Sarpur fyrir maí, 2006

paris


paris
Originally uploaded by parisardaman.

er í þessa átt. Myndin er af póstkorti frá Le Baobab, ljósmyndari er P. Maisoncelles.

spegill spegill

Einhvern tímann fyrr í vor keypti ég mér loksins SPEGILINN. Í Frakklandi er mjög algengt að hafa stóran spegil í veglegum ramma inni í stofu eða borðstofu. Mig hefur alltaf dreymt um að eignast góðan veglegan spegil en hef aldrei rekist á þennan eina sanna fyrr en sem sagt á flóamarkaði í 19. hverfi í vor. Ég hef oft séð flotta spegla, litið á verðið og þá hefur það verið afgreitt. Þarna gat ég ekki litið á verðið heldur þurfti að spyrja karlinn sem átti básinn. Hann gaf mér upp verð og ég vissi áður en hann sagði það að ég yrði að eignast þennan spegil. Hann bara stóð þarna á jörðinni, hallaði sér makindalega upp að gömlum skáp og ég var máttlaus í hnjánum fyrir framan hann.
Samt gekk ég í burtu og við héldum áfram út allan markaðinn. Ég gat ekki á heilli mér tekið og var allan tímann sannfærð um að núna, einmitt núna, væri einhver annar að kaupa spegilinn MINN.
Þegar ég kom til baka stóð hann þarna og beið mín. Ég prúttaði hann niður í 70 evrur og maðurinn minn þurfti að fara með hann heim í metró aleinn þar sem enginn lifandi leið var að koma honum inn í bílinn ásamt okkur og börnunum.
Spegillinn er ekki með gylltum ramma, heldur mjög fallegum og frekar stílhreinum viðarramma. Hann er margmálaður og var málningin byrjuð að flagna af á ýmsum stöðum. Ég var búin að lofa mér að hengja hann upp í þessu ásigkomulagi og huga síðar að því hvort ég vildi skafa af honum einhver lög og mála hann.
Spegillinn er ekki enn kominn upp á vegg því við hjónin getum ekki hengt hann upp bara við tvö, það væri of mikil áhætta. Ef spegillinn brotnar og ég get á nokkurn hátt kennt manninum mínum um það, verð ég áreiðanlega að skilja við hann. Það vil ég síður. Þess vegna á spegillinn ekki að brotna.
En í gær dróst ég skyndilega að speglinum, algerlega óforvarendis ennþá á náttfötunum og byrjaði að skafa efsta lag málningarinnar sem er einhvers konar gulbleikbeisælulitur. Og nú er ég búin að skafa og skafa og mest af þessum ókennilega lit farinn en ég er alveg búin á því, hef varla kraft til að vélrita. Af hverju get ég ekki einu sinni farið eftir eigin ráðum? Af hverju þarf ég alltaf að fara að gera eitthvað fáránlegt þegar ég ætti í raun að vera að gera eitthvað allt annað sem liggur meira á? Pourquoi?
En spegillinn er helvíti flottur og ég hafði það af að mála innan í skúffur og skáp á skrifborði sem ég hef trassað í lengri tíma. Bara því ég þurfti að hvíla mig stundum á sköfuninni. Jamm. Aftur finnst mér ég bara vera að væla út í loftið. Hef ég einhvern tímann verið að skrifa eitthvað af viti á þetta blogg?

Lifið í friði.

skömm

Ég skammast mín fyrir það hvernig komið er fyrir okkur, fyrir þessu þjóðfélagi „siðmenntaðra velferðarríkja“. Ég skammast mín fyrir einstaklingshyggjuna, gróðahyggjuna og frumskógarlögmálið.
Auðvitað er til fólk sem hugsar og sér að það er eitthvað að og að einhverju þarf að breyta. Vandamálið er kannski að það er svo margt sem má betur fara að það er alltaf hægt að nota rökin að eitthvað annað þurfi að laga FYRST þegar reynt er að berjast fyrir einhverju ákveðnu. Þannig geta t.d. iðnvæðingarsinnar Íslands bent á slæmt ástand í heilbrigðismálum og öldrunarmálum og sagt við umhverfisverndarsinna að einhvern veginn verði að búa til peninga og atvinnu og allt þetta sem þessar blessaðar reykspúandi verksmiðjur eiga að framleiða handa okkur.
Ég finn fyrir miklum aulahrolli þegar ég lendi inn á síðum eins og þessari í gær sem er einhvers konar spjallvefur rekinn af símanum þar sem rætt var um mótmæli og mótmælendur á hvílíkum nótum að mér er nærri lagi að segja að við séum komin til baka til miðalda, en það get ég ekki sagt þar sem ég er að berjast í gegnum bók sem biður fólk um að hætta að tala illa um miðaldir. Verð víst að finna eitthvað annað „grýlulegt“ til að nota. Sovét? Já, það gæti virkað. Mætti halda að við værum komin aftur til baka til Sovét. Nei, virkar eiginlega ekki. Eða hvað? En þið skiljið mig, er það ekki?
Ég veit ekki hvernig ég rakst inn á þennan spjallvef, en ég hef aldrei getað lesið neitt af þessum vefjum, umræðan er á plani sem fyllir mig örvæntingu og vantrú á manninum og ég hrökklast alltaf skjálfandi út eftir örfáar mínútur. Ég veit ekki, en í gær fékk ég á tilfinninguna að þessi vefur væri FALSAÐUR, að þetta væri ekki alvöru fólk að skrifa, heldur áróðursmaskínur, fólk á launum við að rugla og þrugla umræður svo þær gætu aldrei leitt til neins. Ha? Paranoja? Ég er nýbúin að lesa Love Star og finnst ég sjá merki um að hún sé að rætast alls staðar. Til dæmis gerðist undarlegur hlutur í Giverny um helgina. Hópurinn var á veitingahúsi og skyndilega byrjar þjónninn að söngla auglýsingu fyrir eitt af 118 númerunum! Hýsill eða hvað? Og það er reyndar löngu búið að upplýsa hér í Frakklandi að unglingar geta fengið fríðindi fyrir að mæla með ákveðnum vörum. Og það er deginum ljósara að fjölmiðlum er ekki hægt að treysta. Fjölmiðlar, fréttamiðlar, gefa okkur þá sýn á þjóðfélagið sem hentar þeim sem eiga þá.
Gott dæmi var sýnt svart á hvítu í „Arrét sur images“ á dögunum: Da Vinci lykillinn frumsýndur í Cannes. Allar stöðvarnar sáu sig tilneyddar til að fjalla um það.
Fyrst var smá upprifjun á því að kirkjan og sérstaklega Opus Dei eru vondu kallarnir og morðingjar í bókinni og nú í myndinni. Svo fer myndavél og veiðir fólk á leiðinni út af myndinni og tekur óundirbúin viðtöl við fólk „af handahófi“. Mjög vísindaleg leið til að taka púlsinn á áhrifunum.
Fréttaskotin á TF1, France 2 og France 3 sýna að öllum finnst þetta léleg mynd, það var hlegið á alvarlegu stöðunum og myndin er bara slöpp og mislukkuð að öllu leyti. Á M6 kveður við annan tón. Það mætti halda að sá fréttamaður hafi ekki verið fyrir utan sömu mynd. Fín mynd, vel heppnuð, spennandi, góður leikur… Þarf ég að taka það fram að M6 framleiðir þessa mynd?
Sökin er ekki eingöngu þeirra, ALLAR stöðvarnar FALSA útkomuna, sleppa þeim sem segja það sem ekki hentar stefnu stöðvarinnar. Þetta er brot, lítið dæmi, sem snertir bara einhverjar milljónir í gróða fyrir einhverja kalla úti í heimi. Kemur okkur varla við. En við skulum samt staldra við og spyrja okkur hvernig hægt er að treysta fólki sem stundar svona vinnubrögð. Þetta eru stöðvarnar sem matreiða fréttir ofan í okkur alla daga. Og látum okkur ekki dreyma um að á Íslandi sé þessu öðruvísi farið. Síður en svo.
Fréttaskortur af mótmælunum á laugardag er greinileg sönnun þess. Við verðum að passa okkur á því að berjast gegn þessu. Það þýðir ekki að yppa öxlum og segja að svona sé þetta bara. Ríkissjónvarpið hlýtur að hafa ákveðnum skyldum að gegna gagnvart ÞEGNUM landsins. A.m.k. eigum við að krefjast þess að svo sé. Ef 3000 manns safnast saman í miðborginni er það stórfrétt. Það hlýtur hreinlega að vera BANNAÐ að þegja slíkt í hel.
Þess vegna þakka ég Guðnýju fyrir að hafa hringt og kvartað yfir fréttaleysinu og bið ykkur öll um að gera slíkt hið sama. Hringið, skrifið tölvupósta, biðjið um fréttir af því sem er að gerast í ALVÖRUNNI, ekki matreiddar fréttir af því sem hentar stjórnvöldum að okkur sé sagt. Annars getum við náttúrulega bara neitað að greiða afnotagjöldin, er það ekki?
Hér í Frakklandi er a.m.k. vel fylgst með ríkisstöðvunum og sterkari krafa gerð á hlutleysi þeirra og umfjöllun um málefni. Auðvitað er margt sem betur má fara, eins og umfjöllunin um bíómyndina sýnir auðveldlega, en það er a.m.k. stöðug og lifandi umræða í gangi um hlutverk ríkissjónvarps og skyldur þess gagnvart þjóðfélaginu.

Ég veit ekki, kannski er ekki hægt að halda uppi vitrænum umræðum um eitt eða neitt. Kannski er það rétt sem ég fékk á tilfinninguna í gær að ef slíkt byrjar að fæðast koma áróðursvélar og kæfa þær í fæðingu. Kannski verð ég bara að sitja hérna og skammast mín fyrir að vera manneskja. En kannski ekki.

Lifið í friði.

mio dio

Ég var að ljúka við Angels and Demons. Held að héðan í frá muni ég láta Dan Brown í friði. Á reyndar eftir að sjá Da Vinci lykilinn í bíó en svo verður okkar sambandi slitið.
Ég hef mjög gaman af góðum reyfurum, góðri spennu og skemmtilegum samsæriskenningum, en einhvern veginn náði ég aldrei að skemmta mér yfir þessari bók. Skemmti mér ágætlega yfir Da Vinci, en hún var mun fljótlesnari og auðvitað skiptir máli að París er í henni.
Róm á ég alveg eftir að uppgötva, því miður, eins og reyndar megnið af Ítalíu. Sikiley er mögnuð eyja og mig langar mikið aftur þangað, en mig langar líka í rómó menningarferð til Rómar, dansa í gosbrunninum, er það sá sami í bókinni og í La Dolce Vita Fellinis? Og ég veit að ég verð einn góðan veðurdag að sjá garðinn hennar Niki de Saint-Phalle sem mun vera í nágrenni Florence. Og svo langar mig í fjallaþorpin og svo verð ég líklega að endurnýja kynni mín við Feneyjar, en þau voru erfið síðast, í sömu Inter-Rail ferð og minnst var á hér í síðasta pistli. Fíluðum okkur engan veginn í túristafarganinu um miðjan ágúst og flýðum landið yfir til Frakklandsins okkar aftur eftir einn dag þar og enga nótt.
Jamm. Mér leiðist.
Er einhver þarna?
Lifið í friði.

ditten og datten

Nú verður spennandi að sjá hvort sjálfstæðismenn muni standa sig betur í að þrífa göturnar í Reykjavík. Gangi þeim vel.

Ég er úrvinda eftir síðustu daga. Skemmtilegir en ferlega erfiðir, hljóp milli hópa, stórra og smárra. Skemmtilegt fólk og alls konar uppgötvanir en í dag líður mér eins og ég hafi verið á fjögurra daga fylleríi. Ekki það að ég hafi mikla reynslu af því að þurfa jafna mig á fjögurra daga fylleríi en það er svona sem ég ímynda mér að mér myndi líða. Tóm, stíf og ofurþreytt.

Hlaupabólan er nú ekki skemmtilegur sjúkdómur að eiga við. Sólrún var heppin, vægt hjá henni, slatti af bólum sem hún virðist ekki finna fyrir, hefur ekkert verið að klóra sér, enginn hiti og er bara sama hressa og fallega barnið (fegurðin kemur sko innan frá).
Kári er hins vegar svo óhugnalegur að móðirin kúgast ef hann hlær framan í hana. Á mjög erfitt með að horfa á hann svipbrigðalaus, hann er undirlagður í viðbjóðslegum kýlum, bólurnar virðast koma í knippum og mynda risastórar blöðrur út um allan líkama. Hann er með blöðru á gómnum sem lafir niður á tennurnar. Hann er búinn að vera með 39 stiga hita í þrjá daga og er mjög aumur og vælinn. Við fórum nú samt með þau út í garð í morgun, ásamt annarri hlaupabólusýktri fjölskyldu og vorum eins og holdsveikisjúklingar, fólk tók sveig framhjá okkur og bannaði börnum sínum að gefa sig að okkur. En krökkunum líður langbest útivið, eru að klepera á inniveru og þar sem hitinn er yfir 20 stig er nú bara sjálfsagt mál að viðra þau. Og sama er mér þótt þau smiti önnur börn, þurfa hvort sem er að fá þetta einn góðan, er það ekki?

Ég er ferlega svekkt yfir því að þurfa að hafa þau heima á morgun, þarf svo innilega á almennilegri hvíld að halda og svo þarf ég að undirbúa næstu helgi en þá kemur mamma ásamt sjö systrum sínum og dætrum þeirra í heimsókn.
Fyrst verður kokkteill og hressing hér og svo fer ég með þeim á hótel og verð með þeim þar alla næstu helgi. Gisti í fyrsta sinn á hóteli í París síðan á Inter-rail ferðinni 18 ára gömul þar sem ég gisti á svo huggulegu hóteli að það voru blóðblettir í lökunum og sturtan var beint yfir vaskinum þannig að maður þurfti að beygja sig yfir hann til að fá bununa á höfuðið.
Við komum hingað græn og ung og bjartsýn og skunduðum á farfuglaheimilið þar sem okkur var sagt að það hefði átt að panta með nokkurra mánaða fyrirvara. Maðurinn í afgreiðslunni var svartur og fór allt í einu að snakka við okkur á sænsku. Hann benti okkur á þetta hótel en bannaði okkur að segja hver hefði bent á það. Þegar við mættum spurði konan í móttökunni einmitt stíf og ströng að því hvernig við hefðum fundið þau. Við glenntum upp bláar glyrnurnar og lugum sakleysislega að við hefðum bara séð það af götunni, dauðhrædd um að okkur yrði vísað á dyr. Hef aldrei fundið þetta hótel aftur. Leitt að geta ekki mælt með því á netsíðunni minni.
Það var gaman að pönkurunum í herberginu á móti sem bjuggu þarna og þvoðu gallabuxurnar sínar í höndunum og þurrkuðu út um gluggann ásamt naríum og sokkum. Hver segir að pönkarar séu subbur? Mér finnst pönkarar, svona alvöru pönkarar sem dressa sig upp og eru með hanakamba eða aðrar ögrandi hárgreiðslur alltaf mjög spennandi fólk. Sá einmitt hóp af extra flottum pönkurum um daginn og fór að hugsa um það hvernig standi á því að ég þori aldrei að klæða mig mjög djarft.

Hvernig gengu mótmælin annars í gær? Hef ekki séð neitt um það á fjölmiðlavefjum, né á bloggum.

Farin að pússa spegil.

Lifið í friði.

bréfið frá Andra

Þetta er bréf sem Andri Snær Magnason skrifaði á Náttúrvaktina. Set það hér inn í dag fyrir þau sem ekki hafa fengið þetta sent í tölvupósti.

Mikilvægustu kosningar aldarinnar?

Næstu tvennar kosningar eru einhverjar þær örlagaríkustu sem fram munu
fara á Íslandi næstu áratugi vegna þess að þær snerta
grundvallarákvarðanir sem munu marka líf okkar, umhverfi og stjórnmál
næstu áratugi. Einmitt um þessar mundir er verið að taka þá ákvörðun
hvort Ísland verði stærsta álbræðsla í heimi eða ekki.

Yfimenn Alcan hafa gefið til kynna að verksmiðjunni verði lokað nema hún
fái að vaxa upp í næstum því 500.000 tonn, það er kallað stækkun en
þreföldun er nærri lagi. Þegar álverið í Straumsvík hefur þrefaldast
verður það næstum því jafn breitt og það er langt og það mun fylla upp í
svæðið beggja vegna Reykjanesbrautar. Það á að verða heill ferkílómeter
að stærð og það tæki rúma klukkustund að ganga í kringum það. Í blöðum
stendur að hlutfallsleg mengun muni minnka. Ef dulmálið er afkóðað kemur
í ljós að gróðurhúsalofttegundir aukast sem nemur öllum bílaflota
Íslendinga. Heimiluð aukning á brennisteinsdíoxíði úr 3500 upp í 6900 tonn
á ári. Sjónmengun er ekki hægt að mæla í prósentum en á kyrrum dögum
ætti þessi mengun að verða öllum ljós.

Fjölmiðlar hafa ítrekað brugðist skyldu sinni. Álpartíið fræga á Húsavík
var til dæmis skipulagt af Gísla Sigurgeirssyni fréttamanni RÚV. Hann
smalaði fólki saman og fréttin sem virtist koma í ,,beinni útsendingu“
hafði löngu borist um bæinn. Þetta var leikrit og Gísli samdi jafnvel
slagorðin, ,,álið er málið“ sem fólkið galaði eftir hans leiðsögn.
Jafnvel hörðustu áhugamenn um álver fengu aumingjahroll við að horfa upp
á þetta en þennan dag dó lýðræðið á Húsavík. Þaðan í frá töluðu
fjölmiðlar um ,,vilja Húsvíkinga“. Þetta ástand var skapað af opinberum
fjölmiðli áður en nokkuð hafði verið rannsakað eða rætt, áður en arðsemi
var ljós, áður en reynsla var komin af framkvæmdum, ráðningum eða mengun á
Austurlandi, hvað þá hvort Kárahnjúkavirkjun nái yfirleitt núlli. Menn
fjalla ekki um aðalatriði málsins, að álverið á Húsavík er aðeins hálft
álver. Það mun þurfa að tvöfaldast í framtíðinni en enginn vill ræða
hvaðan sú orka á að koma. Jökulsár Skagafjarðar og Skjálfandi hafa þegar
verið eyrnarmerktar verksmiðjunni en það dugar ekki nema upp í 360.000
tonn. Þrátt fyrir öll vafaatriði er látið eins og ákvörðun á Húsavík sé
formsatriði og búin er til tímapressa og neyð. Alcoa stendur fyrir
fundum sem höfða til skammtíma gróðavonar einstakra hagsmunaðila. Þessi
skák hefur verið leikin margsinnis um allan heim: Láttu heimamenn ná niður
orkuverðinu.

Þrátt fyrir að íslenska ríkið hafi fært Alcoa milljarða í beinhörðum
peningum, skattaafsláttum, niðurgreiddu rafmagni og náttúruverðmætum þá
fær Alcoa að eigna sér þjóðgarðinn sem á að ná frá Skaftafelli niður
Jökulsárgljúfur fyrir litlar 20 milljónir. Hér eftir verður allt
myndefni af þessu svæði til reiðu í kynningarefni Alcoa og fyrirtækið
getur sagt heiminum að öll þessi fegurð sé Alcoa að þakka. Þetta er eins
og Bílaverkstæði Bödda fengi að nota Björk ókeypis í öllu kynningarefni
þrátt fyrir að eigandinn hafi nýlega bakkað yfir hana. Fyrirtæki sem
stendur í mestu eyðileggingu á náttúrugersemum á Íslandi verður tákn
fyrir verndun. Írónían er auðvitað sú að ekkert ógnar þessum svæðum nema
einmitt áliðnaðurinn. Versti markaðsfræðingur í heimi getur séð að
stórfyrirtæki ætti að borga milljarða fyrir að vera opinber verndari
höfuðdjásna Íslanda og enn meira ef fyrirtækið er þekkt fyrir mengun og
eyðileggingu.

Stjórnmálamenn og fjölmiðlar virðast ekki hafa ímyndunarafl til að sjá
eða sýna okkur hvert þjóðin stefnir. Leiðin til álnauðar er vörðuð góðum
ásetningi.

Nú þegar stefnir í að ársframleiðsla verði um 1.5 milljón tonn með
álverum á Reyðarfirði, Hvalfirði, Húsavík og Helguvík og þrefaldri
Straumsvík. En fjögur þeirra munu vilja eða neyðast til að tvöfaldast í
framtíðinni. Það væri blekking að ímynda sér annað. Rannsóknir í
Skjálfandafljóti, Héraðsvötnum, Kerlingarfjöllum, Torfajökulssvæði og
Langasjó staðfesta hvert orkufyrirtækin stefna og að tæknileg markmið
eru komin upp í tvær og hálfa milljónir tonna. Sú staðreynd að
Þjórsárver eru á ís sanna þennan vilja, annars væru þau sjálffriðuð.
Orkufyrirtækin vilja gera Ísland að stærstu álbræðslu í heimi, á því
leikur enginn vafi, verktakar vilja það, ASÍ vill þetta,
Sjálfstæðisflokkurinn vill þetta, Framsóknarflokkurinn vill þetta og
Samfylking hefur spilað með um allt land.

Century sem rekur álverið á Grundartanga er örfyrirtæki, það gæti
auðveldlega runnið inn í Alcoa samstæðuna. Þá mun Alcoa eiga fjórar
verksmiðjur á Íslandi sem allur munu þurfa að tvöfaldast. Hvert leitar
slíkt vald og slíkur vilji? Á meðan forstjóri Össurar þarf ekki að ganga
í miðstjórn framsóknarflokksins til að hanna betri gervilimi og Marel
þarf ekki á velvild ráðherra að halda til að þróa betri vinnslulínu, á
meðan allt hið skapandi afl á Íslandi leitar í útrás, þá mun ál og
orkiðnaðurinn standa í innrás og leita í pólitík enda byggist vöxturinn
á aðgangi að helgustu véum þjóðarinnar og þetta vald mun stýra
samningagerð okkar í loftslagsmálum.

Enginn fjölmiðill hefur viljað birta okkur í hvaða átt við erum að fara.
Væri æskilegt að einn og sami aðili eignaðist fjórar verksmiðjur á Íslandi
sem allar vilja stækka? Og þegar þau hafa stækkað, munu þau ekki vilja
stækka? Er opið bókhald hjá stjórnmálaflokkum?

Kerlingarfjöll, Þjórsárver, Reykjanesið, Friðlandið að fjallabaki,
Langisjór, Skjálfandafljót og Héraðsvötnin, allt þetta geta stjórnmálamenn
látið af hendi á næstu árum. Ef valdið er tafl þá eru venjulegir
sveitarstjórnarmenn látnir glíma við stórmeistara í samningagerð sem hafa
snúið á stjórnvöld og haft áhrif á lagasetningu í stærstu ríkum
veraldar. Á móti þessum stórmeisturum spila ráðamenn lúdó. Bisnessvit
þeirra verður ekki í askana látið.

Leiðin til álnauðar er vörðuð góðum ásetningi. Þótt hver í sínu horni sé
velviljaður er heildarmarkmiðið hrein yfirlýsing um fjandsamlega
yfirtöku á íslensku atvinnulífi og náttúru. Næstu kosningar eru
mikilvægustu kosningar Íslandssögunnar. Við erum að kjósa um það hvert
Ísland stefnir. Á laugardag ætla þúsundir Íslandsvina að ganga niður
Laugaveg klukkan 13:00 ásamt mörgum helstu tónlistarmönnum þjóðarinnar og
mæla þannig með annarri framtíðarsýn.

tilkynning frá íslandsvinum

Sælir allir Íslendingar
Til stendur að hafa meðmælagöngu þann 27. maí þar sem farið verður fram á
virkt lýðræði í sambandi við stóriðjustefnuna og undirskriftasöfnun hefst
með áskorun til stjórnvalda.

Endilega hafið samband við alla kunningja, vini og fjöldskyldu og látið
orðið berast um gönguna því við viljum fá alla með og gera þetta að
stórviðburði.

Laugardaginn 27. maí, kl. 13:00 standa Íslandsvinir fyrir göngu sem lagt
verður í frá Hlemmi í Reykjavík. Gengið verður niður Laugaveginn og endað
með útifundi á Austurvelli, þar sem
fram koma margir af okkar helstu tónlistarmönnum, auk skálda og annara
listamanna.

Við göngum . . .

fyrir íslenska náttúru
fyrir fjölbreytt atvinnulíf, hugvit, menningu
fyrir sköpunarkraft og frumkvæði
fyrir ný tækifæri
fyrir menntun
fyrir velferð
fyrir lífsgæði
fyrir lýðræði
fyrir sjálfstæði Íslendinga

Við göngum . . .

gegn misnotkun á náttúruauðlindum okkar
gegn efnahagslegu ósjálfstæði
gegn einhæfu atvinnulífi
gegn stóriðjustefnu stjórnvalda

Aldrei áður hefur náttúrugersemum okkar, efnahagslegu sjálfstæði og velferð
verið ógnað sem nú og því liggur mikið við.

Drög að dagskrá 27. maí.

13:00 – 14:00 Ganga frá Hlemmi niður á Austurvöll
14:00 Dagskrá hefst á Austurvelli
14:00 – 15:40 Örstutt kynning á undirskriftasöfnun 3 mín
Hjálmar
KK
Fjallkonan flytur ljóð
Ragnhildur Sigurðar (vistfræðingur) talar
Flís og Bogomil Font
Benni Hemm Hemm
Unglingar flytja beiðni sína
Ragnhildur Gísladóttir
Fræðsluefni rúllar á skjá allan tímann

Kærar þakkir til þeirra sem eru tilbúnir að leggja málefninu lið. Nú er
tækifærið til að „gera eitthvað“
Endilega áframsendið póstinn á alla sem þið þekkið.
Í viðhengi er plakatið sem þið megið endilega prenta út og hengja upp á
vinnustað ykkar og svo er kynningargrein.

Íslandsvinir
http://www.islandsvinir.org

bjartsýn á hlaupum

Ferlegt veður hér líka. Bara svo þið vitið það. Skítarok og kuldi. Eða rok og skítakuldi. Fer eftir því hvernig á málin er litið.

Bætti Cafe Optimisten inn í LYST þó vitanlega sé ógreinileg skil milli i og y hjá þeim.

Vínskólinn fór um daginn í LYST og á vel heima þar. Spyrjið bara Nönnu R og fleiri.

Ég er föst í Monet og aldamótunum 1900 en verð að hlaupa frá honum yfir á 17. og 18. öld í Versölum. Sem er ekki leiðinlegt sossum, bara verst að hafa ekki meiri tíma en þetta í karlinn.

Ég hleyp alda milli, bólur hlaupa upp á líkama dótturinnar. Ætli drengurinn þurfi svo að bíða í aðra 10 daga, ég var nú að vona að þau fengju þetta saman. Krosslegg fingur upp á að næturnar verði ekki svefnlausar því ég mun þurfa að hlaupa í orðsins fyllstu merkingu hópa á milli á næstu dögum.

Lifið í friði.

Monet í metró

Þar sem ég sit í metró og les mér til um ævi Monet er stelpan við hliðina á mér að borða óviðurkvæmilega stóra langloku sem lyktar af majónesi og litli svarti karlinn gegnt henni situr með talnabandið sitt og þylur bænir. Ekki upphátt en við og við kemur undarlegt blísturshljóð upp úr honum. Hann kippist allt í einu til og byrjar að tala tungum. Kona sem stendur fyrir aftan mig og samlokustúlkuna svarar honum á sama óskiljanlega tungumálinu, vinkona hans og landi er þá að stíga inn í lestina rétt í þessu.
Ýmsum þykir metró erfitt og leiðinlegt. Ekki mér. Ég á yfirleitt í vandræðum með að fylgja söguþræði í bók, svo spennandi er að fylgjast með fólkinu koma inn á hverri stöð.
Svar japanskrar stúlku sem spurð er hvað henni þyki skrýtnast í París rifjast upp fyrir mér: Fólk borðandi á förnum vegi, gangandi um götur úðandi í sig mat. Þykir mjög óviðurkvæmilegt í Japan.
Íslenska fljóðinu mér þykir undarlegra að sjá mann biðja bæna á almannafæri. Fyrir mér eru bænir meira feimnismál en samlokuát.

Lifið í friði.

Ísland í Figaro

Í gær var baksíða Le Figaro, eins af stóru blöðunum hérna, helguð Íslandi og Silvíu Nótt. Það er nú fínasta landkynning og greining blaðamannsins þrykkjufín, bendir m.a. á að íslenska þjóðin líti á Söngvakeppnina sem eins konar Nóbelsverðlaun í tónlist. Ekki fjarri sanni miðað við hvað okkur langar mikið að vinna.
Frakkar líta ekki einu sinni niður á þessa keppni, þeir bara vita hreinlega ekki að hún er til. Fyrir utan þröngan hóp af fólki sem aðhyllist kitch (oft samkynhneigðir karlmenn) og vitanlega alla innflytjendurna frá litlu minnimáttarkenndarlöndunum. Sem Íslendingur hérna hef ég sjaldan mætt skilningi á „áhuga“ mínum, nema hjá hommunum. Öðrum finnst það alltaf jafn ótrúlegt að ég skuli minnast á þetta fyrirbrigði, enginn veit hver keppir fyrir Frakkland, ekki einu sinni ég.
Öll landkynning er góð er það ekki? Silvía náði a.m.k. því sem enginn annar keppandi náði, að fá heila stóra grein um sig í frönsku blaði. Það hlýtur ákveðinn sigur að felast í því.

Annars fór ég í bíó í dag og sá Ísöldin 2. Ferlega ekki nógu skemmtileg, mest gaman að horfa og hlusta á krílin. En á undan myndinni voru náttúrulega 20 mínútna auglýsingar. Þar var m.a. auglýsing frá Írlandi. Um Írland og hvað það er fínt að ferðast þangað. Fyrst eru flottar náttúrumyndir sem hefðu allt eins getað verið frá Íslandi. Auglýsingin endar svo á skoti upp og niður líkama fallegrar konu og einhver orðaleikur um að Írland sé svo fallegt að maður gæti étið það eða eitthvað álíka gáfulegt. Nú langar mig að vita hvort sama auglýsingastofa hafi verið notuð og þegar Ísland var auglýst fullkomið fyrir einnar nætur gaman og annað skemmtilegt.

Ég var ein heima í kvöld eins og flest undanfarin kvöld þar sem maðurinn minn hefur farið og passað stelpurnar fyrir nágrannanna, litli kúturinn sem ég minntist á um daginn er ennþá á spítala og nær ennþá ekki að dæla nógu súrefni út í blóðið svo slæmur er astminn.
Ég hafði val um að horfa á söngvakeppni eða mynd með Catherine Frot og André Dussolier byggðri á sögu eftir eina af goðunum mínum, Agöthu Christie. Ég þurfti ekki að hugsa mig lengi um. En eftir myndina stillti ég yfir á þristinn og sá Carolu hina sænsku druslu syngja lagið sitt. Og ég sé ekki eftir vali mínu. Ferlega skemmtileg mynd og ég varð skíthrædd.

Og nú er ég farin að sofa. En ekki svefni hinna réttlátu. Allt of mikið rok hérna til þess.
Og draugarnir og morðinginn úr myndinni eru enn ljóslifandi í huga mér.
Vakna örugglega á hálftíma fresti í alla nótt.
Dettur samt ekki í hug að horfa á stigagjöfina enda held ég ekki með neinum og veit ekki hvort Ísland fær að gefa stig. Eða jú, Hildigunnur var að hvetja fólk til að veita einhverri minnimáttarkenndarsmáþjóð stig svo við hljótum að vera inni í því. Fær þá Eva María að vera með en ekki Silvía? Æ, ég nenni samt ekki að bíða eftir því, ég er nú ekki alveg svona aðframkomin af söknuði eftir íslenskum hreim.
Reyndar er ég með hugmynd fyrir næsta ár: Láta lagið sem varð að ég held númer tvö núna, fara. Flott söngkona, mjög fallegt lag, vera berfætt og temmilega álfaleg og við hljótum að hlunkast upp úr þessari forkeppni sem við virðumst annars vera dæmd til að vera í það sem eftir er.

Lifið í friði.


Nýlegar athugasemdir

parisardaman um Kveðja
Margrét H um Kveðja
koparskál um Tau frá Tógó
Elín Kjartansdóttir um rafmögnuð kona
juliann um agnetha