Sarpur fyrir júní, 2005

mikki er refur

Hér mætir Mikki sjá
með mjóa kló á tá
og mjúkan pels
og merkissvip sem mektarbokkar fá…

En þar sem þeir vilja ekki samþykkja notendanafnið mitt og leyninúmerið sem ég er sannfærð um að ég hafi stofnað, get ég ekki breytt listanum ennþá.
Ég skil samt núna þetta með user og allt það, takk fyrir hjálpina farfugl.

Þetta blogg er farið að vera dálítið þreytandi, eins og alltaf gerist þegar maður er að bæta við sig tækninýjungum, þá snýst allt í kringum það og það eitt.
Ég er afskaplega mikill kleyfhugi varðandi tækni. Mig klæjar í fingurna í tækjabúðum og langar í allt. Mig langar í skanna/prentara/ljósritunarvél. Mig langar í vefmyndavél. Mig langar að geta sett myndir inn á þessa síðu og tengla í gríð og erg eins og hinir kláru bloggararnir en einhverra hluta vegna er ég með gamla tölvu sem fáir skilja og get ekki gert þessa einföldu flóknu hluti sem hinir gera, að því er virðist, áreynslulaust.
Og ég er eiginlega alveg sátt við það líka. Þess vegna hefur það ekki breyst. Þ.e.a.s. ég pirra mig á því meðan á stendur en þess á milli truflar það mig ekki neitt að vera gamaldags. Sem ég er að svo miklu leyti. Glötuð í tónlist, glötuð í bíó, glötuð að fylgjast með. Og er sama. En samt ekki.

Ég játaði gamalt partýtrikk á athugasemdakerfi Þórdísar kaldlyndu í gær. Ég stundaði það reglulega að slá því fram að Ísland ætti að verða ríki í USA. Það olli alltaf miklu fjaðrafoki og illdeilum sem ég hafði gaman að.
Annað partítrikk sem er mjög gott fyrir athyglissjúka einstaklinga eins og mig er að kunna að syngja Mikka ref. Það eru til nokkrar góðar myndir af mér að taka hann með trukki og dýfu. Svo notaði ég hann mikið á dóttur mína þegar hún grét lengi. Það róaði hana. Mikki blífur bæði á börn og fullorðna.

Eiginlega nenni ég ekki að blogga enda er ég ein heima og ætla að mála dúkkuhúsið sem ég minntist á að ég væri að gera fyrir nokkrum mánuðum en hefur síðan þá staðið fokhelt inni í barnaherbergi.

Lifið í friði.

meiri tenglar

Ég er frekar dugleg að bæta tenglum þeirra sem ég les í tenglasafnið mitt. Þó eru nokkrir bloggarar sem ég hef stolist til að lesa við og við án þess að tengja inn hjá mér. Meðal þeirra er Ásta Svavars sem ég skemmti mér konunglega við að lesa einhvern tímann í vor þegar Rýnirinn ógurlegi tók hana „í gegn“. Þá fann ég lag eftir nemendur hennar um Jón Sigurðsson sem er púra snilld. Ég komst svo aldrei inn í það aftur til að setja tengil og varð eitthvað pirruð. Hins vegar les ég hana stundum. Nú ber svo við að stúlkan var í París á dögunum og kom ekki í ferð með mér. Hm. Frekar móðguð, en hún bætir það upp með frábærri ferðasögu og skemmtilegum myndum. Fyrir þetta fær hún tengil hjá mér.
Svo bætti ég líka Huxy við, hana kíki ég stundum á þegar ég er í mikilli lesþörf. Ég held að kannski þekki ég hana, eða kannist við hana öllu heldur, en er ekki alveg viss.
Að lokum bætti ég hinu ofurmenningarlega bloggi Norðanáttarinnar við. Ég er alfarið á móti helmingnum af því sem Tóta pönk skrifar í bloggráðum sínum. Ég bara nenni ómögulega að telja það upp núna sem mér finnst misskilningur á blogginu hja henni, en það sem ég þoli alls ekki í bloggheiminum íslenska sem er, nota bene, ennþá minni en Ísland sjálft þannig að þið getið rétt ímyndað ykkur hvað hann er lítill, er þetta skjallbandalagsfyrirbrigði. En mér finnst HS samt nokkuð glúrinn og skemmtilegur og því allt í lagi að bæta honum við.
Það mætti koma fram að ég fann söguna hennar Ástu í gegnum mikkalistann hennar Farfugls sem hún er búin að bæta glæsilega við á síðuna sína. Mig langar líka í svona. Hvernig gerir maður?

Lifið í friði.

heilagur andi

Ég skil að kaþólska kirkjan skilur hvers vegna það kæmi betur út markaðslega að hliðra aðeins reglunum og drífa Jóhannes Pál 2. heitinn í heilagra manna tölu meðan hann er enn á vinsældarlistum. Það er nefninlega hætt við því að eftir fimm ár fengi atburðurinn mun minna pláss í sjónvarpi og öðrum fjölmiðlum.
Þetta skil ég. Einföld markaðsprumpfræði.
En hvers vegna engu má hliðra eða hnika í sambandi við smokka, konur eða samkynhneigða, það skil ég ekki.
Angurvær svipurinn þegar þeir segjast bara því miður ekki geta boðað notkun smokksins, og að ekki sé mögulegt fyrir óbreytta að skilja hvers vegna veldur mér ógleði og mig kitlar í rassinn, svo mikið langar mig að sparka í sjónvarpið þegar ég horfi á þá. Skúrkar og viðbjóður. Í nafni föður, sonar og heilags anda.

Lifið í friði.

VARÚÐ: ofurpólitískar hugleiðingar á sunnudegi

Ég minni aftur á tónleikana í kvöld og auðvitað á útkomu bókarinnar UM ANARKISMA sem tónleikarnir eru að kynna. Það er mjög hollt og gott að lesa um anarkisma. Og það er mjög gott að lesa um hluti á sínu eigin tungumáli, það skýrir oft margt sem áður var óljóst. Ég er viss um að vinstrisinnaða fólkið sem ég geri ráð fyrir að sé meirihluti gesta þessarar síðu verður hissa að sjá hvað margt í anarkismanum höfðar til þeirra. Anarkisminn er kannski nostalgísk hugmynd, en eru ekki öll vinstri hugmyndakerfin hálfgerð nostalgía í þessum ofurkapítalíska heimi sem við lifum í?
Ég varð svo glöð í Versölum um daginn. Var þar með (h)eldri konur sem urðu svo hissa þegar ég, „svona ung“ þekkti orðið SIGÐ. Það kom til umræðu því að verkamennirnir í Versalagörðunum nota sigð með löngu skafti til að snyrta trén. Ég sagði þeim að auðvitað þekktu allir kommúnistar sigðina og þá sló sú eldri sér á lær af gleði og sagðist líka vera mikill kommúnisti. Þetta var falleg stund sem við konurnar áttum þarna í litla golfbílnum í ofurvelsnyrtum görðum eins mesta valdaskúrks sögunnar.
Það er erfitt að játa á sig kommúnismann í dag. Erfitt að útskýra fyrir fólki sem lokar eyrunum og dregur upp Stalín og Rússland og skýlir sig á bak við það og neitar að hlusta á að mögulega gæti kommúnisminn verið góð lausn fyrir t.d. lítið en gjöfult land eins og Ísland.
Við náðum saman í að ímynda okkur fagurt samfélag fólks sem hefði tekist að losa sig við valdagræðgi og deildi með sér auðævunum og að allir lifðu í vellystingum, andlegum, félagslegum og jarðlegum. Falleg stund. Kveikti vonarljós í hjarta mínu.
Kommúnismi, anarkismi, sósíalismi, lausnin er þarna einhvers staðar. Það sem þarf að gerast er að fólk fái nóg af því að vera þrælar peningakerfisins, fái nóg að því að fylla húsin sín af drasli, fái nóg af því að vera með samviskubit því það veit að á hverju ári eykst tala þeirra sem leita til hjálparstofnana um leið og fleiri og fleiri komast inn á einhverja undarlega lista yfir ákveðið ríka einstaklinga. Miðstéttin er með nagandi samviskubit yfir húsinu sem þeir eiga lítið sem ekkert í, bílnum sem Glitnir á, sófasettinu sem á eftir að borga síðustu greiðsluna af, græjunum sem það veit að verður ekki hægt að gera við þegar þær bila því það hentar framleiðendum mun betur að pína fíklana til að kaupa nýtt… klisjur og aftur klisjur… ég veit það en stundum verð ég bara að koma þessu út úr höfðinu á mér.

Ég veit að einn daginn verður hvorki helvíti né paradís. Hvorki austur né vestur. Hvorki ríkir né fátækir. Ég veit að einn daginn mun saga aldanna verða skoðuð af fólki sem þekkir ekkert annað en jafnrétti og samlyndi og mun furða sig á þessu undarlega kerfi sem forfeður þeirra lifðu við og sættu sig við. Ég veit. Veist þú?

Lifið í friði.

Ferðamálaráð Póllands í Frakklandi strikes back

Þetta heitir líklega að snúa vörn í sókn. Ég hafði ekki hugmynd um að Pólverjar hefðu húmor en alltaf lærir maður eitthvað nýtt. Fyrirsögnin er tengill í það sem ég er að tala um. Myndin talar sínu máli og tengist þetta umræðum um ódýra pólska pípulagingarmenn sem mikið var rætt um í tengslum við stjórnarskrá Evrópusambandsins.

Annars er það að frétta að dóttir mín er lent á Íslandi í rigningu og að ég var í aðalblaðinu í dag. Ferðabransinn er að glæðast hægt og rólega, sem hentar vel í hitanum. Hef fengið ljúft og gott fólk að hugsa um í vikunni. Það er gaman.

Lifið í friði.

sveitt leti

Maður verður ekkert smá latur í svona hita. Og þar sem það er brjálað að gera, er maður enn latari við að blogga. Ég er að undirbúa brottför dóttur minnar, hún ætlar að vera í 10 daga á skerinu hjá fjölskyldunni sinni í Norðri. Mér líður eins og það sé verið að rífa af mér handlegginn einmitt núna. Eða að draga eigi úr mér allar tennurnar. Ég veit að hún á eftir að eiga góðar stundir hjá fordekrandi afa og ömmu. Og rifist er um að fá að fara með hana í húsdýragarða og sund. Ég veit að það er erfitt fyrir hana að vera alltaf hérna með okkur. Samt finnst mér þetta fáránlega erfitt. Skammast mín hálfpartinn.
Lifið í friði.

sólstöður

Lengsti dagurinn í dag. Til hamingju með það, njótið vel.

Fête de la musique hér í Frakklandi. Tónlist út um allt. Og þeir sem ekki kunna eða vilja spila eiga að dansa, stappa og klappa með. Fínt partý en ég ætla að láta mér litlu dagskrána hér í Copavogure duga því ég nenni ekki niður í miðbæ ein með börnin. Það væri óðs manns æði.

Er það satt að Halldór talaði um að ekki ætti að tala um það neikvæða í þjóðfélaginu á 17. júní? Minnir mig ógurlega á það þegar Björn Bj. þá nýskipaður menntamálaráðherra sló á putta blaðamanns Mbl. fyrir að bera upp spurningar varðandi vandamál menntakerfisins. Honum fannst hreinn óþarfi að vera með barlóm og svartsýni. Það væri nú svo margt gott líka.
Og þetta hrokafulla lið kjósið þið yfir ykkur aftur og aftur!

Lifið í friði.

allir á tónleika

Í tilefni ef útkomu bókarinnar „UM ANARKISMA“ – fyrsta íslenskaða
anarkistaritsins- koma eftirfarandi pönk- og rokksveitir saman á
tónleikum sunnudaginn 26. Júní.

INNVORTIS
FIGHTING SHIT
MYRA
MAMMÚT
SVAVAR KNÚTUR
GAVIN PORTLAND
VIÐURSTYGGÐ
TRANSSEXUAL DAYCARE

TÓNLISTARÞRÓUNARMIÐSTÖÐINNI (Hólmaslóð 2)
500 kr
18.00-22.00
EKKERT ALDURSTAKMARK

Aðgangseyrir rennur til stuðnings útgáfunni og tónlistarþróunarmiðstöðinni.
Bókin verður auðvitað til sölu á staðnum.

Góða skemmtun.

Ef ég gæti, færi ég hiklaust. Lifið í friði.

mikki vefur refur?

Ég ætlaði að hlýða mafíudrottningunni ógurlegu og skrá mig hjá Mikka vef. Þá kemur í ljós að ég er komin þar inn sem Kristín Jónsdóttir. Ég man einmitt eftir því að þegar ég var að setja parisardaman.com inn og var að fylgjast með hvernig hún „gúgglaðist“, kom einhvern tímann þessi undarlegi mikki vefur upp. Ég reyndi eitthvað að eltast við hann en skildi ekkert í þessu og gafst upp. Ég veit ekki hver skráði mig, en þannig er það nú.
Þetta stemmir við annan skrýtinn atburð sem ég hef lent í, ungur maður gekk að mér á bar í Reykjavík og tilkynnti mér að ég væri fræg, þar sem ég bloggaði. Að hann þekkti mig og að mjög margir þekktu mig. Mér fannst þetta frekar óþægilegt, sérstaklega þar sem mér fannst maðurinn hálf agressífur í fasi. En ég var reyndar búin að fá mér aðeins í tána og lætin voru mjög mikil inni á þessum stað svo ég ákvað að vera ekki með ofsóknarbrjálæðisímyndanir. Hm.
En nú getið þið öll sett mig á vinsældarlistann ykkar hjá mikka. Ekki ætla ég að vera að gera mál úr því að vera á honum án þess að hafa beðið um það, þar sem Hildigunnur staðhæfir að þetta séu eingöngu plúsar, engir mínusar. En ég verð samt að játa að mér finnst þetta skrýtið og ég er afskaplega lítið fyrir að vera á listum, er með ofsóknarbrjálæðisfóbíu gagnvart því. Fæ mér aldrei viðskiptakort í búðum eða annað slíkt því ég vil forðast að vera númer.

Annars er aðallega það að frétta að hér er 30 stiga hiti eða meira og sól. Frekar ólíft og loftlaust en ég er þó alsæl. Sólrún er það líka, en Kári er frekar svona pirraður og þungur á brún enda er hann 100% víkingur og verður líklega að moka tröppurnar fyrir afa og ömmu á stuttermabolnum jólin 2015.

Jæja gæskurnar mínar. Ég ætla upp í rúm með Donnu Tartt á meðan börnin sofa sveitt og þreytt. Ekki séns að ég fari að taka til eða annað slíkt í svona hita.

Lifið í friði.

öryggismyndavélasjónvarp

Ég fékk skemmtilegt símtal í morgun. Svar við atvinnuumsókn. Sjaldgæft að fá slíkt. En það voru lílega ekki margir umsækjendur. Það á að gera þátt um íslenskt sjónvarp í þáttaröð um útlensk sjónvörp. Maðurinn sem ég talaði við var þess fullviss að til væri sjónvarpsstöð á Íslandi sem sýndi beint frá eftirlitsmyndavélum borgarinnar. Er þetta satt?
Ég vann einu sinni örlítið fyrir dreng sem gerði stuttmynd um þetta. Hann er franskur og gerði falska heimildarmynd um að svona væri þetta á Íslandi. Fín mynd og fékk verðlaun og allt. En hann tók það fram í enda myndarinnar að allt væri lygi nema stóru hlerunarbelgirnir sem eru nálægt Flugstöðinni í Keflavík. Leifsstöð minnir mig að sá flugvöllur heiti.
Nú spyr ég ykkur bloggarar og sjónvarpsgláparar með meiru: Er tökum úr eftirlitsmyndavélum sjónvarpað á hertzbylgjum á Íslandi? Þetta er alvöru spurning og ég verð að fá alvöru svar.
Varðandi fjölda annarra sjónvarpsstöðva og hlutfalls milli erlends og innlends efni gekk ég auðveldlega í heimildir um það, þökk sé fjölmiðlafrumprumpinu sem gerði allt vitlaust í hænsakofanum fyrir nokkrum mánuðum. Skýrslan er mjög auðlæsileg, stutt og laggóð og fyrirsögnin er tengill í hana. Skemmtið ykkur konunglega!

En spurningin þarfnast svars, þó margt annað í þessari færslu sé grín.

Lifið í friði.


Nýlegar athugasemdir

parisardaman um Kveðja
Margrét H um Kveðja
koparskál um Tau frá Tógó
Elín Kjartansdóttir um rafmögnuð kona
juliann um agnetha