Sarpur fyrir júlí, 2005

sveitaferð á svartri helgi

Samkvæmt sjónvarpsfréttum er þessi helgi „svört“ umferðarlega séð. Þ.e.a.s. að allir eru að rjúka í frí og leggja allir snemma af stað til að vera á undan hinum en það mistekst því allir gera það sama og hnútarnir út úr borgunum verða margir tugir kílómetra.
Við verðandi ógurlegar bissnesskonur ætlum nú samt að rjúka upp í sveit eftir göngutúrinn minn. Þá getum við, þökk sé Alnetinu, skoðað hvernig liggur í málum á vegunum og valið skástu leiðina.
Við verðum báðar með strákana okkar litlu svo við gerum ekki beint ráð fyrir að koma miklu í verk málningarlega séð. En ég ætla að taka fleiri myndir og svo LOFA ég að koma þeim inn á netið fljótlega eftir heimkomu.

Ég er að spá í því hversu margir skyldu lesa þessa síðu. Fékk nefninlega upplýsingar um fjölda þeirra sem skoðuðu myndasíðuna mína vikuna sem ég auglýsti hana hér: 1278 manns! Er þó ekki viss hvort talið sé hver mynd skoðuð sem fækkar þessu. En þetta fannst mér óhugnaleg tala. Ég veit ekki hvort ég er að skrifa hérna fyrir einhvern annan en mig og kannski örfáa dygga lesendur sem ég „þekki“ úr athugasemdakerfinu og af þeirra bloggum. Hverjir eru þá allir hinir? Og á ég að passa mig betur, ritskoða mig meira, skrifa minna um… eitthvað? Ha? En mig langar eiginlega ekki í teljara, hefur alltaf fundist dálítið spennandi að vita ekki nákvæmlega hversu margir koma hér inn.

En eitt er víst að í símalausri sveitinni verður ekkert bloggað. Ekkert.

Vona að svarta íslenska helgin heppnist vel og að veðurguðir séu góðir við tjaldbúa um landið allt.

Lifið í friði.

vestræn mildi

Mér finnst gaman að lesa hugleiðingar nokkurra bloggara um vestræn gildi. Þetta hugtak fer ógurlega í taugarnar á mér, mér finnst það yfirlætislegt og dæmin sanna að hugtakið er misnotað og að auðvelt er að gera það í skjóli þess hversu óljóst það er hvað hugtakið þýðir í raun og veru.
Ég hef séð talað um fjögur gildi: Tjáningarfrelsi, kvenfrelsi, lýðfrelsi og æ, núna verð ég að fara og kíkja, best að sjá þetta hjá Varríusi (enginn tengill enn hjá mér, sorrí, þið finnið hann í gegnum Gvendarbrunn). Jahá, fyndið að ég skyldi gleyma blessuðu trúfrelsinu. (Það er annars gaman að lesa Varríus stundum, set tengil á hann við tækifæri).
Þið munuð segja mér að allt í heiminum hafi gloppur, að ekkert sé gersamlega skothelt, að alltaf sé hægt að horfa á það neikvæða og kannski eitthvað fleira, en mér finnst það algerlega óþolandi að við skulum halda það að við búum við þessi fjögur frelsi hér fyrir vestan. (Ég ætla að leyfa mér það að tala um frelsi í fleirtölu hér, það undirstrikar skömmina sem ég hef á þessu húmbúkki).
Tjáningarfrelsi: Í Frakklandi ríkir víst tjáningarfrelsi. Það má samt ekki gefa út Mein Kampf eftir Adolf heitinn Hitler. Það ríkir því tjáningarfrelsi með ákveðnum hömlum. Settum af kerfiskörlum sem ákveða að eitthvað sé of ljótt til að okkur sé treystandi fyrir að lesa það. Ég er alfarið á móti svona hömlum, ég hef engan sérstakan áhuga á að lesa Mein Kampf en mér finnst að mér eigi að vera það frjálst, ég tel mig fullfæra um að dæma sjálf hvort ég sé að lesa skít eða ekki.
Kvenfrelsi: Þarf að segja eitthvað. Dómurinn sem féll í Keflavík fyrir nokkru, þar sem maður fékk mildaðan dóm fyrir að berja konuna sína af því hún hafði verið svo LEIÐINLEG við hann, dugði til að afhjúpa það sem við konur höfum svo sem alltaf vitað. Það ríkir kvenfrelsi upp að vissu marki, með ákveðnum hömlum, settum af kerfiskörlum eins og öll önnur frelsi sem við teljum okkur búa við.
Lýðfrelsi: hvað í fjáranum er það eiginlega?
Trúfrelsi: Tja, ég get svo sem samþykkt það að við á Íslandi megum alveg trúa á það sem við viljum, en það er nú alltaf dálítið fyndið að fylgjast með málum Þjóðkirkjunnar og ofurvaldinu sem hún virðist hafa á ákveðnum sviðum. Og ég vildi óska þess að maður eins og t.d. Egill Helgason eða einhver annar vinsæll persónuleiki snerist skyndilega til íslamskrar trúar. Sjá andlitið detta af þessu skilningsríka trúfrelsisfólki sem byggir Ísland.

Voilà, þetta er stytt útgáfa af pistlinum sem ég hugsaði upp meðan ég keyrði um París á flutningabíl í morgun. Nenni ekki að hafa hann lengri því dagurinn er orðinn nógu langur samt.

Svo vil ég koma því á framfæri að mér finnst GÁFUMAÐUR og GÁFAÐUR MAÐUR ekki vera skammaryrði. Er það satt sem var haldið fram á athugasemdakerfi Varríusar að á Íslandi væri þetta orðið skammaryrði? Það þykir mér leitt að heyra. Vantar gáfumenn og mikið af þeim (og nú finnst mér ég verða að minna enn og aftur á að konur eru líka menn).

Lifið í friði.

úthýst

Mér virðist hafa verið úthýst úr athugasemdakerfum margra, m.a. mínu eigin. Nærri því alls staðar kemur FAILED eða eitthvað álíka skemmtilegt.
Ekki það að ég hafi neitt ákaflega merkilegt að athuga við annarra manna gáfutal.
Mér finnst reyndar athugasemdakerfisárásir á bloggsíðu Ágústs Borgþórs vera magna fyrirbrigði. Ég myndi ekki láta mig dreyma um að skilja eftir athugasemd hjá honum af hræðslu við að þetta „fólk“ finni þá slóðina mína. Hann er víst búinn að hreinsa megnið af þessu út þannig að þið getið kannski ekki séð neitt djúsí hjá honum núna.
En ef þið eruð búin að lesa Potter og langar að skemmta ykkur getið þið farið inn hjá Gvendarbrunni og þaðan yfir á Varríus og séð ýmsar skemmtilegar útfærslur á lokasenunni.

Við verðum að skemmta okkur konunglega í þessum ömurlega skítaheimi eða leggjast niður og deyja. Ódýr hugmynd að sjálfsmorði sem tryggir þér myndbirtingu á forsíðum dagblaða um allan heim og minningarathafnir og grát og gnístran tanna: Einn bakpoki: 1500kr, skósverta 800kr, miði til London með Iceland Express á tilboði aðra leiðina: 5000kr. Mála sig í framan með skósvertunni á flugvellinum. Svindla sér í almenningssamgöngur niður í bæ og alls ekki stoppa, hver sem býður ykkur það. Munið að skrifa kveðjubréfið áður en þið stígið á breska jörð, maður veit aldrei…

Lifið í friði.

ekki bend’á mig

Ég er næstum sannfærð um að lögreglan í London beið eftir tækifæri til að taka eitthvert hentugt fórnarlamb af lífi til viðvörunar öllum þeim sem gæti dottið í hug að vera með hrekki í taugaveikluðu andrúmslofti borgarinnar.
Mér finnst þetta hryllilegur atburður, alveg jafn ömurlegt að hugsa til ættingja þessa drengs eins og ættingja þeirra sem létu lífið í sprengingum hryðjuverkamannanna. Alveg eins og mér finnst ömurlegt að hugsa til fólksins í Írak sem á um sárt að binda vegna vina- og ættingjamissis. Og alls staðar annars staðar.
Mér finnst það hneisa að íslensk stjórnvöld standi ekki með Íslendingum sem berjast fyrir réttindum arabanna í Palestínu.
Mér finnst rigningin ekki góð.
Mér þykir leitt að geta ekki hlustað á RÚV, hafa aldrei heyrt í gryllhorninu sem er víst að ljúka, að geta ekki hlustað á Sigga pönk lesa úr pistlum sínum í ágúst, að heyra ekki í Næturverðinum…
Mér finnst lífið svo skrýtið því maður fyllist vonleysi og harmi á einni sekúndunni og svo á hinni næstu byrjar maður að plana kvöldmatinn og vorkenna sér yfir smáræði eins og skorti á RÚV sem maður hefur verið án í öll þessi ár í útlöndum.
Mér finnst lífið svo undarlegt. Næ ekki alveg að höndla það hver tilgangurinn er. Held bara ótrauð áfram og er reið og sár en um leið mjög hamingjusöm og meðvituð um eigin lán og lukku.
Ég er fordekraður og feitur Vesturlandabúi. Það er ekki beint mér að kenna. Ég er frekar svona góðhjörtuð og er á móti kapítalismanum og reyni að boða frið á jörð. Ég gef fátækum fyrir mat og brennivíni, stundum. Ég reyni að ala börnin mín upp í því að vera góð og kurteis og meðvituð um mikilvægi þess að vernda jörðina okkar.
Djöfull er ég leiðinleg maður! Ferlega er stutt á milli þess að vera almennileg manneskja og þess að vera lýðskrumari, demagó, óþolandi ánægð með sjálfa sig haldandi það að maður sé eitthvað gott afl fyrir heiminn. Auðvelt að benda á þá sem hafa fordóma, fordóma gagnvart dökku fólki, gagnvart trúarbrögðum sem það þekkir ekki, gagnvart þjóðfélagshópum, gagnvart minnimáttar. Auðvelt að þykjast vera laus við þetta, þykjast geta tekið allan heiminn í faðm sinn og því með afsökun fyrir því að lifa góðu lífi. Hafa alltaf val um hvað á að vera í kvöldmatinn. Vera jafnvel fúll yfir að hafa ekki efni á að panta alltaf pitsu, eins og það sé spurning um mannréttindi.
Vá, ég er svo týnd. Sorgmædd og glöð. Fegin og leið.

Lifið í friði.

ung gröð og rík

með fullt af seðlum, hún var ung, gröð og rík…

Ég vil fá hana strax og ekkert ástarkjaftæð’eða rómantík hér,
ég vil fá hana strax.
Hún er veik fyrir mér og sérhver heilvita maður með augu það sér,
hún er veik fyrir mér…

Feitar konur unna mér í tonnavís
feitar konur síst af öllum konum kýs
feitar konur framar öllum vonum,
ég er ofsóttur af feitum konum…

Ég er mikið partýljón og fer oft síðust heim, en ég reyni samt að forðast allar risastórar samkomur, sérstaklega ef drykkja áfengis tengist þeim. Mér finnst vont og ljótt að sjá of margt fólk of fullt samankomið á einum stað.
Eina bestu Verslunarmannahelgi sem ég hef átt var ég að vinna á Kleppi og fór í bíó og á bar á kvöldin í rólegheitum með úrvalsfólki, þeim sem voru verslunarmenn og fengu því ekki frí, eða sérvitringum sem fara aldrei í tjald. Það var góð helgi.
Önnur góð var fámenn tjaldferð í Landmannalaugar með fín vín og góðar steikur og fokdýra osta. Lúxushelgi.
Ég fæ óbragð í munninn af því að hugsa um rigningarhelgina miklu í Þjórsárdalnum forðum. Þá vorum við vinkonurnar nú glaðar að sjá mömmu og pabba koma sólarhring fyrr að sækja okkur en um var samið. Þó við sætum vissulega í bílnum með ákveðinn fýlusvip til að þau fyndu nú áreiðanlega ekki hvað við vorum ánægðar. Og svo fórum við að sjá Bowie tónleikamynd í Regnboganum um kvöldið og það voru u.þ.b. átta manns í salnum og við settumst öll saman á annan eða þriðja bekk og sungum með. Það var góður endir á vondri helgi.

Eru íslensk popplög ennþá svona déskoti andfemínísk?

Lifið í friði.

illvirkjun

Eins og vanalega er fyrirsögnin tengill. Í þetta sinn er um að ræða vörur til styrktar hópnum sem vill stöðva framkvæmdir og illvirkjanir á hálendi Íslands.
Ég ætla að fá mér grænan stelpubol. Af því að ég er stelpa. Kannski eitthvað fleira.

Lifið í friði.

vonandi óþarfa áhyggjur

Af því ég er eins og ég er, þá er ég strax komin með áhyggjur af því að þeir sem ég álít tvíburana frægu úr MS, séu kannski ekki þeir. Ég hef nefninlega brennt mig á því áður að draga rangar ályktanir af nöfnum fólks. Get ég fengið staðfestingu frá einhverjum Íslending á Íslandi sem fylgist grannt með undarlegu og áberandi gáfufólki? Og eruð þið svo ekki sammála mér um að þetta nafnakerfi okkar er ómögulegt? Ég meina, það er ekkert grín að heita Kristín Jónsdóttir og eiga u.þ.b. þúsund alnöfnur og sjá reglulega nafnið sitt á síðum dánartilkynninga og minningargreina.

Mugison, kórinn, tvíburarnir og aftakan.

Voðalegur bloggþurrkur einhvern veginn alls staðar. Og ekki get ég enn hlustað á útvarpið í skrýtnu tölvunni minni. Fór að skoða mýs í tölvubúð og ákvað að reyna að splæsa í nýja tölvu fljótlega. Verst að enn sem komið er fer sumarhýran í að fylla í holur og lifa af.

Mugison sagði í lok tónleikanna að honum liði eins og bæði hann og gítarinn væru þunnir. Það er ekki hægt að segja að tónleikarnir hafi verið leiðinlegir, en ég er viss um að hann hefur verið betri. Hann var einhvern veginn stífur og feiminn þarna uppi á sviði.
Upphitunin var plötusnúður sem spilaði undir afar viðvaningslega teknum myndum frá Íslandi. Alltaf gaman að sjá íslensku náttúruna. Hún er skemmtileg þó að þessir drengir sem vinna á tónleikastaðnum træðu sér í forgrunn á flestar myndanna. Ekki laust við að þjóðarrembingurinn brytist örlítið fram í mér við þetta.
Mugison var klæddur eins og versti túristi, í síðum stuttbuxum með sokkana rúllaða niður og í leðurskóm, lokuðum. Mjög skemmtilega lummó. Hann talaði ensku og byrjaði á að afsaka það og lét alla rétta upp hönd sem skildu ensku. Flestir réttu upp hönd, þar á meðal ég. En svo skildi maður afskaplega lítið af því sem hann var að segja milli laga. Þar sem það voru yfirleitt einvhers konar brandarar og ögrun sem átti að hlæja að, féll það um sjálft sig. Við það stífnaði hann upp og fór úr gír. Ég mun ekki rjúka í Fnac eftir disknum hans, en ég mun glöð mæta aftur á tónleika með honum. Helst á Íslandi.
Franskir áhorfendur eru oft mjög erfiðir því þeir setja sig í gáfumannastellingar með sígarettu og bjórglas og horfa grafalvarlegir á sýninguna. Ég man hvað ég pirraði fólkið í kringum mig á Pixies tónleikunum 1990. Lét eins og vitleysingurinn sem ég varð þegar ég hlustaði á þá og þeir stóðu þarna með jónuna sína og fyrirlitu lætin í mér.

Um helgina er ég að fylgja fegursta hópi sem ég hef nokkrun tímann lóðsað um borgina. Kór Öldutúnsskóla. Sárabótaferð í stað áætlaðrar Kúbuferðar. Mjög sorglegt að vita að þær söfnuðu og voru búnar að greiða þá ferð upp í topp og að tryggingafélögin þurfa ekki að endurgreiða skilding því um MAJOR FORCE er að ræða. Það finnst mér ótrúlegur útúrsnúningur á hlutverki tryggingafélaga. Eiga þau ekki einmitt að vernda okkur fyrir hinu ófyrirsjáanlega?

Ég er að kynnast nýjum bloggurum betur því mínir helstu bloggvinir eru á þeytingi um allar jarðir og sinna blogglestrarþörf minni ekki neitt á meðan. Ég er mjög ánægð með tvíburana frægu úr MS sem ég gerðist svo frökk að þekkja ekki einhvern tímann snemma á bloggferli mínum. Kommentin um það hafa máðst út svo það er gleymt og nú get ég róleg dáðst að gáfum þeirra og samsinnt gagnrýni þeirra á skítaþjóðfélag okkar. Það sem mér finnst mest um vert er að a.m.k. annar þeirra tekur strætó. Jú, hinn tekur neðanjarðarlestina í útlöndum. Ég hélt það væru bara þroskaheftir og gamlingjar sem tækju strætó á Íslandi. Mig rámar reyndar í að eitthvað væri talað um að þeir væru undarlegir þegar þeir rústuðu spurningakeppnum um árið. Ég vildi að Ísland ætti meira af alvöru undarlegu og kláru fólki. Reyndar er nú slatti af slíku á blogginu.

Annars var grein á mbl.is um aftökuna á pakistanskt útlítandi drengnum með ógurlega bakpokann og þar var talað um jarðlestir. Það fannst mér undarlegt, þó það skipti vissulega afar litlu máli miðað við efni greinarinnar. Ég bið guð, allah og búdda að passa alla þá sem eru dekkri en Bush, Blair og ég. Ekki meira af svona viðurstyggð, takk.

Lifið í friði.

sigur mugipabba

Langflottasta mómentið var þegar mugipabbi kom upp á sviðið í jafn flottum stuttbuxum og sonurinn og söng Armstrong.

Annað um tónleikana verður skrifað eftir meltingu. Segi bara að Mugison sagðist fíla sig dáltítið eins og bæði hann og gítarinn væru þunnir. Kannski var hann þunnur. Sá alla vega nokkur stykki af bjórum borna inn af aðalstjörnunni (pabbanum) eftir giggið. Kannski er hann bara á fylleríi í Frans á vegum Flugleiða. Sem minnir óneitanlega á sýninguna frómu síðasta haust. En ég skrifa meira um drenginn þegar ég er búin að fá smá svefn og sjóleiðis.

Lifið í friði.

Mér finnst ég eigi…

…að skrifa um Harrý. Ég las hinar bækurnar og hafði mjög gaman af. Ég sagði við vinkonu mína sem lánaði mér þær að ég ætlaði að finna eitthvað á höfundinn til að neyða hana til að ljá mér næstu bók strax. Ég lét aldrei verða af þessum djöfullegu áætlunum og nú man ég varla nöfn aðalpersónanna og er algerlega laus við að liggja á að fá bókina í hendur. Ég veit líka að það verður voðalega lítið mál að fá hana lánaða eftir einhvern tíma.
Ég ákvað fyrir nokkrum árum að herða sultarólina með því að kaupa ekki bækur og geisladiska. Auðvitað kaupi ég stundum bækur, en mun sjaldnar en áður en ákvörðunin var tekin. Reglan er að fá bækur lánaðar, hjá vinum eða úti á bókasafni. Svo á ég gott safn bóka og finnst gaman að endurlesa margar þeirra og geri mjög reglulega.
Ég myndi aldrei kaupa mér bækur eins og Harrý Potter. Mér finnst það alger peningasóun. Ég keypti mér nú samt reyfara um daginn. Hann er skrifaður af tveimur systrum sem hafa gefið út þrjá í viðbót um sama bóksala/leynilöggu.
Bækurnar gerast í París rétt fyrir aldamótin 1900. Ágætis afþreying sem ég hefði vissulega getað tekið á bókasafni. Mun áreiðanlega ná í framhaldið þar. Það voru bara sérstakar aðstæður, ég var afar niðurdregin niðri í bæ og þurfti að koma mér heim í metró og var ekki með neitt að lesa. Hefði verið ódýrara að kaupa eitthvað glysblað í blaðsöluturni en ég veit að glysblöð draga mig alltaf niður svo ég kaupi slíkt aðeins þegar ég er í uppsveiflu.
Svo ég rölti inn í eina af fáum litlum bókabúðunum í París, sem tilheyrir ekki stórri keðju, og rakst á þessa bók innan um stóra stafla af öðrum bókum. Hún orgaði á mig með teiknuðum Eiffelturni utan á kápunni. Og ég hlýddi orginu og sé ekki baun eftir því. Það er gott að setja sér viðmiðunarreglur en afar óhugnalegt að brjóta aldrei reglurnar sínar.

Í dag er ég pínulítið niðurdregin því Sólrún er farin með ömmu sinni og afa til Grikklands. Bæði er ég að kálast úr afbrýðisemi, væri til í að flatmaga á strönd með bók í tvær vikur einmitt núna og svo er hræðilegt að horfa á eftir dóttur sinni vitandi að maður fær ekki að sjá hana í tvær vikur. En ég er búin að ræða þær undarlegu kenndir sem fylgja aðskilnaði við börn hér og ætla ekki að kvelja ykkur með endurtekningu á því. Sumar vísur er hægt að kveða of oft.

Lifið í friði.


Nýlegar athugasemdir

parisardaman um Kveðja
Margrét H um Kveðja
koparskál um Tau frá Tógó
Elín Kjartansdóttir um rafmögnuð kona
juliann um agnetha