túlkun

Á þriðjudagskvöldið var ég ein heima með börnunum. Sjaldgæft fyrir mig og yfirleitt nýt ég þess út í ystu æsar að horfa á einhverja rómantíska mynd sem ég hef tekið upp nokkrum mánuðum áður og maðurinn minn þolir ekki að horfa á með mér. En börnin voru frekar uppskrúfuð yfir heimkomu Sólrúnar og voru með læti.
Ég þoli ekki að horfa á bíómyndir undir sífelldum truflunum og þess vegna lenti ég inn á þætti á TF1 með brotum úr mistökum í sjónvarpi. Svona þættir eru mjög reglulega á dagskrá hérna og þess vegna þekkir maður mikið af myndbrotunum en í þetta sinn sá ég nokkur í fyrsta skipti.
Ég er fullkominn áhorfandi að svona efni, ég grenja úr hlátri þegar ég sé fólk hafa sig að fíflum, get stundum hlegið heilu dagana ef ég er svo heppin að sjá fólk detta úti á götu og það sem þáttastjórnendur lenda í er margfalt neyðarlegra en eitt feilspor á förnum vegi.
Eitt af brotunum var úr Roland Garros tenniskeppninni. Þar var Michael Chang að fagna sigri á ensku og þulur sem talaði yfir á frönsku í beinni útsendingu.
Michael Chang: And of course I have to thank the Lord Jesus. I would not have been here without him.
Og þulurinn: Og svo þakkar hann einhverjum LUIGI. Hlýtur að vera vinur hans…

Þetta minnti mig á atvik sem ég lenti í fyrir nokkrum árum. Þá fór ég með hóp af verkfræðingum niður í holræsakerfi borgarinnar. Ég hafði aldrei heimsótt þau áður, forðast að fara niður í þröng göng þó ég sé alls ekki sjúklega hrædd. Bara ekkert voðalega spennt fyrir svona stöðum. En þarna var ég með hóp af spenntum mönnum sem vildu stúdera holræsin í París því þeir ætluðu að byggja holræsakerfi fyrir norðan einhvers staðar.
Við ákváðum að taka leiðsögumann. Það hlutverk er leyst af hendi af starfsmönnum holræsakerfisins. Fengum stóran og mikinn rum sem bar þess merki að hafa lifað stórum hluta lífs síns í holræsum og virtist líða afar vel með það og var mjög stoltur og montinn af holræsakerfi Parísar sem er reyndar mjög glæsilegt, er t.d. manngengt sem er einstakt.
Hann byrjaði að þusa og útskýra hin ýmsu smáatriði. Ég reyndi eftir bestu getu að þýða jafnóðum það sem maðurinn var að segja án þess að missa af því sem hann sagði á eftir því hann hafði lítinn skilning á því að ég þyrfti að túlka sögur hans og hélt hiklaust áfram vaðli sínum.
Fát kom á mig þegar hann fór að útskýra fjölda rotta og að einu sinni á ári væri fiskum hleypt út í rörin til að fækka þeim! Mennirnir fengu sama skelfingar- og undrunarsvip og ég fann að myndaðist á eigin andliti þegar ég bar setninguna fram. Fiskar! Hvernig fiskar éta rottur? Það getur ekki verið!
Ég var ekkert smá skömmustuleg þegar ég náði að stöðva manninn og biðja um nánari útskýringu.
Fiskur: poisson. Eitur: poison.
Eitt af því fyrsta sem maður lærir í frönskunni.

Fljótlega gáfumst við upp á sögum holræsamannsins, og sögðum honum að við vildum bara skoða. Hann varð mjög svekktur, ekki einu sinni hálfnaður með fyrirlesturinn og gekk til baka tuldrandi eitthvað um hálfvita frá útlöndum. Við höfðum smá áhyggjur af því að hann færi í fiskabúrið og hleypti einhverjum skrímslum á okkur, en við komumst heil á húfi upp úr göngunum og hef ég ekki heiðrað 6 milljón rotturnar sem þar búa með nærveru minni síðan.

Lifið í friði.

0 Responses to “túlkun”  1. Færðu inn athugasemd

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: