Sarpur fyrir nóvember, 2005

trois cent soixante six

Pistill númer 366. Kannski fer að vera komið nóg.
Komin heim og í hvílíku jólaskapi að það hálfa væri nóg. Rétt rúmar tvær vikur í brottför, áttatíu jólakort að skrifa og ná að taka mynd þar sem fegurð barnanna næst vel án þess að myndin sé væmin og uppstillt og ná að prenta hana út í réttu formati og þetta hljómar áreiðanlega allt sem hin mesta kökusneið fyrir einhverja en er mikið mál fyrir mig. Ég hef ógurlega gaman að (eða var það af, nú er ég týnd í þessu gaman að – gaman af) fjölskyldumyndunum mínum og mig óar við þeirri tilhugsun að tapa albúmunum mínum. En ég er líklega ekki mjög góður myndasmiður, ég veit að ég hef lítið auga fyrir myndbyggingu og lélegt næmi fyrir litasamsetningum. Málið er að mínar eftirlætismyndir eru yfirleitt illa teknar, vantar neðan á fólk eða hliðina eða ofan á en mér er alveg sama því myndirnar mínar eru mín móment, mínar minningar sem ég er að frysta aðallega fyrir sjálfa mig. Ég hef nú samt ógurlega gaman af (eða að?) því að skoða annarra manna myndir líka, annarra manna móment og minningar hreyfa við mér. Ég þarf ekki einu sinni að þekkja fólkið á myndunum, mér finnst fáránlega gaman að horfa á gamlar uppstrílaðar konur í sófa með tertudisk í höndunum og landslagsmynd í bakgrunni. Ég hef enga skýringu á þessu og þarf enga skýringu. Kannski veitir þetta mér einhvers konar öryggistilfinningu. Ég er mikil fjölskyldumanneskja og mér finnst líka yfirleitt gaman að fara í fjölskylduboð. Ég er líka svo heppin að allar mínar fjölskyldur (móður-, föður- og tengdafjölskyldan) eru mátulega samheldnar og mátulega samsettar úr misskrýtnu og skemmtilegu fólki.
Og á sama hátt finnst mér ógurlega gaman að senda öllum jólakort. Ég sendi um 80 kort þegar mér tekst að ljúka listanum, þau urðu nú ekki nema 60 í fyrra. Ég sendi eftirlifandi vinkonum ömmu minnar, gömlum nágrönnum og alls konar fólki sem ég hitti nánast aldrei. Ég held að ég hafi fengið eitthvað í kringum 10 kort á pappír í fyrra. Ég tel tölvupóst ekki með, mér finnst tölvupóstur ekki geta komið í staðinn fyrir jólakortin sem ég opna við mikla seremóníu eftir að pakkarnir hafa verið opnaðir. Þá er hitað kaffi og konfekt dregið fram og jólakortin lesin í rólegheitunum, myndirnar skoðaðar og stundum hlegið dátt, hent að öllu gaman. Ég er náttúrulega alger jólaálfur og elska jólin og allt sem þeim viðkemur. Ég kemst við þegar bjöllurnar hringja í útvarpinu og get yfirleitt ekki sungið heims um ból án þess að klökkna. Hvaða játningablogg er þetta eiginlega? Best að hætta áður en ég fer út í viðkvæmari sálma.

Lifið í friði.

farin bless

Ég er að fara í vinnuferð. Kannski eins konar vísindaferð. Til Bournemouth. Vísindarannsóknin verður þó ekki þar heldur í Oxford. En það er of flókið að útskýra hvers vegna Bournemouth. Og nú er ég búin að skrifa þorpsheitið tvisvar án þess að vera alveg viss á stafsetningunni. Og nú kemur það í þriðja sinn: Ég fór einu sinni til Bournemouth. Við fjölskyldan vorum á ferð á eigin bíl þvert yfir Evrópu og áttum bátsferð heim frá Newcastle. Mamma mín lærði einu sinni fyrir löngu síðan ensku eitt sumar í Bournemouth og fékk ástarbréf frá þýskum aðdáanda lengi á eftir. Hún heimtaði pílagrímsferð þangað sem við og gerðum. Ég man eftir ágætlega skemmtilegri strönd þó ekki væri sólbaðsveður en strendur eru einmitt yfirleitt betri þannig. Og svo man ég að við gengum inn á fish and chips stað og maðurinn tilkynnti stoltur að í dag væri fiskurinn frá Íslandi. Hann trúði okkur held ég aldrei alveg þegar við reyndum að sannfæra hann um að það værum við líka. Tók okkur líklega fyrir megalómaníska Svía. Eða ekki.
En Bournemouth baby here I come. Með kampavín í töskunni! Því þó þetta sé vinnuferð er ekki á áætlun að vera neitt of þægur. Sem minnir mig á að ég átti alltaf eftir að segja ykkur að matardagbókin mín varð örsaga, ég komst fljótt að því að ég er mjög stabíl og borða reglulega þó bæði skorti morgunmat og kaffitíma of oft. En ég er ekki mikið að nasla á milli mála að öllu eðlilegu og borða úr öllum fæðuhringnum. Þetta var nóg fyrir mig, ferlega er leiðinlegt að skrifa allt svona niður. Og kannski sérstaklega þar sem vínbindindi okkar bóndans hefur snúist gersamlega upp í andhverfu sína.

Lifið í friði.

þetta er ungt

og leikur sér
Við erum sem sagt að leita að íslenskum karli sem er í stjórnmálum og býr í litlu þorpi eigi allangt frá Reykjavík. Hann situr ekki í ríkisstjórn. Ekki Árni Sigfússon né Johnsen, ekki Stulli Bö og ekki Guðni Á (hvaða kallar eru þetta eiginlega sem fólk hélt að ég vissi að væru til???) Og koma svo!

Lifið í friði.

murder she wrote

Nágranninn er að horfa á það. Líklega af diskum. Ég á eftir að sakna hans, hann er búinn að selja íbúðina.

Lifið í friði.

fju

Jæja, ég er búin með þýðinguna. Ég veit ekki hvort þetta er í lagi en betur get ég ekki gert. Ég ferðaðist um lendur internetsins og leiddist inn á alls konar skemmtilegar síður eins og til dæmis síðuna hans Leós sem svarar spurningum og annað. Ég notfærði mér nú ekki þjónustu hans þar sem ég var með pabba og tvo aðra handymen við höndina. En Leó er afbragðsmaður og sýnir það sem fleiri sýna á vefnum: Það eru ekki allir með peninga í heila stað. Örlæti og brennandi áhugi mannsins smitast út frá síðunni hans. Svo fann ég skemmtilegri síður eins og marteinsson.is og lenti inn á kjarasamningi flugvirkja og fleira skemmtilegt. Ég er frekar lélegur gúgglari en mér hlýtur að hafa farið fram. Og ég dró fram þýðingu frá því fyrir nokkrum árum sem ég gerði alein í Montpellier með pabba í faxsambandi í lokin. Hvernig í déskotanum fór ég að? Netlaus að mestu. Skil það ekki núna. Margt hefur breyst síðan þá. Var einmitt að spá í hvað það er stutt síðan maður var að reyna að hringja í fólk og það var á tali tímunum saman af því einhver var á netinu. Feels like ages ago.
En merkilegast fannst mér að komast að því að það er ekki bara til food porn. Það er til VERKFÆRA porn. Og það versta er að ég er líklega smá verkfæraperri sjálf miðað við hvað mér finnst gaman að villast um í býkóbúðum. En bæklingar um bílaviðgerðarverkfæri ná nú samt ekki að hreyfa við mér. Ha? Er það ekki dálítið mikið dónó?
Jæja, nóttin er komin fyrir löngu og nú heyrist hljóð úr barnaherberginu. Best að koma sér í bólið.
Getraunin heldur áfram þó stjórnandinn sé pínu klúðrari.

Lifið í friði.

Innsýn í spennandi líf þýðenda

Sú lausn að þekja gafflana með snöggkælingu í vökva aðferðinni reyndist nauðsynleg gagnvart auka plasthlutum sem geta losnað og týnst í geymslu eða við tifærslu þjöppunnar á verkstæði eða þá við notkun gormaþjöppunnar.

Og nú er bara að snara þessu yfir á íslenska íslensku með smjöri og sultu eða þá með steiktum og hráum. Eða kók og pipp.
Og eins og í hvert skipti sem ég þýði bæklinga ritaða af markaðsviðurstyggðum lofa ég mér því að vera aldrei hneyksluð á lélegum þýðingum.

Og yfir í alvarlegri sálma:
Persónan er karl, af holdi og blóði, íslenskur, stjórnmálamaður, býr í litlu „þorpi“ (ég nenni ekki að athuga hvaða stöðu þetta þorp hefur og dissa fólk bara eins og ÁJ gerir, ef ykkur líkar ekki reglurnar og villurnar, farið þá annað að leika ykkur) eigi allangt frá Reykjavík.

jól og leikir

Mér giskast helst til að fólk sé að upplifa jólin fyrirfram í boði kringlunnar og kókakóla í gegnum allar þessar getraunir út um alla bloggheima.
Spjallaði við konu í gær um að tíminn líður svona hratt vegna þessa áreitis um að hugsa og skipuleggja fram í tímann sem markaðsviðurstyggðirnar bjóða manni að gera. Það verða jólavörur á boðstólnum rétt fram í fyrstu viku af janúar og um leið og þeim verður rutt út á öskuhauga eða ofan í kjallara fram í næsta október verður farið að hlaða páskasúkkulaði, páskaskrauti og páskabjánalátadóti í hillurnar.
Ég er viss um að ég er ekki ein um að finnast nóvember hafa gengið í garð í fyrragær. Og nú er maður farinn að fá mánaðarmótakitlið í magann. Er þetta eðlilegt?
En ég ætla að gera eina getraun enn. Sú fyrri var auðveld, ég vissi það alveg enda er þessi getraun aðallega fyrir þær sem finnst þær vera utangátta í getraunum klára liðsins þarna hinum megin á blogghnettinum ógurlega.
Ég hugsa sem sagt um persónu og þið megið spyrja beinna spurninga (já og nei spurninga eins og það heitir hjá okkur kjánunum).

Lifið í friði.

úpps, hvern á ég að hugsa um????

SKILABOÐ FRÁ HRYSSU

Allir sem eiga dót eða peninga sem þarft væri að losna við fyrir jólin eiga að smella á fyrirsögnina og lesa.

Lifið í friði.

p.s. ef það eru peningar má svo sem alveg eins leggja á reikninginn minn…

ekki farin

en svolítið búin að vera…
Þetta er dálítið magnað að hafa of mikið að gera til að geta bloggað. Ég læt nefninlega tímann sem fer ekki í að sitja fyrir framan tölvuna við þýðingar fara í að hugsa um börnin mín og heimilið. Röng forgangsröðun? Er bloggið mikilvægara en börnin? Veit ekki… alla vega sakna ég pistlanna minna mikið. Gott að einhver saknar mín. Nú skil ég betur að vera týndur í vinnu. Að tapa sér. Já. En reyndar er þetta alls ekki í fyrsta sinn á minni ævi sem ég fæ að kynnast því að vera að kafna í vinnu. Ónei. Þetta kemur nú fyrir endrum og sinnum hjá mér þrátt fyrir meðvitaða ákvörðun um að vinna ekki of mikið.

Það eru margar skemmtilegar getraunir í gangi. Málbein er með bókmenntagetraun og síðast þegar ég vissi var sú sem ég benti á um daginn enn á fullu. Ég hef ekki getað svarað neinu nema einni tónlistarspurningu hjá Tobba Tenór. En það var gúgglsvindl og mér finnst það ekki eins skemmtilegt. Ég get ímyndað mér að fleiri séu í mínum sporum, finnist þeir hálfútundan í þessum yfirmáta erfiðu bókmennta- og tónlistargetraunum. Því ætla ég að hefja laufléttan leik fyrir okkur hin. Ég hugsa um persónu og þið megið spyrja já eða nei spurninga.
Hefst þá leikurinn.

Lifið í friði.

asni

Ég hlýt að vera asni. Ég er síklifandi á því að peningar skipti ekki máli, að peningar eigi ekki að stjórna lífi manns og samt tek ég að mér fáránlega erfitt verkefni bara út af peningum. Verkefni sem ég er að kafna í, kafna svo hrikalega að ég hringdi í konuna sem réð mig og sagði henni að ég væri að gefast upp. Hún gaf mér lengri frest. Ég þorði ekki að segja henni að ég væri hætt. Ég er bæði asni og auli.
Ef einhver þekkir einhvern sem kann bæði íslensku og frönsku og er vel að sér í töngum og lyklum (topplyklum, skrúflyklum, skrall lyklum o.s.frv.) og skrúfjárnum og öllum mögulegum og ómögulegum tólum má sá hinn sami koma mér í samband við þann snilling.
Ef einhver veit um góðan verkfæralista á netinu vil ég fá slóðina. Helst með myndum. Nauðsynlega með myndum.

En ég er asni. Og auli. Og hef ekkert haft tíma til að taka þátt í þessum þrælskemmtilegu getraunum sem vaða uppi út um alla netheima. Mér finnst Viktors bestur en Tobbi tenór er líka með skemmtilegan leik. Ég m.a.s. fékk stig í gær hjá honum út á gúgglhæfileika mína á frönsku. Algert svindlstig, en Tobbi er harður í horn að taka.
Gaman að þessu. Sko, bara að fara að skrifa um eitthvað annað kom smá brosi á andlit mitt. Ég sver það að ég var með grátstafinn í kverkunum þegar ég hringdi í konuna áðan. Eins og lítil týnd stelpa. Sem tók að sér of erfitt verkefni. Eins og ég sé ekki endalaust að blöffa mig í gegnum alls konar verkefni. T.d. móðurhlutverkið. Og leiðsögustarfið. Og lífið sjálft. Lífskúnstner hvað? Hálfviti. Jæja, komin niður aftur. Niður á jörðina þar sem topplyklar og hnoðhamrar hafa meiningu.

Í morgun talaði ég við veika manneskju. Það er magnað með nútímaþjóðfélögin, velferðarríkin Frakkland og Ísland, hvað þau eru vond þeim sem minna mega sín. Ég er oft spurð hvort almannatryggingakerfið sé gott hérna. Ég hef ekki yfir neinu að kvarta, ekki of dýrt að kíkja með börnin í sína reglulegu skoðun og fá sprauturnar fyrir þau. En hér gildir sama lögmálið og heima: Fínt ef þú ert heilbrigður. Ömurlegt. Ömurlegt að vera veikur og fá ekki nauðsynlega meðferð og bíða eftir afgreiðslu mála sinna vikum, jafnvel mánuðum, saman. Vera ósyndur fugl á flugi yfir endalausum sjó.

Lifið í friði.


Nýlegar athugasemdir

parisardaman um Kveðja
Margrét H um Kveðja
koparskál um Tau frá Tógó
Elín Kjartansdóttir um rafmögnuð kona
juliann um agnetha