Sarpur fyrir janúar, 2005opinberun hvers?

Í síðasta pistli Pullu biður hún fólk um að tilnefna ljótustu atriði sem fólk man eftir úr bíómyndum. Skeleggur (sem ég hef ekki enn haft tíma til að kynna mér) tilnefndi alla myndina Opinberun Hannesar sem er, eins og flestir hljóta að muna, fokdýr kvikmynd eftir þá félaga Davíð O. (sem reit) og Hrafn G. (sem sviðsetti (var næstum búin að segja skeit því það rímar en hélt í mér)) sem var frumsýnd í Ríkissjónvarpinu rétt eftir áramótin þarsíðustu. Einhverra hluta vegna ákvað ég að horfa á þessa mynd og gerði það.

Ég var dálítið lengi svo hissa og undrandi að ég fylgdist áhugalaus með umræðum og rifrildi í fjölmiðlum næstu daga á eftir. Ég var reyndar bara hreinlega svo eftir mig að það var ekki fyrr en síðsumars sem ég allt í einu reis upp hér í stofunni okkar hér í útlöndum og hvæsti á manninn minn: Hvernig í ósköpunum stendur á því að forsætisráðherra VOGAR sér að bera annað eins rusl á borð fyrir alþjóð og annað eins efni og þetta sem gæti meira að segja bara alveg verið satt? Erum við ekki öll til í einhverjum rosa lista, allt sem við gerum og hugsum og bloggum og prumpum, er þessu ekki bara safnað á ákveðinn stað eftir kennitölu og geta þeir ekki bara flett okkur upp og lesið okkur á nokkrum klukkustundum ef þeim sýnist svo?

Maðurinn mig leit á mig og kom með eftirfarandi kenningu: Davíð er að fara frá völdum fljótlega og veit það. Hann veit líka að hann leyfði bandarískum yfirvöldum að komast yfir allt allt of mikið af upplýsingum um Íslendinga og sér eftir því að hafa samþykkt að gera Ísland og Íslendinga að tilraunarottum fyrir Kanann. Hann veit samt líka að ef hann kjaftar frá, verður honum ekki vært.

Hver er titill myndarinnar? Hver er Hannes? Kannski Davíð?

Veit ekki hvort nokkuð er til í þessu, en sagan er góð engu að síður.

Lifið í friði.

heim í heiðardalinn

Heimferðin var ekki söguleg, gekk vel fyrir utan sólina í augun þegar ekið er í suðvestur og vindinn sem blés undir bílinn í upphafi ferðar. Fjónn er vindsöm eyja, minnir það á einhverja aðra eyju sem við þekkjum öll svo vel?

Gistum á hóteli sem birtist okkur í vegakantinum þegar Kári (drengurinn, ekki vindurinn) var að byrja að væla og þetta reyndist þriggja stjörnu ráðstefnuhótel sem við tókum þó að það væri m.a.s. dýrara en bjálkahöll jólasveinsins. Greiddum 105 evrur fyrir herbergið sem var hið huggulegasta og rúmgott mjög.

Ég er reyndar meira fyrir bjálkakofa stílinn heldur en þennan sótthreinsaða stjörnustíl hótela, en þegar maður er á langferðalagi í myrkri með börn sem eru að fá nóg er maður kannski ekkert að velja og hafna mikið. Ég er mikið á móti stjörnugjöfum hótela sem ganga oft út á það eitt að klósettrúllan sé ný, að það séu tvö handklæði á mann, að það sé teppi en ekki dúkur á herberginu og annað eins húmbúkk. Finnst frekar að hótelin eigi að hafa frammi gestabækur með umsögnum og leggja meira upp á að vera persónuleg og veita glaða og káta þjónustu. Svoleiðis væri þetta í draumalandinu mínu. Þá gæti maður ákveðið hvort maður vildi vera í bjálkakofastemningunni, heimilisstemningunni, austurlensku stemningunni eða kannski jafnvel bara sótthreinsuðu stemningunni fyrir þá sem vilja. En í dag gengur túristabransinn alltaf út á IÐNAÐARhugmyndir og Íslendingar eru einmitt núna á kafi í því að aðlaga sig þeim ranga hugsunarhætti. Við ættum ekki að vera feimin við að búa til lítil gestaherbergi með krossaumuðum dúkum og rýjateppum á veggjum og bera fram vöfflur og nýlagað kaffi upp á gamla mátann. Hætta þessari vélvæðingu og iðnvæðingu á ferðamannamóttöku okkar. En ég er kannski ekki sú besta til að rausa um þetta, margir sem lesa mig eru á kafi í þessum bransa uppi á Íslandi og hafa eflaust fleira og gáfulegra til málanna að leggja.

Ég sá þó á þessu ferðalagi að það er gott fyrir fólk í bransanum að ferðast til að fá viðmiðanir. Ég tek iðulega á móti fólki hér í París og blæs hér með á eftirfarandi kvartanir sem ég heyri í sífellu:

1. Frakkar tala bara frönsku. Bull og vitleysa, Þjóðverjar tala bara þýsku, og Ítalir bara ítölsku en Frakkar eru þrælsleipir í ensku og tilbúnir til að tala hana við rétta fólkið. Sem er fólkið sem kemur því strax að að þau séu frá Íslandi, en hvorki frá Þýskalandi né Bretlandi og alls ekki Kanar.

2. París er svo dýr. Rétt en þetta verður þó að hafa í huga: Vestræna Evrópa er dýr og þar með Frakkland og París. Evran breytti miklu þar um, það er orðið ótækt að fá sér kaffibolla án þess að vera með móral, mér sýnast þó hvorki hótel né matur vera dýrari hér en í Þýskalandi eða Danmörku. Þar að auki þarf að borga á ÖLLUM klósettum sem ég fór á í Þýskalandi og Belgíu. Hvort sem maður sat og snæddi á staðnum eða ekki.

Og hana nú! Og allir til Parísar!

Annars er alltaf voðalega gott að koma heim til sín aftur. Í rúmið sitt og undir sængina sína. Tilfinningin vissulega blönduð hryllilegum söknuði því við vitum ekki hvenær við hittum vini okkar í Óðinsvéum næst.

En það er gott að geta núna séð þau almennilega fyrir sér á fína kaffihúsinu Optimisten, Brogade 3, Odense C. Hvet alla sem eiga leið um Danmörku að gera sér ferð þangað, skemmtilegur hlýr og persónulegur staður sem myndi örugglega ekki eiga séns í stjörnugjöf Michelins en skýtur mörgum stjörnustöðum þeirra ref fyrir rass í súpu- og brauðgerð. Og speltvöfflurnar eru hrein unun. Óþarfi að tala um tyrkneska kaffið hans Bjarka sem maður lifir á í nokkra mánuði eftir einn lítinn bolla.

Smá kafli um börnin fyrir þá sem hafa áhuga:

Sólrún fékk grátkast með ekka í gærkvöld, einhvers konar áfall við heimkomu en hún er hress og kát í dag að kubba. Kári virðist alsæll og ligeglad eins og alltaf.

Hann er ekki farinn að ganga enn, þvert á allar vonir og spár. Hann er þó byrjaður að æfa sig að standa upp á miðju gólfi, sem mig minnir að hafi einmitt verið undanfari fyrstu skrefa Sólrúnar.

Bæði börnin dýrka Emblu, enda er hún með einhvers konar ömmukomplexa gagnvart þeim, sagði oft já eftir að foreldrarnir höfðu reynt að pípa einhvers konar nei og þau voru fljót að komast upp á lagið með að nýta sér þetta.

Sólrún talar auðvitað enn betri íslensku eftir þetta ferðalag. Hún er eins og svampur og segir stundum fyndna hluti eins og: „MMM, þetta er fellega gott.“ og: „Vá, æislega er etta flott.“ Tónninn eins og í mömmunni og allt. Fer um mann smá hrollur.

Má víst ekki vera lengur í tölvunni og bið því alla vel að lifa í friði.

bókhald og prump m.a.

Ég er að bíða eftir Emblu til að geta haldið áfram með bókhaldið fyrir Optimisten, sem var í hálfgerðu, nei, afsakið, algeru hassi þangað til Kristín kom og reif Emblu upp í að byrja á þessu. Hún á fund með revísörnum á morgun klukkan níu, og sagði honum fyrir nokkrum dögum að hún væri búin að færa allt inn. Við erum nú komnar langleiðina með að þvo út lygina sem Embla segir snjakahvíta þar sem hún laug til að koma sér í verkið.

En áður en við getum byrjað í dag þarf hún að opna staðinn og gera húmmus. Sagði mér að blogga um prumpandi baunaætur á meðan.

Prumpandi baunaætur.

Einu sinni las ég einhvers staðar að maður prumpaði bara af baunum ef maður væri óvanur því að borða þær. Þess vegna ætti maður að gefa börnum sínum baunir snemma og venja þau á það að borða þær óprumpandi.

Embla borðar mikið af baunum en prumpar.

Embla las einhvers staðar að það væri samband kjötsins við baunirnar sem leysti út vindinn. Þannig að maður prumpaði af chili con carne, en ekki af chili sin carne.

Embla borðar chili sin carne en prumpar.

Ég hef ekki fleiri kenningar um baunir og prump en tek glöð við slíkum í orðabelgina.

Ekki halda að Embla sé sú eina sem er síprumpandi hérna. Sem betur fer er auðvelt að lofta út hérna og húsið á þremur hæðum svo öllum er líft svona yfirleitt.

Sá mynd af þorpi á Súmötru fyrir og eftir flóðin í dönsku blaði í gær. Grænt og blómlegt svæði orðið að drullusvaði. Manni líður ekkert sérlega vel með að hugsa út í þetta allt saman. Sérstaklega að þeir vissu af þessu átta stundum fyrir sjálfa flóðbylgjuna, en vildu ekki hræða túristana í burtu. Og óhugnalegt í raun og veru að hugsa til þess að nú er djammið byrjað aftur þarna, en auðvitað þarf fólkið að lifa áfram og auðvitað heldur sjóið alltaf áfram og fáránlegt að ímynda sér annað.

Svo má ekki gleyma því að um jólin og áramótin létust nokkrar milljónir í Afríku úr eyðni og malaríu. Lyfin eru til og gnótt af þeim, en það hentar alls ekki ríkum lyfjafyrirtækjunum að gefa þau þangað niður eftir.

Það er ekki alltaf auðvelt að vera nútímamaður og lifa í velmegun með prumpvandamálin sín. Þess vegna fannst mér dálítið undarlegt að sjá klára konu fárast yfir því í frönsku sjónvarpi að Friends væri bara gríndrasl og hún skildi ekki af hverju við horfum svona mörg á þessa þætti. Hvernig í ósköpunum eigum við að komast af án hláturs og gríns?

Íranska stúlkan sem skrifaði teiknimyndasögurnar Persepolis segir einmitt frá því hvernig fólkið fór að hlægja að bröndurum um fótalausa og lamaða þegar sem verst lét í Íran og allir þekktu einhvern fótalausan eða lamaðan eftir sprengjur.

Ég get kannski ekki alveg í sakleysi líkt saman þessari vörn stríðshrjáðra og minni Friends-vörn, en það er samt held ég ekkert fáránlegt að spá í þetta.

Hlægjum. Verum glöð. Munum samt alltaf eftir þeim sem þurfa á hjálp að halda og veitum hana eftir megni. En hlægjum og verum glöð. Læknum þennan heim. Við getum það. Einn góðan veðurdag vöknum við upp vitandi að það ríkir friður og jafnrétti í þessum heimi.

Þið megið kalla mig draumóramann. En ég er ekki ein. Einn daginn munuð þið koma í hópinn. Og heimurinn verður sem einn.

Lifið í friði.

vi er röde, vi er hvide…

Það er nú meira hvað það er gaman að vera í Danmörku. Mér finnst Danir alltaf vera að grínast þegar þeir tala. Og mér finnst ógurlega gaman að vaða áfram í einhvers konar norrænu. Á sínum tíma var ég alltaf best í dönsku og fyllti hinar stelpurnar vonsku en einhverra undarlegra hluta vegna hvarf danskan þegar ég lærði frönskuna. Því komst ég að þegar ég hitti Dani á bar í París forðum og ætlaði að fara að monta mig af dönskufærninni og mistóskt hrikalega.

Ferðalagið var skemmtilegt, hraðbrautirnar eru svo frábærar og gaman að keyra með fólki sem fer eftir umferðarreglunum. Á mjög vel við mig.

Um nóttina ókum við út af þegar Kári var farin að standa á veininu, komum inn í þorp norður af Köln sem leit út svipað og Arnarnesið. Stórar villur velupplýstar. Afskaplega hlýlegt og greinilega nóg pláss hjá öllum. Ókum beint fram á stórt og fínt Gasthause uppljómað en ég barði allt að utan og fékk ekkert svar. Ókum áfram í myrkri og rigningu og horfðum löngunaraugum inn í stóru húsin þar til við komum að grískum veitingastað. Þar var okkur bent á að beygja inn í næstu götu, botnlangi með stórum einbýlishúsum og við enda götunnar birtist allt í einu, eins og tálmynd, risastór alpabjálkakofi. Húsið hennar Heidi stækkað upp. Hét Sauna-eitthvað. Pabbinn hljóp núna út úr bílnum og hvarf eitthvert niður fyrir hús. Leið og beið. Við og við týndist einn og einn þýskur karl úr garðinum þaðan sem Arnaud hafði horfið. Þeir voru með blautt hár og stórar íþróttatöskur. Ég skildi þá að þarna væri líka hægt að koma í gufubað. Greinilega ekki gufubað í hverri villu eins og á Arnarnesinu. En ekkert bólaði á manninum mínum. Börnin voru bæði farin að standa á veininu og mér stóð ekki á sama þegar karlarnir komu að segja halló og voru allir hinir vinalegustu. Þegar ég var búin að ákveða að það væri búið að búta hann niður og íþróttatöskurnar innihéldu eiginmanninn í pörtum, finnst Þjóðverjum ekki einmitt svo gott að borða mannakjöt í beinni? ákvað ég að taka börnin út úr bílnum og halda þarna niður fyrir á vit örlaga okkar. Þá birtist hann ásamt rjóðum og feitum skeggjuðum dæmigerðum Þjóðverja sem bauð herbergi fyrir 90 evrur. Okkur fannst það heldur dýrt, en miðað við aðstæður, snjókomuna og ástandið á börnunum sem voru gersamlega búin að fá nóg af hraðbrautinni ákváðum við að slá til.

Þetta var hið huggulegasta gistiheimili og við borðuðum mat í matsal fullum af körlum á náttsloppum með bjór og bók, alger draumur. Fengum kartöflur með sýrðum rjóma eftir að hafa reynt að biðja um grillsteikina sem okkur sýndist vera á matseðlinum. En karftöflurnar voru kynntar með nafni og upprunastað og okkur tjáð að þær væru wunderbar sem þær vissulega voru. Upp um alla veggi voru beinagrindur af elgum með horn, uppstoppaðir fuglar og ýmislegt annað sem tilheyrir í veiðikofa.

Daginn eftir ókum við næstum í einum rikk þá 700 kílómetra sem eftir voru og höfum verið hér í góðu yfirlæti með trúð frá Ítalíu, samkynhneigðan engil frá Grikklandi, danska grænmetisætu sem er sammála Frökkum um að banna slæður í skólum og auðvitað íslensku fjölskyldunni sem við komum að heimsækja.

Kaffihúsið Optimisten opnaði í gær eftir áramótalokunina. Mjög góður staður og þægilegur. Segi ykkur nánar frá honum seinna. Heyrist vera kominn matur. MMmmmmMMMM ég borða út í eitt hérna, frikadellur, flödebollur, pulsur, spægipylsur, grænmetisrétti a la Embla og fleira og fleira. Drekk líka 3 tonn af tei á dag. Gott að vera til og mega vera ligeglad sem er líklega besti kostur Dananna.

Lifið í friði.