Sarpur fyrir apríl, 2005

mugison

Damn, hvað ég væri til í að fara á tónleika með Mugison og fleiri norrænum skrýtnum tónlistarmönnum 9. mai. Og get fengið miðann á 10 evrur. Á maður að skella sér?
Varð reyndar fyrir vonbrigðum þegar ég heyrði plötuna hans, ég var búin að lesa svo mikið lof um hann að ég bjóst við of miklu. Platan er fín, minnir óneitanlega á Radiohead og er ekki eins mikil uppfinning og fólk vill vera láta, finnst mér. En það er gaman og hollt að fara á tónleika. Og kannski helst að maður drífi sig þegar bræður manns og frændur eru á ferð.
Á maður að skella sér?

Lifið í friði.

help

dadadadadadadadadadadadadah
Æ, hjálpið mér, hvað heitir þetta lag aftur?
Gítarinn sem gerir svona dududuh
Eretta hann þarna dauði? Eða hinn þarna smarti? Eða hinn?

Lifið í friði.

minimalisminn

Vá, talandi um mínimalsima á Íslandi og fæ blaðið Lifun með Mogganum sama dag. Þar er af nógu að taka í þessari lífssýn eða stefnu eða tísku eða? En er til íslenskt orð? Minnstisminn?
Ég yrði voða leið heima hjá mér með ekkert dót og drasl í kringum mig. En ég skil þó að sumir telji sig þrífast betur í þessu hreina rými og allt í stíl. Þekki gott fólk sem gerir það. Sem betur fer erum við ekki öll eins. Ég ætti nú ekki annað eftir en að fara hneykslast á fólki, ég sem básúna hér skilningsríki og opinn hug út í eitt. Ha?
Og ég er hætt að vera reið út í fólk sem mér finnst á villigötum. Fékk mína útrás og þakka fyrir það. Bloggið er góð leið til útrásar.

Annars fer öll mín orka í að senda föður mínum góðar og fallegar hugsanir. Hann er á leið undir hnífinn einmitt núna.
Best að hlýða nú Emblunni minni letibloggara og hugleiða smá.

Lifið í friði.

markaðurinn

Fór á flóamarkaðinn risastóra um helgina. Með fjölskyldunni og einn gest. Sem er þekktur hér en ég þori ekki að nafngreina án hans samþykkis. Fyrirsögnin er tengill í heimasíðu markaðarins.
Þrátt fyrir rigningu er alltaf gaman að koma á fló. Þetta er svona kolaport í tíunda veldi plús öll galleríin og antíksalarnir sem okra á velsnyrtum húsgögnunum. Við vorum það snemma á ferð að söngvararnir hjá Louisette voru ekki komnir í gang. En jólaskreytingarnar voru gylltar eins og vanalega. Sumir hlutir breytast ekki og það er svo gott og þægilegt.
Við sáum fullt af alls konar litu fólki, stúlkum í magabolum og strákum í hettupeysum og körlum í kjólum en enga forríka sérvitringa í svörtum pels á Rolls Royce í þetta skiptið. Rúta gubbaði út úr sér 20 þýskum túristum meðan við biðum eftir gestinum við metróstöðina.
Við féllum fyrir arni sem var ekki í mínimalískum stíl. Til að setja hann upp hér í stofunni þyrftum við að kaupa íbúðirnar einni og tveimur hæðum neðar og brjóta niður gólf/loft upp hingað. Þessi arinn hefur líklega verið byggður fyrir kastalann sem ég fæddist í á 17. öld. Mér fannst ég kannast við hann. Hef líklega verið þvegin þarna fyrir framan og vafin í silki og lögð í vöggu. Ég vorkenni stundum íslensku nútímafólki sem aðhyllist mínimalismann. En ég er bara ég. Og þið megið alveg vera mínimalistar ef þið bara eruð ekki hrædd við skapandi listir og lifandi menningu.
Og umfram allt, munið bara að til að geta gefið flottan skít í hlutina, þarf maður að skilja þá.

Lifið í friði.

h h h

Ég bætti þremur háum í bloggaralistann minn í dag.

Annars er mín nett pirruð í dag. Á ég að láta það vaða, eða á ég bara að sitja á mér eins og ég er búin að gera alla helgina? Ég læt vaða:
Ég ÞOLI ekki þetta helvítis andskotans væl í bloggheimi um að hinar og þessar listgreinarnar séu vondar og ekki list og ég þoli ALLS EKKI hvernig fólk er með minnimáttarkennd gagnvart fínum orðum eins og menning, listrænt, menningarlegt, sköpun, ritlist, myndlist, leiklist, sjónlist, húsagerðarlist og svona mætti lengi áfram telja.
Mér finnst þetta orðið leiðinda fáránlegt snobb í fólki að kasta skít í listina og menningarlega þenkjandi fólk. Fyrst datt mér í hug afdalaháttur, en mundi svo eftir því að í sveitum og afdölum á Íslandi er mun meira af listelskandi fólki en á mölinni fyrir sunnan, ef miðað er við höfðatölu. Og þar fer fram mikil listsköpun, fólk er ekki feimið við að mála, skera í við, sauma og prjóna og dreymir um að komast á söfnin í stórborgunum í útlöndum.
Svo er þetta ofdekraða og freka Reykjavíkurpakk með einhvern óúthugsaðan skít endalaust út í list og listamenn.
Lágmenningarupphefjandi hugsunarháttur er bæði þreytandi og hættulegur. Við skulum ekki gleyma því að Göbel sagði að ef hann heyrði orðið menning, tæki hann fram skambyssuna. Enginn vill Göbel vera, né konan hans.
Ég var alveg sérlega sammála Ingólfi sem einhvern tímann sagðist ætla að gera listaverk úr rassi sínum eftir að hafa hlustað á uppskrúfaða listamenn í útvarpinu. Ég geri mér grein fyrir því að ég er frekar laus við svoleiðis kjaftæði þar sem ég hlusta yfirleitt lítið á útvarp og horfi lítið á sjónvarp. Ég vel mér hverja ég hlusta á, horfi á og les og ég nýt allra lista upp að ákveðnu marki. Ég gæti ekki lifað án bóka, mynda, ljóða, ljósmynda, fallegra húsa, safna, bókasafna, gosbrunna, styttanna í görðunum, blómanna og barnanna og ekkert af þessu gæti lifað án alls hins.
Ímyndum okkur að allir haldi áfram að klifa á þessu að list og listræna sé viðbjóður. Smátt og smátt verður eina myndlistin auglýsingar og eina ritlistin augýsingatengdar greinar í fréttadulargerfi í auglýsingapésum. Ímyndum okkur heiminn án ljóða Megasar og mynda Picasso.
Vörum okkur á því að gera lítið úr listsköpun. Skoðum okkur frekar um með opinn huga og pælum í því hvað er í gangi. Fullt af listsköpuninni er hálfgert rusl, en tíminn vinsar þetta rusl út, höfum engar áhyggjur af því. Málið er að af ruslahaugum vaxa oft fögur blóm. Og hvers virði er fagurt blóm?

Lifið í friði.

verð og gildi

Um daginn las ég einhvers staðar hugleiðingu út frá bókamarkaðnum þar sem einhver fáraðist yfir því að bók Vigdísar Grímsdóttur, Þögnin, hefði bara kostað 300 krónur. Það þótti ritaranum ekki við hæfi, þar sem Þögnin væri svo frábært verk, þetta var einhvers konar lítilsvirðing. Ég las nú Þögnina á sínum tíma og þótti hún sæmileg, Vigdís hefur aldrei náð að toppa Kaldaljós í mínum huga og það truflar mig alltaf við lestur bóka hennar. En það er ekki málið. Málið er enn og aftur verðgildi lista og menningar. Oft hefur verið grínast með að verðleggja myndlist í fermetrum. Á að verðleggja bækur í orðum? Og kannski gefa hverju orði ákveðið mörg stig, svipað og stafastigin í Scrabble?
Þá gæti miðinn utan á bókinni á bókamarkaðnum verið: Vigdís notaði frekar dýr orð um alla bók, bókin er svo og svo mörg orð, svo bókin getur aldrei farið undir 3000 krónur. Þetta er besta verðið sem hægt er að bjóða.
Mér hefur alltaf leiðst þessi óþarfa (að mínu viti) umræða um verðgildi listarinnar. Þetta er vonlaus umræða af þeirri einföldu ástæðu að peningar eru bara svo ómerkilegur hlutur að það er aldrei hægt að jafna þeim við listsköpun. Þetta virðist fólk ekki vilja skilja, þó allir hafi skilið og samþykki nokkuð auðveldlega að ekki er hægt að mæla ást eða mannslíf í peningum. Það er í raun fátt sem raunverulega er hægt að mæla í peningum. Afar fátt. Verðgildi er afstætt hugtak þó krónan, dollarinn og jenið séu það kannski ekki.
Ef ég væri Vigdís Grímsdóttir og lallaði mér á bókamarkað og sæi að bókin mín fengist þar á 300 krónur myndi ég gleðjast yfir því. Fleiri munu nú skella sér á eintak, fólk sem hikaði mun nú láta verða af því að lesa bókina. Og það hlýtur að vera megintilgangur skrifa Vigdísar. Ég held a.m.k. ekki að hún velji orð eftir stigum úr stigatöflu eða geri bókina langa til að hún verði seld dýrara verði.
Ég held að flestir listamenn séu langþreyttir á þeirri staðreynd að til að lifa þurfi pening. Það truflar listsköpun og í raun er það alveg hreint ótrúlegt hvað listin nær þó að lifa og þrífast í kapítalísku þjóðfélagi. Það er eingöngu hugsjónafólki að þakka.

Einn góðan veðurdag hverfur peningurinn úr heimsmyndinni. Það mun gerast fyrr en síðar. Það byrjar í hugum okkar jarðarbúa.
Þið megið kalla mig draumóramann. En ég er ekki ein. Einn daginn munið þið ganga í lið með mér. Og heimurinn verður ein heild.

Lifið í friði.

og ég hef gaman að því

Kannski vann ég sjö milljónir evra í risalottó um daginn. Kannski. Hver veit. Maðurinn minn segir að þar sem fimm vikur eru liðnar frá drætti, væru þeir farnir að auglýsa eftir ósóttum risavinningi. En ég trúi honum ekki. Trúi því frekar að ég eigi sjö milljón evrur á lottóskrifstofunni. Viltu vera vinur minn?

En meðan ég bíð eftir péningnum verð ég að taka þá vinnu sem býðst. Nú er ég að þýða bækling með afar tæknilegum lýsingum. Á flakki um netið í leit að svipuðum lýsingum datt ég niður á þetta:

Nemendum er kennt að öðlast sjálfstæði í mótun blautbylgna og mismunandi upprúlli með klípum ásamt úrgreiðslu.

Jáh, tæknimál lætur ekki að sér hæða.
Af hverju fór ég ekki í hárgreiðslu? Af hverju förum við ekki öll í hárgreiðslu? Er ekki gott að vera einstaklingur með sjálfstæði í mótun blautbylgna? Væri Ísland kannski betra land ef við værum öll klár í úrgreiðslu blautbylgna? Við skulum a.m.k. öll bera virðingu fyrir hárgreiðslufólki. Þau hafa þetta sjálfstæði.

Lifið í friði.

la vie

lífið er lotterí

Lifið í friði.

of gott

til að vera satt. Þetta fann ég hjá Hugleir sem ég kalla ryksjúgandi fótboltamann (og hann prjónar líka). Fyrirsögnin er tengill. Þetta er tært gaman. Ég veit ekki hvað ég hef oft dansað (ef dansa skyldi kalla – frekar svona fúskað við dans) við þetta lag án þess að hafa nokkrun tímann vitað um hvað það fjallaði. Njótið.

Lifið í friði.

í gær

Í gær horfði ég á hádegisfréttir bara af því ég hafði frétt af þessum hörmulega bruna. Hádegisfréttirnar slógu mig algerlega út af laginu og dagurinn fór allur í vaskinn.
Fyrst gleymdi ég að taka upp þátt fyrir manninn minn. Svo gleymdi ég bóluefnunum sem átti að sprauta börnin mín með, mundi það eftir tíu mínútna bið hjá lækninum og rauk út og heim og náði í efnin (með tilheyrandi veseni við að binda börnin í bílinn og allt það). Læknirinn hundskammaði mig því hún átti efnin í ísskáp og hefði getað lánað mér og nú væri seinkun á öllum tímum. Það rigndi eldi og brennisteini þegar við komum út frá henni svo við urðum að hafa drekkutímann í bílnum og Sólrún steig í stóran poll. Svo fórum við að skoða málningu í Byko og Kári varð að litlu skrímsli. Þarna var virkilega kominn tími fyrir mig til að hlaupa á brott og læsa mig inni á baðherbergi einhvers staðar með heitu vatni og ilmsöltum. En ég hafði það af að binda Kára niður í kerru og láta sem ég heyrði ekki í honum og ná tali af málningarsölumanni og fá þær upplýsingar sem ég þurfti. Ég þurfti vitanlega líka að láta sem ég sæi ekki undarlegan svip mannsins sem horfði stöðugt á Kára meðan hann gaf mér upplýsingarnar. Svo fórum við í garðinn sem var allur eitt drullusvað eftir rigninguna en sólin skein svo það skipti ekki máli þó við litum öll út eins og motocross-lið eftir smá rólur og rennibraut.
Svo komum við heim og ég fór að ruslatunnunum með leifarnar af drekkutímanum (fyrir utan alla mylsnuna sem þarf að ryksuga einn góðan) og henti bíllyklunum með ofan í næstum því tóma tunnu. Þá hafði ég val um að leggjast niður á stéttina og gráta eða fara að hlægja. Sem betur fer tókst mér að velja síðari kostinn og kafaði flissandi ofan í ilmandi tunnuna undir undarlegu augnaráði konu sem var að elda með opinn gluggann. Ég bauð henni tíuþúsundkall fyrir kvöldmatinn en hún sagði að hann væri ekki til sölu. Sendi kallinn út eftir kínverskum teikavei því það kemur ekki til mála að elda eftir svona hrakfarir, nennti ekki að taka þá áhættu að borða brennt eða skemmt.
Sofnaði klukkan tíu.
Ég ætla aldrei að horfa aftur á hádegisfréttir. ALDREI.

Lifið í friði.


Nýlegar athugasemdir

parisardaman um Kveðja
Margrét H um Kveðja
koparskál um Tau frá Tógó
Elín Kjartansdóttir um rafmögnuð kona
juliann um agnetha