Sarpur fyrir janúar, 2006Baskakór

Ég er að fara á æfingu hjá baskneskum karlakór í kvöld. Hef enga trú á öðru en að það verði fjör. Mér er tjáð að einn söngvaranna tali íslensku. Spennandi. Vegir vinnunnar eru órannsakanlegir.

Lifið í friði.

gamalt efni

Ég var að leita að gömlum pistli sem ég fann ekki en datt niður á þennan í staðinn. Þetta er dálítið langt, en holl lesning:

HÚSMÓÐIR UM HÚSMÆÐUR
Ég var að lesa grein um bók sem var að koma út í Frakklandi sem sálfræðingur skrifaði um rannsóknir sínar á stressi húsmæðra. Þar kemur fram að streita hefur verið mæld í flestum störfum og að mörg störf eru viðurkennd sem sérlega erfið störf streitulega séð. Þessi sálfræðingur bendir á að samkvæmt hennar rannsóknum er húsmæðrastarfið jafn erfitt andlega og hjúkrunarkonustarfið og það að vera yfirmaður á skrifstofu. Hún segir jafnframt að í þessum geirum hafi verið lögð áhersla á viðurkenningu og umbun sem ráð gegn streitu, en að enginn veiti húsmæðrum svona hvatningu heldur séu þær frekar illa séðar af þjóðfélaginu, þykja afar óspennandi í boðum og margir líti svo á að þær geri bara ekki neitt, hangi bara yfir lélegu sjónvarpsefni alla daga.
[Bryn vinkona minnti mig einmitt um daginn á enska rannsókn sem leiddi í ljós að húsmæðrastarfið jafngilti að mig minnir 3 heilsdagsstörfum á ári, þ.e. að ef maður gerði ekkert sjálfur heima heldur fengi fólk í það, þyrfti að hafa 3 manneskjur í fullri vinnu.]
Í greininni voru vitnisburðir nokkurra kvenna, og sú sem er ánægð með líf sitt sem húsmóðir og móðir 3ja barna, segir að þrennt komi henni til hjálpar við að vera sátt við stöðu sína: mjög góður eiginmaður, brjálæðislega mikil skipulagning í heimilishaldinu þar sem börnin eru virkjuð til að hjálpa til og svo síðast en ekki síst að henni er skítsama um það hvað öðrum finnst um hana. Hún lætur t.d. börnin borða í skólanum tvo daga í viku þó margir hneykslist á því við hana.
Mér þykir þetta mjög áhugavert og vil minna á að öll störf sem fela í sér umönnun og uppeldi barna eru illa launuð og oft litið niður á þessar stéttir þjóðfélagsins. Samt erum við öll nokkuð meðvituð um þá staðreynd að þarna eru jú komandi kynslóðir og að það skipti máli að fara rétt að öllu til að byggja upp góða einstaklinga fyrir framtíðina, er það ekki?
Sálfræðingurinn kom með mjög gott dæmi til að fá útivinnandi fólk til að skilja hversu flókið húsmæðrahlutverkið getur orðið: Segjum að þú þurfir að gera stutta skýrslu fyrir fund eftir hádegi og ætlir að nýta morguninn í það. Tveir samstarfsfélagar þínir koma með vandamál til þín sem þeir þurfa aðstoð við að leysa og yfirmaðurinn kallar þig inn á skrifstofu til að bera undir þig nýja hugmynd sem þú átt að melta með þér. Á endanum gerir þú skýrsluna hroðvirknislega og mætir pirraður og óundirbúinn á fundinn með streitukúlu í maganum. Svona aðstæður eru daglegt brauð mæðra margra barna. Ein húsmóðir sagði henni sögu um það að hún ætlaði að fara að versla með tvö börn sín. Hún var rétt búin að koma þeim fyrir í bílnum þegar síminn hringdi. Þegar hún kom út á plan aftur var litli búinn að kúka og sá eldri grenjandi. Hún skipti á litla gaur og gaf þeim eldri djús að drekka. Þegar hún fór að setja þá aftur inn í bíl komst hún að því að klukkan var orðin of margt, hún myndi aldrei ná þessu fyrir kvöldmatartímann sem er heilagur fyrir börnin eins og allir foreldrar vita. Hún tók því alla inn aftur og settist niður við eldhúsborðið og grét. Þegar hún reyndi að segja manninum sínum frá þessu um kvöldið sýndi hann málinu engan skilning.
Málið er að konur í dag eru oft félagslega einangraðar þegar þær eru heima með börnin. Fjölskyldan býr oft of langt í burtu til að hægt sé að hittast reglulega, vinkonurnar eru allar úti að vinna og ekki býr maður til vinkonur úr þessum konum sem maður hittir úti í almenningsgarði, maður á yfirleitt ekkert sameiginlegt með þeim eða nær a.m.k. aldrei að komast að því þar sem það kurteislega hjal sem þar fer fram snýst aðallega um aldur barnanna og hvernig þau sofa og borða og hvort þau eru dugleg eða sein til í þroska. Ég hef a.m.k. aldrei prófað að ræða bókmenntir eða bíó við konurnar úti í garði. Kannski ætti maður að gera það einn daginn, ég ímynda mér samt að þær myndu horfa á mig eins og eitthvað viðundur og mjaka sér hægt í burtu frá mér eins og maður gerir ef maður lendir á sérlega leiðinlegri mömmu.
Ég er mjög heppin því ég á mikið af góðum vinkonum sem nenna að hlusta á mig og eru sjálfar í þessum barnapakka, og svo á ég líka nokkrar vinkonur sem nenna alls ekki að tala of mikið um svona mál þar sem þær eru alls ekki í þessum pakka. Bæði er mjög gott og gefandi. Reyni að hitta vinkonurnar reglulega til að afmamma mig aðeins eins og Agnes kallar það.
Svo er ég líka svo heppin að eiga yndislegan mann sem býr oft til matinn og gengur frá í eldhúsinu og vaknar t.d. alltaf með þessum morgunhönum sem við eigum og leyfir mér að sofa aðeins lengur. Ekki má gleyma því að við getum leyft okkur að fá konu í tvo tíma á viku sem ryksugar og þrífur. Ég elska þá konu svo mikið að engin orð fá því lýst, hún er eiginlega engillinn minn.
En best af öllu er þó að ég er farin að vinna aðeins aftur. Það er nóg að gera hjá okkur þessa dagana og ég er örþreytt á kvöldin. En ég er samt svo ánægð með að komast aðeins burt frá heimilinu og hversdagslífinu og hitta ókunnugt og skemmtilegt fólk og geta deilt með þeim þessari dásamlegu borg minni.
Öll þessi atriði gera það að verkum að ég mun að öllum líkindum halda geðheilsu minni meðan ég kem börnunum á legg. Málið er að það er fullt af konum út um allan heim sem gera það ekki. Þær eru meira og minna þunglyndar og oft gengur það svo langt að það endar með ósköpum og ofbeldi. Börn út um allan heim eru lamin af mæðrum sem, um leið og þær slá til barnsins, engjast um af kvöl inni í sér. Þjóðfélagið verður að gera eitthvað í þessu, það er ekki hægt lengur að láta eins og ekkert sé. Stórum fjármunum er ausið í að fá okkur til að hætta að reykja, væri ekki mikilvægara að koma á fót fleiri barnaheimilum, gefa konum kost á að fá frí frá börnunum þó ekki væri nema einn, tvo daga í viku? Kannski myndu m.a.s. reykingar húsmæðra snarminnka ef þær hefðu tíma til að hugsa aðeins um sjálfar sig og gætu styrkt sjálfsmatið.
Ég var að pirra mig um daginn á öllum þessum vörum sem eru gerðar með setningum eins og „I love my mummy“ eða „mamma er best“. Mér fannst svona framleiðsla ganga út á að gera lítið úr okkur mæðrum, gera ráð fyrir því að við værum svo frústreraðar að við þyrftum að sannfæra sjálfar okkur um að börnin elskuðu okkur svo og svo mikið. En líklega eru þessar vörur framleiddar af góðum hug og af góðu fólki sem skilur það að oft er eina hrósið sem við fáum okkar eigin sjálfshól og bolir og smekkir sem við getum klætt börnin okkar í og lesið á þeim að þau elski okkur um leið og þau frussa matnum út úr sér yfir nýskúrað gólfið.

Nokkrir hlutir sem „venjulegt fólk“ getur byrjað að gera til að hjálpa húsmæðrum að halda geðheilsunni:
Hrósaðu mömmunni fyrir hárið, peysuna eða varalitinn í staðinn fyrir að segja að barnið sé fallegt.
Segðu öllum húsmæðrum frá ensku rannsókninni og dáðstu að þeim fyrir dugnaðinn (þó að íbúðin sé í rúst og horið leki úr barninu).
Dragðu húsmóðurina út í bíó eða á tónleika við og við. Ekki hlusta á hik hennar, píndu hana til að redda barnapíu ef pabbinn getur ómögulega komið heim úr vinnunni á skikkanlegum tíma.

Nú er ég farin að hljóma eins og einn af þessum tölvupóstum sem ég er alltaf að fá þar sem konur stunda sjálfshól sér til styrkingar. Best að hætta núna.

er ekki lagið að verða búið?

Er ekki janúar að verða búinn?
Er ekki veturinn að verða búinn?

Lifið í friði.

pyntingar – pyndingar

Ég ákvað að færa umræðuna úr orðabelgnum hér að neðan upp á „hærra plan“, beint inn á síðuna þar sem mér finnst þetta nokkuð áríðandi.

Ég að svara Hildigunni sem spurði hvort 24 væri ekkert að förlast:
24 er alltaf jafn spennandi en ég var byrjuð að kvarta í lok 3. seríu yfir of miklum pyndingum. Þetta versnar í 4. seríu og nú um daginn rakst maðurinn minn á grein um þetta á franska netinu, fleirum en mér er farið að blöskra. Þeir virðast vilja láta okkur finnast það eðlilegt að stundum þurfi að pynda svörin úr fólki. Það fer afskaplega mikið í taugarnar á mér.

Ég með efasemdir um sjálfa mig:
Er það pynta eða pynda?

Hildigunnur:
pynta (sem er ekkert skylt pynte í dönsku )
mér fannst alveg nóg um pyntingar í annarri seríu. Takk fyrir að vara mig við.
(ætli sé verið að lauma inn stuðningi við quantanamo og svipaða staði?)

Eyja:
Sjálf nota ég yfirleitt orðið „pynta“ þegar ég pynda fólk við yfirheyrslur. Annars segir orðabókin mín að bæði orðin séu góð og gild.
Mér þætti gaman að vita hversu gagnlegar upplýsingar sem fást með pyntingum reynast. Fangar sem er verið að pynta hljóta að segja svo til hvað sem er og þar að auki oft að vera orðnir snarruglaðir. Sannsögli er þeim sennilega ekki efst í huga. Ekki það að gagnsemi upplýsinganna dugi til að réttlæta pyntingar í mínum huga en mér svona dettur í hug að pyntingarnar þjóni fyrst og fremst kvalalosta pyntingameistaranna og að „árangurinn“ sé í raun aukaatriði.

Mitt svar:
Já, það er að mínu viti augljóst að framleiðandi/handritshöfundur/leikstjóri er að berja inn í haus áhorfenda að pyndingar (ég ætla að halda mér við þessa stafsetningu fyrst það má, þar sem hún kom umhugsunarlaust hjá mér í upphafi) séu nauðsynlegur hluti af stríði Bandaríkjamanna við hryðjuverkamenn.
Þetta er afar óhugnalegt sjónarmið og í fyrstu seríunum virtist mér þessi hluti frekar vera eins konar ádeila. Aðalpersónan upplifir miklar sálarhremmingar í sambandi við allt sem hann þarf að ganga í gegnum og verkin sem hann neyðist til að vinna til að bjarga forsetanum og „milljónum Bandaríkjamanna“ (síendurtekið í seríunum: „Millions will die, we don’t have time…“). Nú í fjórðu seríu bendir ýmislegt til annars. Það er tekið til við að pynda ótrúlegasta fólk og persónur sem reynast hafa verið pyndaðar að ósekju eru svo gerðar leiðinlegar eða frekar og látnar hverfa. Þetta er þó ekki algilt, ein persónan er orðin að einhvers konar píslarvætti og spennandi að sjá hvað þeir gera við hana í næstu þáttum.
Ég get eiginlega ekki sagt of mikið um þetta þar sem Hildigunnur á eftir að sjá seríuna og ég þoli ekki þegar fólk eyðileggur fyrir mér með því að segja mér hluti. En ég get a.m.k. lofað því að ef serían endar í fasískum lofsöng um Bandaríkin og hvernig þau fórna mannslífum í baráttunni við illu Arabana, er ég ekki alveg viss um að ég horfi á 5. seríuna líka.

Ég er gersamlega sammála Eyju um að pyndingar eru kvalalosti, þegar lögregluþjónar fara illa með fanga eru þeir iðulega að gera það af hatri, ekki til að þjóna réttvísinni á nokkurn hátt.
Ég vona bara að sem flestir geri sér grein fyrir því að pyndingar eru að verða eðlilegur hlutur fyrir æðstu ráðamenn í Bandaríkjunum og að þessa þróun verður að stöðva. Hvað er langt í að íslenskir ráðamenn feti í sömu fótsporin? Gera þeir það ekki yfirleitt?

Lifið í friði.

brjóstsviði

Þegar ég var barn fannst mér brjóstsviði undarlegt orð. Svo varð ég ófrísk og aftur ófrísk og þá fékk ég að kynnast því hvernig brjóstsviði getur verið jafnógeðfelldur og mígrenikast eða tannverkur.
Í dag þjáist ég svolítið af brjóstsviða. Líklega get ég kennt um þriggja kvölda útstáelsi og tveimur þáttum úr 4. seríu 24 í gærkvöld. Djöfull varð ég hrædd maður!
Tapas-staðurinn á föstudagskvöld fer bráðum inn á netsíðuna. Eini gallinn við þann stað er að hann er dálítið dýr. Á minn mælikvarða. Borguðum 40 evrur á mann. Enginn desert en nóg af víni og bjórum og mat. Dásamlega góðum mat. Ég fæ vatn í munninn.
Ég ætlaði að blogga um eitthvað ákveðið, eftir bloggrúnt morgunsins, en ég get ómögulega munað hvað það var. Hvað var það?

Lifið í friði.

spænskur veitingastaður

Ég er að fara að borða á dásamlega góðum tapas-stað í kvöld. Einn af mörgum stöðum sem ég gleymi alltaf að bæta inn á netsíðuna mína. Skamm ég. Verð nú að fara að ganga í ýmis mál þar. Þegar ég er búin að ganga frá nokkrum öðrum málum. Og enn öðrum. Og tveimur í viðbót… kannski…
Hvernig væri það að ákall milljóna manneskja á degi hverjum um fleiri klukkustundir í sólarhringinn færi að bera árangur? Ætli það sé rétt hjá ykkur vantrúaða efalausa fólki sem ég veit að les mig, ætli guð sé kannski bara ekki til? Ég veit a.m.k. að fólkið sem græddi 28 milljarða á síðasta ári á sér guð. Hann heitir dollari, yen, króna, pund… eins og margir aðrir guðir ber hann mörg nöfn. Flottast er kannski mammon.

Lifið í friði.

klukk

Fernt sem ég hef unnið við:

skrifa símaskrána
gera kaffi handa skógræktarfólki
sendill fyrir bíómynd
aðstoðarklippari stuttmynda

Fjórar bíómyndir sem ég gæti horft á aftur og aftur (og geri):

Singin’ in the Rain
Vertigo
Les Demoiselles de Rochefort
Arsenic and Old Lace

Fjórir sjónvarpsþættir sem ég fíla:

24
Friends
Barnaby
Without a Trace

Fjórar bækur sem ég les oft:

Sjálfstætt fólk
Ástin fiskanna
Bróðir minn LJónshjarta
Arsene Lupin ævintýrin

Fjórir staðir sem ég hef búið á:

Þórsgata 7
6, rue la Boetie
Óðinsgata 7
Hjallasel 22

Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum.

Sikiley
Ísland
Korsíka
Ibiza

Fjórar síður sem ég kíki daglega á:

Parísardaman er opnunarsíðan
… bloggrúnturinn er farinn svona næstum daglega
og annað er mjög misjafnt, engin síða sem ég er „háð“ nema mín eigin…

Fernt matarkyns sem ég held upp á:

Tómatar
Andabringur
Gulrætur
Mangó

Fjórir staðir sem ég vildi heldur vera á núna:

Reykjavík
Egilsstaðir
Vogar á Vatnsleysuströnd
Sikiley

Fjórir bloggarar sem ég klukka:

Eyja
Hanna litla
Bryn
Huxy

Þar hafið þið það. Fyrirgefið mér þið sem ég klukkaði, það er engin skylda að hlýða þessu ef fólk er orðið leitt á að leika sér.
Ég svaraði þessu hratt og án mikillar umhugsunar og athugið að svörin eru engan veginn forgangsröðuð. Það er nauðsynlegt að átta sig á því. Mjög nauðsynlegt. Ætti að binda í lög. Munið það bara. Ekki gleyma því.
Svo finnst mér líka ástæða til að eftirfarandi komi fram, því ég er svo montin með það: Ég er þunn eftir gærdaginn og er á leið út í kvöld OG annað kvöld. Mætti halda að ég hefði hoppað aftur í tíma, tímans fyrir börnin og kallinn. Gaman að geta ferðast í tíma. Þó það sé í þykjó.
Svo finnst mér líka eftirfarandi mega koma fram: Ég sigraði í kvikmyndakeppni Hjössa Frjálsa í dag. Ég er best. Langbest.

Lifið í friði.

sumir dagar

Sumir dagar eru þannig að þú gefur uppteknu konunni í viðskiptadeildinni upp ranga dagsetningu og þarft að hringja aftur og leiðrétta og þá hún farin á fund.
Sumir dagar eru þannig að barnið þitt er enn og aftur komið með sýkingu í augun.
Sumir dagar eru þannig að þú ert búin að skera gulrætur og kartöflur í fína bita, þú ert að fara setja þetta í örbylgjuofninn í fínu örbylgjugufusuðudollunni en lokið er eitthvað laust, þú reynir að laga það, missir hana úr höndunum beint á hitastillitakkann á eldavélinni sem brotnar af, dollan í gólfið með takkanum og gulrætur og kartöflur út um allt gólf.
Sumir dagar eru bara hreinlega leiðinlegri en aðrir dagar.
Samt er gaman að lifa. Er það ekki annars?

Er hægt að líma takka á eldavélum án þess að skemma snúningsfídusinn sem er bráðnauðsynlegur á eldavélatökkum?

Ef ég fæ mér teljara á síðuna, hvernig ber ég mig að? Er einn teljari betri en annar?

Lifið í friði.

ofurviðkvæmt blóm

Ég hef aldrei talið mig ofurviðkvæma en ég er kannski farin að verða meyrari með árunum.
A.m.k. hefur þolstuðull minn gagnvart lélegu sjónvarpsefni snarlækkað sem hefur orðið til þess að ég er nokkurn veginn hætt að horfa á sjónvarp.
Að sama skapi skil ég ómögulega hörku fólks sem getur setið og lesið barnaland og málefnin. Ég hef oft reynt, alveg eins og ég margreyndi að horfa á Loft Story (franski big brother) en ég gefst alltaf upp á innan við mínútu.
Lýsingar Hörpu á skrifurunum á barnalandi eru nú samt óviðjafnanlegar, mæli sterklega með þeim (tengill í hana hér til hliðar).
Varðandi DV-málið hlakka ég ógurlega til að lesa Guðna í Mogganum frá laugardeginum síðasta. Guðni hefur lengi rýnt í DV í pistlum sínum í Lesbók og nú væri sannarlega gaman að eiga þá alla. Ég er ómöguleg í að safna úrklippum, hendi blöðunum alltaf í tiltektarkasti og gef mér þá ekki tíma til að renna yfir þau til að klippa út. En Guðni er mjög gáfaður maður og ritfær og hefur verið unun bókmenntalegri rýni hans á stefnu DV. (Nú þori ég ekki annað en að taka fram að fyrir mér er lýsingarorðið gáfaður EKKI skammaryrði.)
Eftir að hafa lesið margt misgáfulegt um þetta mál, er mín niðurstaða enn sú sama og í upphafi: Mér finnst blöð eins og DV ekki hafa tilverurétt. Mér er skítsama þó að ákveðinn hópur fólks hafi gaman af því að velta sér upp úr skít og óþverra, mig langar til að búa í heimi þar sem DV er ekki til. Alveg eins og mig langar til að peningarnir hætti að vera Guð. Ég er hugsjónamanneskja og draumórakona og barnaleg og allt það sem þið viljið kalla mig. Kannski m.a.s. hræsnari og lýðskrumari. Það verður að hafa það, ég vil trúa því að heimurinn geti orðið betri, að tíminn haldi ekki áfram að líða bara til að við getum sokkið dýpra í drulluna.

Þegar ég var í fríinu á „Spáni“ í haust voru öll blöðin í búðinni sem við skruppum stundum í, bresk. Eftir að hafa rennt yfir fyrirsagnirnar tvisvar óforvarendis gerði ég mér grein fyrir því að þær voru of mikið fyrir mig og hætti því að líta á þennan vegg. Blóð, morð, níðingar, lýtalækningar… þarna voru óteljandi blöð sem höfðu öll þessa sömu stefnu og DV, að draga upp skít og klína honum út á forsíðu vegna þess að „þetta er það sem fólkið vill“ eða jafnvel „þetta er það sem fólkið ÞARF “ eins og sumir DV manna hafa reynt að sannfæra landann um.
Þess vegna varð maðurinn minn að hnippa í mig einn morguninn þegar við áttum leið hjá búðinni. Þar stóð stórum stöfum á forsíðunni sem sett var á skiltið fyrir framan búðina: WAR. Hann spurði mig hvort ég héldi að virkilega gæti verið að skella á heimsstyrjöld en við ákváðum í sameiningu að líklega væri verið að ræða um átök Kate Moss við einhverja umboðsmenn hennar eða eitthvað sem við höfðum óvart heyrt eitthvað um deginum áður þar sem við sátum á borði við hliðina á háværum breskum kerlingum.
Við nenntum ekki einu sinni að athuga málið betur, svo sannfærð vorum við um að STRÍÐIÐ sem um ræddi væri eitthvað sem okkur kæmi ekki hætishót við.
Mér finnst erfitt og rangt að geta ekki tekið neitt mark á fjölmiðlum. Ég tek ekki mikið meira mark á öðrum íslenskum fjölmiðlum. Né mörgum frönskum ef út í það er farið. En það er þó skárra að hafa ekki þennan sjokkstíl á bullinu. Er það ekki?
Annars er mín aðal fréttalind núorðið bloggið. Ég fæ allar helstu fréttir, innlendar og erlendar af því að lesa ykkur kæru bloggvinir. Og mun betur framreiddar. Stundum þarf ég að lesa þrjá til fjóra til að skilja alveg hvað rætt er um. Stundum skellir bloggarinn mér yfir á mbl eða visi með tengli. En þetta er samt mun betri leið til að horfa á umheiminn en að éta upp það sem fjölmiðlarnir segja manni að sé fréttnæmt.
Kannski bloggin eigi eftir að drepa prentuðu fjölmiðlana eins og franskir blaðamenn vilja meina? Og kannski er það bara vel?

Lifið í friði.

élskann

Maðurinn minn ber af öðrum mönnum, bæði hvað varðar gáfur og hversu mikið gagn er að honum heimafyrir. Þessa vikuna hef ég verið föst við tölvuna og hann hefur að mestu séð um að fæða, klæða, baða og fara út með börnin. Kann ég honum bestu þakkir fyrir það og er fullmeðvituð um að ekki hefðu allar konur getað leyft sér að hverfa svona frá heimilishaldinu, sérstaklega þar sem ég var heima allan tímann. Hann lætur mig alveg í friði og gerir sitt besta til að halda börnunum frá mér sem er erfitt verkefni þar sem við búum ekki svo vel að eiga sérstakt herbergi undir tölvuna. Hvorki húsbóndaherbergi né skrifstofu. En við gætum svo sem átt skrifstofu og verið bæði útivinnandi að vinna fyrir afborgununum og þá hefði ég ekki skotist í svona verkefni og ekki getað treyst á hann til að vera með börnin á meðan. Skiljið þið? Maður velur og hafnar og okkar val er að lifa smátt og vinna smátt. Í skorpum.
En eitt gat ég þó ekki lagt á herðar honum þessa vikuna. Að kaupa afmælisgjöf fyrir litla vinkonu dóttur okkar. Ekkert frekar en að ég setti í þrjár vélar á dag alla þessa vikuna og lét mig ekki dreyma um að biðja hann um hjálp við það. Allir hafa sín takmörk. En þar sem verkefnið mitt gekk ágætlega í gær, ákvað ég að skella mér í bíltúr út í mollið hérna rétt hjá til að kaupa afmælisgjöf handa litlu dúllunni. Ég vissi hvað ég vildi og hvar það fengist. Mollið er í tíu mínútna akstursfjarlægð héðan svo þetta yrði ca. 40 mínútna pása fyrir mig þar sem ég fengi m.a.s. að sjá ókunnugt fólk sem er alltaf mjög þægilegt og gott.
Það var bara eitt lítið smáatriði sem ég hafði ekki tekið með í reikninginn: Fyrsti laugardagur útsölunnar. Til að gera langa sögu stutta og hlífa ykkur við lýsingum af öskrandi fólki að slást um stæðin og mannhafinu sem barðist um ódýrar skyrtur og Timberland skó svo Parísardömunni sem hefur óbeit á mollum og enn meiri óbeit á lummulegum tískuþrælum leið svo illa að í stað þess að drekka í sig ókunnugsfólksorku varð hún að loka sig inni í glerhjúpnum sínum sem eingöngu er tekinn fram í neyð, get ég bara sagt ykkur hvað það tók mig langan tíma að komast út af bílastæðinu. Getið þið nú. Hálftíma? Fjörtíu mínútur? Neihei, það tók mig sléttar 60 mínútur. Klukkustund. Frá því ég startaði bílnum og bakkaði út úr stæðinu sem beðið var eftir með óþreyju, silaðist ég þessa hvað… ég hef ekkert lengdarskyn, en ég var uppi og þurfti að fara eitt U, svipað U-unum í Kringlunni og svo niður brekkuna (ein hæð) og svo álíka lengd og meðfram Kringlunni öðrum megin og þá er maður kominn út á aðalgötuna. Þetta var eins og martröð. Ekki hægt að snúa við. Ekki hægt að leggja í stæði og fara inn og fá sér kaffi og bíða. Ekki hægt að gera neitt nema sitja þarna eins og fáviti með hinum fávitunum og bíða. Í lokin mölbrotnaði glerkúlan fína og ég var næstum farin að öskra af pirringi, rífandi í hár mitt.
Ég mæli eindregið með ferð til Parísar. En ég mæli alls ekki með því að vera á bíl og ég mæli alls ekki með fyrsta laugardegi útsölunnar.

Lifið í friði.