friði.

nýir bloggvinir

Bætti Ernu og Gísla sem gáfu mér svör við myndagátuvonleysi mínu við tenglalistann. Nú vantar mig bara eitt orð til að ljúka þessu. Það verður hugsað um þetta í ökuferðinni og reynt að leysa með Emblunni minni ef okkur skyldi skorta umræðuefni í byrjun. Nú hlæja þeir sem okkur þekkja. Hinir taka mig kannski alvarlega. Orð eru varhugavert fyrirbrigði og auðvelt að ljúga og blekkja. Sérstaklega í bloggi, enda ganga mörg blogg út á það að blekkja. Ég er frekar svona heiðarleg held ég þó ég dragi kannski upp helst til fallega mynd af mér, og lífi mínu og hugsjónum, maður getur nú ekki verið að gera lítið úr sér svona á netinu.

En það er gaman að kynnast fólki á þennan hátt. Án þess að kynnast því í raun og veru. Fæstir eru með mynd af sér svo maður þarf ekki einu sinni að spá í hvort maður eigi að heilsa þegar maður sér það í bænum. Sem er heppilegt fyrir mig þar sem ég er ómannglögg og utan við mig. Ég setti myndina bara af því ég vissi ekki að fólk setti ekki myndina. Ég fyllti samviskusamlega út allan prófílspurningalistann og gerði allt sem ég var beðin um og svo sá ég eftir á að það var kannski helst til viðvaningslegt. En þá fannst mér það bara dálítið sætt að sýna hvað ég var mikill viðvaningur þegar ég byrjaði.

Það er eiginlega verst við þetta blogg hvað maður er farinn að kynnast mörgum. Stundum dett ég inn á síður sem mér líst vel á, en ég bara get varla farið að bæta fleirum við mitt bloggflandur sem er stundum daglegt, stundum ekki. Ágætis leið frá börnunum að flandra um bloggsíður og því er mikið gert af því þessar vikurnar. Fer nú vonandi að breytast bráðum og þá sér maður til hvað maður verður harður í þessu.

Átti alltaf eftir að biðjast afsökunar fyrir hönd alvöru vina minna í hinu raunverulega lífi sem eru á tenglalistanum. Þeir eru líklega lélegustu bloggarar sem til eru, miðað við afköst. Gersamlega vonlaust lið. En það er mjög erfitt að taka fólk út af listanum. Enda mega þær svo sem alveg vera þarna… mæðgurnar blogglötu…

Verð að fara að sinna tveimur gríslingum sem ákváðu að fá sér ekki eftirmiðdagsblund þar sem mamma þarf að pakka niður OG setja frímerki á 130 bréf til kvenna í Frakklandi út af útstáelsi í lok janúar.

Held áfram að vera pollýanna eins og í lok síðasta pistils. Þau eru nú samt svo góð og meðfærileg og svo eru þau heilbrigð sem er dýrmætara en nokkuð annað. Get því ekki kvartað yfir þeim.

Lifið í friði.

p.s. verð að muna að segja ykkur frá því sem ég veit um Sri Lanka bráðum í minningu þeirra 13.000 staðfestu látinna þar.

myndagátan

Ég held ég sé komin með kraftakarlinn og skipið hans, en mig vantar það sem kemur á eftir, hvað heitir prjónninn, nálinn, alurinn, sýllinn sem er á beltissylgjum?

Og hvað í ósköpunum er þetta þarna fremst í síðustu línunni???

Og hvað er þetta fyrir ofan það?

Ætli restin verði ekki fyrir Emblu. Man eftir henni í símanum með pabba mínum að leysa gátuna fyrir nokkrum árum. Ætlaði að nota sama trikkið og hringdi í pabba sem var í fýlu því honum fannst Nói albinói leiðinleg en ekki mömmu og sagðist ekki hafa skoðað gátuna neitt.

Mér fannst Nói mjög góður. Ekki kannski beint það sem maður myndi segja skemmtilegur, en alveg frábær mynd. Þegar ég keypti miðann á hana, sagði ég náttúrulega Nói albinói. Konan í miðasölunni hváði. Þá sagði ég: „þessa íslensku“. Miðasölukonan: „Ah, ví, núa albínúa“.

Hitabylgjan mín varð skammvinn, ég fagnaði kannski of snemma og göldrunum sleppti. Það er reyndar ágætt, því ég hafði einmitt áhyggjur af að það yrði erfitt að aka úr hitanum upp í kalt Norðrið.

Lifið í friði og leysist allar ykkar myndagátur.

álfamær, appelsínukarl og kraftakarl með bát

Þá er bæði búið að afgreiða matarsukkið hér á aðfangadagskvöld, kaffiboðið hjá tengdó á jóladag og eftirmiðdagshlaðborðið með útlægum Íslendingum á annan í jólum. Ég skammast mín fyrir að játa að ég er eiginlega pínulítið örmagna eftir þessa jólahelgi. Eins og versta smáborgarakelling er ég búin eftir veislustand. Kannski var ég ekki nógu dugleg og stressuð fyrir jólin til að vera búin nógu vel að öllu? Samt gerði ég desertinn í nóvember, andabringurnar à la Nanna Rögnvalds eru einfalt fyrirbrigði (þó ég væri nú dálítið þreytt eftir að vanda mig svona við að skera í fituna) og meðlætið auðvelt og gaman að gera. Það er nefninlega bæði hollt og gaman að skera grænmeti, sérstaklega þegar maður vandar sig. Öll snerting við gott hráefni í eldhúsinu er góð fyrir sálina. Og skorið grænmeti var það eina sem ég gerði fyrir boðið í gær, fyrir utan að sulla í eina kalda sósu. Hitt var afgangar og ostabakki.

En það tekur á andlega að taka á móti gestum. Líklega er þetta bara það. Að vera með lítil börn sem þurfa stöðuga athygli og voru til dæmis eins og óargardýr í gærkvöldi eftir þrjá daga í matarsukki auðveldar heldur ekki leikinn.

Nú taka við tveir dagar í þvott og pökkun og á miðvikudaginn höldum við á gamla góða sítróeninum okkar þvert yfir Belgíu og Þýskaland og alla leið til Óðinsvéa. Þar býr íslensk álfamær og tröllinn hennar. Þau reka þar kaffihús sem er bæði skrýtið og skemmtilegt. Ég ætla að vinna eitthvað þar, prófa að segja hvad vil du have við alvöru Dani og gá hvort þeir skilji mig, og á meðan eiga álfamærin og tröllið að hugsa um börnin mín. Mér finnst það hljóti að vera einhvers konar frí í því. Emblan mín hefur alltaf góð áhrif á mig, við náum alltaf að fara á andlegt flug saman. Ég hlakka SVOOO til.

Eini gallinn er allur aksturinn sem ég verð ein við þar sem maðurinn minn er Parísarpadda og fékk sér aldrei bílpróf, ekkert frekar en mamma hans og pabbi eða bróðirinn (sem tók að vísu ökutíma en drullaðist aldrei í prófið, melurinn sá arna). En aksturinn er hvers kílómetra virði miðað við það sem bíður við hinn endann.

Við vitum ekki hvað við verðum lengi í Danmörku. Það fer eftir því hvað þau verða góð við okkur, hvort við fáum heilun og jógakennslu á hverjum degi, hvort börnunum okkar líður vel þarna, hvort parísarpöddunni verður vært þarna, kannski verður launuð vinna og dagheimili og við komum bara aldrei aftur til baka?

Áramótaheitið mitt verður að koma börnunum inn á dagheimili. Ég heyrði um fólk sem gerði myndir af dóttur sinni með blómum og fiðrildum og sendi leikskólanum í hverri viku með bréfi sem sagði „geriðiþað geriðiþað takið mig til ykkar geriði það mig langar svoooo að komast til ykkar í gæslu á daginn“ og það virkaði víst. Mér finnast svona aðferðir ofboðslega óheillandi, sé mig ekki í anda gera svona lagað. Myndi frekar gera ógnvekjandi hrafnamyndir og hóta Ísdrottningunni sem stýrir leikskólanum okkar hér öllu illu. En ég gæti það samt ekki heldur. Ég er bara þannig bæld að mér finnst eðlilegt að standa bara þæg í röðinni og vona að einn daginn komi að mér. Hefði kannski bara liðið vel í Rússlandi í kalda stríðinu? Er ég eitthvað skrýtin?

Annars hvet ég alla til að lesa pistilinn um Úkraínsku kosningarnar á Múrnum. Staðfestir minn illa grun, sem hafði flögrað að mér við og við síðustu vikur um að málið væri kannski ekki eins einfalt og það var sett upp í fjölmiðlum með einum góðum appelsínukarli og einum vondum rússakalli. Þetta er nú vandamálið um allt okkar frábæra vestræna lýðræðissvæði. Viðbjóðslegt framapot og skákmennska í gangi þar sem peðin skipta litlu sem engu máli og kóngarnir og drottningarnar eru alls ekki hugsjónamenn sem vilja byggja góð þjóðfélög til almenningsheilla heldur peningaviðbjóðsjöfrar sem vilja mata eigin krók og beita öllum brögðum til að hafa þæga og vel uppalda þræla í (gerfi)valdastöðum. Úff, ég er orðin svo leið á þessu. Úff, ég er orðin svo leið á því að vita ekki lengur hvort nokkur flokkur, nokkur stjórnmálamaður sé þess virði að hlusta á hann, hvort þeir séu ekki allir mokandi sama skít í sömu hólana til að tróna yfir okkur eymingjunum. Úff, ég er orðin svo alvarleg að ég er ekki alveg að hressa mig við eins og ætlunin var með þessu bloggstandi.

Best að skella mér undir sæng með myndagátu Moggans, sem er að gera mig gráhærða. Vantar bara smá til að klára, en er búin að glápa á sterka manninn með skipið og fæ engan botn í hann. Hefur skip, loftar bát, lyftir far, hefur far, HVAÐ ER ÞETTA EIGINLEGA?????

Lifið í friði.

gleðilega hátíð

Hvort sem þið eruð trúuð og farið í kirkju í kvöld til að minnast skapara ykkar eða vantrúuð og felið ykkur bakvið það að jólin séu háheiðin birtuhátíð, óska ég ykkur dyggum lesendum mínum þeirra gleðilegra.

Kertin loga, gul og græn og blá,

gleðin kemur eins og skip að landi,

fullt af því sem allir elska og þrá,

enginn maður vill að skipið strandi.

Laufabrauðið, lítil jólastjarna

lýsir hugskot gamalmenna og barna.

(höf. ókunnugur mér)

Lifið í friði.

skata

mmm mér finnst kæst skata góð og sakna þess að fá ekki slíkt í dag. Manninum mínum finnst kæst skata líka góð þó hann sé franskur.

Skötulyktin kom með okkur út 20. janúar í fyrra. Eldaði fyrir alla fjölskylduna á Þorláksmessu sterka vestfirska og lyktin fór aldrei úr íbúðinni og ég þurfti að þvo allt af okkur þegar við komum hingað út aftur.

Samt langar mig í skötu og lykt í dag.

Lifið í friði.

tölur

Í morgun fór ég í glerkúluna mína nýju (sjá pistilinn Löggulíf II hér örlítið aftar) og hélt í matvörubúðina með langan innkaupalista sem náði yfir alla jólahelgina og vonandi fram að brottför okkar til Dísu druslu í Óðinsvéum á fimmta jóladegi.

Það var nóg að gera í búðinni og hálfgerður baráttuhugur í sumum húsmæðranna, en nýja kúlan mín er mjög fín svo ég náði í vörurnar hingað og þangað um búðina og kom mér á kassann á þokkalegum tíma. Brosti alltaf fögru brosi þegar einhver vildi troða sér framhjá mér eða keyrði á hælana á mér og það virkaði.

Á kassanum fékk ég smá hjartslátt, skyldi ég eiga fyrir þessu?

Ég keypti eftirfarandi: Tvær kampavínsflöskur GHMumm Gordon Rouge, líter af mjólk, hálfan af rjóma, 1,5 lítra ferskan appelsínusafa, slatta af vatni með gosi í, slatta af flötu vatni, 6 stóra bjóra, 1,5 lítra kók, 6 jólasveina á tréð, 2 pk. fisherman’s friend, 300g mjólkursúkkulaði, 800g kolbikasvart súkkulaði, 500g af góðu kaffi sem er lífrænt ræktað og „mannvænt“ (veit ekki hvað það er kallað á íslensku commerce équitable sem ber virðingu fyrir fólkinu sem ræktar og týnir og brennir og pakkar…), Rice Krispies, 2 pk. Figolukex, 2 pk. petit beurre kex, 2 pk annað kexdrasl, 12 mini babybelosta, 6 sneiðar af skinku í bréfi, 12 litlar epladjúsfernur, 6 jógúrtir fyrir börn, 4 kókosjógúrtir fyrir mig og 500g nautahakk af lífrænt öldu nauti.

Þetta kostaði mig 98,54 evrur sem er u.þ.b. 8.700 krónur íslenskar. Ég átti fyrir þessu, var einmitt búin að giska á hundrað evrur svo þetta var nokkuð glæsilegt.

Hvað skyldi svona karfa kosta á Íslandi? Vissulega verður að fara og setja kampavín og bjór í sérkörfu í annarri búð, Íslendingum er ekki enn treyst til að ráða við drykkjumanninn í sér í matvörubúðinni.

Næst lá leið mín á markaðinn. Þar náði ég í andabringurnar sem eru fjórar vel stórar. Þær kostuðu 28 evrur. Sem er ca. 2.500 íslenskar krónur.

Eftir það fór ég til grænmetissalans míns og keypti tvær paprikur, slatta af tómötum, tvö kíló af perum, eitt af eplum, tvo spergilkálhausa, 5 fallegar gulrætur, tvö kíló af kartöflum og ég held að þetta sé allt. Þetta kostaði mig 11,67 evrur sem verður að þúsundkalli í íslenskum krónum.

Það er alltaf verið að segja mér að það sé orðið svo ódýrt að versla á Íslandi. Nú lýsi ég eftir samanburði við þessi innkaup frá áhugasömum heima.

Annars er allt í blóma hérna. Ég hef verið að spá hitabylgju yfir jólin síðastliðnar vikur og það virðist ætla að rætast. Hitinn er farinn upp í tíu gráður og mjög gott að vera úti núna eftir kuldakastið undanfarna daga. Ég er vissulega rammgöldrótt svo þetta er líklega að einhverju leyti mér að þakka.

Lifið í friði.

hvít jól

Yndislegur morgunn. Fór út á pósthús og keypti öll frímerkin á jólakortin. Þetta árið slapp ég við Halloween lummufrímerkin sem ég neyddist til að kaupa í fyrra, en varð að kaupa frekar hallærisleg afmælisfrímerki með tertu með fullt af kertum. Við skulum bara segja að þau séu 2004 og að þetta sé afmælistertan hans Jesú. Ha? Pósturinn hér er til fyrirmyndar í dreifingu, en ekki í frímerkjasölu. Eiga ekkert upplag af öllum þessum líka fínu frímerkjum sem eru gefin út. Hefði getað keypt rándýr frímerki til styrktar rauða krossinum en barasta tímdi því ekki. Búin að gefa í restos du coeur, hjartaveitingahúsin sem fæða fátæka fólkið yfir vetrarmánuðina. Maður getur bara ekki gefið öllum…

Þegar við Sólrún komum út af pósthúsinu var farið að snjóa. Lítil og vesældarleg kornin féllu til jarðar og bráðnuðu jafnskjótt, en meðan við lölluðum á markaðinn fóru þau að stækka og þeim fjölgaði og eftir að hafa keypt alla ostana fyrir jólin, hnetur og negulnagla og pantað andabringurnar (já, Nanna var með pistil um andabringur um daginn og ég sannfærðist og er hætt við að hafa fisk í matinn) var allt orðið hvítt. Við mæðgur tókum okkur góðan tíma í heimferðina, bjuggum til snjóbolta og grýttum gömlu frúrnar, nei, nei, við hentum engum snjóboltum í fólk, lofa því. Sólrún fann langa grein og lék dýratemjarana úr sirkúsnum (sem við fórum í á sunnudaginn) af mikilli list. Við ætlum að reyna að temja Kára í eftirmiðdaginn, ef hann er betri af tanntökunni.

Frábær morgunn. Jól jól jól. Þau eru algerlega komin í mitt jólabarnshjarta núna. Gleðileg jól. Gleðileg jól. Gleðileg jól. Ha ha ha og trallala. Í Betlehem er barn oss fætt.

Ég gleymi því þó ekki að í okkar nafni lifir fólk í eymd og niðurlægingu í Írak.

Lifið í friði.

grátur barns

Í hádeginu hikaði ég í smá stund áður en ég tók leifarnar af kjúklingnum út úr ísskápnum og hélt áfram að skafa utan af honum meyrt og gott kjötið handa börnunum í matinn. Þau fengu nefninlega kjúkling í gær líka. Það leiddi af sér hugsanir um það hvað maður hefur það gott og að ekki hafa allir það svona gott. Ég get ekki ímyndað mér hvernig það er að hlusta á barnið sitt gráta af hungri og geta ekki gefið því neitt að borða. Ég get ekki ímyndað mér hvernig konu líður þegar hún hættir að geta gefið barninu brjóst, vitandi að hún á ekkert til að gefa því í staðinn. Ég get bara reynt að gera mér þjáninguna í hugarlund, miðað við það hvað ég þjáist t.d. þegar barnið mitt grætur með hitasótt rétt áður en meðulin taka að virka. Og manni finnst ekki í lagi að börnin borði það sama tvo daga í röð.

Það er allt of mikið af fólki sem fær ekki að borða í þessum blessaða heimi okkar. Allt of mikil fátækt og eymd og volæði á sumum svæðum. Er það eitthvað undarlegt að fólkið leiti á önnur mið? Leggi allt í sölurnar, yfirgefi fjölskylduna og ættjörðina til að komast til landa sem lifa við allsnægtir og einhvers konar frelsi? Ættum við ekki að taka þessu fólki opnum örmum?

Ég held, að hinn venjulegi íslenski meðaljón sé alveg tilbúinn til að sjá það að við getum tekið á móti fólki, fengið því vinnu og hjálpað því til að koma undir sig fótunum. Ég held bara að íslenskir meðaljónar lesi allt of mikið af moggum og hlusti of mikið á ráðamenn til að muna það. Það er hamrað á því að ekki sé hægt að hjálpa öllum, að við séum ekki í stakk búin til að taka á móti útlendingum, að útlendingar geti ekki lært málið okkar og því sé svo erfitt fyrir þá að vera, að útlendingar séu oft alls ekki tilbúnir til að aðlaga sig okkur og bla bla bla… Við, Íslendingar sem erum svo stolt í smæð okkar ættum að vita manna best að það á að bera virðingu fyrir siðum, tungumáli og trú annarra þjóða.

Við Íslendingar sem flytjum í burt frá landinu okkar erum kannski ekki að flýja her sem vill okkur feig eða fátækt og hungursneyð. En ég held að sögurnar á öðrum bloggum af kóklestinni frægu og það sem haft er eftir nokkrum æðstu mönnum þjóðarinnar á góðum vefsíðum ásamt framkomu forsætisráðherra í sambandi við stríðið í Írak sé nóg til þess að ég gæti hugsanlega sótt um pólitískt hæli í Frakklandi. Mig langar a.m.k. stundum til að prófa.

Ég fengi væntanlega neitun. En í þessu fælust ákveðin mótmæli. Það eru þó nokkrir Frakkar sem biðja um pólitískt hæli í öðrum löndum og m.a. í Bandaríkjunum á hverju ári. Ég þarf að hugsa þetta aðeins. Klukkan er of margt núna til að taka mikilvægar ákvarðanir. Læt ykkur vita.

Minni á sólstöður á morgun, sem þýðir að uppi í norðrinu fara dagarnir að lengjast eftir tvo daga. Til hamingju með það þarna uppi í myrku ofríkinu.

Lifið í friði.

allt í fína

Ég fór í þessa kringlu í gær aftur (sjá pistil hér á undan). Þar er alltaf sama ójólastemningin. Mér finnst þetta kaupæði ömurlegt og frýs gersamlega í þessu andrúmslofti. Hef samt náð að kaupa nokkrar gjafir. Datt niður á fullkomnu gjöfina fyrir marga í einni búð sem bjargaði mestu. Gef reyndar mjög fáar gjafir er ég búin að komast að síðustu vikur. Ég er algerlega á móti því að fólk setur sig á hausinn við gjafakaup, vil ekki gefa eitthvað sem ég hef ekki efni á, og vil alls ekki fá dýrar gjafir frá fólki sem nær varla endum saman. Ég hef alltaf staðið mig vel í þessu og á samt fullt af vinum (held ég). Ég er reyndar mjög dugleg við jólakortin, sendi allt of mörg slík, en mér finnst gaman að skrifa svo það kemur nokkurn veginn af sjálfu sér.

Fékk senda lýsingu á námskeiði fyrir karlmenn sem var mjög fyndið og vel til fundið en kannski ætti að senda konur á námskeið í því að falla ekki fyrir flottum útstillingum og tilboðsmiðum. Mamma er alltaf mjög veik fyrir tilboðum, kaupir oft ýmsan óþarfa bara út af stjörnulaga gulum spjöldum sem hanga fyrir ofan vöruna.

En allt gekk vel í kringlunni í gær, engir verðir að trufla mig við þjófnaðartilraunir. Enda engir þjófnaðartilburðir í mér. Fór þæg og góð og náði í myndirnar og hafði m.a.s. af að þora inn í FNAC og bæklingurinn kominn aftur svo allt er í himnalagi.

Ég er komin í þokkalegt jólaskap sjálf. Kvíði dálítið fyrir því að vera ekki á Íslandi, en mun gera mitt besta til að halda stemningunni hér í hámarki. Maðurinn minn er alls ekki jólabarn, samræmist ekki hans kommúnískanarkíska hug að vera með væmni í kringum sólstöðurnar. Ég hef gaman að jesúbarninu og jötunni, væmnum Betlehemlögum, rokkandi jólahjólalögum og undarlegum jólagjöfineréglastchristmaslögum. Ég hef gaman að þessari „skyldu“ til að hafa samband við ættingja og vini. Jólaboð þar sem maður nær að fylgjast örlítið með vexti og þroska frændanna sem maður hittir aldrei allt árið. Jólaboð sem eru dálítið sorglegri síðan amma og afi hættu að mæta…

Sjálfsmorð eru víst fátíðari á Íslandi á veturna, og telja sérfróðir að það sé helst vegna jólanna. Jólin eru frábært fyrirbrigði, hvort sem við tökum þau TRÚANleg eða sem hátíð ljóss og friðar.

Þau yrðu enn frábærari ef við hættum að láta gabbast af neyslugrýlunni, en kannski er það líka bara allt í lagi. Kaupmenn velta stórum hluta ársveltunnar í þessum undarlega desember, og kannski væri heimurinn bara verri ef við fengjum ekki þetta kaupæði yfir okkur. Kannski er þetta pínulítið „náttúrulegt“ þó okkur finnist það ekki. Kannski var þetta svona líka í „þá gömlu góðu daga“, bara með öðru sniði, ekki voru spilastokkarnir heimatilbúnir þó að kertin hafi verið það?

Jólin eru góð. Njótið þeirra. En ekki gleyma því að hálfur heimurinn líður skort og lifir í niðurlægingu og að íslenska þjóðin er látin samþykkja a.m.k. hluta af því skriflega.

Lifið í friði.


Nýlegar athugasemdir

parisardaman um Kveðja
Margrét H um Kveðja
koparskál um Tau frá Tógó
Elín Kjartansdóttir um rafmögnuð kona
juliann um agnetha