Hvers vegna hér en ekki þar?

Við börn vestræns hluta jarðarinnar árið 2005 eigum því láni að fagna að geta flakkað nokkuð frjáls um vestrænan heim og getum m.a.s. líka heimsótt stóran hluta hrjárðra heimsálfa sem voru svo óheppnar að skríða undan ís eða hafi á röngum stað á kúlunni. Þá erum við kannski aðeins minna örugg með okkur, dálítið kvíðin og stressuð og bólusett en eigum þó oftast því láni að fagna að geta veitt okkur stjörnuhótel sem framreiða dýrindis hreinan mat og margir fara um borgir og sveitir fjarlægra landa í loftkældum rútum með skotheldum glerjum í útsýnisgluggunum.
Ég, Kristín, er ein af mörgum jarðbúum sem einhverra hluta vegna varð að fara og búa annars staðar en í landinu þar sem ég fæddist. Landið mitt er svo gott land. Þegar ég fór á vit æskudrauma gat ég sagt við fólkið sem gapti af undrun yfir því hvað ég kom langt að: Á Íslandi er enginn her fyrir utan varnarlið frá Ameríku sem við erum að reyna að losa okkur við. Á Íslandi eru lögreglumennirnir m.a.s. óvopnaðir. Á Íslandi skilur maður hurðina eftir ólæsta ef maður finnur ekki lykilinn sinn. Á Íslandi læsir maður aldrei bílnum sínum. Á Íslandi eru engin hóruhús og engir nektardansstaðir. Á Íslandi ríkir jafnrétti. Á Íslandi er loftið hreint og tært, besti fiskur í heimi kemur úr sjónum okkar hreina og enginn er atvinnulaus nema nokkrir geðsjúklingar sem geta ekki unnið og fá bætur því við erum rík og getum séð um okkar minni máttar. Á Íslandi býr enginn í kassa undir brú. Á Íslandi er ekki hægt að byggja lestarkerfi því jörðin er á stöðugri hreyfingu og stundum gjósa eldfjöllin okkar hingað og þangað um landið. Á Íslandi hafa allir það gott. Á Íslandi rennur heitt vatn ókeypis um húsin og sundlaugarnar eru eins og bestu laugar við dýrustu hótelin hérna og ódýrt í þær og öllum aðgengilegar.
Sumar þessara fullyrðinga voru líklega rangar strax þarna 1989 meðan ég fór þæg með þær eins og ég hafði lært að gera, hver sem það var nú sem kenndi mér þetta. Sumar voru hins vegar hárréttar þá, en eru það ekki lengur. Heimsvæðing og markaðsviðurstyggðin hefur komið krumlu sinni um háls okkar og heldur okkur í kverkataki framfara á öllum sviðum. Sumt var og er rétt.
Það var ekkert af því ég vildi forðast ofsóknir, volæði eða almenn leiðindi sem ég fór.
Þetta byrjaði allt þegar ég var rétt um fimm ára, að mig minnir. Þá sagði ég einhvern tímann við mömmu og pabba að ég ætlaði til Frakklands. Þau hlógu góðlátlega að mér og spurðu mig hvort ég vissi hvað Frakkland var.
Ég er ekki alveg viss um að þessi saga sé rétt munuð hjá mér, kannski bjó ég hana til í minningarnar alveg sjálf. Gleymi alltaf að spyrja foreldra mína um þetta.
Annað er öruggt, að þegar ég var 10 ára átti ég litla vasabók sem ég hafði tekið upp þegar við fjölskyldan horfðum á franska mynd í sjónvarpinu og skrifað í nokkur orð ásamt orðskýringum. Það var pabbi sem nýtti sér minningar úr frönskutímum í lærða skólanum og útskýrði m.a. fyrir mér muninn á poison og poisson sem eru næstum sama orðið en þýða alls ekki það sama, eitur og fiskur. Einhver fleiri orð hafði ég skráð þarna inn, vandað mig ógurlega, skrifað stóra prentstafi með blýanti. Þessa bók átti ég lengi en nú hef ég ekki fundið hana í nokkur ár. Er alltaf að kíkja eftir henni en veit ekki hvað varð um hana. Líklega týnst í einum af mínum 400 flutningum fullorðinsáranna.
Það er líka áreiðanlegt að ég leit mikið upp til frænku minnar sem fór og lærði í Nice í nokkur ár. Ég skrifaði henni reglulega og hún svaraði mér og ég var alltaf með kitl í maganum út af þessu, að hún skyldi búa í Frakklandi. Þetta var líka í kringum tíu ára aldur minn, að mig minnir. Kannski var ég orðin tólf?
Að minnsta kosti var ég alltaf sólgin í að læra frönskuna þó framan af gengi það ekki vel. Fyrst komst ég í námsflokkana tólf ára, hlunkaðist með strætó niður í miðbæjarskóla á kvöldin og var svo sótt eftir að hafa setið á skólabekk með nokkrum gömlum konum og einum karli sem náðu aldrei að fara af síðu eitt í bókinni (sem var ekki la rue est grise et triste bókin sem Þórdís minntist á um daginn heldur lítið kver sem ég henti síðar í einhverjum flutningaham). Þetta voru mikil vonbrigði fyrir mig að mæta þarna viku eftir viku og þurfa alltaf að rifja upp síðu eitt áður en lengra yrði haldið. Líklega eini tossabekkurinn sem ég lenti í um ævina.
Í níunda bekk máttum við svo velja frönsku, en þá kallaði skólastjórinn í mig og tilkynnti mér og Glúmi að við gætum farið í námsflokkana ef við vildum. Ekki yrði haldið út kennara fyrir okkur tvö. Minnug hrakfaranna úr námsflokkunum samþykkti ég að taka eitt ár í þýsku. Sem gagnaðist mér furðuvel á ferðalaginu núna um jólin. En sannfærði mig um að þýskan öskrar ekki á mig á sama hátt og franskan gerir. Eins og Bjarni Bjarnason útskýrir þegar hann reyndi að skrifa á ensku: Hann fékk ekki blóðbragð í munninn. Eða eins og einhver metrógæi í sjónvarpinu myndi segja: Þýskan var bara ekki að gera það fyrir mig.
Það var svo loksins í MR sem hlutirnir fóru að gerast. Fyrst með Rögnu sem var alveg frábær, nýkomin heim frá Frakklandi eftir 17 ár í París og smitaði okkur stelpurnar í 3.A. af sögum af rónum og öðrum skemmtilegheitum út í eitt. La rue est grise et triste. Mais, où est Pascal? Pas de Pascal. Ragna var líklega eini kennarinn sem hélt okkur ofurgellunum tiltölulega áhugasömum án þess að vera með heraga eins og Ólöf Ben og Jón Gúmm.
Næsta ár kenndi Héðinn mér og var hann líka frábær og síðustu tvö árin Sigga franska sem var líka stórfín. Auðvitað fannst mér frönskukennararnir bestir þar sem mér fannst frönskutímarnir skemmtilegastir. Ekki má gleyma að ég var í náttúrufræðideild I sem er leiðinleg og erfið deild og alltaf var gaman að sleppa úr bekknum og hitta hina útlagana úr stærðfræðibekkjunum til að vera í frönsku uppi í fundarsal.
Þó ég hafi verið ánægð með kennarana í frönskunni leið mér nú samt dálítið eins og ég væri lent í röngu landi þegar ég kom hér fyrst á flugvöllinn, alein og nítján ára að verða tvítug.
Það tók mig rúmt ár að byrja að geta tjáð mig nokkuð örugg á frönskunni. Fyrsta rifrildið sem ég sigraði í var í bankanum mínum eftir eitt og hálft ár. Áður hafði ég stundum reynt að standa fyrir máli mínu og gegn þungu og erfiðu kerfinu en endaði alltaf á því að hlaupa út grátandi af pirringi yfir að fá mig ekki skilda.
Ég vildi óska að ég gæti heyrt í mér tala frönskuna þá.
Stundum á ég tvö „heima“. Frakkland og Ísland. Stundum líður mér eins og ég eigi hvergi heima, er með gestsaugað á Íslandi, brottflutta konan, „orðin svo frönsk“ en er svo auðvitað eilífur útlendingur hér. Næ aldrei hreimnum almennilega, er feitlagin og þannig lagað séð sátt við það, ekki í eilífum dúkkulísuleik eins og svo margar franskar konur. Er öðruvísi þar og öðruvísi hér. Ég er rifin í tvennt. En ég valdi þetta og er alls ekki að kvarta. Langaði bara að athuga hvort einhverjar útskýringar væru á þessu. Fann enga. En ég VERÐ að finna vasabókina góðu. Vonandi henti ég henni ekki.

Lifið í friði.

0 Responses to “Hvers vegna hér en ekki þar?”  1. Færðu inn athugasemd

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: