Sarpur fyrir janúar, 2005

síðasti dagurinn

Síðasti dagurinn í janúar 2005.

Þó að Ragna vinkona snillingur Fróða hafi reynt að kenna mér að taka öllum árstíðum með gleði og vera jákvæð á vetrum, er ég vor- og sumarbarn. Ég er kuldaskræfa, ég sé illa í skammdegi, ég er myrkfælin. Ég bara verð að fá að vera með ákveðinn vetrarleiða í janúar, sama hversu mikið ég reyni að vera jákvæð.

Þessi janúar gekk svo sem ágætlega þannig. En ég er samt fegin að hann er alveg að verða búinn. En dag skal að kveldi lofa. Það er miður eftirmiðdagur og samt er ég farin að lofa dagslok. Skamm skamm.

Lifið í friði.

p.s. Kvennakvöldið tókst með afbrigðum vel. Þjónninn var ekki sá sami og síðast og varð fyrir sama áfalli með áfengismagnið sem rann ofan í okkur. Franskar konur drekka sko alltaf bara hálft vínglas og byrja svo að gera blævæng úr höndum sínum og segja gvuuuð ég er svo tippsí (finn ekkert nógu gott íslenskt orð) með afsökunar-sjálfsásökunarblæ í rómnum.

Maður má vera góðglaður á góðum stundum stundum!

hver er mamman?

Það skal alveg viðurkennast að ég hef stundum gaman að þeirri staðreynd að hlutverkaskiptingin á heimilinu er ekki samkvæmt Evrópustaðli.

Ég á verkfærakassann og ég nota verkfærin.

Maðurinn minn verslar mest í matinn og sér oft um hann. Þar er reyndar skipst á.

Ég sé nokkurn veginn alfarið um tauþvottinn, en karlinn um diskaþvottinn.

Hins vegar varð mér um og ó í gær þegar við komum að ráðhúsinu og ég sagði hátt og glaðlega við börnin: „Muniði þegar við mamma ykkar giftum okkur hér?“ Ég var mjög fegin að engin vitni voru að þessu þarna í grenjandi rigningunni.

Lifið í friði.

stífla

Það er bloggstífla í gangi.

Er voða dugleg að lesa aðra þegar ég hef tíma en ég lenti í því að lesa bloggsíður tveggja stúlkna sem skrifa um látna kærasta sína í fyrradag. Þetta var svakaleg lesning. Takið allar minningargreinar sem þið hafið lesið um ævina og setjið saman í eina tilfinningu. Skrýtið því þær eru svo einlægar og samt skrifa þær illa, þ.e.a.s. stafsetningarlega séð og eru líka „bara“ unglingar og tala því ekki sama tungumál og ég en ég var gersamlega slegin eftir lesturinn á þessu. Úff. Rosalegt. Þunglyndi er mikið vandamál og viljiði öllsömul passa alla þá sem sýna einkenni þess í kringum ykkur. Þunglyndi er DAUÐANS alvara.

Svo er mikið að gerast í mínum tilfinningum þar sem pabbi er á spítala en ég vil ekki tala um það hér… Skrýtið að manni finnst maður vera að opna sig hérna, en svo er eins og það sem mestu máli skiptir komist aldrei út á þessa síðu. Kannski er það líka best. Bæði fyrir mig og ykkur sem lesið…

Svo fæ ég ekkert að gera… ekki eins og það sé ekki nóg að hugsa um börnin en er einhver þarna úti sem er til í að borga mér fyrir það? Er samt ekki til í að selja stórstjörnu börnin mín. Michael Jackson kaupir sér börn reglulega en oj… Og þó, Brad Pitt, vantar hann ekki barn? Var það ekki þess vegna sem hann hætti með JennifeRachel? Fyrst neitaði hún að fara með honum upp í Eiffel turninn þar sem hann átti pantað borð fyrir þau á Jules Vernes sem er rándýri staðurinn þar uppi. Brad Pitt varð að láta sér nægja kvöld á jörðu niðri og fór væntanlega í fýlu. Svo neitar hún að eignast barn með honum. Hvað er eiginlega að manneskjunni? Auðvitað varð hann að leita huggunar annars staðar. Gefur auga leið.

Jæja, eitthvað losnaði um stífluna þarna. Kannski ég tjái mig fljótlega um eitthvað sem máli skiptir eða þannig…

Lifið í friði.

afsakið en ég freistaðist

folknik
You are a Folkie. Good for you.

What kind of Sixties Person are you?
brought to you by Quizilla

Lifið í friði.

konungar og drottning

Fór að sjá Rois et reine eftir Arnaud Desplechin á laugardagskvöldið. Sýningunni fylgdu svo umræður við leikstjóra sem sannaði það sem maður vissi sossum, hann er klár og hugsar mikið. Lengi að skrifa handritin sem eru troðfull af áhugaverðum hlutum og tilvísunum og öðru skemmtilegu. Myndin er mjög áhorfanleg og manni leiðist ekki í mínútu þó hún fari upp í tvo og hálfan tíma. Hins vegar er hún svo djúsí að maður þarf að sjá hana tvisvar til þrisvar til að ná öllu saman. Góð mynd.

Manninum mínum fannst hún ekki góð því hann þolir ekki aðalleikkonuna, Emmanuelle Devos sem mér finnst frábær. Allir leikararnir eru reyndar frábærir í þessari mynd og ekki spillir fyrir að drottningin Catherine Deneuve kemur fyrir í tveimur senum. Í annarri þeirra spyr ungur maður hana hvort henni hafi ekki oft verið sagt að hún sé falleg. Hún lítur dreymandi í kvikmyndavélina, ó jú… oft… Hún er fædd 1943 og er alltaf jafn dásamlega glæsileg kona. Vildi óska að ég kæmist með tærnar þar sem hún hefur hælana í kynþokka og fágun. Drífið ykkur að sjá þessa mynd þegar hún verður sýnd á kvikmyndahátíð 2029!

Ein af ástæðunum fyrir að ég gæti ekki búið á Íslandi: óúrvalið í kvikmyndahúsunum. Ókei, frábærar vídeóleigur en… ekki nóg. Kvikmyndasjóður er reyndar að gera spennandi hluti, sýnist manni úr fjarlægð en… ekki nóg.

Lauk við Meistarann og Margarítu í morgun. Dásamleg lesning. Mæli með þessari bók. Næsta bók verður um franska tungu, texti frá 17. öld sem útskýrir í löngu og erfiðu máli hvers vegna franskan er fullkomið alþjóðatungumál. Those wore the days að Frakkarnir voru fremstir og bestir og allir vildu frönsku kveðið hafa. Þess vegna er skiljanlegt að þeir séu dálítið fúlir út í enskuna og sigur hennar. Því verðið þið að sýna þeim skilning þegar þið komið í heimsókn og viljið tala við þá enskuna. Fara mjúklega að þeim og sýna þeim að þið kunnið enskuna ekkert betur en þeir, að enskan sé alls ekki móðurmálið heldur íslenskan. Að ykkur þyki SVOOO leitt að tala ekki frönsku. Sem er náttúrulega miður. Þegar ég fór að ná valdi á „alvöru“ bókmenntum á frönsku vorkenndi ég þeim sem tala ekki tungumálið mikið. Margar hurðir sem opnast manni. Öll tungumál eru dýrmæti. Mig langar helst að læra spænskuna líka. Geri það kannski á gamals aldri…

Svo var ég að enda við að senda texta fyrir uppkast að netsíðu til netsmíðameistarans míns ólaunaða. Hlakka mikið mikið til að senda út auglýsingar fyrir slóðina og sjá viðbrögðin við því.

Annars er hugur minn allra mest hjá manni sem ég elska mikið þó hann „nenni ekki að lesa þetta vinstrisinnaða kjaftæði“ mitt hér. Hann er á spítala og á eftir að fara í eina til tvær aðgerðir. En þetta lítur samt víst allt vel út…

Lifið í friði.

mitt kornelíska vandamál

Ég er í úlfakreppu (sem er frábær íslensk þýðing á orðinu dilemma). Mig langar svo að geta hlakkað til vorsins, vil að febrúar og mars líði eins hratt og hægt er.

En vandamálið er að tvær góðar konur ætla að flýja, ásamt fjölskyldum, til hins landsins míns, næslandsins góða, burt frá París, burt frá mér, í mars.

Ég á eftir að sakna þeirra svo mikið. Kvíði svo mikið fyrir. Ég vil að febrúar verði þrefaldur í ár. Ég vil að febrúar líði hratt. Ég vil að febrúar verði langur og lengri. Ég hlakka til vorsins. Ég kvíði vors án Elmars litla sem er að búa til tungumál og er um leið flinkari og flinkari að tala þetta svokallaða mannamál. Ég vil vorið fljótt. Ég vil ekki að tíminn líði. Vil að hann standi í stað.

Ég þarf greinilega að taka mér tak. Verkefni dagsins: verða sátt við núið og hætta að lifa í næstinu. Eitt í einu. Eins og alkarnir þurru. Einn dagur í einu. Dagurinn í dag verður góður.

Dagurinn á morgun; sjáum til þá.

Lifið í friði.

bilun

Það er einhver bilun í gangi hjá blogger.com. Get ekki fiktað í listunum mínum til að bæta ryksjúgandi fótboltakappanum inn. Maður getur bara beðið og séð… alveg eins og þegar maður sækir um vinnu… bíða og sjá… vona það besta… þoli illa svona ástand… nenni þess vegna ekki að skrifa neitt af „viti“…

Það er að síga á seinni hluta janúarmánaðar sem er gott, þetta er leiðindamánuður. Eins gott að kvennakvöldið er á dagskrá næstu helgi. Konur í París hittast einu sinni á ári og borða og drekka og hafa það gott. (Sorrí Parísarsveinn – ljósmyndarar óvelkomnir). Maður hefur þá eitthvað að hlakka til. Svo ætlum við líka í bíó á morgun að sjá Desplechin, Rois et reine, Kóngar og drottning. Get ekki sagt neitt um þá mynd því ég forðast að lesa um myndir sem ég ætla að sjá.

Fór í göngutúr í gær um borgina mína fínu. Tólf stiga hiti og þurrt. Yndislegt. Heimsótti fæðingarstað Edith Piaf, gekk í gegnum Belleville og yfir á Ménilmontant og fór að leiði hennar líka. Komst við. Verður göngutúr í sumar, en erfiður samt. Dálítið langt, dálítið bratt. Ætti ég að æfa eitt lag og syngja fyrir ferðalangana? Get náttúrulega ekki toppað Brynhildi sem leikur Edith Piaf heima í Þjóðleikhúsinu. Á maður að gera hluti þó maður geti ekki toppað? Þórdísi finnst það.

Verð að hætta. Bless janúar og stuttur febrúar og blautur mars og þá kemur vor. VOR.

Lifið í friði.

Tengill út í loftið og franskar sem eru það samt ekki

Ég set inn tengil á Ljúfu þó ég geti ekki lesið síðuna hennar sjálf. Eitthvað í henni sem er of stórt og flott fyrir minn gamla jálk. En ég hef séð MJÖG gáfuleg komment eftir hana hér og þar svo ég tek sénsinn. Ef einhver er óánægður með þetta, tali hann nú eða þegi um alla framtíð.

Svo langar mig til að koma því að að það er ekki hægt að plata þriggja ára stúlku til að borða soðnar kartöflur með því að segja henni að þær séu nú franskar þessar. Það breytir venjulegu „nei, ég vil ekki“ í orgið: „ÉG VIL FRANSKAR KARTÖFLUR“. Mæli ekki með þessu fyrir húsmæður í Frakklandi. Næst þegar við borðum franskar ætti ég kannski að rugla hana með því að nú séum við að borða freedom fries?

móðirin, faðirinn, börnin, fjölskyldan og lífið

Þegar við komum heim úr áramótafríinu var fyrsta verkið að hringja í borgaryfirvöld til að fá að vita stöðuna í sambandi við dagheimilispláss fyrir Kára. Það er löngu búið að segja okkur að Sólrún komist ekki inn fyrr en í haust þegar hún byrjar í maternelle sem er „alvöru“ leikskóli með bekkjarkerfi og kennara og er fyrir börn frá 3ja ára til 6 ára, en þá hefst skólaskyldan. Hingað til hefur franska ríkinu tekist að standa við það að hleypa öllum börnum sem sótt er um fyrir inn í leikskólana frá þriggja ára aldri, en það er þó að verða erfiðara með hverju árinu og mörg börn fá aðeins hálfan dag og ekkert mötuneyti o.s.frv. Ráðherra tilkynnti nýlega að það væri engin lagaleg skylda ríkisins að taka við öllum börnum sem þýðir auðvitað að ekki verður bætt við plássum í samræmi við aukna barneignatíðni og aukna sókn kvenna á vinnumarkaði.

En Kári er sem sagt á biðlista til að komast inn á „crèche“ sem þýðir vöggustofa og er fyrir börn frá tveggja og hálfs mánaða (þá lýkur fæðingarorlofi kvenna hér) til 3ja ára, þegar þau fara í leikskólann. Fyrir nokkru voru sett lög sem kveða á um að aðeins megi sækja þrisvar sinnum um fyrir börn. Ef þau fá neitun þrisvar, komast þau aldrei inn á þessar vöggustofur. Kári hefur fengið neitun tvisvar. Ef hann fær þá þriðju, „sitjum við uppi“ með hann til þriggja ára aldurs. Okkur var sem sagt tilkynnt um daginn að þar sem engin börn hafa hætt síðan síðasti inntökufundur var haldinn ættum við ekki að sækja um í þetta sinn. Næsti fundur er í mars en forstöðukonan hljómaði þannig að við ættum ekki að hugsa um þetta fyrr en í haust, þá væri alveg öruggt að hún tæki hann inn.

Ég elska börnin mín. Ég elska að leika við þau og gefa þeim að borða og fylgjast með þeim vaxa úr grasi. En ég er samt með ákveðnar hugmyndir um framtíðarvinnu mína (kominn tími til myndu einhverjir segja) og ég þarf tíma til að hrinda áætlun minni af stað. Ég þarf að geta setið við tölvuna og farið á fundi með skrifstofublókum sem segja mér hvað það er flókið og erfitt að stofna fyrirtæki og ég þarf líka smá tíma fyrir sjálfa mig. Komast í bæinn, skreppa í bíó, hitta vinkonur á kaffihúsum og annað slíkt. Ég skammast mín alls alls ekkert fyrir að játa það að stundum verð ég svo þreytt á þessum mömmuleik að mig langar til að ganga út og koma aldrei heim aftur.

Samt má ekki gleyma því að ég er frekar heppin þar sem maðurinn minn vinnur líka óreglulega vinnu og hugsar mjög mikið um börnin og heimilið með mér. Ólíkt öðrum konum sem ég þekki sem eiga menn sem hverfa út klukkan sjö eða fyrr á morgnana og koma heim upp úr átta eða seinna á kvöldin.

Ég frétti að áramótaræður biskups og forsætisráðherra hefðu mikið gengið út á nostalgíska sýn á móðurina og heimilið. Ég veit líka að margar konur á Íslandi tala um að réttur kvenna felist í því að GETA VERIÐ HEIMA. Það er svo sem alveg ýmislegt til í því að gamla móðurímyndin sem kom börnum á legg og kenndi þeim svo margt og svo vel að þegar þau komust í skóla voru þau hæst í bekknum (vitna nú í pistil frá Nönnu Rögnvalds frá því fyrir nokkru síðan) um leið og hún sauð slátur og saltaði fisk og bakaði rúgbrauð og þvoði allt í höndunum og kom heyinu í hús fyrir veturinn og og og og og OG… OG?

[þessar tvær línur á að öskra af lífs og sálar kröftum]:

OG?

OG?

Er þetta virkilega það sem nútímakonur vilja geta valið um? Mig langar mjög mikið að vita hversu margar konur myndu snúa aftur inn á heimilið til að sinna börnunum sem NOTA BENE færu aldrei í gæslu.

Ég geri mér fulla grein fyrir því að margar konur eru að vinna óspennandi skrifstofuvinnu eða verksmiðjuvinnu, með óþolandi yfirmenn (oft allt of marga og auðvitað allt karlar fyrir utan þessa einu konu sem er orðin hörð, horuð og bitur af því að koma sér áfram í karlaheiminum) sem sýna lítinn skilning á veikindum barnanna og tannlæknaferðum og fleiru í þeim dúr. Það er fullt af fólki ófullnægt í vinnunni sinni. Auðvitað dreymir því suma um að breyta til og auðvitað kemur þá upp í hugann þessi möguleiki, AÐ VERA BARA HEIMA.

Hins vegar geri ég mér einnig fulla grein fyrir því að þetta fólk fengi fljótt og örugglega sömu tilfinningu heima fyrir. Börnin eru harður húsbóndi. Heimilisverkin eru ótrúlega ófullnægjandi og óþolandi fljót að verða að engu. Þó maður eyði öllum deginum í að halda stofunni þokkalegri (svona ef einhver skyldi nú líta inn, sem auðvitað gerist aldrei) þá er samt eitthvað dót og drasl þegar litlu skrímslin eru loksins sofnuð á kvöldin. Og manni er svo til aldrei hrósað fyrir vel unnin verk. Þau sjást aldrei þessi verk! Börnum dettur ekki í hug að gleðjast yfir vel röðuðu dóti í hillum eða glansandi krönum inni á baði. Börn finna ekki muninn á verksmiðjuframleiddu kexi og heimabökuðum vöfflum. Bæði namm. Meira!

Þetta myndi ekkert breytast þó við fengjum borgað fyrir þetta í peningum.

Þetta er ákall til íslenskra kvenna: EKKI LEYFA KÖRLUNUM AÐ KLIFA Á ÞVÍ AÐ ÞIÐ EIGIÐ AÐ BERJAST FYRIR RÉTTINUM AÐ FÁ AÐ VERA HEIMA! Hugsið ykkur a.m.k. vel um áður. Er það virkilega það sem þið viljið? Fara aftur inn á heimilin?

Ég, sem er nú föst heima fyrir ráðlegg heldur: Berjist heldur fyrir betri kjörum á vinnustað, betri fríum, launajafnrétti (sem er líklega það allra allra mikilvægasta). Berjist á réttum vígstöðvum.

Lifið í friði.

bækur

Ég var að gera mér grein fyrir því að ég skrifa afar sjaldan um þær bækur sem ég er að lesa. Margir halda kannski að ég lesi ekki mikið, en raunin er sú að ég er alltaf með bók að lesa og geng hér um eins og dýr í búri ef ég lýk bók án þess að vita hvað ég ætla að lesa næst. Maðurinn minn á fullt af bókum sem ég á eftir að lesa en sumt langar mig alls ekki að lesa og sumt finnst mér stundum of flókið til að byrja á akkúrat þá stundina. Því eins og líklega allir lestrarhestar hefur maður nefninlega mismunandi þarfir og langanir.

Stundum vil ég bara léttmeti, helst á ensku og helst með blóði og grimmd. Mary Higgins Clark, Patricia Highsmith, Patricia Cornwell, Stephen King o.fl. mætti nefna sem „uppáhöld“.

Stundum vil ég léttmeti án grimmdar eins og Bridget Jones en það er sjaldgæfara og verður að vera gott til að koma mér ekki í afleitt skap.

Oftast finnst mér þó best að lesa bækur sem hafa eitthvað fram að færa, fá mig til að hugsa og spá og láta mann finna fyrir metnaði hjá höfundinum. Oft eru bækur sem komast í þennan flokk hjá mér metsölubækur. T.d. mætti setja Bridget Jones í þennan flokk þó hún sé létt og skemmtileg. Þar er ádeila á nútímaþjóðfélag og slæma stöðu einhleypu konunnar og fleira kannski. Í þennan flokk fara samt líka hinar svokölluðu „heimsbókmenntir“ (sem er allt annað hugtak heldur en hið undarlega hugtak „heimstónlist“ (world music) sem táknar tónlist frá öðrum stöðum en Bretlandi og Bandaríkjunum).

Það er eiginlega jafn fáránlegt að setja bækur í einhvers konar gæðakeppni og að etja ungum og fríðum stúlkum í fegurðarsamkeppni. Og mér hefur alltaf þótt erfitt að flokka niður bækur, alveg eins og það er lífsins ómögulegt og jafnvel hættulegt og fordómahvetjandi að flokka niður fólk. Auðvitað má setja niður flokkana vísinda- eða fræðirit, ævisögur og skáldsögur. En svo er hægt að leika sér svo mikið innan þessara flokka að stundum verða ævisögur hreint skáldverk o.s.frv.

Þess vegna ætla ég ekki að koma með neina lista um bestu bækur ársins eða neitt slíkt. Frekar að segja frá því hvað ég las. Kannski kynnist þið mér þá aðeins betur.

Maður er það sem maður les.

Minnir einmitt að einhver ungu höfundanna hafi notað þetta í persónulýsingum og kom það út eitthvað á þessa leið: Hann var ljóshærður, hávaxinn og hafði lesið Tolstoj, Hemingway og allan Laxness. Frekar góð hugmynd en ég man ekki í hvaða bók þetta var, kannski las ég bara úrdrátt í Lesbókinni?

Dæmi um bækur sem ég las nýlega og sitja í mér:

Kynntist loksins á nýliðnu ári Philip Roth. Las Portnoy’s Complaint sem ég hló mig næstum til dauða af og mæli með bæði fyrir konur og menn, og aðra sem ég get ekki munað titilinn á, ekki alveg eins fyndin en samt þess virði. Langar að prófa að lesa hann á íslensku, veit að það er verið að þýða hann þessa dagana.

Balzac klikkar aldrei, en ég gafst þó upp í miðri Splendeurs et misères des courtisanes. Vandamálið fyrir þreyttar húsmæður er að þær ná oft að lesa bara hálfa blaðsíðu og missa því athyglina og ég var hætt að skilja hver var hver og í Balzac á það ekki að vera vandamál. Svo ég hætti og ætla að byrja aftur bráðum (vona að það fari ekki eins og fór með Önnu Katerínu sem ég er ekki enn búin að ljúka eftir „smá pásu“ árið 1987. Las svo um það hvernig fer fyrir henni hjá Leif Panduro, minnir mig og var svo svekkt að ég hef aldrei komið mér í að lesa endinn.)

Núna um jólin las ég Stormur eftir Einar Kárason og skemmti mér ágætlega þó að Stormur sjálfur færi dálítið mikið í taugarnar á mér þar sem hann minnir mig óþægilega á fólk mér náið. Finnst líka afar óviðeigandi að setja tilvitnun úr ritdómi Kolbrúnar „stórkostlega fyndin“ framan á kápuna í kiljuútgáfunni. Er lesanda ekki treystandi til að ákveða það bara sjálfur?

Svo las ég sögu einhverfa drengsins um hundinn hjá Emblu og Bjarka. Sú bók snerti mig mikið og gerði mér mögulegt að syrgja og sættast við hluti sem ég hef kannski aldrei tekist á við. Fín bók og auðlesin. Ætti vitanlega að lesast í skóla.

Nýja bókin sem ég fékk í jólagjöf var eftir Gerði Kristnýju, Bátur með segli og allt. Hún er allt í lagi. La la. Vonbrigði. Bjóst við meiru. Veit ekki alveg af hverju. Hef mikla trú á höfundi án þess að geta rökstutt það mjög vel. Sumir kaflanna voru svo hallærislega niðurskrifuð alvöru atvik úr lífi einhvers að ég átti ekki orð. Á öðrum stöðum sýnir hún snilli, en leyfir sér ekki alltaf að ganga alla leið… hætti núna…

Í janúar í fyrra las ég bók sem ég keypti mér sjálf eftir jólin 2003. Það er bók eftir uppáhaldshöfundinn minn. Var næstum búin að stofna aðdáendaklúbb einu sinni en svo varð ekkert af því. Bjarni Bjarnason heitir maðurinn og gaf út skáldævisöguna Andlit. Frábær bók. Afar ólík fyrri verkum hans en betri.

Las nokkrar þýðingar þar sem ég er að spá í að fara út í slíkt sjálf:

Paradís eftir Lizu Marklund, sænsk þrælfín spennusaga.

Hending eftir Paul Auster. Flott, endirinn þó svolítil vonbrigði.

Er núna að lesa Meistarinn og Margaríta eftir Mikhaíl Búlgakov og skemmti mér gersamlega konunglega. Ein af þessum bókum sem láta manni finnast maður verða unglingur á ný. Eins og þegar maður uppgötvaði Þórberg eða Kundera. Frábærlega vel þýdd. Ekki það að ég skilji rússnesku, bara svo mikill og safaríkur orðaforði að manni finnst maður vera fáviti að ímynda sér að maður geti þýtt sjálfur.

Svo las ég auðvitað Jean-Francois Parot sem er sagnfræðingur og sérfræðingur í frönsku 17. öldinni og er sendiherra og dundar sér við það í frítíma sínum að skrifa sögur um Nicholas Le Floch, franskan lögregluþjón á 17. öld, rétt fyrir byltinguna. Frábærar sögur sem gefa manni skemmtilega innsýn í lífið í París á þessum rósturtímum. Ég hafði misst af einni, þannig að ég gat lesið tvær í sumar.

Þetta eru skáldsögurnar. Af fræðiritum las ég Eric Hazan sem ég minntist á í bloggi þá og svo er ég vitanlega alltaf að lesa eitthvað um París og franska sögu og matreiðslubækur.

Best að auglýsa eina slíka hér: Jóhanna Sveinsdóttir, Hratt og bítandi. Skemmtileg aflestrar og sýnir hvernig má deila um flokkaniðurröðun því í bókinni eru alls konar pælingar um lífið og tilveruna sem ég mæli með fyrir alla.

Bestu matreiðslubók í heimi á ég ekki enn, en það er auðvitað Matarást bloggvinkonu minnar Nönnu Rögnvalds.

Voilà. Þar hafið þið það. Vona að þessi færsla sé ekki of sundurleit því meðan ég skrifaði hana þurfti ég að kveðja manninn sem fór í vinnuna, setja upp í rúm litla stúlku sem átti að fá sér blund, taka aftur fram litla stúlku sem ákvað að gera númer tvö í bleijuna í staðinn fyrir blundinn og kyssa á nokkur meiddi sem hún fékk af ferðalögum sínum hér undir skrifborðinu.

Lifið í friði.


Nýlegar athugasemdir

parisardaman um Kveðja
Margrét H um Kveðja
koparskál um Tau frá Tógó
Elín Kjartansdóttir um rafmögnuð kona
juliann um agnetha