þegar ég var bankastjóri

Fyrir nokkrum árum skráði ég mig í bríaríi í einn af fínustu hagfræðiskólum Frakklands, L.A.R.G.E.N.
Mér tókst að koma fjölskyldu minni og vinum nokkuð á óvart, svo vel gekk mér í þessu námi. Ég blómstraði þarna þvert á allar spár.
Ég hef alltaf verið frekar svona þessi „artý“ týpa í lopapeysu en í þessum skóla þarf maður mjög fljótlega eftir erfiða síuna á fyrstu önn að fara að klæða sig í bankastarfsmannaföt, konur í drögtum, karlar í jakkafötum með bindi. Við stúlkurnar höfðum töluvert meira frelsi en strákarnir, gátum leyft okkur litskrúðuga toppa undir dragtirnar og þó þetta væri áður en netsokkabuxurnar komu aftur í tísku vorum við þarna þrjár sem gengum oft í slíkum gersemum og kunni ég ágætlega við þennan búning.

Á öðru ári um jólin fékk ég hæstu einkunn í aðalfaginu, vaxtareikningi verðbréfa og stóreigna, og varð það til þess að einn af stærstu bönkunum hérna bauð mér vinnu. Ég sló til, enda var mér næstum farið að leiðast í náminu, nýjabrumið farið af þessum lífsstíl, ég var búin að átta mig á því hversu mikið forskot ég hafði á litlu krakkana sem komu beint úr menntaskólunum 18 ára gömul og tók því feginshendi að hætta að skrimta á námslánum og fara að umgangast fullorðið fólk.
Ég tók við litlu útibúi rétt fyrir utan París og stýrði því í nokkur ár. Mér tókst að bæta þremur fullum stöðum við á þeim tíma og þrefaldaði veltu útibúsins.
Það var svo þegar ég kynntist manninum mínum sem augu mín opnuðust. Þetta var alls ekki lífið sem ég hafði ætlað mér að lifa. Að vinna myrkranna á milli, kona í harðskeyttum karlaheimi, komst ekkert á djammið lengur og hafði ekki verið við karlmann kennd í óratíma. Maðurinn minn greip mig þegar ég leið út af í metró á leið heim úr vinnu dag sem hafði farið í stanslausa fundi og ég gleymt að borða. Hann tók mig á eftirlætis veitingahúsið sitt og fyllti mig af andafitu og rauðvíni og um þrjúleytið um nóttina hringdi ég í einn af valdamestu mönnum atvinnulífsins og sagði vinnunni upp sisona. Ég sé það núna að ég hefði átt að semja um starfslokasamning, það var orð sem ég þekkti ekki enn en mig svíður oft við að heyra í dag.

En ég sé ekki eftir þessu. Skemmtileg reynsla þó hún nýtist mér ekki við margt í dag. Og glöð er ég að hafa losnað úr þessu áður en það varð um seinan. Maður les í Daglegu lífi í Mogganum að fleiri og fleiri konur séu að fá hjartaáföll og skalla fyrir aldur fram. Ég hefði getað orðið ein af þeim tölulegu staðreyndum. Ég er þakklát fyrir að vera bara það sem ég er.

Lifið í friði.

p.s. þessi pistill er í boði Þórdísar múmínmömmu.

0 Responses to “þegar ég var bankastjóri”  1. Færðu inn athugasemd

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: