Sarpur fyrir ágúst, 2005ládeyða

Hvaða lægð liggur yfir bloggheimum? Þórdís með efasemdir, Pulla farin, frábærlega vel skrifaður kveðjupistill Einars Arnar (er ekki með hann í tenglalista þar sem ég uppgötvaði hann nýlega en hann er á blogcentral/amen), mjög sannfærandi um að blogg sé tímaeyðsla og vitleysa… sumir þeirra sem ég setti í listann hjá Mikka eru að drepa mann úr leiðindum (og þetta á ekki við um Þórdísi), ég sjálf er að kálast úr bloggleti og hugmyndasneyðu (er þetta orð?), Dísadrusla farin og svona má áfram lengi telja.
Ég ætla ekki að hætta, mér finnst þetta gaman. Kannski er það líka öðruvísi fyrir mig að ég get ekki tölt niður á Klapparstíg (eða hvaða stíg fer maður á núna?) og hitt fólk sem hefur lesið bloggið mitt og lent í vandræðalegum endurtekningum. Ég kannast hins vegar við söknuðinn að maður nennir ekki lengur að skrifa vinunum, það er leiðinlegur fylgikvilli bloggiðjunnar.
En ég ætla samt ekki að hætta.
En ég ætla samt ekki að skrifa neitt núna, því ég er örþreytt eftir ferðalög. Segi ykkur áreiðanlega frá sveitinni seinna. En Signa varð ekki á vegi mínum í þessari ferð, því miður… hafði eitthvað misskilið lýsinguna. Og veðrið bauð meira upp á síðbuxur en baðstrandarklæðnað. Ein mjög mikilvæg spurning sem þarfnast svara: Er baðstrandarklæðnaður nauðsynlega bikini? Gæti ég komist upp með að klæðast svörtum kufli eins og konurnar í Sádí? Er ekki alveg tilbúin til að ímynda mér mig dillandi mér um á bikini í þrjár vikur á næstunni. Þyrfti að komast í einhvers konar extreme makeover fyrst. Einhverjar hugmyndir að góðri lausn?

Lifið í friði.

gömul geit

fór í sveit og elti aðra geit…
Ég er að fara á „strönd“ við Signu EFTIR að hún rennur í gegnum París. Ég mun baða mig og hringi svo í Chiraq ef mér verður illt í skinninu.
Bið ykkur vel að lifa og haldið friðinn.

ulla bjakk

Ég hef svo sem alltaf vitað að Íslendingar eru sérlega hræddir við múslimi, af einhverjum undarlegum orsökum sem ég tengi helst við að þeir hlusta á bullið sem Bush og félagar hans hafa að segja um þennan trúarhóp og gleyma því að það sem kemur frá þeim er flatt út og gefur skakka mynd af raunveruleikanum. Allir sáu það til dæmis þegar Oprah tók sig til og málaði mynd af Íslandi í þættinum sínum. En gleyma því um leið að þar með geti þeir sagt sér að allt sem þessir bandarísku þættir sýna okkur er bagað af sama vandamáli og að allt sem sagt er um araba og múslimi er bjagað viljandi í bandarísku sjónvarpi. Því að í bandarísku sjónvarpi er bara til hvítt og svart og af peningalegum orsökum er arabi og múslimi svart fyrirbrigði.
Ég hef svo sem alltaf vitað þetta en mér blöskraði samt þegar mér var sagt í gær að samkvæmt einhverri könnun sem ég reyndar man ekki hver gerði fyrir hvern, vildu 25 prósent Íslendinga helst ekki búa við hliðina á múslima! Ha? Ég skil þetta ekki.
Ég skil það örlítið betur að sumir hiki við tilhugsunina um að búa við hliðina á geðfötluðum einstaklingum, sem 22 prósent (færri en hinir) vilja víst ekki. Það getur verið vandasamt að umgangast manneskjur sem eru óútreiknanlegar, og óþægilegt t.d. að heyra í manni sem býr einn öskra og æpa á djöfulinn heilu kvöldin eins og ein vinkona mín lendir stundum í. Ég skil að vissu leyti fordóma, byggða á hræðslu, gagnvart geðsjúkum. Það er í alvörunni oft mjög skrýtið fólk, geðskjúklingarnir. Og oft verður maður óöruggur þegar maður veit ekki alveg hvernig maður á að koma fram við fólk, þegar maður er hræddur um að þau geti verið ofbeldishneigð. Sem ég persónulega óttast mun meira af fólki sem ég veit að notar eiturlyf en af geðfötluðu fólki. Og geðfatlað fólk getur veitt manni svo skemmtilega sýn á heiminn með „bullinu“ sínu og undarlegum athöfnum.
En múslimir??? Hvað heldur fólk eiginlega að múslimir séu að gera á daginn? Og kvöldin? Allir að búa til sprengjur og berja konurnar sínar? Eða er vond lykt af þeim? Eru þeir kannski enn að hita upp húsin sín með kindum?

Mikið er ég fegin að búa ekki nálægt neinum Íslendingum. Helvítis hávaði í þeim, síglápandi á sjónvarpið og tillitslausir gagnvart náunganum. Hvernig haldið þið að gatan mín væri ef litlu bílskrjóðunum sem komast allir haganlega fyrir væri skipt út fyrir risajeppa? Rosalega er ég heppin.

Lifið í friði.

jú, ég held ég geri það…

Ég held ég fái mér bara vínglas og prenti út tvær þrjár töluþrautir, þó að þakkað sé fyrir tónlistina má bölva sama manni fyrir að hafa komið mér á bragðið með þær.

Lifið í friði og skál!

dúbbídúbbídú

Það er svo gaman… en samt er ég svo leið… ekki beint kannski leið en einhver kökkur í hálsi mínum… mig langar eiginlega að vera á Íslandi núna ekki til að komast á menningarnótt, mér er eiginlega alveg sama um hana bara langar að hitta fólk sem mér þykir vænt um og sjá nýju einstaklingana sem stækka og stækka og eiga mömmur sem kunna sig ekki og senda því ekki myndir og svo langar mig bara til að vera annars staðar en nákvæmlega hér nákvæmlega núna því allir eru farnir að sofa og ég nenni ekki að sofa og mig langar til að mála en ég er ekki með pensil og mig langar til að glápa á sjónvarp en… laugardagskvöld eru vonlaus sjónvarpskvöld í Frakklandi út af lögum sem sett voru til að vernda kvikmyndahúsin, engin lygi… og langar dálítið í vín en nenni ekki hausverk á morgun og langar…
Það var áhugavert að lesa Þorvald Gylfason á blaðsíðu 19 eða meira í Fréttablaðinu… um… æ, hagfræðiorð, get bara ekki munað þau, alla vega finnst mér betri kostur að búa í Frakklandi en í Bandaríkjunum miðað við tölurnar sem hann gefur upp.
Og gaman að sjá kortið af breiðholtinu sem bloggvinkona sendi mér í pósti… takk fyrir það, ég er líka á mac svo ég sá þetta vel, en ég sá ekki hvað göturnar í kring heita, langaði að muna hvað blokkin hans Andra punkts hét og svoleiðis…
Og frábær stjórnarskráin á Kistunni, Embla þú verður að lesa hana og þarna verðum við að koma og kannski flytja hjó reyndar eftir líkingunni við Montmartre var einmitt að spá í það í morgun hvort ég myndi vilja búa þar ef ég væri milljónamæringur ekki viss mikið af túristum sem er ekki slæmt í eðli sínu nema að það þýðir mikið af fólki á götunum alltaf og það er kannski þreytandi man samt ekki hér er færra fólk og oftast þekki ég það og heilsa því og spyr frétta og það finnst mér hvetjandi og gott og mér finnst gamla fólkið hérna svo glatt og kátt og jákvætt og það gefur mér von um að kannski sé í lagi að eldast.
Og svo var svo skemmtileg tónlist hjá Gvendarbrunni ég pissaði á mig af gleði yfir Yes sir I can boogie útgáfunni ég elska nefninlega orginalinn og dansa reglulega við hann af diskóplötunni hennar Bryndísar hvenær kemur hún eiginlega úr þessu blessaða fríi sínu? Hlakka svooo til. Er það þessa helgi eða þá næstu?
Hvernig var líf mitt áður en ég fór að blogga og lesa blogg?

Lifið í friði.

minningar úr blokkinni

Í Arahólum tvö var mikið af krökkum. Og nokkrar mömmur sem alltaf var hægt að leita til þegar manns eigin mamma var í vinnunni. Ég var jú lyklabarn, með lykil í teygju um hálsinn og tel það ekki hafa skaðað mig á nokkurn hátt.
Það var alger paradís að hafa svona mikið af krökkum að leika sér við. Stundum var það líka erfitt, stundum var leikinn leikur sem hét þú mátt ekki vera memm í dag eða eitthvað slíkt, stundum lék ég slíka leiki sjálf.
Ég man ekki eftir því að neinn úr Arahólum tvö hafi orðið sérlega frægur á Íslandi, hvorki um lengri né skemmri tíma. (Nema kannski systir mín, sem er mjög fræg fótboltastjarna og var í sjónvarpinu um daginn að sýna kraftaverkið dóttur sína.)
En í nálægri blokk bjó fagurlega skapaður drengur sem var lengi á stalli í hugum okkar því hann lék Andra í Punktur punktur komma strik. Ég held að hann hafi ekki fallið af stallinum, bara flutt í burtu. En þarna gætir reyndar gloppa í minni mínu.
Í Suðurhólum (minnir mig, er ekki viss og er búin að eyða löngum tíma í að reyna að sjá kort af helvítis Reykjavík á netinu og nenni ekki meir) bjó fín stelpa sem var með mér í bekk. Hún átti frábæra mömmu sem var fóstra og yndislegan pabba. Svo átti hún yngri bróður sem okkur fannst náttúrulega bæði vælu- og klöguskjóða. En við vorum líklega ekki alveg réttlátar í því mati okkar. Þessi maður skemmtir landanum á hverju laugardagskvöldi í dag. Aldrei hefði okkur dottið í hug að hann yrði svona frægur hann Gísli, þetta peð.

Lifið í friði.

sonic youth

Ég væri alveg til í að vera á Íslandi í kvöld… ekkert smá abbó…

Ég spyr nú eins og Hryssan, hvar eru allir? Nennti enginn að geta hvaða mynd ég sá um daginn? Var þetta of augljóst eða alls ekki ljóst?
Ég sá Kill Bill um daginn, bæði 1 og 2. Við hjónin erum í smá meðferð núna og reynum að horfa á bíómynd a.m.k. einu sinni í viku. Mér fannst Kill Bill bæði ógeðfelld og frekar leiðinleg. Jú, jú, hún Uma er flott og ýmislegt gott í myndunum en heildina var ég mjög svekkt með. Ég held að hluti af því sé að ég þoli mun verr ofbeldi en áður. Svo finnst mér Tarentino eiga við barnavandamál að stríða, hann finnur einn góðan brandara eins og t.d. að láta blóðið sprautast úr sárum eftir afskorna limi og notar hann aftur og aftur og aftur eins og dóttir mín gerir þegar henni tekst að fá okkur til að hlægja. Á endanum frýs brosið og maður þarf að halda í sér að verða ekki hreinlega pirraður. Sko, maður vill ekki gera litlu barni það að verða pirraður á sama hlut og fékk mann til að hlægja, maður reynir að leiða athygli þess að einhverju öðru og fá fíflalætin til að stöðvast af sjálfu sér. Tarentino býður ekki upp á þann möguleika, enda myndin hans ekki gagnvirk svo maður bara pirrast. Og bardagasenurnar eru leiðinlegar. Og uppgjör skötuhjúanna í endann er annað hvort of stutt eða einhver annar galli á því sem gerir það að verkum að maður nær ekki að langa til að syrgja það þegar hún drepur manninn sem hún elskaði en gat samt ekki elskað. Út á það gengur öll myndin, stefnir að þessu lokaklímaxi sem fellur um sjálft sig.
En svo sá ég Himmel über Berlin nú í vikunni og það fannst mér góð mynd. Nick Cave var ekkert smá sætur og Peter Falk hefur alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá mér. Og öll myndin er bara svo mannleg og yndisleg að maður var með stanlausan kökk í hálsinum af gleði og sorg. Snilld.
Fyrir löngu síðan fór ég að sjá Alice in the cities í bíó hérna og fannst hún líka frábær. Hún var sýnd í sjónvarpinu í gær en við gleymdum að taka hana upp. Það er gaman að sjá góðar bíómyndir og allt of sjaldgæf hamingja nú til dags sagði kerlingin og hló við fót.

En það sem við hjónakorn horfum yfirleitt á þegar við leggjumst í sófann er Malcolm in the middle. Á frönsku. Rosalega eru það nú skemmtilegir þættir maður. Alger unun. Setning úr þeim þáttum hefur ekki yfirgefið mig í nokkrar vikur: Ef ég hefði viljað fullkominn vinnumann hefði ég ráðið vélmenni eða Svía. Segir Ottó, þjóðverjinn sem rekur búgarðinn Grotto.
Þau eru svo djöfullega frábær öll fjölskyldan. Það hljóta að vera til gáfuleg skrif um þessa þætti, parallelluna við Friends og hvernig snilldin felst í anarkismanum en samt óhugnanlegri undirgefninni og sadómasókismanum… nenni ekki að gerast of „fræðileg“ en þakka æðri máttarvöldum hver sem þau eru fyrir að Sólrún var alltaf í klukkutíma að drekka brjóst og ég fór að horfa á sjónvarp á eftirmiðdögum alveg óvart út af því og uppgötvaði tilveru Malcolms og fjölskyldu hans.

Lifið í friði.

peter falk og nick cave

Ég eyddi kvöldinu í góðum félagsskap og fer að sofa í góðu skapi.

Lifið í friði.

Ég fékk beina spurningu í athugasemdakerfi Hreins Hjartahlýs frá Birni Friðgeiri: Hvernig á hann að borga mér fyrir leiðsögn ef ekki eru til peningar? Hann talar svo um að forritun í jafnlangan tíma og göngutúrinn tæki, kæmi ekki að neinu gagni og þar með finnst honum vöruskiptahugmyndin ekki hugsanleg milli okkar. Ég veit ekki alveg hvernig ég á að svara þessu. Draumurinn er vitanlega að við lifum öll sómasamlegu lífi og getum gert það sem okkur langar, þegar við viljum og að við þurfum ekki að hugsa um peninga, því peningar eru ekki til. Þess vegna þarf ekki að borga mér.
En ef við segjum að enn sé við lýði einhvers konar hagkerfi (sem er hugtak sem BF segir að ég noti rangt, ég er ekki sannfærð um það) í breyttu þjóðfélagi, þá finnst mér alveg spurning um það hvort að fyrirlestur og göngutúr með mér um götur Parísar eigi að mæla í sama tímaeiningaverði og forritun. En þetta yrði dálítið flókið og leiðinlegt reiknisdæmi og því ætla ég ekki að ganga lengra í því að spá í það. Enda yrði tíminn alls ekki álitinn peningar í mínu draumaríki. Það er ein af þessum kapítalísku leiðindaklisjum sem ég geri mikið í að reyna að losa heiminn undan. Tíminn er ekki peningar. Munið það öllsömul! Tíminn er mun dýrmætara fyrirbrigði en það sem hægt er að mæla í peningum.
Hinn sami Björn Friðgeir skrifar í athugasemdakerfi Hildigunnar að götusópari og heilaskurðlæknir ættu að fá sömu laun. Ég held að hann hafi verið að meina með þeirri athugasemd að þetta væri fásinna.
Persónulega finnst mér það alls ekki óhugnanleg tilhugsun að götusópari og heilaskurðlæknir hafi sömu laun. Hins vegar er ég alveg tilbúin til að viðurkenna að götusóparinn getur byrjað 16 ára að vinna, meðan heilaskurðlæknirinn getur ekki byrjað fyrr en… hvað ætli þetta séu mörg ár? 12? Segjum að hann geti byrjað að vinna 32 ára. Hann hefur því „tapað“ launum í öll þessi ár sem hann stundaði nám. Í mínum draumaheimi fékk verðandi læknirinn allt sem hann þurfti meðan hann stundaði námið, hann gat gengið í forðabúrið eins og allir hinir og leið aldrei eins og hann væri að tapa einhverju á því að vera í námi. Sem er enn ein af þessum ömurlegu klisjum sem koma upp nú til dags í sambandi við umræður um launakjör og annað.
Götusóparinn er líklega ómenntaður og hefur því tapað af fleiru í mínum huga en vesalings heilaskurðlæknirinn. Götusóparinn vinnur alveg nákvæmlega jafn göfugt og nauðsynlegt starf. Götusóparinn er maður sem við eigum öll að líta upp til og við eigum að vera þakklát fyrir að enn skuli fyrirfinnast fólk sem nennir að þrífa undan okkur skítinn. Maðurinn er svín og skilur leifar af ofneyslu sinni eftir sig um götur og stíga. Það höfum við vel fengið að kynnast hér í landi þar sem götusóparar eru með bein í nefinu og fara í verkfall þegar þeim líkar ekki ákvarðanir yfirvalda.

Mér þykir afar leiðinlegt að rífast um svona ómerkilega hluti eins og peninga. Ég hef ekki sömu sjónarmið gagnvart þessu fyrirbrigði og margir aðrir og mér er alveg sama um það. Mér er alveg sama um það að sumir hafa þörf fyrir að safna peningum og að aðrir fara mjög illa með peninga og að enn aðrir synda í kringum núllpúnktinn. Fólk hefur allan rétt til að lifa lífinu eins og því langar sjálfu. Og má bera virðingu fyrir peningum mín vegna. Eða bera virðingu fyrir fólki sem á peninga. Eða ekki.
OG ég held að Björn Friðgeir sé alveg ágætis maður. Bara dálítið mikill hagfræðingur… og kerfiskall… eða ekki…
Mér er sama. Kaupæði, málæði, erðett’ekki brjálæði?
Það dregur úr mér allan mátt að pæla of mikið í þessu.

Pælum frekar í þessu:
Í París ber ekkert safn eða minnismerki nafn konu.
Fjögur „avenue“ heita eftir konum, tvær þeirra eru dýrlingar og hinar eru Viktoría drottning og andpyrnuhreyfingarkonan Bertie Albrecht.
Ein metróstöð ber kvenmannsnafn: Louise Michel.

Hvílíkt óréttlæti sem þarna er á ferðinni. Og mun skemmtilegra að berjast fyrir fleiri kvennöfnum á staði í París en jafnan rétt til sómasamlegs lífs þegna jarðarinnar. Að minnsta kosti, vonandi, ekki eins djöfulli vonlaus og barnaleg barátta.

Lifið í friði.