án titils

Hér er hitabylgja í uppsiglingu, var svo heitt í nótt að við sváfum öll frekar illa. Endaði með að láta Sólrúnu hafa blautan þvottapoka í rúmið til að róa hana niður. Og mér skilst að veturinn sé kominn til Íslendinga (og útlendinganna) á Íslandi. Ég er hæstánægð með hitann hér, mér finnst hlýr og sólríkur september góð tilhugsun. Set bara vifturnar í gang seinnipartinn til að loftið verði ekki eins þungt hér og í nótt. Og loka hlerunum yfir bjartasta tíma dagsins. Maður þarf bara að vera viðbúinn þá er þetta allt í lagi enda ekki verið að tala um nein fjörtíu stig, bara rétt slefar upp í þrjátíu.
Föstu ferðirnar mínar eru búnar núna. Sumarið var frekar rólegt fyrir utan nokkra ýkta hápunkta eins og daginn sem nítján manns komu í Mýrarferð. Þá hefði ég helst þurft svona græjur eins og Japanskir leiðsögumenn hafa, lítinn míkrófón með magnara. Röddin var frekar brostin það kvöldið. Og svo finnst mér leiðinlegt að vera með of marga, er orðin vön að geta „hlúð að“ hverjum og einum, spjallað um hvaðan fólk er og svona. Í stórum hópum nær maður ekki slíkri tengingu.
En þó að sumarið hafi verið viðskiptalega rólegt, er ég ekki svekkt út í útkomuna. Veðrið var gott, börnin eru við hestaheilsu, margir góðir dagar sem við fjölskyldan höfum átt. Ég held að ég hafi komið út í lífsgróða þó að ég hafi t.d. ekki náð að safna fyrir heimferð (til Íslands) um jólin. Ég safna þá bara fyrir henni eftir fríið. Fríið. Búin að minnast á baðfatavandræði mín án nokkurs skilnings frá lesendum en hef ekkert sagt frá áætlunum.
Síðast þegar ég fór í almennilegt frí, þ.e.a.s. ekki til Íslands og gisti á hótelum og var að hanga og hafa það huggulegt í meira en eina helgi, var í september 2001. Hinum eina sanna. Við lögðum af stað 22. september og reyndist vélin einungis að þriðjungi full og þurfti að færa alla til eftir að innritun var lokið því búist var við fullri vél svo við vorum öll fremst og hefðum líklega komist í heimsfréttirnar ef alþjóðleg lög væru ekki til um hleðslu farþega í vélum. Stefnan var tekin á Sikiley og lifum við hjónakornin, þá barnlaus þó að Sólrún væri komin í magann á mér, enn á þessari velheppnuðu og dásamlegu ferð.
Ég át stanlaust allan tímann, máltíð í hádeginu og á kvöldin, dísæta morgunverði og ís í tíma og ótíma milli mála. Ég var komin fjóra eða fimm mánuði á leið og samt grenntist ég þarna. Borðaði einu sinni kjöt, vegna þess að konan misskildi mig en annars alltaf sverð- eða túnfisksteikur. Fullt af tómötum, eggaldinum og öðru gómsætu grænmeti lagað á gómsætan ítalskan máta og það er greinilega ekki hægt að fitna af þessum mat. Ég held að þessi mamma italiana sé feit af hamingju og engu öðru. Eins og ég er núna. Börnin og karlinn eru þvengmjó og ég virðist blása út þó við borðum alltaf sama matinn og þó að yngsta barnið borði stundum meira en ég! Ég held að keppir og dúllur sé allt saman hamingjupokarnir mínir. Eins og ítölsku mæðranna. Sikiley… mæli með ferð þangað. Gott fólk, góður matur, gott veður.

Í ár verður stefnan tekin á hitt góða Suður-Evrópulandið sem liggur að Frakklandi: Spánar. Við völdum áfangastað með tilliti til beinna ferða frá Íslandi og verðum í leiguhúsnæði rétt fyrir utan Alicante. Þrjár vikur í ljúfum lifnaði með allri íslensku fjölskyldunni nema bróa sem er að byrja í HR og verður í prófum þá þegar. Hann um það. Get ekki beðið.
Búin að lesa ýmislegt um spænskan mat og hlakka til að liggja í áti og víndrykkju þarna niður frá. Man ekki nöfnin á réttunum sem ég ætla að smakka, nema náttúrulega gazpacho og paëlla, en á bókina pantaða aftur rétt fyrir brottför.

Ég biðst afsökunar á þessum sjálfhverfa pistli sem gerir líklega ekkert fyrir ykkur annað en að pirrast á því hvað ég lifi ljúfu lífi í hita og sól á leið í enn meiri hita og sól. En munið: Þið getið alltaf ákveðið að flytja frá Íslandi. Stuttur tími til stefnu áður en klöguskjóður fara að stjórna borginni. Borgarstjórinn í París er kannski ekki óaðfinnanlegur og nettir stjörnustælar í honum, en hann er þó vinstrisinnaður og er á móti bílum.
Reyndar passar þetta síðasta ekki við tilfinningar mínar, þvert á móti hef ég engar áhyggjur af vælukjóanum, einmitt gott að þau fá svona mikið fylgi strax í byrjun. Það mun herða vinstra fólkið til að muna eftir að kjósa og hvetja þau í að taka þátt í kosningabaráttunni. Ég ætti kannski að færa lögheimilið í smá tíma?

Lifið í friði.

0 Responses to “án titils”  1. Færðu inn athugasemd

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: