Sarpur fyrir október, 2005

hillur


hillur
Originally uploaded by parisardaman.

Hér gefur að líta hluta afraksturs síðustu daga.
Hillurnar eru flestar keyptar á flóamörkuðum og pússaðar og mismunandi oft málaðar. Svo eru þær bónaðar og hafa slétta og mjúka áferð.
Hillan með hjörtunum er skúffa úr kommóðu sem breyttist í dúkkuhús og þarf því ekki skúffurnar sínar lengur. Í götin fyrir hnúðana koma krókar og þar á að hengja ljósaseríu. Tilvalið í stelpuherbergið, er það ekki?
Litlu hólfahillurnar eru fyrir bréfin, eitt hólf fyrir ástarbréf, annað fyrir boðskort og þriðja fyrir reikninga ef fólk er fyrir þá. Annars fyrir t.d. flugmiðana og svoleiðis pappíra sem ekki má týna.
Ég set inn fleiri nærmyndir þegar ég hef betri tíma, eldhúsið mitt er líklega orðið smurt í ávaxtamauki ef ég skil hljóðin sem þaðan berast rétt.
Lifið í friði.

oh baby baby it’s a wild world

Komin aftur í bæinn og biðst afsökunar á færslunni sem ég skildi eftir í fimm, sex daga. Auðvitað verðum við að berjast fyrir gildismati í peningum í þessu þjóðfélagi. Auðvitað. Lesið „skammirnar“ sem ég fékk í kommentakerfinu, þakka þær og hef engu við að bæta… í bili. En bendi hins vegar á það að það er rétt hjá Meó, karlhelvítin eru með mestu neikvæðnina og hæðnina gagnvart þessu.
Svo legg ég til að næsta afmæli verði skipulagt af Þórdísi og að í boði FL verði öllum konunum flogið til Parísar, þar sem öll stóru konungatorgin eru og eitt þeirra verður hertekið og svo verður pique-nique við Signubakka um kvöldið…

Annars eru blendnar tilfinningar í huga mér einmitt núna. Okkur stöllum gekk gífurlega vel í vinnuferð í sveitinni, máluðum og pússuðum og aðallega pússuðum og mér er illt í hægri hendi við að pikka á tölvuna og nú eigum við fullt af litlum fínum hillum og ýmislegt að selja og nú er bara að finna út úr því hvar við getum selt og fyrir hvað mikið og og og… veröldin er villt og ég er villtari, áttavillt stúlka á leiðinni út í alvöru heim, heim karlmannanna, sölumannanna, græðginnar og framagirninnar, verðum við frægar, verður eftir okkur tekið, verðum við komnar með fagra karlmenn með stinna bossa í vinnu við að pússa áður en við vitum af?

Ég er svo manísk einmitt núna að ég væri pottþétt að hlaða inn myndum í þessarri andránni ef ég fyndi helv djö ansdsk snúruna milli vélarinnar og vélarinnar bis. Gæti grátið af frústrasjón og pirringi. Hvert í jevla fór snúran? Leyfi börnunum ekki að leika sér við slíkt dót svo ég hlyti, HLYTI að hafa tekið hana af þeim. Eða hvað? Er hún kannski inni í draslinu þeirra? Eða bak við gömlu bókahilluna hérna? Hún hékk alltaf hér hjá dagatalinu á nagla á sínum stað og nú einmitt nú þegar mikið liggur við er hún ekki á sínum stað.
Best að fara að leita, get ekki beðið eftir að fá viðbrögð frá lesendum mínum.

En hér kemur bloggið sem mig langaði mikið að blogga, snúru og vélarlaus í sveitinni á fimmtudagskvöld:
Hér er hiti og stjörnubjart.
Máluðum á hlírabolum og stuttbuxum í dag og sitjum úti við grillið að borða.
Október hvað?

Lifið í friði.

bless elskurnar

Ég er mikið að velta vöngum yfir vangaveltum Vésteins (vangaveltur-vesteins.blogspot.com) um það að kvennabaráttan snúist um ranga hluti. Sem var einmitt að vefjast fyrir mér í pistlinum á undan. Eru það meiri peningar sem við viljum? Er hægt að mæla manngildi í peningum? Er það ekki einmitt samþykkt þessa ofurkapítalíska þjóðfélags sem trúir því virkilega (sjáið athugasemdina sem ég fékk fyrir neðan) að það gefi lífinu GILDI að þurfa að „berjast“ fyrir hærri launum? Að það sé leyndardómur hamingjunnar. Að ef við þurfum ekki lengur að „berjast“ að ákveðnum fjárhagslegum takmörkum verði óhjákvæmilega stöðnun og rotnun?
Mér finnst það næstum ómöguleg tilhugsun að ég þurfi að skrifa undir það að öskra á hærri laun og meira af háum stöðum í þjóðfélagspýramída sem ég fyrirlít. Ég er ekki sammála öllu hjá Vésteini og þessar pælingar breyta engu um það að mér fannst þessi fundur á mánudag og þessi mikla þáttaka vera eitthvað merkilegt og fallegt. Og ég held að það sé hálfgert einsdæmi í heiminum hvernig konur ná að standa saman á Íslandi, vera vinkonur og elska hver aðra, burtséð frá stéttaskiptingu og pólitískum skoðunum. Við konur og kannski við Íslendingar öll, afmáum mjög auðveldlega þessi „gildi“, lítum sjaldan á mismikla menntun eða misstóra bankareikninga sem hindranir í að eiga samskipti okkar á milli og ég hef ekki séð dæmi um þetta í nokkru öðru landi. Hvorki í Frakklandi né í Danmörku sem eru ríkin sem ég þekki best.
Margar vinkvenna minna kjósa allt aðra flokka en ég myndi nokkurn tímann gera en ég elska þær og virði þeirra skoðanir þó mig dreymi auðvitað stundum um að leiða þær á „réttar“ brautir. Hvað er rétt og rangt? Maður trúir einhverju og svo trúa aðrir einhverju allt öðru og hvað með það? Höfum við ekki öll rétt til að trúa því sem við viljum? Trúfrelsi.
Kannski hafa konur látið launabaráttuna sitja dálítið á hakanum og því orðið undir einmitt vegna þess að við höfum minni áhuga á að græða meira og meira af peningum. Okkar áhugamál liggja annars staðar, í mannréttindum og annars konar bótum á þjóðfélaginu okkar. Kannski. En kannski erum við bara kapítalískir lúserar. Kannski.

Ég er farin í sveitina fram á sunnudag. Burt frá tölvum og börnum og kalli. Ætla að mála meira af hillum og skápum. Lofa myndum eins og ég geri alltaf, sé til hvort ég stend við það í þetta sinn.

Lifið í friði og verið þæg og góð hvert við annað.

taugar titra

Ferlega finnst mér bloggin sem heimta innritun pirrandi því þá birtist þessi slæma mynd af mér með.
Og Bryn, gerir þú þér grein fyrir því að með þessu ertu að útiloka allar vinkonurnar? Við hvað eruð þið hrædd, að ógurlegir geðsjúklingar birtist og segi að þið séuð feit og heimsk?

Lifið í friði.

einir fara…

Einhverra hluta vegna get ég ekki haft kommur yfir stöfunum í fyrirsögninni þegar ég blogga úr litlu fínu nýju tölvunni sem ég þarf að gera þegar ég er að hlusta á útvarpið. Það getur stundum verið smá þraut að finna titil án broddaðra sérhljóða.
En alveg eins og í lífinu fara bloggarar og aðrir koma í stað. Því hef ég kippt Uppglenningi út og setti vinkonu mína nýgræðing í bloggheimum inn í staðinn.
Hún er sú eina af vinkonum mínum sem bloggar og ein af fáum sem les mig reglulega. Hún sagði í tilkynningunni til mín að hún væri hrædd við að standast samanburðinn við mig. Ég hló við fót enda er ég ekki í neinni keppni heldur bara að fá útrás fyrir allt helvítis kjaftæðið sem ómar stöðugt í höfði mínu. Og eins og þegar ég hleypti blótinu út er ég mun rólegri yfir röddunum í höfðinu síðan ég hóf að blogga.
Kæru lesendur, má ég kynna: Bryn parísardömu og nýbúa á Íslandi! Njótið heil.

Lifið í friði.

sigur

Já, örugglega stórsigur í höfn með fundinum í gær. Ég spái því að stjórnvöld skelli saman einum lagabálki og leiðrétti óréttlætið afturvirkt til þrjátíu ára strax í dag.
Þannig gætu konur t.d. keypt FL Group af Hannesi og sýnt körlum hvernig á að stjórna einokunarfyrirtæki í útrás.
En sem betur fer hefðu þær ekki áhuga á því. Miklu gáfulegra að gera eitthvað skemmtilegt við peningana, láta þessa karla sjá um leiðindamálin áfram. Er víst að konur hafi nógu mikinn áhuga á stjórnunarstöðum? Fyrir mína parta hef ég alls engan áhuga. Og mér er nokk sama hvort það er karl eða kona sem ræður yfir mér, hef lent í ótrúlega óréttlátum yfirmönnum af báðum kynjum í gegnum tíðina og alið í brjósti mér kenningu um það að góðir yfirmenn og réttlátir stjórnendur eru svo fágætir að þau ættu heima á sérstöku safni.
Auðvitað er það ómögulegt og ótrúlegt og óásættanlegt að konur skuli ekki vera jafnar körlum. Auðvitað. Alveg eins og útlendingar og hommar og einfættir og heyrnadaufir. Spurningin er bara hversu langt við viljum ná. Ég held að heimurinn væri betri, væri honum stjórnað af konum. Ég held að þær leituðu síður en karlar í vopnabúrið til að útkljá deilur. Ég held það en minni aftur á það sem karlinn minn skellti framan í mig einhvern tímann þegar ég var að básúna þetta hérna í stofusófanum: Hvað með Margréti Thacher? Jamm. Ekki einfalt.
En það er einfalt að konur og karlar eigi að fá sömu laun. Allir eiga að fá sömu laun. Skúringakonan og forstöðukonan, öskukallinn og ráðherrann, fóstran og forsetinn. Allir eiga að vera jafnir fyrir guði okkar nútímamanna, hvort sem við viljum kalla hann dollara, jen, evru eða krónu. Þetta er sami guðinn. Það ríkir eingyðistrú í heiminum í dag og ótrúlegt að ekki skuli allir þegnar hans vera jafnir. Og gífurlega stórt og mikið gap milli þeirra verst settu og þeirra best settu. Og ógurlega fæ ég mikla löngun til að kasta upp þegar ég se menn eins og þann sem sat fyrir svörum í imbakassanum í gær. Mikill kontrast milli fréttanna af kvennafundinum og þeirrar fréttar. Súkkatí múkkatí kaupa meira fínerí. Er þetta ekki brjálæði?
Kannski er það málið með þessi þrjátíu ár sem liðu án róttækra breytinga í launamálum og stjórnunarstöðuveitingum? Við berjumst vitanlega ekki fyrir einhverju sem við höfum ekki áhuga á. En þó ég persónulega hafi ekki áhuga á því að stjórna vil ég geta verið viss um að fá sömu laun fyrir sömu störf og karlar. Og ég vil fá fleiri konur í æðri stöður ef einhverjar eru þarna úti sem gætu haft áhuga. Mér dettur nú nokkrar flottar í hug. Bæði þjóðþekktar og á fullu í baráttunni, eins og t.d. Ingibjörg Sólrún. Og nokkrar síður þekktar góðar vinkonur.
Sem minnir mig á: Ég er líka vinkona hennar nöfnu minnar Hafsteinsdóttur sem talað var við í fréttum í gær þar sem hún stóð vel greidd og máluð með bindi í jakkafötum. Kristín stóra unga, þú varst alveg frábær! Ligga ligga lá. Ég þekki hana, hef tekið í hendina á henni, faðmað hana og sakna hennar á hverjum degi. Hún er ekkert smá falleg og klár kona. Eins og flestar konur eru, ef ekki allar – nema sumar…

Varðandi staðsetningu:
Ég var búin að spá í það hvort þetta væri ekki lítið torg, en þorði ekki að yrða það hér af ótta við að það yrði rekið ofan í mig sem stórborgarrembingur. En hvað þarf löggan að búast við mörgum til að samþykkja að loka stærri umferðaræðum en Austurstræti og Aðalstræti sem eru götur sem maður forðast eins og miðaldargötur Parísar og heitan eld?

Takk enn og aftur allar konur og karlar sem voruð þarna í gær fyrir mig og dóttur mína. Nú þarf að fylgja þessu máli eftir og sjá til þess að fyrirtækin hafi ekki misnotað daginn til að birta hræsnifullar heillaóskir á heilsíðum í lit. Nú þurfa þau að sýna samstöðu í verki. Og ekki má heyrast sami vonsviknistónninn eftir þrjátíu ár um að þó ýmislegt hafi breyst ríki enn misrétti á Íslandinu góða. Fundurinn tókst vel og honum þarf að fylgja kröftuglega eftir.

Og í lokin er best að ég geri risastóra játningu: Ég felldi nokkur tár við að horfa á ykkur þarna í gær á netinu. Og skalf eins og hrísla í vindi.

Lifið í friði.

p.s. Ekkert kom um þetta í sjónvarpsfréttum á TF1 eða France2 í gær. Hins vegar var talað um þetta í útvarpi í gærmorgun, frétti ég. Ég ætla að fylgjast með fréttum í kvöld aftur.

minning um mann

Uppglenningur er farinn. Ég hef engar skýringar á brotthvarfinu en lýsi því hér með yfir að hans er sárt saknað.
Allt of margir bloggarar að hætta. Er þetta einhvers konar sjálfsmorðsplága. Bloggsjálfsmorð framin í hverri viku. Eitthvað til að hafa stórar áhyggjur af?

Lifið í friði.

pælingar

Mikið hef ég séð ritað og spáð í kvennafrídaginn. Ég er búin að segja frá því hér að ég er mjög ánægð með þetta framtak en ég hef séð a.m.k. tvo bloggara sem ég virði mikils tala á móti þessari uppákomu í dag. Auðvitað verður maður að spá í það sem fólk sem maður virðir hefur að segja.
Hér í Frakklandi hefur mikið verið rætt um hópa, minnihlutahópa, skiptingu í hópa og hvort rétt sé að undirstrika einkenni ákveðinna hópa með ýmsum hætti. Til dæmis hefur áætlun um að halda Hýra ólympíuleika í París 2010 kveikt á umræðu um það hvort samkynhneigðir eigi eða þurfi að undirstrika það að þau séu „öðruvísi“. Er samkynhneigt fólk ekki einmitt alltaf að berjast fyrir því að falla inn í hópinn, vera samþykkt sem eðlilegt fólk jafnt gagnkynhneigða eða kynlausa fólkinu?
Ég er alveg sammála því að auðvitað eru samkynhneigðir alveg eins og hinir og er alltaf jafn hissa þegar ég heyri talað um fordóma gegn þeim. Ennþá? Málið er að það eru bullandi fordómar gagnvart samkynhneigðum og þannig verður það áreiðanlega lengi enn. Þrátt fyrir að mörg fjöll hafi verið flutt úr stað og jafnvel nokkrum jafnað við jörðu er það sorgleg staðreynd að hrækt er framan í karla sem kyssast og sparkað í konur sem leiðast á götum út um allan heim, hvort sem það er í hinni frjálsu og opinhuga París, sem stjórnað er af myndugleik af samkynhneigðum manni eða í útkjálkaþorpi fullu af þröngsýnum „verkfærum Guðs“. Þess vegna finnst ákveðnum aðilum ástæða til að sýna hópinn saman í fjöri og stuði (þetta á líka við um Gay Pride) í veikri von um að kannski sjái hinir „venjulegu“ að allt er í lagi með hommana og lellurnar.
Það sama má segja um konur og jafnrétti. Margt hefur breyst svo mikið að maður trúir varla minningum sínum um hlutverkaskiptinguna sem ríkti á heimilum í Breiðholtinu fyrir þrjátíu árum síðan. Þá var öskrað að ekki yrði eldað í kvöld, sem færir glott á andlit okkar kvenna í dag. Eldað? Ha? Átti JónPalliGummi ekki hvort sem er að henda pastanu í pott í kvöld? Ég held að ég sé ekki að fara með fleipur, en ég þekki ekki nokkurt heimili þar sem konan eldar ein. Þessu er skipst á eins og flestum heimilisstörfum.
Hins vegar er það púra stærðfræði og það sér það hver heilvita maður að þessi launamismunur er eitthvað óheilbrigt fyrirbrigði, undarlegur skuggi á svokölluðu jafnrétti. 64,15 prósent! Það er næg ástæða fyrir mig til að langa til að ganga, ásamt fylkingu kvenna og vitanlega allra karla sem vilja hjálpa okkur, niður Skólavörðuholtið og vekja þjóðina og leiðtoga hennar til alvarlegrar umhugsunar um að þennan blett þarf að má af okkar svokallaða nútíma jafnréttissinnaða samfélagi.

Hópefli er leiðinlegt orð sem minnir á alla orðanotkun kapítalista og annarra gúrúa. Hópdjamm er eitthvað sem ég á bágt með að þola þó ég hafi mjög gaman af því að sjá homma og lellur dilla sér í Gay Pride göngunni og fann alveg hjartað taka kipp og fór að dilla mér sjálf óforvarendis síðast þegar ég varð vitni að þessu, sem var reyndar fyrir alllöngu síðan. Og yfirleitt forðast ég stórar skemmtanir á götum úti.
En hópdjamm er allt annað en MÓTMÆLAFUNDUR. Þannig forðast ég 17. júní en finnst skylda mín að mæta í göngu 1. maí. Og þó að mótmælafundurinn í dag sé fullur af skemmtiatriðum og eigi að fara ljúflega fram má alls ekki gleyma því að það að þögn er sama og samþykki, að ekki er hægt að samþykkja þennan kynbundna launamun og að einmitt þess vegna er þessi fundur haldinn í dag.
Ég verð þar í anda. Og óska öllum mótmælendum, konum og körlum, góðrar skemmtunar í dag um leið og ég þakka þeim fyrir að gera þetta fyrir mig og dóttur mína.

Lifið í friði.

Mon mari est un génie.

Chers lecteurs et lectrices,

je vous signale que le blog de mon mari est de plus en plus génial et que ça ne vous fera pas de mal, vous insulaires nordiques, de le consulter de temps en temps.

Cordialement,

La femme du génie.

jibbi jei

Ég hitti mann sem hafði gaman af vinnu sinni við að þjóna fólki og hann fann út fyrir mig að mig vantaði stuffit expander í tölvuna mína til að geta sett upp tækið sem þarf til að hlusta á RÚV. Ég fór heim glöð í hjarta og gerði þetta í morgun og nú sit ég og hlusta á orð skulu standa í fyrsta sinn á ævinni. Hef bara lesið um þann indæla þátt í laugardagsmogganum lengi.
Og hlakka til að heyra í ykkur konur á morgun og vona að Uppglenningur fari með myndavélina sína niður í bæ þó hann sé svo bældur að þola ekki hópefli.
Áfram stelpur. Þor’ég vil ég get ég JÁ!

Lifið í friði.


Nýlegar athugasemdir

parisardaman um Kveðja
Margrét H um Kveðja
koparskál um Tau frá Tógó
Elín Kjartansdóttir um rafmögnuð kona
juliann um agnetha