Sarpur fyrir apríl, 2006

og börnin þau

grétu og grétu

af því að seríósið var búið

af því að seríósið var búið aaaaaaaaaúúúú

fyrst var ekkert

svo komst þú

á vængjum yfir

flóann

Ég er blá því mamma er farin. En mamma kemur aftur. í júní. Með allar systur sínar og fullt af frænkum. Og lífið er fallegt. Og ég svíf á vængjum yfir flóann á hverri nóttu. Fer tólf spor í sund. Fer ferðir um alnetið þar sem fólk hittist og hjálpar hvert öðru eins og fólki er von og vísa. Og fylgist með gengi Kate Moss (eða Boss?) hjá JPV. Og allt hitt.
Netið heldur áfram þó maður aftengist í nokkra daga. Það er nú aldeilis gott.

Lifið í friði.

bara

Bara láta vita að hitinn var 25 í gær, ekki 20.
Þetta er ekki til að núa ykkur neinu um nasir, bara vegna þess að eins og allir góðir Íslendingar gerðu á árum áður, held ég veðurdagbók. Hér á blogginu.

Vorið, þegar það kemur loksins, kemur með trukki og dýfu.

Gott að vera til. Núna, ekki þá.

Gott
Got
Go
G

Og mamma mín er að koma.

Lifið í friði.

í dag

Í dag er ekki í fyrsta skipti sem ég dæsi yfir lestri fyrrverandi kennara og pirra mig á því að hann skuli einmitt vera fyrrverandi.

Í dag er ekki í fyrsta skipti sem ég hvæsi yfir lýsingum á meðferð gangandi vegfarenda í Reykjavík.

Bloggrúnturinn var fínn, mæli með Málbeini og Hirti Frjálsa.

Í dag mun ég í fyrsta skipti á þessu ári fara berfætt í sandölum að sækja Sólrúnu í skólann. Úlpur, húfur, treflar og vettlingar snarmisstu vinnuna við það að íslendingar fóru í kröfugöngu í gær. Og kannski höfðu bænirnar áhrif líka. Hér er a.m.k. 20 stig og glampandi sól. Ligga ligga lá. Hí á ykkur. Gefur augaleið reyndar að veðrið batni einmitt núna því mamma er að koma á morgun. Og þegar mamma fer í frí, skín sól á hana. Hvert sem hún fer í frí.

Lifið í friði.

paranoja?

Ég rændi myndinni af einhverri hersíðu í gær og nú er ég allt í einu með ranghugmyndir um að þeir geti rakið hana og ég verði undir eftirliti og… æ, skiptir svo sem ekki miklu, erlendar leyniþjónustur hafa lengi fylgst með mér.

Lifið í friði.

skriðdreki


skriðdreki
Originally uploaded by parisardaman.

Til sölu skriðdreki. Eyðir miklu en er góður farkostur. Drífur brekkur, kemst inn tiltölulega þröngar götur þar sem illa lagðir bílar, gangstéttar og annar ósómi er aldrei fyrirstaða.
Verð skv. samkomulagi.

svarið

Svarið við því hvað myndirnar eiga allar sameiginlegt er að þær voru teknar upp á þeim stöðum sem atriðin gerast í. Fullt fullt af myndum hafa verið gerðar í stúdíóum þar sem líkt er eftir stöðum í París.

En nú ætla ég að horfa á upptöku frá Páskadegi á þættinum mínum, „arrêt sur images“, sem fjallar víst um Berlusconi, þann mæta mann.

Börnin eru komin með páskaungana, snuddur (fyrir þá sem enn nota slíkt), prinsessur og bækur upp í rúm og tilbúin á góðri leið inn í draumalandið sitt sem er vonandi laust við álver.

Rauðvínið í glösum hjónanna er vínrautt. Ekki rautt. Skrýtið?

Lifið í friði.

undarleg viðskipti

Fyrir nokkrum dögum kom kona með þunga bók í töskunni sinni til mín. Þessa bók las ég nú um helgina enda hvílíkt skítaveður að það var fínt að kúra sig undir sæng á eftirmiðdögum og lesa.
Inni í höfðinu á mér ómuðu stundum reiðiöskur, stundum var ég svo hissa að ég trúði varla orðunum, stundum þurfti ég hreinlega að leggja bókina frá mér og hefði kannski bloggað eitthvað til að fá útrás en í staðinn básúnaði ég yfir vesalings Frakkana yfirlýsingum um náttúruverndun, stóriðjubaks og tímaskekkju og þau vissu varla hvaðan á þau stóð veðrið.

Í morgun hjólaði ég af stað með þungu bókina í bakpoka. Hjólaði niður með skipaskurðinum sem liggur annars vegar niður til Parísar og hins vegar upp til Amsterdam (sú leið er sjaldnar notuð af mér). Á Quai de la Loire hitti ég, regnbogabarn í rauðum jakka, svartklæddu íðilfögru ljóshærðu nornina sem notar stundum eldrauðan varalit. Upp úr svarta pokanum hennar kom Love Star, upp úr mínum vínrauða kom Draumalandið. Andri Snær Magnason var því staddur þarna að einhverju undarlegu leyti, óforvarendis og án þess að vita af því var hann á terrössu við canal í París að morgni sumardagsins fyrsta. Hann fékk þó ekki myntute hjá arabakarlinum og ekki var lesið upphátt úr bókunum.

Ég veit það núna að ég ætla að gera eitthvað til að vinna að því að ekki bara bókin endi vel.

Einhverjar hugmyndir?

Ég held því miður að Íslandsferð í júlí sé ekki valmöguleiki vinnunnar vegna. Það er þó ekki alveg útilokað og mig langar ógurlega mikið að vera þarna við Kárahnjúka 21. júlí nk. Þar verða líklega sömu listamenn og á tónleikunum í janúar en ákveðið hefur verið að auglýsa engin nöfn svo fólk komi ekki bara til að dýrka stórstjörnur, það væru rangar forsendur.
Hægt að lesa um þetta á savingiceland.org sem ég þarf að bæta í tenglalistann. Hvert á maður helst að senda peninga? Þangað? Eða eitthvert annað?

Það þýðir ekki lengur að hugsa með sér að aðrir geri þetta fyrir mann.

Við þurfum öll að gera þetta saman.

Mikið er ég nú fegin að enginn vina minna talar um tegrun eða jaðarábata þegar sagt er frá djammferðum eða pælt í lífshamingju. Mikið er ég hissa á að hafa aldrei heyrt um star.is. Mikið er ég glöð að þessi bók var skrifuð.

Ég ætlaði ekki að játa það, en ég get aldrei haldið í mér: Ég grét meðan ég las síðustu tvær blaðsíðurnar.

Gleðilegt sumar hróin mín.
Gleðilegt og gott sumar, verið ánægð, verið bjartsýn, það er ég.
Og umfram allt: Lifið í friði.

sveitaferð

Ég ætla að leyfa spurningunni um hvað myndirnar 16 eigi sameiginlegt að hanga ósvaraðri yfir páskana. Sjálf verð ég út úr síma- og netsambandi í 4 daga.
Í fyrsta sinn munum við hafa páskadagsmorgun eins og frönsk börn eiga að hafa hann, eggin verða falin úti í garði og þau leita.
Vitanlega er búið að færa þennan sið upp á hærra plan og nú eiga foreldrarnir að búa til ægilega skemmtilega ratleiki utan um páskaeggjaleitina. Við ætlum hins vegar að skýla okkur bak við það hvað börnin eru ung og látum duga að fela eggin og ekkert allt of vel heldur.
Ég er sammála Kókó um að páskarnir eru eitt besta fríið, einhvern veginn svo þægileg tilhugsun að þessir frídagar eru þarna alltaf og koma engu dagatali við. Þó að páskafríið sé náttúrulega bara mánudagurinn hér fyrir vinnandi fólk eru börnin í 2 vikna skólafríi og mörgum tekst að lengja fríið sitt, þökk sé 35 stunda vinnuviku o.fl.

Ég get upplýst ykkur um það að ég hef eingöngu séð helminginn af myndunum úr spurningakeppninni, a.m.k. svo ég muni.
Ég óska ykkur gleðilegra páska, hvort sem þið gangið til altaris eður ei. Megi friður og hamingja fylgja samverustundum við fjölskylduna.

Mig langar í lambalæri með öllu à la mamma einmitt núna en mun láta mér duga að veðurguðirnir gefi okkur þurra helgi og hlýja.

Lifið í friði.

björt ljós, borgarljós

Já, það getur verið varasamt að taka þátt í leik í stórborginni. Eyja liggur í rauðvínsvímu í kókómjólkurpolli, Björn Friðgeir er kominn í svaðið á Pigalle…
Leikar fóru þannig að Erna sigraði með miklum yfirburðum, hlaut 4 óperuhús Garnier.
Aðrir voru með 1-3 minnismerki.
Enn hefur síðustu aukaspurningunni þannig að spurningin er hver fær afréttara á þessum heilaga degi. Sem er ekkert heilagur hér í kaþólska Frakklandi, hér er ekkert frí nema á 2. í páskum. Föstudagurinn ógurlega langi á Íslandi er bara venjulegur vinnudagur hér. Sem og skírdagur.
Þess vegna er ég stokkin í vinnuna.

En fyrst eru það tvær lokaspurningar frá mér:
Hvað eiga þessar myndir sem spurt var um sameiginlegt?
Hvað hefur Parísardaman sjálf séð margar þeirra?

Lifið í friði og varist váljósin borgarinnar í fríinu.

til allrar

Já, það var hún Hugrún sem kom með svarið, skyldi þetta vera Huxy eða einhver önnur Hugrún?

Hún er a.m.k. komin með eitt stykki Saint Germain des Près kirkju í stig fyrir Ronin e. John Frankenheimer frá 1998.

Og það sem í mínum einfalda huga greindi Pompidou frá hinum forsetunum var að hann var bókmenntafræðingur en ekki útskrifaður úr stjórnmálafræðum eins og flestir hinna. Gleymdi náttla stofnanda 5. lýðveldisins, DeGaulle sem var ekki með háskólapróf…

16. og síðasta spurningin er: Í hvaða mynd sjáum við Matt Damon taka George-Pompidou hraðbrautina sem liggur meðfram Signubökkum í öfuga átt til að sleppa undan löggunni sem eltir hann?
Og aukaspurningin er: þessi George-Pompidou hraðbraut skiptir um hlutverk í einn mánuð á ári, í hvað breytist hún?

Lifið í friði.


Nýlegar athugasemdir

parisardaman um Kveðja
Margrét H um Kveðja
koparskál um Tau frá Tógó
Elín Kjartansdóttir um rafmögnuð kona
juliann um agnetha