Sarpur fyrir febrúar, 2006hundaveður

Eins og ég hef skrifað í þá fjörtíu tölvupósta (bókmenntalegar ýkjur) sem ég hef ritað í morgun, er ömurlegt veður hérna. Bæði kalt og rigning. Það á ekki saman. Kuldi á að vera sólríkur og rigning á að vera hlýr úði. Þá er gaman að vera til. En ekki í dag.
Þess vegna ætla ég í bæinn á kaffihús með vinkonu minni sem er heimspekimenntuð og er að skrifa doktorsritgerð um konur. Hún er það eitt af því fáa sem getur bjargað svona andskotans niðurrífandi helvítis veðurfari sem gerir það að verkum að mann langar mest af öllu að skreppa á vídjóleigu og leigja alla fyrstu seríuna af Dynasty. Dynasti var góður heimur. Þar voru engir arabar, bara fullkomin femme fatale með langar neglur og lakkaðar og önnur rosalega góð. Báðar ríkar. Og engir arabar.

Lifið í friði.

sundurlausir punktar

Í gær var PLANTU í sjónvarpsþættinum mínum, Arrêt sur images. Það er hægt að sjá hann á vef France 5.
Plantu er líklega einn þekktasti og virtasti skopmyndalistamaður Frakklands. Hann teiknar á forsíðu Le Monde sem er eitt af stærstu vinstrisinnuðu (en um það má óneitanlega deila hversu mikið það er til vinstri eins og alls staðar í okkar frjálsa skítakapítalíska heimi) dagblöðunum í Frakklandi.

Plantu er að nálgast sextugt en hefur alltaf haldið sínu strákslega yfirbragði sem ég tengi oft við góða geðheilsu og fallegt hugarfar. Hann er nýlega búinn að sitja fund með Kofi Annan þar sem þeir lögðu á ráðin með að láta skopmyndalistamenn hvaðanæva úr heiminum hittast og ræða málin og bera saman bækur sínar. Plantu segir að skopmyndir eigi að vera ádeila, eigi stundum að fara niður fyrir beltisstað, eigi að trufla, æsa, ögra og reita til reiði, en hann varar þó við því að láta þessa listgrein stjónast af hatri. Hatrið er það versta, samkvæmt honum.
Persónulega finnst mér myndin sem hann teiknaði af Múhameð sú besta af þeim sem ég hef séð undanfarið. Það sem er skrifað er: Ég má ekki teikna Múhameð.

Plantu bendir á að skopmyndir geta haft tvö mismunandi hlutverk: Vera fyndnar eða túlka hneykslun eða vanþóknun. Þannig er t.d. mynd af presti að leita á lítið barn ekki ætlað að vera fyndin, heldur sýna hneykslun teiknarans (og almennings) á barnaníðingum í prestastéttinni og að kirkjan skuli voga sér að hylma yfir með þeim.
Þetta var málið með margar myndanna í Jyllandsposten. Þær voru ekki fyndnar, tákna eingöngu vanþóknun.

Fjölmiðlar hömuðust við að sýna reiði og mótmæli og bera okkur fréttir af brennandi sendiráðum og konsúlötum. Það hefur alveg gleymst að leggja áherslu á það að margir mótmælenda voru að mótmæla mynd af belgískum trúð í svínsbúningi sem þeir töldu vera mynd úr Jyllandsposten.
Það hefur alveg gleymst að leggja áherslu á það að mörg mótmælanna voru um það bil 30 manns að öskra saman. Ég hef séð slík micro-mótmæli á götum Parísar og get lofað ykkur því að það er bara fyndið, enginn kraftur í slíkum fámennum fundi. Sömu áhrif og maður á kassa að básúna endalok heimsins. En lítið mál að draga inn linsuna og gera þetta áhrifamikið á mynd. Það er list sem fréttamenn stunda óspart.
Það hefur alveg gleymst að leggja áherslu á að fæst Arabaríki banna myndir af Múhameð, þetta bann á eingöngu við um öfgastjórnir eins og þá sem stjórnar Ameríkuvinunum í Sádí-Arabíu.

Það er mjög áhugavert að þegar múslimskur öfgasinni öskrar er það Allah „að kenna“, en þegar kristinn öfgasinni boðar að jörðin er flöt eða að þyngdarlögmálið sé lygi er það hann sem er bilaður. Ekki Guð.
Allah ber ábyrgð á öllum fávitunum sem þykjast lesa hatur, sadisma og hefndargirni úr kóraninum.
Guð er alsaklaus af öllum feitu og freku fávitunum sem níðast á stórum hluta jarðarinnar, bæði fólki, dýrum og náttúruaðlindum.

Lifið í friði.

lífrænt er lífvænt

Þetta er fín grein. Stutt og laggóð og segir það sem þarf. Ég er reyndar frekar til í að losa okkur við orðið lífrænt og setja lífvænt í staðinn. Eða eitthvað annað ef einhver kemur með betra orð. Nota lífvænt þangað til.
Vinkona mín sem rekur lífvæna kaffihúsið Optimistann í Óðinsvéum sagði mér um daginn að lífvænar vörur kosti þrisvar sinnum meira á Íslandi en í Danmörku. Það er hneisa. Ég veit að allt matvöruverð er hneisa á Íslandi en það er samt ekki svona slæmt, er það?

Annars er ég að bilast, mig langar svo mikið í nóakropp að ég myndi borga fjögurþúsundkall fyrir poka einmitt núna. Ef maður með klaufir og horn berði að dyrum og byði mér poka, gæfi ég honum sál mína. Hún er líklega sirkabát fjögurþúsundkalls virði, blettótt og auvirðileg sem hún er.

Lifið í friði.

ísuppskera

Fór á ágætis afþreyingu í bíó, The Ice Harvest. John Cusack og Billy Bob Thornton í formi eins og vanalega. Ramis góður að vanda. Og danska femme fatale-in stendur fyrir sínu.
Nú er ég líklega búin að sjá jafnmargar myndir í bíó á tveimur vikum eins og ég sá á öllu síðasta ári. Fín frammistaða.

Hins vegar erum við hjónin barnlaus og ættum að vera einhvers staðar úti í stórborginni og ljósunum með kokkteil í glasi og dansandi fólk í kringum okkur en sitjum þess í stað, ég við tölvuna og hann yfir fótboltaþætti í sjónvarpinu. Bæði hálflasin ennþá. Frekar svona lamað barnlaust kvöld en samt í alla staði þægilegt.

Horfðum á Marche de l’Empereur í sjónvarpinu áðan sem stóðst nú ekki samanburðinn við bíóferðina, tónlistin allt of tískuleg en samt skemmtileg mynd.
Ég hef alltaf verið svag fyrir mörgæsum. Og sé nú að Kári sonur minn er líklega mörgæsarungi í eðli sínu. Ég hélt alltaf að hann væri að reyna að komast aftur til baka þaðan sem hann kom, en nú sé ég að hann er bara að skýla sér milli fóta mér þegar hann er feiminn eða líður illa. Mörgæs.

Lifið í friði.

best

Ég er langbest í föstudagsgetraun Hjartar. Eins og ég klúðraði alltaf bókmenntagetraununum og náði aldrei að vinna neitt (og trúið mér, ég eyddi stundum heilu dögunum í að giska, var stundum að tryllast). En Hirti tekst ekki að láta mig engjast svo mikið, þó stundum hafi föstudagarnir verið erfiðari en þessi og mig minnir að síðast hafi ég grátklökk ásakað hann um að vera að skemma fyrir mér helgina, enda var ég náttúrulega lengi mikil kvikmyndaáhugakerling og lærði m.a.s. kvikmyndagerð. Svo slokknaði eldurinn í hjarta mér sem er nauðsynlegur til að hanga í svona listiðnaðarómannvænu fagi og siðan hef ég aldrei almennilega vitað hvort ég ætlaði að verða eitthvað þegar ég yrði stór. Parisardaman.com er vissulega einhvers konar starfsferill en ég verð að sjá til hvort ég muni geta lifað af því. Ég vona það svo sannarlega því fátt er skemmtilegra en að sýna Íslendingum París.

Einu sinni þegar ég var ung og saklaus hélt ég að ég myndi ferðast mikið. Núna er ég í þannig klemmu að ég ferðast svo til eingöngu milli Reykjavíkur og Parísar. Báðar borgirnar eru góðar svo sem. Sem betur fer er ég ekki föst á þræði milli, tjah, nú dettur mér engin nógu drulluleiðinleg borg í hug. Jú, ég skal játa að mér datt Bremen í hug og svo Las Vegas. Látum þær því standa. Sem betur fer skiptist líf mitt og hjarta ekki milli Bremen og Las Vegas.
En stjúpdóttir systur minnar, tvítug falleg yngismær, er nú á mínu langþráða flakki um S-Ameríku. Og þar sem ég er svo langt í burtu frá fjölskyldunni gleymdist alveg að segja mér að hún bloggar. Hún fer í tengil sem Sigurbjörg á eftir. Ef ég gleymi henni ekki. Annars á morgun. Sigurbörg er bæði klár og skemmtileg en það verður að játast að stundum finnst mér heil kynslóð á milli okkar, t.d. þegar hún segir að „pleisið rúli“. Samt er hún tvítug. Er ég ekki annars tvítug?

Og ég verð náttúrulega að setja inn annan tengil. Það eru systur móður minnar sem ætla að koma til mín til Parísar í vor ásamt kvenkyns afkomendum yfir 18 ára. Þær eru vissulega snilldarkonur eins og flestar, ef ekki allar, íslenskar konur eru, og eru komnar með upphitunar-hópeflisblogg sem systir mín stjórnar. Systir mín íþróttakonan sem mér varð svo innilega hugsað til í morgun þegar ég sat föst á biðstofu með Ólympíuleikana yfir mér í sjónvarpi. Og gerði allt sem ég gat til að hvorki sjá né heyra. Ég bara skil ekki íþróttir og íþróttaáhuga. Skil það ekki. Systir mín var, að mig minnir, í öllum boltaíþróttum þar til hún féll á prófi og var látin velja og hafna. Hún er í landsliðinu í fótbolta. Hún er flott. Og hún er eina ástæðan fyrir því að til mín hefur sést og heyrst á fótboltaleikjum. ÁFRAM KR! En núna er það víst Breiðablik. Ég gleymi því alltaf því ég hef ekki komist á leik með henni lengi lengi.

Lifið í friði.

tanudey i Odense


tanudey i Odense
Originally uploaded by parisardaman.

Optimistinn er á Brogade 3 í Óðinsvéum.

merkilegt

Fyrirsögnin er tengill í frétt.

Mér finnst þetta mjög merkilegt og áhugavert allt saman.
Það er alveg satt sem kemur þarna fram að það er orðið þreytandi hvernig allt í þjóðfélaginu er farið að túlkast sem verslun og viðskipti. M.a.s. nemendur líta á kennara sem einhvers konar þjónustuaðila og álíta að léleg kennslustund sé fjárhagslegt tap.

Mér leiðist verslun og viðskipti og það er það eina sem truflar mig við parisardaman.com vinnuna mína. Ég veit ekkert erfiðara en að verðleggja mig og er alltaf jafn hikandi og hikstandi þegar ég geri tilboð. Ég skammast mín þó ekkert fyrir að taka greiðslu fyrir vinnuna mína, þjóðfélagið býður því miður ekki annan kost. Ég bara er alltaf hikandi um það hvers virði ég er í peningum. Ein af eftirlætis kenningum mínum er sú að konur eigi erfitt með að verðleggja sig og semja um laun vegna eilífrar klifunar á hórdómi þeirra áður fyrr. Elsta starfsgreinin og lengi sú eina sem konur fengu greitt fyrir. Ég trúi þessari klisju ekki en held að okkur konum finnist við alltaf vera í vændi þegar að peningum kemur.

Annað í sama dúr var greinin frá Sigurði A. Magnússyni í Lesbókinni á dögunum (ekki síðast heldur þarsíðast). Merkilegt. Lásuð þið hana? Ef ekki, drífið þá í því, þið verðið örugglega jafn hissa og ég var.

Lifið í friði.

Lína Langsokkur


Lína Langsokkur
Originally uploaded by parisardaman.

Ég bið forláts á þessu myndabloggi en þar sem bloggið virðist einnig vera samband mitt við fjölskylduna (þá sem nenna að lesa þetta vinstribull mitt) nota ég það stundum í stað tölvupósts. Þið hin verðið bara að bíða spennt eftir næstu ofurnæmu hugleiðingu um pólitík, mannleg samskipti og annað sem skiptir máli.
En litlar stelpur sem teikna Línu skipta náttúrulega miklu máli. A.m.k. fyrir mömmuna sem er að rifna úr monti.

Lifið í friði.

hinsegin aperó

Litli frændi er að auglýsa hinsegin kvikmyndahátíð.
Þetta hljómar allt saman ljómandi vel. Ég væri til dæmis mikið til í að sjá bangsann spænska enda er ég mjög hrifin af bangsahommum eftir að þeir tóku mig í fóstur á Gay Pride eða La Marche de la Fierté eins og málfarsfasistarnir frönsku vilja hafa það (Íslendingarnir eru ekki þeir einu sem eru hræddir við enskuna, þeir eru bara einir um að telja sig hafa fullt vald á henni).
Ég var á Gay Pride ólétt með vinkonu minni og litlu dóttur hennar. Við urðum dálítið þreyttar ég og litla dúllan og fengum að setjast hjá böngsunum sem gáfu okkur blöðrur og bangsa. Síðan þá hef ég alltaf verið veik fyrir þessari manngerð enda voru þeir með afbrigðum ljúfir og elskulegir þó þeir væru þarna leður- og lítið klæddir til að sýna vel bringuhár og frjálslegan vöxtinn.
Vinkonan hafði áhyggjur af brenglaðri mynd dótturinnar af karlmönnum eftir þetta en hún man lítið eftir þessum degi í dag, skilst mér. Eftir á að hyggja komumst við að þeirri niðurstöðu að við fengum mikla og jákvæða athygli þarna í göngunni því fólk dró eigin ályktanir of fljótt og stimplaði okkur sem lesbískt par með annað barnið á leiðinni. Við vorum mjög sáttar við þann stimpil og tölum stundum um þennan dag sem daginn sem við náðum saman. Og fáum nostalgískan sæluhroll.

Svo líst mér líka vel á indversku útgáfuna af Cyrano de Bergerac. Spennandi.

Og ferlega finnst mér það flott hjá hátíðarnefnd að undirbjóða ameríska ruslið. Svona á að gera þetta! Þeir vilja samkeppni, verði þeim að því.

Lifið í friði.

hjólað í vincennes


hjólað í vincennes
Originally uploaded by parisardaman.

ívar og Sólrún eru dugleg að hjóla. Kári líka en úthaldið samt ekki eins gott.