íkornaútilega

Fyrir u.þ.b. einu og hálfu ári síðan byrjaði ég að sanka að mér dótinu sem þarf til að geta farið í útilegu. Fjárlög heimilisins leyfa okkur ekki hegðun eins og þá að ganga inn í sportvöruverslun og kaupa allt á einu bretti. Hins vegar áskotnast okkur stundum smá aukapeningur og hef ég við og við notað tækifærið og keypt útilegudót vitandi að einn góðan veðurdag ætti ég nóg til að drusla fjölskyldunni upp í bíl og út í sveit.
Ég keypti tjaldið t.d. á rokna útsölu í janúar (þá átti ég reyndar engan pening, man ég, og gekk út með bullandi samviskubit í bland við vitneskjuna um að ég hafði gert góð kaup). Ég náði að kaupa dýnurnar á mjög góðu verði núna um daginn en prímusinn varð að kaupa fullu verði.
Einhvern tímann í fyrra keypti ég líka bók með upplýsingum um bændagistingu ýmiss konar. Þetta er félag bænda sem leggja mikið upp úr lífrænni ræktun og virðingu við umhverfið og er oft frekar frumstætt. Sem mér finnst persónulega mun meira spennandi heldur en fjögurra stjörnu súpertjaldstæði troðfull af fólki sem talar hátt og prumpar.
Við gistum hjá Monsieur Maria sem er einn af fyrstu póníræktendum Frakklands. Borðaði m.a.s. hádegismat með þáverandi landbúnaðarráðherra fyrir þrjátíu árum síðan og er ábyrgur fyrir pónítískubylgjunni (þó ekki þessari með bleikt fax og glimmer, það kemur frá landi dobbeljús).
Við vorum eina fólkið hjá honum og höfðum það afar kósí þó að ég hefði nú alveg getað tekið baðherbergið í gegn ef ég hefði fundið hreinlætisgræjurnar sem eru kannski það sem Frakkar kalla non-existantes, ekki til segir maður víst á íslensku.
Hundurinn hans Monsieur Maria var dásamlega geðgóð labradortík sem leyfði börnunum að hlunkast ofan á sér og gelti bara einu sinni að Kára sem hafði þá líklega meitt hana. Kári tók um tvo tíma í að fyrirgefa henni þetta.
Það er gott að sofa í tjaldi upp á náttúruhljóðin og gott loft. En bakið, axlir og mjaðmir mínar eru fyrst núna að komast í samt lag. Kannski þarf ég að fjárfesta í kerru aftan í bílinn og fara með almennilegar springdýnur í útileguna?
Tjaldvagn kemur ekki til mála, ég er of snobbuð og hrædd við að vera tekin fyrir smáborgara til að aka um með slíka græju í eftirdragi.
Rigningin sem lamdi okkur alla síðustu nóttina náði ekki að draga úr okkur góða skapið, en það var dálítið erfitt að þurrka himininn í litlu stofunni okkar og enn erfiðara að brjóta hann saman. Vona að hann verði í lagi næst þegar við tökum hann upp.
Gönguferðir í skógi er dásamlegt fyrirbrigði. Normandískar pönnukökur og eplasíder er sælgæti. Franskar sveitir eru fagrar með eindæmum. Gott að fara í sveitaferð af mölinni stundum.

Lifið í friði.

0 Responses to “íkornaútilega”  1. Færðu inn athugasemd

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: