Sarpur fyrir júní, 2006

ohhh

Ég hlakka svo til að fara í frí. Að fara.
Að vera
farin.
búin að pakka.
búin að raða í bílinn og sjá að allt komist nú fyrir í honum.
búin að öllu eins og fyrirmyndarhúsmóðir á fyrsta sunnudegi aðventunnar.

Farin.
En þangað til verður allt brjálað, það er á tæru.

Lifið í friði.

dilemma

Alltaf sama dilemman þegar börnin sofna seint á daginn. Á maður þá að vekja þau um fjögurleytið? Vitandi að ef ég geri það ekki, sofna þau líka seint í kvöld, finnst mér þó svo yfirmáta freistandi að leyfa þeim að sofa, það er eitthvað svo miklu auðveldara að vera mamma sofandi barna.

Ég var búin að skrifa fullt fullt af bulli en fannst ég svo leiðinleg að ég strokaði það út. Svona er maður nú góðhjartaður á köflum.

Veðrið er í engu samræmi við spána, sól og hiti en ekki rigning og hiti.

Ég er í góðu skapi og er vitanlega langbest í fótbolta, en það var svosem aldrei vafamál.

Lifið í friði.

afskræming

Mér finnst svartklædda konan í kuflinum sínum með slæðuna yfir hárinu og í fallegu skónum sem hún keypti sér í tískubúð, þessi sem heilsar mér alltaf svo glaðlega í almenningsgarðinum, alltaf eitthvað svo hrein og hugguleg og góð við börnin sín eins og við íslensku konurnar erum góðar við börnin okkar, mér finnst þessi kona einhvern veginn svo þúsund sinnum heilbrigðari og lík mér sjálfri, líkleg til að geta orðið vinkona mín, heldur en strekkta konan sem ég sé stundum á gangi hér um hverfið, með strekktar varir en samt bólgnar, strekkt undir augunum og ekkert blik í þeim, lítur aldrei framan í mig hvernig sem ég reyni að glápa á hana og kanna viðbrögðin, engin viðbrögð, bara tóm.
Kannski er ég bara fordómafull og kannski er þessi kona mjög ánægð með árangurinn af aðgerðinni. Kannski er sú svartklædda með slæðuna óhamingjusöm og kúguð og ég neita að horfast í augu við það af því ég er hræsnari. Kannski.

Ég hvet ykkur til að lesa grein kj á Múrnum frá í dag. Er það virkilega orðið svona óhugnalegt þetta litla land mitt í fjarskanum? Á ég að hafa áhyggjur af ykkur? Ég sem fylltist svo mikilli von eftir kynni mín af fólki hér í síðustu viku sem býr í íbúð í blokk með 3 börn og fer í strætó í vinnuna og eyðir frekar smá aur í ferðalög með fjölskylduna. Ég sem hélt að kannski væri Ísland bara besta land í heiminum. En hvað?

Lifið í friði.

Prinsessan þyrst


Prinsessan þyrst
Originally uploaded by parisardaman.

Prins í silkiblússu


Prins í silkiblússu
Originally uploaded by parisardaman.

Spegillinn


Spegillinn
Originally uploaded by parisardaman.

Og hér er svo spegillinn minn fíni. Ég mun fjarlægja alla skítagulbleikhvítu málninguna og svo sé ég til hvort ég mála hann upp á nýtt eða hvað ég geri. En hann er kominn upp á vegg og fer sko ekkert í taugarnar á mér svona eins og hann er svo það verður spennandi fyrir mig að sjá hvenær ég lýk við hann.

Lifið í friði.

Þvottahrúga


Þvottahrúga
Originally uploaded by parisardaman.

Ég lofaði því ekki beint, en hér er mynd af þvottahrúgunni frá því í síðustu viku. Þarna var ég búin að fara með fötin mín inn í skáp, fyrir utan nýja sumarkjólinn sem liggur efst til hægri á myndinni samanbrotinn.
Vert er að láta vita að nú er ekki ein einasta spjör ófrágengin á heimilinu. Lausnin: Hætta að setja í vél!

Lifið í friði.

sumarfrí

Einhvern tímann í vetur ákvað ég, að einræðisherra sið, að fjölskyldan færi saman í frí í byrjun júlí. Það er mín reynsla af túristabransanum að flestir Íslendingar vilja vera heima á Íslandi á þessum tíma, enda nætur bjartar og ágætis von um yl og þurrk.
Það var strax ljóst að við færum í tjaldferð og snemma var lýðræðislega ákveðið að halda suður á bóginn þó að mig, einræðisherrann sjálfan, hafi á tímabili langað að fara til Danmerkur. Það kvaddi æstur múgurinn maðurinn minn niður í hvert skipti sem ég bryddaði upp á þeim möguleika.
Ég fór á dögunum að skoða tjaldstæði í boði hjá bændum, datt ekki í hug að skoða stóru fínu stjörnum prýddu tjaldstæðin sem troðfull eru af lummó liði sem kúl fólk eins og við leggur ekki lag sitt við. Við fundum þrjú sem henta leið okkar mjög vel og erum búin að ganga frá pöntunum.
Fyrsta nóttin verður hjá hollenskri fjölskyldu og fyrir frönskumælandi er alveg þess virði að kíkja á heimasíðuna, mér tókst að skilja hvað þau voru að meina með því að lesa það líka á hollensku, sem hefur nú aldrei verið mín sterkasta hlið. En sumt í frönsku lýsingunni getur bent til þess að þau séu til í kynlífsleiki með gestum.
Svo ökum við áfram í suðurátt og stoppum í þrjá daga hjá bændum sem hafa staðfest við okkur að karlinn fær að horfa á fótboltann ef svo undarlega skyldi fara að Frakkland komist áfram.
Eftir fjórar nætur í tjaldi förum við í heimsókn til vinafólks okkar og verður hjá þeim í þrjár nætur. Þau eiga von á sínu fyrsta barni og tel ég þeim hollt að sjá hvað fjölskyldulífið getur nú verið margslungið og misskemmtilegt á köflum.
Þá verða aftur nokkrar nætur á tjaldstæði nálægt sjó og svo förum við á eyjuna Ré (þar sem flóttamaðurinn Jospin býr eftir afhroðið í síðustu forsetakosningum) og er áætlað að borða sjávarréttabakka og súpa á hvítvíni eða kampavíni með vinafólki sem kemur sumt langt að.
Í gær, kannski á svipuðum tíma og Hengirúm Þórdísar var í loftinu, helltist allt í einu yfir mig að ef við værum á stóru tjaldstæði væru meiri líkur fyrir börnin að hitta önnur börn að leika sér við og kannski væri sundlaug og hvort við værum vond, foreldrarnir, að vilja vera með þau í rólegheitum á lífvænu bóndabýli í návígi við kanínur, endur og geitur. Þetta bráði fljótt af mér eftir fundahöld sem voru á þessa leið:
Einræðisherrann: Æ, erum við kannski vitlaus að fara ekki á stórt tjaldstæði með sundlaug og fullt af börnum fyrir okkar börn að leika við?
Æstur múgurinn: Nei, það eru svo mikil læti á þannig stöðum og ég bara nenni því ekki.
Einræðisherrann: Já, þau eru líka svo dugleg að leika sér saman af því við vorum svo dugleg (mætti líka lesast heimsk) að búa þau til með svona stuttu millibili.
Æstur múgurinn: Einmitt.

Og Þórdís í hengrúmi undir himinbláma eyddi síðasta efafræinu úr huga mér. Af hverju er maður alltaf svona hræddur við að leiðast og að fólki í kringum mann leiðist? Hvernig í ósköpunum getur maður látið sér detta í hug að tveggja og fjögurra ára börnum geti leiðst á sveitabæ með dýrum?

Lifið í friði.

systir

Systir mín er í útvarpinu að tala við Lísu Páls. Hún er stjarna, þó hún sé KRingur í Breiðablik. Þátturinn var á dagskrá á föstudaginn.
Hér rignir eins og hellt sé úr fötu, börnin og kallinn úti, ég í tölvunni og narta í fíkjur og möndlur, barnaafmæli seinna í dag, eins gott að hann hætti að rigna, það er heitt, ég hef brennandi áhuga á einhverju en ekki því sama og systir mín, en það skal nú viðurkennast að þökk sé fótboltanum hef ég nú náð að ræða aðeins við manninn minn, hann hefur annað augað á sjónvarpinu á kvöldin en leyfir mér svo að tala og mala, nú segir systir mín að íþróttaáhugi sé á heimilinu, það er satt að stundum horfði ég á fjölskylduna mína stökkva upp úr sófanum og fagna og spurði mig hvort ég væri ættleidd, úpps nú spurði Lísa um eiginmann systur minnar, hann er ekki til, systir mín hefur aldrei verið við karlmann kennd enda smekkmanneskja þó hún sé KRingur í Breiðablik og vill heldur konur, ég nenni engu, þarf að taka niður fatapoka og athuga hvort ég sé með eitthvað að láta Evu Sól fá af Sólrúnu, hvað er þetta með Sólarnöfnin þessa dagana, var að eignast Sóley frænku, jæja þetta er farið að verða tóm vitleysa, sunnudagur á að vera sólardagur, hvað er þetta, ætlar hann ekki að hætta að rigna?

Mér finnst vert að taka það fram að ég er hætt að segja fólki hér frá þessari hneisu yfir 14.000 krónunum sem þarf að reiða fram til að horfa á HM. Reyndar fann Hnakkus leið til að horfa ókeypis í tölvunni. Það er flott hjá honum. Ég bara næ því ekki að auglýsendur hafi ekki beitt þrýstingi, það hlýtur að koma niður á þeim, færri horfa á keppnina en ella.

Lifið í friði.

slæmt er

að fljóta sofandi að feigðarósi, en verra hlýtur að vera að gera það vakandi.

Lifið í friði.


Nýlegar athugasemdir

parisardaman um Kveðja
Margrét H um Kveðja
koparskál um Tau frá Tógó
Elín Kjartansdóttir um rafmögnuð kona
juliann um agnetha