skömm

Ég skammast mín fyrir það hvernig komið er fyrir okkur, fyrir þessu þjóðfélagi „siðmenntaðra velferðarríkja“. Ég skammast mín fyrir einstaklingshyggjuna, gróðahyggjuna og frumskógarlögmálið.
Auðvitað er til fólk sem hugsar og sér að það er eitthvað að og að einhverju þarf að breyta. Vandamálið er kannski að það er svo margt sem má betur fara að það er alltaf hægt að nota rökin að eitthvað annað þurfi að laga FYRST þegar reynt er að berjast fyrir einhverju ákveðnu. Þannig geta t.d. iðnvæðingarsinnar Íslands bent á slæmt ástand í heilbrigðismálum og öldrunarmálum og sagt við umhverfisverndarsinna að einhvern veginn verði að búa til peninga og atvinnu og allt þetta sem þessar blessaðar reykspúandi verksmiðjur eiga að framleiða handa okkur.
Ég finn fyrir miklum aulahrolli þegar ég lendi inn á síðum eins og þessari í gær sem er einhvers konar spjallvefur rekinn af símanum þar sem rætt var um mótmæli og mótmælendur á hvílíkum nótum að mér er nærri lagi að segja að við séum komin til baka til miðalda, en það get ég ekki sagt þar sem ég er að berjast í gegnum bók sem biður fólk um að hætta að tala illa um miðaldir. Verð víst að finna eitthvað annað „grýlulegt“ til að nota. Sovét? Já, það gæti virkað. Mætti halda að við værum komin aftur til baka til Sovét. Nei, virkar eiginlega ekki. Eða hvað? En þið skiljið mig, er það ekki?
Ég veit ekki hvernig ég rakst inn á þennan spjallvef, en ég hef aldrei getað lesið neitt af þessum vefjum, umræðan er á plani sem fyllir mig örvæntingu og vantrú á manninum og ég hrökklast alltaf skjálfandi út eftir örfáar mínútur. Ég veit ekki, en í gær fékk ég á tilfinninguna að þessi vefur væri FALSAÐUR, að þetta væri ekki alvöru fólk að skrifa, heldur áróðursmaskínur, fólk á launum við að rugla og þrugla umræður svo þær gætu aldrei leitt til neins. Ha? Paranoja? Ég er nýbúin að lesa Love Star og finnst ég sjá merki um að hún sé að rætast alls staðar. Til dæmis gerðist undarlegur hlutur í Giverny um helgina. Hópurinn var á veitingahúsi og skyndilega byrjar þjónninn að söngla auglýsingu fyrir eitt af 118 númerunum! Hýsill eða hvað? Og það er reyndar löngu búið að upplýsa hér í Frakklandi að unglingar geta fengið fríðindi fyrir að mæla með ákveðnum vörum. Og það er deginum ljósara að fjölmiðlum er ekki hægt að treysta. Fjölmiðlar, fréttamiðlar, gefa okkur þá sýn á þjóðfélagið sem hentar þeim sem eiga þá.
Gott dæmi var sýnt svart á hvítu í „Arrét sur images“ á dögunum: Da Vinci lykillinn frumsýndur í Cannes. Allar stöðvarnar sáu sig tilneyddar til að fjalla um það.
Fyrst var smá upprifjun á því að kirkjan og sérstaklega Opus Dei eru vondu kallarnir og morðingjar í bókinni og nú í myndinni. Svo fer myndavél og veiðir fólk á leiðinni út af myndinni og tekur óundirbúin viðtöl við fólk „af handahófi“. Mjög vísindaleg leið til að taka púlsinn á áhrifunum.
Fréttaskotin á TF1, France 2 og France 3 sýna að öllum finnst þetta léleg mynd, það var hlegið á alvarlegu stöðunum og myndin er bara slöpp og mislukkuð að öllu leyti. Á M6 kveður við annan tón. Það mætti halda að sá fréttamaður hafi ekki verið fyrir utan sömu mynd. Fín mynd, vel heppnuð, spennandi, góður leikur… Þarf ég að taka það fram að M6 framleiðir þessa mynd?
Sökin er ekki eingöngu þeirra, ALLAR stöðvarnar FALSA útkomuna, sleppa þeim sem segja það sem ekki hentar stefnu stöðvarinnar. Þetta er brot, lítið dæmi, sem snertir bara einhverjar milljónir í gróða fyrir einhverja kalla úti í heimi. Kemur okkur varla við. En við skulum samt staldra við og spyrja okkur hvernig hægt er að treysta fólki sem stundar svona vinnubrögð. Þetta eru stöðvarnar sem matreiða fréttir ofan í okkur alla daga. Og látum okkur ekki dreyma um að á Íslandi sé þessu öðruvísi farið. Síður en svo.
Fréttaskortur af mótmælunum á laugardag er greinileg sönnun þess. Við verðum að passa okkur á því að berjast gegn þessu. Það þýðir ekki að yppa öxlum og segja að svona sé þetta bara. Ríkissjónvarpið hlýtur að hafa ákveðnum skyldum að gegna gagnvart ÞEGNUM landsins. A.m.k. eigum við að krefjast þess að svo sé. Ef 3000 manns safnast saman í miðborginni er það stórfrétt. Það hlýtur hreinlega að vera BANNAÐ að þegja slíkt í hel.
Þess vegna þakka ég Guðnýju fyrir að hafa hringt og kvartað yfir fréttaleysinu og bið ykkur öll um að gera slíkt hið sama. Hringið, skrifið tölvupósta, biðjið um fréttir af því sem er að gerast í ALVÖRUNNI, ekki matreiddar fréttir af því sem hentar stjórnvöldum að okkur sé sagt. Annars getum við náttúrulega bara neitað að greiða afnotagjöldin, er það ekki?
Hér í Frakklandi er a.m.k. vel fylgst með ríkisstöðvunum og sterkari krafa gerð á hlutleysi þeirra og umfjöllun um málefni. Auðvitað er margt sem betur má fara, eins og umfjöllunin um bíómyndina sýnir auðveldlega, en það er a.m.k. stöðug og lifandi umræða í gangi um hlutverk ríkissjónvarps og skyldur þess gagnvart þjóðfélaginu.

Ég veit ekki, kannski er ekki hægt að halda uppi vitrænum umræðum um eitt eða neitt. Kannski er það rétt sem ég fékk á tilfinninguna í gær að ef slíkt byrjar að fæðast koma áróðursvélar og kæfa þær í fæðingu. Kannski verð ég bara að sitja hérna og skammast mín fyrir að vera manneskja. En kannski ekki.

Lifið í friði.

0 Responses to “skömm”  1. Færðu inn athugasemd

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: