álfamær, appelsínukarl og kraftakarl með bát

Þá er bæði búið að afgreiða matarsukkið hér á aðfangadagskvöld, kaffiboðið hjá tengdó á jóladag og eftirmiðdagshlaðborðið með útlægum Íslendingum á annan í jólum. Ég skammast mín fyrir að játa að ég er eiginlega pínulítið örmagna eftir þessa jólahelgi. Eins og versta smáborgarakelling er ég búin eftir veislustand. Kannski var ég ekki nógu dugleg og stressuð fyrir jólin til að vera búin nógu vel að öllu? Samt gerði ég desertinn í nóvember, andabringurnar à la Nanna Rögnvalds eru einfalt fyrirbrigði (þó ég væri nú dálítið þreytt eftir að vanda mig svona við að skera í fituna) og meðlætið auðvelt og gaman að gera. Það er nefninlega bæði hollt og gaman að skera grænmeti, sérstaklega þegar maður vandar sig. Öll snerting við gott hráefni í eldhúsinu er góð fyrir sálina. Og skorið grænmeti var það eina sem ég gerði fyrir boðið í gær, fyrir utan að sulla í eina kalda sósu. Hitt var afgangar og ostabakki.

En það tekur á andlega að taka á móti gestum. Líklega er þetta bara það. Að vera með lítil börn sem þurfa stöðuga athygli og voru til dæmis eins og óargardýr í gærkvöldi eftir þrjá daga í matarsukki auðveldar heldur ekki leikinn.

Nú taka við tveir dagar í þvott og pökkun og á miðvikudaginn höldum við á gamla góða sítróeninum okkar þvert yfir Belgíu og Þýskaland og alla leið til Óðinsvéa. Þar býr íslensk álfamær og tröllinn hennar. Þau reka þar kaffihús sem er bæði skrýtið og skemmtilegt. Ég ætla að vinna eitthvað þar, prófa að segja hvad vil du have við alvöru Dani og gá hvort þeir skilji mig, og á meðan eiga álfamærin og tröllið að hugsa um börnin mín. Mér finnst það hljóti að vera einhvers konar frí í því. Emblan mín hefur alltaf góð áhrif á mig, við náum alltaf að fara á andlegt flug saman. Ég hlakka SVOOO til.

Eini gallinn er allur aksturinn sem ég verð ein við þar sem maðurinn minn er Parísarpadda og fékk sér aldrei bílpróf, ekkert frekar en mamma hans og pabbi eða bróðirinn (sem tók að vísu ökutíma en drullaðist aldrei í prófið, melurinn sá arna). En aksturinn er hvers kílómetra virði miðað við það sem bíður við hinn endann.

Við vitum ekki hvað við verðum lengi í Danmörku. Það fer eftir því hvað þau verða góð við okkur, hvort við fáum heilun og jógakennslu á hverjum degi, hvort börnunum okkar líður vel þarna, hvort parísarpöddunni verður vært þarna, kannski verður launuð vinna og dagheimili og við komum bara aldrei aftur til baka?

Áramótaheitið mitt verður að koma börnunum inn á dagheimili. Ég heyrði um fólk sem gerði myndir af dóttur sinni með blómum og fiðrildum og sendi leikskólanum í hverri viku með bréfi sem sagði „geriðiþað geriðiþað takið mig til ykkar geriði það mig langar svoooo að komast til ykkar í gæslu á daginn“ og það virkaði víst. Mér finnast svona aðferðir ofboðslega óheillandi, sé mig ekki í anda gera svona lagað. Myndi frekar gera ógnvekjandi hrafnamyndir og hóta Ísdrottningunni sem stýrir leikskólanum okkar hér öllu illu. En ég gæti það samt ekki heldur. Ég er bara þannig bæld að mér finnst eðlilegt að standa bara þæg í röðinni og vona að einn daginn komi að mér. Hefði kannski bara liðið vel í Rússlandi í kalda stríðinu? Er ég eitthvað skrýtin?

Annars hvet ég alla til að lesa pistilinn um Úkraínsku kosningarnar á Múrnum. Staðfestir minn illa grun, sem hafði flögrað að mér við og við síðustu vikur um að málið væri kannski ekki eins einfalt og það var sett upp í fjölmiðlum með einum góðum appelsínukarli og einum vondum rússakalli. Þetta er nú vandamálið um allt okkar frábæra vestræna lýðræðissvæði. Viðbjóðslegt framapot og skákmennska í gangi þar sem peðin skipta litlu sem engu máli og kóngarnir og drottningarnar eru alls ekki hugsjónamenn sem vilja byggja góð þjóðfélög til almenningsheilla heldur peningaviðbjóðsjöfrar sem vilja mata eigin krók og beita öllum brögðum til að hafa þæga og vel uppalda þræla í (gerfi)valdastöðum. Úff, ég er orðin svo leið á þessu. Úff, ég er orðin svo leið á því að vita ekki lengur hvort nokkur flokkur, nokkur stjórnmálamaður sé þess virði að hlusta á hann, hvort þeir séu ekki allir mokandi sama skít í sömu hólana til að tróna yfir okkur eymingjunum. Úff, ég er orðin svo alvarleg að ég er ekki alveg að hressa mig við eins og ætlunin var með þessu bloggstandi.

Best að skella mér undir sæng með myndagátu Moggans, sem er að gera mig gráhærða. Vantar bara smá til að klára, en er búin að glápa á sterka manninn með skipið og fæ engan botn í hann. Hefur skip, loftar bát, lyftir far, hefur far, HVAÐ ER ÞETTA EIGINLEGA?????

Lifið í friði.

0 Responses to “álfamær, appelsínukarl og kraftakarl með bát”  1. Færðu inn athugasemd

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: