Sarpur fyrir september, 2005

eyjólfur

Það þekkja víst margir hann Eyjólf sé ég á kommentakerfinu mínu hér að neðan.
Þegar við bjuggum saman samdi hann drykkjuvísur um kaldlyndar konur.
Ein setningin var eitthvað á þessa leið:

Konur eru kaldlyndar ég skála fyrir því.

Spánn er… ég er… orðlaus…
Ég er stödd í Munaðarnesi og það hafa fullt af Englendingum numið þar land.

Eyjólfur kann slatta í spænsku. Og nú mun ég ýta á: Publicar entrada.
Mig langar að læra spænskuna almennilega. En ekki hér.

Lifið í friði.

hasta la vista

baby

til umhugsunar

Eitthvert skáldanna og hugsuðanna sem ég les stundum sagði um daginn að auðveldara væri að skapa umræðu en umhugsun.
Ég sendi nokkrum vinkonum og einum vini hjálparbeiðni í morgun vegna reiknings sem ég þarf að gera. Spurði hvað ég ætti að biðja um mikið. Ég fékk svör um hæl frá stúlkunum sem töluðu um 1000-1500 krónur á tímann. Eftir nokkra klukkutíma fékk ég svar frá dregnum sem talar um 3-4000 krónur á tímann.

Þarf að bæta einhverju við þetta? Já, kannski er rétt að geta þess að drengurinn er einn af þessum mjúku karlmönnum og er alls ekki iðnaðarmaður á rosalaunum heldur láglaunaður háskólakarl.

Lifið í friði.

klukkleikurinn sýnir

vel hvaða bloggarar hafa týnt barninu í sér og hverjir ekki.

Svo sýnir hann líka stundum skemmtilega hluti um fólkið sem maður telur sig farinn að þekkja.
Ég hissaðist á ýmsu en nú man ég vitanlega ekkert af því.
Nema um Leiðarljósið og Ljúfu sem þurfti að gera annars konar lista sem ég geri kannski líka að hennar hvatningu. Ég veit ekki hvort ég hef þegar játað það á þessum síðum, en ég horfði á Leiðarljós í nokkurn tíma, fyrst í gríni og svo var þetta orðið þannig að ég man t.d. eftir mér hjólandi á fleygiferð, leggjandi mig og aðra í hættu í umferðinni til að ná heim fyrir 16.45 því ekki mátti missa af röddinni ógurlegu í byrjun: AND NOW… GUIDING LIGHT. Og best var þegar einhver leikaranna varð veikur: TODAY THE ROLE OF ALAN SPAULDING WILL BE PLAYED BY XY. Það var afar undarlegt og skemmtilega skrýtið þegar Alan breyttist úr tágrönnum ljósum manni í frekar breiðan, dökkan hálfsjóaralegan latínógaur. Og svo eftir viku var tágranni ljósi allt í einu kominn aftur. Fékk mann til að dreyma. Hvað ef maður gæti gert þetta í lífinu sjálfu? Fengið einhvern annan til að leika sig í smá tíma? Svona eins og þegar ráðin er afleysingamanneskja fyrir mann í vinnunni (sem ég hef nú reyndar aldrei lent í því ég hef aldrei verið með alvöru stöðu, þannig…). Allt í einu væri maður bara kominn í frí vitandi að XY reddar málunum fyrir mann, hringir í vinkonurnar, sækir börnin í skólann, gerir matinn, kyssir manninn minn???… kannski vill maður bara vera ómissandi í eigin lífi þó það sé harðbannað að leyfa sér slíka pressu af sálfræðilegum orsökum í vinnunni? Kannski er það vandinn við þetta líf. Hversdagslíf. Maður er ómissandi og enginn getur komið í staðinn fyrir mann. Maður í manns stað. Ónei ósei sei sei.
En aðdáun mín á Leiðarljósi leiddi til þess að ég á hotmeiladressuna leidarljos og ætlaði að skíra bissnessinn minn hér í París því nafni þar til ég komst að því að vafasöm trúarútgáfa í Reykjavík notar það. Var búin að gera auglýsingu sem hljómaði einhvern veginn svona: Leiðarljós, leiðsögn og sögulýsingar í París… Kannski var það lán fyrir mig að bókaútgáfan var til? Annars væri Parísardaman kannski ekki til? Og hvað hefði bloggið mitt þá heitið? Ætli leidarljos.blogspot sé til? Er ég til? Ég spyr eins og Farfuglinn. Hvernig fór það annars? Á hún hund?
Jæja, nú er ég farin að bulla sem er aldrei gert á þessari síðu. Kominn fríálfur í mig.

Nú er aðalmálið að Lesbókin berist mér fyrir brottför. Djí, ég hlakka til að lesa um dauða eða upprisu eða heilsu skáldsögunnar. Mér finnst Lesbókin yfirleitt mjög skemmtileg og hún er ástæðan fyrir því að ég á enn bankareikning á Íslandi, til að geta greitt áskriftina á henni. En mér finnst engin ástæða til að hissast á fólki sem finnst Lesbókin drepleiðinleg, og er hissa á Ljúfu að hatast við fólk sem skrifar íslenskuna bjagað. Mér finnst til dæmis systurnar Hallveig og Hildigunnur sem gera þetta óspart svo skemmtilegar og finnst þetta gera svona ákveðinn hreim, vera sniðugt stílbragð sem ég gæti samt ekki notað sjálf. Ég leita hins vegar logandi (leiðar)ljósi að því hverngi á að skrifa BOGGUHREIMINN. Sem er hneykslaða konan á náttkjólnum með rúllur í hárinu og sígarettuna lafandi í munnvikinu og talar úr kokinu og er agalega sjokkeruð á fólkinu í kringum hana sem hugsar ekki eins og hún sjálf. Ef einhver hefur hugmynd, er hún vel þegin. En ég veit að Ljúfa meinar ekkert illt með þessu. Ljúf eins og hún er þó hún segist ekki vera það…

Lifið í friði.

p.s. ég borðaði fullt af HRÍSKÚLUM í gær. Ligga ligga lá.

Kristínarguðspjall 23.5

1. Go into your LJ’s /blogs archive.
2. Find your 23rd post (or closest to).
3. Find the fifth sentence (or closest to).
4. Post the text of the sentence in your blog along with these instructions.

Sem minnir á Íslandið góða.

27. júní 2004 skrifaði ég víst 23. pistilinn, ef ég taldi rétt. Vísunin í Ísland var vitanlega kvörtun yfir kulda hér í París.

Ég lofaði mér aftur í vinnu á miðvikudag. Við sem vinnum sjálfstætt könnumst öll við það hversu hrikalega erfitt og ómögulegt og mikið tap er alltaf í því að segja nei. En ekki ætla ég að kvarta. Aldrei má taka dæsi mínu um mikla vinnu sem nöldri, mér finnst gaman að vinna og veit að ég vinn töluvert færri stundir á viku en flest það fólk sem ég umgengst.

Ég er í brjálæðislega góðu skapi. Alveg að tapa mér hérna, langar að dansa og syngja af lífs og sálar kröftum. ÉG ER AÐ FARA Í FRÍ!!!!
En í staðinn ætla ég að ganga hljóðlega um, taka úr vél og setja í aðra, taka smá til og taka mér svo pásu með bók þar til Kári litli vaknar. Þá förum við að sækja Sólrúnu í skólann og förum út í garð að róla og hver veit nema ég sleppi mér þar, maður getur til dæmis dregið börnin í fótbolta og skrækt og skríkt með góða afsökun. Af hverju ætli maður megi ekki bara hoppa og skríkja óforvarendis á almannafæri? Gera það ekki allir heima hjá sér stundum? Af hverju er maður ekki hömlulaus eins og lítil börn, það hlýtur að vera hollara fyrir geðið.

Lifið í friði.

klukk í borg

Já, ég var víst klukkuð af Ljúfu. Hér koma því fimm staðreyndir um mig. Ég ákvað að þetta þyrfti líklega að vera eitthvað sem ekki hefur komið fram áður hérna. Veit þó ekkert um þennan leik og tek þátt í honum algerlega græn. Hugrökk er ég.

1. Ég er mjög sátt við að eldast (því ég held ég þroskist aðeins sem er kannski ranghugmynd) en mér finnst samt erfitt að finna fyrir hrörnun líkamans.

2. Ég var mjög góð í stærðfræði í skóla en á nú í stökustu vandræðum með einfaldan hugarreikning.

3. Mér finnst súkkulaði svo gott að ég gæti líklega lifað á því einu. Helst svart og vel svart, en mér finnst samt bæði hvítt og ljósbrúnt líka frábærlega gott.

4. Ég var viðbjóðslega afbrýðisöm í fyrstu ástarsamböndum mínum en mamma kenndi mér að vinna bug á þeirri leiðu tilfinningu.

5. Mig langar ofboðslega mikið í bíl með loftræstingu þó það gangi þvert á allt sem ég tel mig vera: alls ekki spennt fyrir bílum, sérstaklega óhlynnt dýrum og „fansí“ bílum og gersamlega á móti því að menga loftið í kringum mig meira en ég þarf sem er einmitt helsti fylgikvilli loftræstra bíla, menga víst átta sinnum meira en venjulegir bílar.

Þar hafið þið það.

Ég klukka Hildigunni, Ingólf, Hönnu litlu, Ernu og Farfuglinn.

Lifið í friði.

kort og einkennisbúningar

Fyrst vil ég koma því að að kortagerðamenn eru góður og þarfur þjóðfélagshópur en þeir ættu að finna sér nýja kortabrotahönnuði. Ég er búin að vera að berjast við að brjóta saman kort í tvo daga og er orðin nett pirruð. Hvers vegna í ósköpunum er ekki hægt að hafa þetta einfalt: fyrst í tvennt og svo í tvennt…? Það hefur verið sama manneskja sem ákvað kortabrotin og sú sem ákvað viskustykkja- og handklæðabrotin. Kannski liggur lausnin þar? Hm. Tékka á því á eftir og læt ykkur vita, ef þið hafið áhuga.

Hvers vegna ætli það séu til óteljandi senur í kvikmyndum og bókum um fólk sem ofmetnast af örlitlu valdi sem það fær í hendur? Húsverðir, lyftuverðir, tollverðir og fleiri stéttir hafa fengið illa útreið í gegnum tíðina, af nógu er að taka í dæmum en minnisstæðast er mér atriðið í Fargo milli Buschemis og varðarins á bílastæðinu. Snilld. Ef þið munið það ekki er tilvalið að fara og sækja myndina á næstu leigu, þetta er mynd sem hægt er að sjá aftur og aftur. En ég ætlaði ekki að ræða kvikmyndir hér heldur fyrirbrigðið valdahroki litlu valdhafanna.
Það er einföld ástæða fyrir því að margir höfundar hafa fundið þörf hjá sér til að segja frá svona aðstæðum: þetta gerist of oft og það er viðbjóðslega frústrerandi og erfitt að vera fórnarlamb þessara smáu stjóra sem búa sér til litla kúlu, afmarka lítinn heim utan um sitt valdasvæði og leika þar einræðisherra. Þegar maður stendur frammi fyrir þessu fólki, slær það vopnin úr höndum manns með einni setningu: Ég ræð og svona er þetta. Engin rök gilda því við erum föst inni í kúlunni þeirra, föst inni í heimi þar sem eðlileg hegðun og sveigjanleiki hefur verið afmáð og ráðamaðurinn nýtur fulls réttar yfir manni.
Við vinkona mín lentum í tollverði í gær og vorum svo slegnar eftir senuna að við stóðum í miðri örtröðinni á vellinum sem er í stórum viðgerðum og meira en helmingurinn lokaður en flugumferð jafnmikil eftir sem áður, með hjartslátt og tárasviða í augum eins og fimm ára stelpukrakkar. Gersamlega réttlausar og sviknar.
Ókei, ég persónulega get ekki kvartað því ég ætlaði að svindla dálítið og fá skatt endurgreiddan á hlut sem átti að verða eftir í Frakklandi þvert á lögin. En vinkonan hafði keypt vörur sem hún er að fara með heim, HEIM TIL ÍSLANDS, þar sem hún býr og þurfti að sætta sig við það að greiða skatt á dóti sem hún átti fullan rétt á að fá skattfrjálst.
Mér er alveg sama um minn hluta, ég var hvort eð er með bullandi samviskubit yfir því að vera að svindla og hef aldrei gert þetta áður og mun líklega aldrei reyna þetta aftur, Guð er greinilega að vakta mig og lætur mig ekki komast upp með svona lélega þjófahegðun. En vinkonan þarf að bíta í það súra epli að hafa verið beitt stórkostlegum órétti og að geta líklega ekki gert neitt í því.

Nú á ég bara eftir að vinna daginn í dag og svo verður bara gengið í það að pakka niður litlum kjólum, stuttbuxum og sandölum. Sólkremið má ekki gleymast. Sólgleraugun ekki heldur. Sólrún ekki heldur. Sólstólarnir hljóta að vera á staðnum. Sólblómin… nei, þau eru í Frakklandi, eða kannski líka á Spáni? Sólbrún kem ég til baka. Sól sól skín á mig hí á þig.

Lifið í friði.

September i Villette


IMG_0647
Originally uploaded by parisardaman.

Afkæmi mín með Ívari vini sínum að leik um daginn í Villette-garðinum. Veðrið er ekki eins bjart í dag en við förum enn út á sandölum og hlírabolum hérna.
Kveðja til hvítklæddrar Esju og annarra fjalla í kjólum.

gráa efnið

Eini frídagurinn minn fram að brottfarardegi og hann er dökkgrár sem er ágætt því ég ætla að gera ýmislegt bráðnauðsynlegt innandyra í dag. Ég ætti kannski ekki að kalla þetta frídag þó ég sé ekki að vinna fyrir kaupi í beinhörðum peningum því ég verð áreiðanlega á fullu fram á kvöld en þetta er víst dæmigerðara fyrir konur en menn að finnast það vera frí að vinna í heimilinu en mér finnst það reyndar alls ekki neitt frí og fyrir mér væri frídagur að klæða mig upp og fara með bók niður í bæ og setjast á kaffihús og daðra smá (þetta leyfi ég mér að skrifa þar sem maðurinn minn skilur ekki tungumálið mitt þó að reyndar sé hann farinn að lesa mig, skilur eftir athugasemdir við og við… ætti ég að strika þetta út til að forðast óþarfa árekstra? nei, þetta stendur því þetta er svo smart tilhugsun að sitja með bók á kaffihúsi niðri í bæ og daðra) og fá mér salat og vínglas í hádegismat eins og ekta parísarpæja og kíkja svo kannski í eina aðeins of dýra búð fyrir mig og svo í HogM og finna kannski eins og eitt pils fyrir fríið. En nei, verð að fara í vinnugallann og pússa og mála bæði veggi og skrifborð og ef ég get, verð ég að endurspasla utan um illa hannaða baðkarið okkar því það eru víst komnir blettir í loftið á nýuppgerða baðherberginu fyrir neðan okkar. Hvað kostar nýtt baðkar? Svoleiðis hluti vill maður ekki þurfa að eyða í. Alls ekki óþarfi en… get ímyndað mér meira spennandi hluti en að kaupa baðkar. Til dæmis tölvu. Sem ég ætla að gera á morgun. Litla fartölvu. Og eftir það get ég vonandi fixað stóra borðhlunkinn minn aðeins svo hann geti hlustað á útvarpið og séð Kastljósið, djöfullinn að hafa ekkert séð um brotthvarf Davíðs úr stjórnmálum, maður er nú eiginlega bara hálfur Íslendingur fyrir vikið…

Annars er ég harmi slegin. Þriðjaheimsástandið sem ríkir hjá W finnst mér óbærilega óhugnalegt, lausnir forsetans eru BÆNIR! erum við að tala um W eða einræðisherra í litlu spilltu Afríkuríki??? Ástandið í Írak virðist svo vonlaust að manni verður óglatt við tilhugsunina og svo fannst mér afar erfitt að lesa um sjóslysið á Íslandi. Hugur minn staldraði hjá fólkinu sem ætlaði að ganga fjörur, það yrðu vinir og kunningjar hins týnda, sagði Mogginn. Ég get varla ímyndað mér þungbærari skref að taka.
Kannski var ég mest sorgmædd yfir Íslendingunum. Kannski meira en yfir fólkinu í New Orleans eða Írak. Ég veit það ekki, hvernig getur maður mælt harminn? Mælt þyngdina sem leggst á brjóstið? Í kílóum eða tárafjölda (sem í öllum þessa tilfella var núll – ég græt stundum yfir fréttum en ekki þessa dagana). Kannski er ástæðan líka að ég gæti alveg lent í því að einhver byði mér út á bát með manninum mínum og svo hyrfum við öll í hafið meðan mér finnst ómögulegt að ímynda mér stórflóð ryðja burtu húsunum á hæðinni sem ég bý á eða sprengjutilræði á hverju götuhorni í þessari friðsælu borg minni. Kannski.
Kannski vegna þess ég þekkti „unga manninn sem lést í slysinu í gær“ fyrir nokkrum árum og síðan þá hefur þessi tegund frétta alltaf mikil áhrif á mig, fær mig til að endurupplifa örvæntinguna og hræðsluna og reiðina sem grípur mann þegar maður þarf að horfast í augu við dauðann?
Kannski vegna þess að eftir að þurfa að horfa á eftir einhverjum bíður maður stöðugt eftir því að það gerist aftur? Lýstur því ekki alltaf í huga minn að kannski hafi verið reynt að hringja í mig, kannski sé þetta einhver úr minni fjölskyldu, mínum vinahópi, kunningi kunningja og að þá verði atburðurinn óþolandi konkret, hættir að vera þessar klisjukenndu setningar og ólýsanlega óljósu lýsingar og verður harður og nöturlegur raunveruleiki um móðurina sem grætur svo mikið að hún fær sprautur og föðurinn sem grætur svo lítið að hann þarf sprautu líka og litla barnið sem spyr aftur og aftur og…

En það sem maður lærir af því að jafna sig á dauðsfalli er einmitt að lífið heldur áfram og teymir okkur sem eftir stöndum á eftir sér og að það þýðir ekkert að vera með óhemjugang og það er ekki glæpur að byrja að brosa aftur og kannski er það eðlilegt að liggja í sófanum og grúfa sig ofan í fréttir af ömurlegu slysi og standa svo upp, dæsa, og grípa málningarpensilinn: Best að drífa þetta af. Þetta VERÐUR að gerast. Verður? Hvað ef ég geri það ekki? Við drepumst varla?

Svo fékk ég annars konar blústilfinningu við að glugga í Lesbókina. Ég treysti mér ekki til að lesa neitt í heilu lagi, ég þoli ekki þessa helvítis höfunda, þetta djöfuls pakk sem lifir á skriftum meðan við skrimtum hérna og sóum skriftarhæfileikum okkar út af péningum sem við neyðumst til að eiga til að lifa.
Ræddi heillengi um þetta við manninn minn í gær. Við komumst að þeirri niðurstöðu að ef við vildum bæði reyna að skrifa bók, yrðum við að gera það á næturnar. Málið er að yfirleitt dettum við niður fyrir klukkan ellefu og oft fyrir klukkan tíu. Hvernig í ósköpunum ættum við að koma út úr okkur setningum á blað svona örþreytt sem við erum á kvöldin?
Hvernig fer þetta fólk að? Þetta lið sem leikur lífshlutverkið rithöfundar? Helvítis forréttindapakk og ekkert betra en ég!

Lifið í friði.

týnd að tapa mér

Ég er gersamlega týnd núna. Var að lesa Norðanáttina eftir langt hlé og hann segir m.a. að Þórdís sé Hallgrímur. Er það satt? Missti ég af þessu öllu þegar þetta var gert upp?
Sko, ég get ekki og hef aldrei getað lesið kommentin hjá Norðanáttinni. Viljið þið segja mér sannleikann í málinu. Einhver?
Ekki það að Þórdís er þrælskemmtileg kona hvort sem hún er Hallgrímur eður ei. Hallgrímur er þrælskemmtilegur karl hvort sem hann á alteregó eður ei. Breytir sossum engu. Eða hvað? Hjálp!

En gleymið þó ekki að lifa í friði.


Nýlegar athugasemdir

parisardaman um Kveðja
Margrét H um Kveðja
koparskál um Tau frá Tógó
Elín Kjartansdóttir um rafmögnuð kona
juliann um agnetha