Sarpur fyrir ágúst, 2005

andvaka

Verð að reyna að sofna áður en börnin vakna. Annars neyðist ég til að gefa þeim morgunmat.

Maðurinn minn og ég

Ég og maðurinn minn eigum ekkert sameiginlegt nema kannski grunnhugmyndir um hvernig lífið á að vera, bæði á heimsmælikvarða og hér innan veggja heimilisins.
En eitt eigum við þó sameiginlegt: Við munum ómögulega hvaða dag við giftum okkur, vitum að Júróvisjón kom upp á sama dag og að þetta var laugardagur. En dagsetningin… einhvers staðar í kringum miðjan maí. Tengdapabbi sagði okkur rétta dagsetningu um daginn, en við erum bæði búin að gleyma henni.

Lifið í friði.

án titils

Hér er hitabylgja í uppsiglingu, var svo heitt í nótt að við sváfum öll frekar illa. Endaði með að láta Sólrúnu hafa blautan þvottapoka í rúmið til að róa hana niður. Og mér skilst að veturinn sé kominn til Íslendinga (og útlendinganna) á Íslandi. Ég er hæstánægð með hitann hér, mér finnst hlýr og sólríkur september góð tilhugsun. Set bara vifturnar í gang seinnipartinn til að loftið verði ekki eins þungt hér og í nótt. Og loka hlerunum yfir bjartasta tíma dagsins. Maður þarf bara að vera viðbúinn þá er þetta allt í lagi enda ekki verið að tala um nein fjörtíu stig, bara rétt slefar upp í þrjátíu.
Föstu ferðirnar mínar eru búnar núna. Sumarið var frekar rólegt fyrir utan nokkra ýkta hápunkta eins og daginn sem nítján manns komu í Mýrarferð. Þá hefði ég helst þurft svona græjur eins og Japanskir leiðsögumenn hafa, lítinn míkrófón með magnara. Röddin var frekar brostin það kvöldið. Og svo finnst mér leiðinlegt að vera með of marga, er orðin vön að geta „hlúð að“ hverjum og einum, spjallað um hvaðan fólk er og svona. Í stórum hópum nær maður ekki slíkri tengingu.
En þó að sumarið hafi verið viðskiptalega rólegt, er ég ekki svekkt út í útkomuna. Veðrið var gott, börnin eru við hestaheilsu, margir góðir dagar sem við fjölskyldan höfum átt. Ég held að ég hafi komið út í lífsgróða þó að ég hafi t.d. ekki náð að safna fyrir heimferð (til Íslands) um jólin. Ég safna þá bara fyrir henni eftir fríið. Fríið. Búin að minnast á baðfatavandræði mín án nokkurs skilnings frá lesendum en hef ekkert sagt frá áætlunum.
Síðast þegar ég fór í almennilegt frí, þ.e.a.s. ekki til Íslands og gisti á hótelum og var að hanga og hafa það huggulegt í meira en eina helgi, var í september 2001. Hinum eina sanna. Við lögðum af stað 22. september og reyndist vélin einungis að þriðjungi full og þurfti að færa alla til eftir að innritun var lokið því búist var við fullri vél svo við vorum öll fremst og hefðum líklega komist í heimsfréttirnar ef alþjóðleg lög væru ekki til um hleðslu farþega í vélum. Stefnan var tekin á Sikiley og lifum við hjónakornin, þá barnlaus þó að Sólrún væri komin í magann á mér, enn á þessari velheppnuðu og dásamlegu ferð.
Ég át stanlaust allan tímann, máltíð í hádeginu og á kvöldin, dísæta morgunverði og ís í tíma og ótíma milli mála. Ég var komin fjóra eða fimm mánuði á leið og samt grenntist ég þarna. Borðaði einu sinni kjöt, vegna þess að konan misskildi mig en annars alltaf sverð- eða túnfisksteikur. Fullt af tómötum, eggaldinum og öðru gómsætu grænmeti lagað á gómsætan ítalskan máta og það er greinilega ekki hægt að fitna af þessum mat. Ég held að þessi mamma italiana sé feit af hamingju og engu öðru. Eins og ég er núna. Börnin og karlinn eru þvengmjó og ég virðist blása út þó við borðum alltaf sama matinn og þó að yngsta barnið borði stundum meira en ég! Ég held að keppir og dúllur sé allt saman hamingjupokarnir mínir. Eins og ítölsku mæðranna. Sikiley… mæli með ferð þangað. Gott fólk, góður matur, gott veður.

Í ár verður stefnan tekin á hitt góða Suður-Evrópulandið sem liggur að Frakklandi: Spánar. Við völdum áfangastað með tilliti til beinna ferða frá Íslandi og verðum í leiguhúsnæði rétt fyrir utan Alicante. Þrjár vikur í ljúfum lifnaði með allri íslensku fjölskyldunni nema bróa sem er að byrja í HR og verður í prófum þá þegar. Hann um það. Get ekki beðið.
Búin að lesa ýmislegt um spænskan mat og hlakka til að liggja í áti og víndrykkju þarna niður frá. Man ekki nöfnin á réttunum sem ég ætla að smakka, nema náttúrulega gazpacho og paëlla, en á bókina pantaða aftur rétt fyrir brottför.

Ég biðst afsökunar á þessum sjálfhverfa pistli sem gerir líklega ekkert fyrir ykkur annað en að pirrast á því hvað ég lifi ljúfu lífi í hita og sól á leið í enn meiri hita og sól. En munið: Þið getið alltaf ákveðið að flytja frá Íslandi. Stuttur tími til stefnu áður en klöguskjóður fara að stjórna borginni. Borgarstjórinn í París er kannski ekki óaðfinnanlegur og nettir stjörnustælar í honum, en hann er þó vinstrisinnaður og er á móti bílum.
Reyndar passar þetta síðasta ekki við tilfinningar mínar, þvert á móti hef ég engar áhyggjur af vælukjóanum, einmitt gott að þau fá svona mikið fylgi strax í byrjun. Það mun herða vinstra fólkið til að muna eftir að kjósa og hvetja þau í að taka þátt í kosningabaráttunni. Ég ætti kannski að færa lögheimilið í smá tíma?

Lifið í friði.

þegar ég var bankastjóri

Fyrir nokkrum árum skráði ég mig í bríaríi í einn af fínustu hagfræðiskólum Frakklands, L.A.R.G.E.N.
Mér tókst að koma fjölskyldu minni og vinum nokkuð á óvart, svo vel gekk mér í þessu námi. Ég blómstraði þarna þvert á allar spár.
Ég hef alltaf verið frekar svona þessi „artý“ týpa í lopapeysu en í þessum skóla þarf maður mjög fljótlega eftir erfiða síuna á fyrstu önn að fara að klæða sig í bankastarfsmannaföt, konur í drögtum, karlar í jakkafötum með bindi. Við stúlkurnar höfðum töluvert meira frelsi en strákarnir, gátum leyft okkur litskrúðuga toppa undir dragtirnar og þó þetta væri áður en netsokkabuxurnar komu aftur í tísku vorum við þarna þrjár sem gengum oft í slíkum gersemum og kunni ég ágætlega við þennan búning.

Á öðru ári um jólin fékk ég hæstu einkunn í aðalfaginu, vaxtareikningi verðbréfa og stóreigna, og varð það til þess að einn af stærstu bönkunum hérna bauð mér vinnu. Ég sló til, enda var mér næstum farið að leiðast í náminu, nýjabrumið farið af þessum lífsstíl, ég var búin að átta mig á því hversu mikið forskot ég hafði á litlu krakkana sem komu beint úr menntaskólunum 18 ára gömul og tók því feginshendi að hætta að skrimta á námslánum og fara að umgangast fullorðið fólk.
Ég tók við litlu útibúi rétt fyrir utan París og stýrði því í nokkur ár. Mér tókst að bæta þremur fullum stöðum við á þeim tíma og þrefaldaði veltu útibúsins.
Það var svo þegar ég kynntist manninum mínum sem augu mín opnuðust. Þetta var alls ekki lífið sem ég hafði ætlað mér að lifa. Að vinna myrkranna á milli, kona í harðskeyttum karlaheimi, komst ekkert á djammið lengur og hafði ekki verið við karlmann kennd í óratíma. Maðurinn minn greip mig þegar ég leið út af í metró á leið heim úr vinnu dag sem hafði farið í stanslausa fundi og ég gleymt að borða. Hann tók mig á eftirlætis veitingahúsið sitt og fyllti mig af andafitu og rauðvíni og um þrjúleytið um nóttina hringdi ég í einn af valdamestu mönnum atvinnulífsins og sagði vinnunni upp sisona. Ég sé það núna að ég hefði átt að semja um starfslokasamning, það var orð sem ég þekkti ekki enn en mig svíður oft við að heyra í dag.

En ég sé ekki eftir þessu. Skemmtileg reynsla þó hún nýtist mér ekki við margt í dag. Og glöð er ég að hafa losnað úr þessu áður en það varð um seinan. Maður les í Daglegu lífi í Mogganum að fleiri og fleiri konur séu að fá hjartaáföll og skalla fyrir aldur fram. Ég hefði getað orðið ein af þeim tölulegu staðreyndum. Ég er þakklát fyrir að vera bara það sem ég er.

Lifið í friði.

p.s. þessi pistill er í boði Þórdísar múmínmömmu.

baðföt

Ég er ekki nógu ánægð með hugmyndirnar að baðfötum sem ég falaðist eftir um daginn. Urðu allir kjaftstopp við hugmynd Emblu um að ég yrði nakin?
Það kemur ekki til greina vegna hjartveiks föður míns sem verður með í baðstrandarferðinni.
Verð að fá fleiri uppástungur.
Með fyrirfram þökkum, og friður sé með yður.

íkornaútilega

Fyrir u.þ.b. einu og hálfu ári síðan byrjaði ég að sanka að mér dótinu sem þarf til að geta farið í útilegu. Fjárlög heimilisins leyfa okkur ekki hegðun eins og þá að ganga inn í sportvöruverslun og kaupa allt á einu bretti. Hins vegar áskotnast okkur stundum smá aukapeningur og hef ég við og við notað tækifærið og keypt útilegudót vitandi að einn góðan veðurdag ætti ég nóg til að drusla fjölskyldunni upp í bíl og út í sveit.
Ég keypti tjaldið t.d. á rokna útsölu í janúar (þá átti ég reyndar engan pening, man ég, og gekk út með bullandi samviskubit í bland við vitneskjuna um að ég hafði gert góð kaup). Ég náði að kaupa dýnurnar á mjög góðu verði núna um daginn en prímusinn varð að kaupa fullu verði.
Einhvern tímann í fyrra keypti ég líka bók með upplýsingum um bændagistingu ýmiss konar. Þetta er félag bænda sem leggja mikið upp úr lífrænni ræktun og virðingu við umhverfið og er oft frekar frumstætt. Sem mér finnst persónulega mun meira spennandi heldur en fjögurra stjörnu súpertjaldstæði troðfull af fólki sem talar hátt og prumpar.
Við gistum hjá Monsieur Maria sem er einn af fyrstu póníræktendum Frakklands. Borðaði m.a.s. hádegismat með þáverandi landbúnaðarráðherra fyrir þrjátíu árum síðan og er ábyrgur fyrir pónítískubylgjunni (þó ekki þessari með bleikt fax og glimmer, það kemur frá landi dobbeljús).
Við vorum eina fólkið hjá honum og höfðum það afar kósí þó að ég hefði nú alveg getað tekið baðherbergið í gegn ef ég hefði fundið hreinlætisgræjurnar sem eru kannski það sem Frakkar kalla non-existantes, ekki til segir maður víst á íslensku.
Hundurinn hans Monsieur Maria var dásamlega geðgóð labradortík sem leyfði börnunum að hlunkast ofan á sér og gelti bara einu sinni að Kára sem hafði þá líklega meitt hana. Kári tók um tvo tíma í að fyrirgefa henni þetta.
Það er gott að sofa í tjaldi upp á náttúruhljóðin og gott loft. En bakið, axlir og mjaðmir mínar eru fyrst núna að komast í samt lag. Kannski þarf ég að fjárfesta í kerru aftan í bílinn og fara með almennilegar springdýnur í útileguna?
Tjaldvagn kemur ekki til mála, ég er of snobbuð og hrædd við að vera tekin fyrir smáborgara til að aka um með slíka græju í eftirdragi.
Rigningin sem lamdi okkur alla síðustu nóttina náði ekki að draga úr okkur góða skapið, en það var dálítið erfitt að þurrka himininn í litlu stofunni okkar og enn erfiðara að brjóta hann saman. Vona að hann verði í lagi næst þegar við tökum hann upp.
Gönguferðir í skógi er dásamlegt fyrirbrigði. Normandískar pönnukökur og eplasíder er sælgæti. Franskar sveitir eru fagrar með eindæmum. Gott að fara í sveitaferð af mölinni stundum.

Lifið í friði.

skál og syngja

skagfirðingar skemmta sér og gera hitt

Tætum og tryllum og tökum nú lagið í lundi…

Jón var kræfur karl og hraustur, sigld’um höfin út og austur…

Troddu þér nú inn í tjaldið hjá mér…

Einu sinni var ég á 22 með frænda mínum og vinum hans að vestan og við sungum alla í hel. Fólk hótaði að drepa okkur og allt því við þóttum svo leiðinleg og halló að vilja vera að syngja á fylleríinu. Mér finnst gaman að syngja. En því miður býður bloggið ekki upp á fjöldasöng. Ég neyðist til að viðurkenna það. Mátti þó reyna.

Lifið í friði.

stundum

gæti rithöfundurinn gústi boggi drepið mann úr leiðindum en hann vill það, þ.e.a.s. það er einhvers konar stílæfing hjá honum að vera hrokafullur á blogginu.
Sumir gætu stundum gert út af við mann í hroka, en stundum er það vilji bloggaranna að hrokast. Stundum leikur fólk mjög opinskátt með það eins og stórkostleg færsla Hermanns Norðanáttar um fullkominn dag með hugmyndum um styttur og Bach og égmanekkihvaðmeira en hann eyðilagði allt með því að afhjúpa sig í lokin.
Stundum er maður perplexe eftir lestur blogga og stundum er það gaman.
Stundum man ég ekki orð og nenni ekki að fletta þeim upp, hvað í déskotanum er perplexe á íslensku? Veit að ég veit það en man það ekki.
L.í.f.

j’aime les filles

söng Jaques Dutronc einu sinni. Frábært lag.
Ég elska allar konurnar sem ég les á blogginu. Allar með tölu. Og auðvitað urðu þær allar hræddar um að ég væri leið á þeim meðan enginn, ENGINN, drengjanna spurði sig þess.
Líklega les sá sem mér leiðist mig ekki og er það vel.
Ég elska konur, ég elska stelpurnar, íslenskar konur eru svo frábærar eins og Ásta bendir t.d. á í bloggi um daginn þegar hún segir frá smsi: Kemst ekki í vinnuna á morgun, átti barn í hádeginu.
Ég hef oft sagt og segi enn, ég veit ekki hvernig þessi vetur hefði orðið ef ég hefði ekki getað yljað mér við bloggið. Bull og óþarfa kjaftæði um libbu og tibba en sem yljar manni um hjartarætur því mannlegheit og húmor skína í gegn. Flott og skemmtilegt fyrirbrigði bloggið. Stundum troðfullt af óþarfa óþarfa. En stundum þarf maður á óþarfa að halda. Alls konar konur og menn sem maður þekkir ekki neitt en sem manni þykir samt einhvern veginn undarlega vænt um. Vá, ég er á trúnó. Samt bara búin með tvö, tja, kannski fjögur, glös… hætti núna. Elskykkur.

Lifið í friði.

tyrkneskur rithöfundur

Ég er sármóðguð því að í morgun áður en nokkur hafði sagt neitt hjá Þórdísi stakk ég upp á því að hann hefði látið kellinguna skúra fyrir sig. Kerfið vildi ekki hugmyndina mína og enginn þeirra sem komst inn er jafn góð. Nema kannski hugmynd Unnar um að Þórdís hafi hreinlega upp á kallskrattanum og að hann svari fyrir sig.
Mér leiðast kommentakerfi sem henda mér út í sífellu.
En hugur minn er hjá sjónvarpslausum Íslendingum í kvöld. Spái því að eftir níu mánuði verði mikið að gera á fæðingardeildinni.

Lifið í friði.


Nýlegar athugasemdir

parisardaman um Kveðja
Margrét H um Kveðja
koparskál um Tau frá Tógó
Elín Kjartansdóttir um rafmögnuð kona
juliann um agnetha