Sarpur fyrir febrúar, 2006

ástarsorg

Ég gekk í gegnum ansi mörg sambönd og jafnmörg sambandsslit áður en ég fann þennan eina rétta. Stundum var það ég sem fékk nóg, stundum þeir. Stundum tók ég því af léttúð en stundum var þetta sárt lengi. Einum man ég sérstaklega eftir, við áttum stutt samband og það var fjarskiptasamband allan tímann. Ég í Frakklandi og hann í Þýskalandi. Hann sendi mér uppsagnarbréf og ég grét. Þetta var fyrir tíma tölvupóstsamskipta og sms. Svo kom ég í frí til Íslands og fór á bar með vinkonu minni. Hann gekk þar inn skömmu síðar og ég fór í kleinu og grenjaði alla leiðina heim í bílnum og alla nóttina. Djöfull fannst mér hann sætur og ég bara trúði því ekki að okkur væri ekki skapað að vera saman.
Mörgum árum seinna flutti ég til Íslands, fór í HÍ og vann með skólanum á vídeóleigu. Það var vissulega skref afturábak að einhverju leyti, að vera stelpa í sjoppu að nálgast þrítugsaldurinn, en þetta var skemmtilegur tími og ég sé alls ekki eftir neinu. Inn á vídeóleiguna gekk einn morguninn þessi fallegi maður. Það var sunnudagur og greinilega þynnka í gangi. Hann var með konunni sinni og þau voru í eins úlpum. Ég hef sjaldan læknast jafnundarlega hratt á söknuði eftir einhverju sem ég aldrei fékk.

Lifið í friði.

traduire c’est trahir

Ég bið aðdáendur mínar afsökunar á fjarverunni í gær. Ég var gubbandi allan daginn. Byrjaði fyrir níu um morguninn og hætti eftir níu um kvöldið. Man ekki eftir öðru eins og er þó gubbin mjög að eðlisfari. Uppsölunum fylgdi hiti og nú er bara að vona að aðrir fjölskyldumeðlimir fái ekki pestina. Ég get ekki hugsað þá hugsun til enda að horfa upp á krílin mín svona lasin.

Ég er varla nema hálf manneskja ennþá en fór samt hluta af bloggrúntinum áðan. Komst að því um daginn að Hvalur er byrjaður aftur að blogga. Það er gaman. Hnakkus er líka byrjaður aftur. Svona er þetta, fólk reynir að hætta og tekst kannski í smá tíma en svo er þetta bara of freistandi að básúna þessari skemmtilegu blöndu af einkalífi og pælingum yfir einhverja lesendur sem maður þekkir eða ekki.

Ég hef hnotið um það undanfarið hjá einhverjum bloggurum að þeir virðast hálf hræddir við þýðingar. Frakkarnir segja „traduire c’est trahir“ sem er vitanlega illþýðanlegt á íslensku en táknar samt að þýðing er svik.
Þýðing er auðvitað alltaf túlkun, staðfæring og þar með svik við frumtextann. En ég skil samt ekki að fólk hiki við að vitna í t.d. frönsk eða þýsk gáfumenni á okkar ástkæra ylhýra, eigum við ekki ágæta þýðendur og er ekki alltaf betra að texti sem við viljum koma á framfæri skiljist af sem flestum? Þegar ég les þýskar tilvitnanir skil ég þær ekki, franskar tilvitnanir skil ég vitanlega en ég myndi ekki setja inn franskar tilvitnanir hér, nema með þýðingu, eins og ég gerði hér að ofan.
Ég myndi líklega skrifa langan og reiðan pistil um þetta ef ég væri búin að borða meira en nokkrar þurrar kexkökur í einn og hálfan sólarhring. Ég finn að ég get bara ekki setið við tölvuna lengur. Skriðin undir teppi, hlýtur að vera einhver hádegisleikur í sjónvarpinu þar sem ég get horft á fólk vinna 3000 evrurnar sem mig vantar svo núna.

Ef einhver á góða vídeóvél, þ.e.a.s. prófessíónal, og einhvern tíma aflögu fljótlega, er ég til í að gera portrettmyndir af múslímskum innflytjendum í „heitu“ úthverfunum með hinni sömu.

Lifið í friði.

matur er góður

Allur matur á að fara upp í munn og ofan í maga.

Mér finnst næstum allt gott.
Ég forðast samt súrmat þó ég kunni vel að meta allt annað á þorrabakkanum, hákarlinn líka. Og kæst skata er namminamm.

Ég þorði aldrei að smakka steak tartare, hrátt nautahakk, þangað til mér var boðið í mat og það var á boðstólnum. Síðan þá fæ ég mér slíkt einu sinni á sumri. En ég get aldrei klárað af disknum. Allt í einu fæ ég nóg og ekki smuga að koma bita niður eftir það.

Ég myndi helst ekki vilja lenda í matarboði þar sem skordýr eða mannakjöt væri á matseðlinum. Ég veit ekki hvort ég gæti borðað maura eða flugur, finnst samt ólíklegt að ég myndi ekki kúgast. Mannakjöt vil ég helst ekki prófa, né rottukjöt. Vil þó að það sé á hreinu að ef ég er dauð á fjalli má hver sem er leggja mig sér til munns til að bjarga lífi sínu. Og hirða gullið úr tönnunum í leiðinni ef vill.

Ég borða alla osta, alla ávexti, allt grænmeti, allt krydd finnst mér gott, ég er mikið fyrir steikur og fugl og finnst framandi matur eins og kálfsheili eða vambir gott. Ég borða lifur, hjörtu og nýru, líka úr litlum dýrum. Allt sem kemur upp úr sjónum finnst mér gott, líka litlar rækjur sem borðaðar eru með öllu, og minna dálítið á skordýr.

Mér finnst allar súpur góðar, bæði tærar og rjómalagaðar.

Ég er mikil desertakona, súkkulaði er uppáhaldið, en allt sætt er gott. Íslenskur rjómi er bestur.

Það sem mér dettur í hug er kjöt úr dós, svona aularéttir eins og ravioli í „tómat“sósu eða aðrir tilbúnir niðursoðnir réttir. Það kaupi ég aldrei. Nema náttúrulega andakjöt sem er lostæti soðið niður i fitu.
Hins vegar á ég yfirleitt eitthvað tilbúið í frystinum, því það koma sannarlega dagar sem mig langar ekki vitund að elda kvöldmat.

Þar hafið þið það. Ég er búin að vera orðlaus yfir því sem bloggarar eru að telja upp og geta ekki borðað. Ég held ég hafi aldrei verið sérlega matvönd, þó ég muni eftir mér vælandi yfir soðnum fiski á einhverju tímabili. Ég hef alltaf borðað hafragraut og aldrei sykraðan, bara eins og hann kemur úr kúnni.

Lifið í friði.

fætur

Þegar ég var barn að læra að tala var því hamrað inn í höfuð mitt að fætur væri karlkynsorð. Margir fætur, langir fætur.
Þegar ég heyri konuna syngja á barnaplötunni úr smiðju Siggu Beinteins að Óli prik sé með langar fætur verð ég svo pirruð að mig langar mest til að rífa diskinn úr tækinu og brjóta hann. Á ekki að sekta fólk fyrir svona villur sem munu prentast inn í börnin okkar? Á ekki að láta hana innkalla diskana?
Pirrar þetta engan nema mig? Hlustar kannski enginn á barnalög úr skólanum hennar Siggu?

Lifið í friði.

ég myndi sko fara

fyrirsögnin er tengill allir að drífa sig

hani í víni

Nú er fuglakjöt hætt að seljast út af hysteríu þó að fjölmiðlar hafi neyðst til að sjá að sér og séu hættir hræðsluáróðri. Landbúnaðarráðherra mætti víst til Denisot á Canal plus í gær og borðaði kjúkling í beinni útsendingu.
Ég er mjög ánægð með verðhrun á fuglakjöti, mér finnst það svo gott og er ekki vitund hrædd um að ég deyi úr fuglaflensu. Kannski óþarflega óhrædd, veit það ekki, en ég bara get ekki haft áhyggjur af þessu. Hef áhyggjur fyrir hönd vesalings fugla um heim allan og auðvitað miklar áhyggjur af bændum, sérstaklega þeim sem ala hamingjusama kjúlla á lífvænu fæði, þeir verða verst úti því þeir eru með fuglana úti og það er dýrt dæmi fyrir þá að koma fuglunum sínum í skjól. Þeir munu tapa miklum peningum og kannski aleigunni, komist flensa í fiðurfé þeirra. Eitthvað er Evrópubandalagið að lofa fjárhagsaðstoð.

Í gær byrjaði ég daginn á því að elda kvöldmatinn. það var mjög góð hugmynd hjá mér. Eldaði stóran pott af coq au vin, sem mér skilst einmitt að hafi verið uppskrift af í Gestgjafanum nýlega. Mín uppskrift er úr frönsku biblíunni minni, stór og þykk bók með engum myndum sem ég nota mjög mikið við að elda upp úr og jafnvel til lestrar mér til ánægju (food porn, þið munið) og yndisauka. Alltaf jafn gaman að lesa uppskriftir og þessi bók sannar að það þarf ekki glansandi pappír og fínar myndir til að gera góða matreiðslubók. Þessi góða bók heitir Mon bouquin de cuisine og er eftir franska Nönnu sem heitir Francoise Burgaud.

Hamingjusamur lífvænn kjúklingur soðinn í rauðvíni og kúklingasoði með gulrótum, púrrulauk, hvítlauk, skalottlauk og bara lauk með bouquet garni og smá tómatpúrru. MMMmmmm heppnast alltaf jafnvel hjá mér. Við vorum í sæluvímu í gærkvöld yfir matnum.
En ég er ekki eins hress í dag enda langur og vel rauðvínsleginn dagurinn í gær.

Hvar er Hjörtur með kvikmyndagetraunina?

Lifið í friði.

í lestinni

Þegar ég er í neðanjarðarlestinni man ég alltaf svo vel alls konar smáatriði sem ég þarf að gera, ganga frá, muna seinna. Svo man ég þau aftur næst í lestinni og hef ekki leyst úr þeim.
Núna ætla ég að leysa eitt sem hefur bagað mig. Svara Rustukusu tveimur spurningum sem hún bar fram í athugasemdakerfinu mínu einhvern tímann fyrir löngu:
Ég hef ekki hugmynd um hvað bókin um húsmæðurnar heitir, né eftir hvern hún er. Það kemur út ógrynni af svona bókum í Frakklandi og ég vissi það þegar ég las umsögnina um hana að ég myndi aldrei nenna að lesa alla bókina. Þess vegna skrifaði ég það hvergi hjá mér.
Gulrótarsúpan sem ég fékk mér um daginn var nú bara úr flösku keyptri í búð. Hér er hægt að kaupa góðar og ferskar súpur í glerflöskum sem geymast ekki lengi í kæli og stundum geri ég það, sérstaklega ef mér finnst ég vanta vítamínbúst en veit að ég nenni ekki að elda. Annars er mjög auðvelt að gera grænmetissúpur, maður bara sker gulrætur í sneiðar og sýður með einhverju kryddi (bouquet garni), sjávarsalti, svörtum pipar, sellerí, paprikur, laukur eða hvað sem þér dettur í hug með. Svo má sjóða lengi lengi og mauka með gaffli eða í vél eða með töfrasprota. Eða borða með léttsoðnum bitunum. Eða eitthvað. Bregst aldrei svona súpuseyði. Alltaf gott.

Voilà. Þungu fargi af mér létt.

Farin inn að lesa bréfin hennar Guðrúnar Borgfjörð til Finns bróður.

Lifið í friði.

ekkert gerist einmitt núna

Það er ekki laust við að maður sé uppgefinn eftir lestur á „rök“ræðu um Myndbirtingamálið Mikla hjá honum Stefáni Kaninku. Er ég með hann í tenglasafni? Man það ekki, ég les hann alltaf í gegnum Mikka en er ekki viss um að hafa sett hann í safnið sjálft.
Persónulega er ég algerlega sammála Rafauganu nafnlausa ógurlega. Einhvern tímann man ég nú eftir að hafa séð nafnið hans á hans eigin bloggi, minnir mig. En ég ætla ekki að gefa það upp, enda ekki uppljóstraratýpa í mér. En Rafaugað birti eina sterkustu færslu um þetta allt saman sem ég hef séð, hvort sem er á íslenskum eða frönskum bloggum. Hann var reyndar töluvert misskilinn, enda spar á orðin og stundum dálítið erfitt að vera viss um hvað hann er að fara.
Fyrrnefndur Stefán er líka með svipað hugarfar gagnvart þessu og ég (eða við Rafauga og margir fleiri). Hvað er þetta með fullorðna (hvað eru þeir annars gamlir?) menn sem sjá einhvers konar islamska ógn koma yfir okkur vestræn þjóðfélög? Ég er kjaftstopp þegar ég sé svona þvælu á netprenti. Hef persónulega meiri áhyggjur af yfirgangi Bush og félaga.

Það er að koma út mynd um óeirðirnar hérna í nóvember sl. Kannski eru flestir búnir að gleyma því að hér í Frakklandi brunnu slatti af bílum eftir að tveir ungir menn brunnu á háspennukapli á flótta undan lögreglunni (sem er að vísu ekki búið að úrskurða með dómi að hafi verið ástæðan). Það verður spennandi að sjá þessa mynd, og ég ætla líka að lesa bók sem lögfræðingar fjölskyldna hinna látnu voru að skrifa og deilir á réttarkerfið. Enn annað mál sem sýnir vankanta réttarkerfisins hérna. Varla á það bætandi, Outreau-málið (þið getið séð nýlega umfjöllun um það hjá Þórdísi, hún er í tenglalistanum) er svo sem alveg nóg til að sýna hversu auðvelt er að verða saklaust fórnarlamb og sitja í fangelsi og missa börnin sín og lífið úr höndunum. Því það kom Þórdís ekki inn á að a.m.k. ein kona hefur ekki getað fengið börnin sín til baka frá fósturfjölskyldunni, þau hata móður sína og neita að koma til hennar aftur. Þetta mál er óendanlega óhugnalegt og var uppspuni og mistök í offorsi lögreglu og dómara frá upphafi. Líklega eiga fjölmiðlar einhvern þátt í þessu offorsi og vitleysu. Læt ykkur vita hvernig bókin er. Hún heitir Morts pour rien, fyrir þá frönskumælandi lesendur sem gætu haft áhuga á að finna hana.
Ég hlakka til þegar myndbirtingarmálið hættir að vera æsingamál, fær að sjatna, og einhver góður rannsóknarblaðamaður (er ekki einmitt ein mjög góð og verðlaunuð á Fréttablaðinu) fer af stað og safnar viðtölum, upplýsingum og staðreyndum saman og býr til góða bók úr því. Þannig á þetta að vera. Það er allt í lagi að ræða málin meðan þau eru að gerast, en það má ekki gleyma því að það gerist aldrei neitt fyrr en eftir á.
Sannleikurinn er ekki til. Ekki í nútíðinni. Allt er að gerast en ekkert á sér stað. Eða eitthvað svoleiðis. Eða ekki.

Lifið í friði.

ragna fróða

Gleymdi alveg að plögga þetta, en geri það nú:

Kæri viðskiptavinur,
 
Út febrúar er 30% afsláttartilboð á öllum peysum og bolum
frá Path of Love.
Kjörið tækifæri til að gera góð kaup!
Endilega láttu þá vita sem gætu haft áhuga.
 
Vertu velkomin á Laugaveg 28
mán – fös kl 10- 18 og Lau kl 11-16
 
Hlakka til að sjá þig,
 
Ragna Fróða

bókin á náttborðinu er einsaga

Þessa dagana er ég að lesa sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar 3, bréf frá 19. öld. Það er gaman. Stundum reyndar dálítið um endurtekningar en mikið er þetta samt skemmtileg reynsla að koma svona beint og óséð inn í 19. aldar raunveruleika á Íslandi.
Ég þarf að birta hérna nokkra eftirlætisúrdrætti. En ég er ekki hálfnuð svo það verður ekki strax.
En hvað er EINSAGA á útlensku? Monographie eða micro-histoire?


Nýlegar athugasemdir

parisardaman um Kveðja
Margrét H um Kveðja
koparskál um Tau frá Tógó
Elín Kjartansdóttir um rafmögnuð kona
juliann um agnetha