sigur

Já, örugglega stórsigur í höfn með fundinum í gær. Ég spái því að stjórnvöld skelli saman einum lagabálki og leiðrétti óréttlætið afturvirkt til þrjátíu ára strax í dag.
Þannig gætu konur t.d. keypt FL Group af Hannesi og sýnt körlum hvernig á að stjórna einokunarfyrirtæki í útrás.
En sem betur fer hefðu þær ekki áhuga á því. Miklu gáfulegra að gera eitthvað skemmtilegt við peningana, láta þessa karla sjá um leiðindamálin áfram. Er víst að konur hafi nógu mikinn áhuga á stjórnunarstöðum? Fyrir mína parta hef ég alls engan áhuga. Og mér er nokk sama hvort það er karl eða kona sem ræður yfir mér, hef lent í ótrúlega óréttlátum yfirmönnum af báðum kynjum í gegnum tíðina og alið í brjósti mér kenningu um það að góðir yfirmenn og réttlátir stjórnendur eru svo fágætir að þau ættu heima á sérstöku safni.
Auðvitað er það ómögulegt og ótrúlegt og óásættanlegt að konur skuli ekki vera jafnar körlum. Auðvitað. Alveg eins og útlendingar og hommar og einfættir og heyrnadaufir. Spurningin er bara hversu langt við viljum ná. Ég held að heimurinn væri betri, væri honum stjórnað af konum. Ég held að þær leituðu síður en karlar í vopnabúrið til að útkljá deilur. Ég held það en minni aftur á það sem karlinn minn skellti framan í mig einhvern tímann þegar ég var að básúna þetta hérna í stofusófanum: Hvað með Margréti Thacher? Jamm. Ekki einfalt.
En það er einfalt að konur og karlar eigi að fá sömu laun. Allir eiga að fá sömu laun. Skúringakonan og forstöðukonan, öskukallinn og ráðherrann, fóstran og forsetinn. Allir eiga að vera jafnir fyrir guði okkar nútímamanna, hvort sem við viljum kalla hann dollara, jen, evru eða krónu. Þetta er sami guðinn. Það ríkir eingyðistrú í heiminum í dag og ótrúlegt að ekki skuli allir þegnar hans vera jafnir. Og gífurlega stórt og mikið gap milli þeirra verst settu og þeirra best settu. Og ógurlega fæ ég mikla löngun til að kasta upp þegar ég se menn eins og þann sem sat fyrir svörum í imbakassanum í gær. Mikill kontrast milli fréttanna af kvennafundinum og þeirrar fréttar. Súkkatí múkkatí kaupa meira fínerí. Er þetta ekki brjálæði?
Kannski er það málið með þessi þrjátíu ár sem liðu án róttækra breytinga í launamálum og stjórnunarstöðuveitingum? Við berjumst vitanlega ekki fyrir einhverju sem við höfum ekki áhuga á. En þó ég persónulega hafi ekki áhuga á því að stjórna vil ég geta verið viss um að fá sömu laun fyrir sömu störf og karlar. Og ég vil fá fleiri konur í æðri stöður ef einhverjar eru þarna úti sem gætu haft áhuga. Mér dettur nú nokkrar flottar í hug. Bæði þjóðþekktar og á fullu í baráttunni, eins og t.d. Ingibjörg Sólrún. Og nokkrar síður þekktar góðar vinkonur.
Sem minnir mig á: Ég er líka vinkona hennar nöfnu minnar Hafsteinsdóttur sem talað var við í fréttum í gær þar sem hún stóð vel greidd og máluð með bindi í jakkafötum. Kristín stóra unga, þú varst alveg frábær! Ligga ligga lá. Ég þekki hana, hef tekið í hendina á henni, faðmað hana og sakna hennar á hverjum degi. Hún er ekkert smá falleg og klár kona. Eins og flestar konur eru, ef ekki allar – nema sumar…

Varðandi staðsetningu:
Ég var búin að spá í það hvort þetta væri ekki lítið torg, en þorði ekki að yrða það hér af ótta við að það yrði rekið ofan í mig sem stórborgarrembingur. En hvað þarf löggan að búast við mörgum til að samþykkja að loka stærri umferðaræðum en Austurstræti og Aðalstræti sem eru götur sem maður forðast eins og miðaldargötur Parísar og heitan eld?

Takk enn og aftur allar konur og karlar sem voruð þarna í gær fyrir mig og dóttur mína. Nú þarf að fylgja þessu máli eftir og sjá til þess að fyrirtækin hafi ekki misnotað daginn til að birta hræsnifullar heillaóskir á heilsíðum í lit. Nú þurfa þau að sýna samstöðu í verki. Og ekki má heyrast sami vonsviknistónninn eftir þrjátíu ár um að þó ýmislegt hafi breyst ríki enn misrétti á Íslandinu góða. Fundurinn tókst vel og honum þarf að fylgja kröftuglega eftir.

Og í lokin er best að ég geri risastóra játningu: Ég felldi nokkur tár við að horfa á ykkur þarna í gær á netinu. Og skalf eins og hrísla í vindi.

Lifið í friði.

p.s. Ekkert kom um þetta í sjónvarpsfréttum á TF1 eða France2 í gær. Hins vegar var talað um þetta í útvarpi í gærmorgun, frétti ég. Ég ætla að fylgjast með fréttum í kvöld aftur.

0 Responses to “sigur”  1. Færðu inn athugasemd

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: