Sarpur fyrir ágúst, 2006

desperate þið vitið hvað

Ég er alveg dottin í DH. Við erum búin að horfa á níu þætti. Þá höfðum við fengið lánaða á afriti, sem sagt stolið efni. Það er hlutur sem við hjónakornin höfum forðast enda hef ég alltaf sagt að ef ég stel einhvern tímann einhverju, verður það almennilegt og mun ég lifa í vellystingum eftir það ærulaus á einkaeyju með einkaþotu og allt það sem fylgir miklum stolnum auði. Að ræna sjónvarpsefni og kvikmyndum er kannski enginn stórglæpur þegar hugsað er út í allt sem framleiðendur græða en samt… glæpur.
Svo við keyptum seríuna á sértilboði, grænu verði, í Fnac. Og ég er farin að horfa. Og mér er alveg sama þó heimili mitt líti út fyrir að hafa verið tekið upp af risa og hrist rækilega til. Ég get alltaf falið mig á bakvið það að verandi tveggja barna útivinnandi móðir, er ekkert nema eðlilegt að maður eigi við smá time-management vandamál að stríða. Ha! Það er nú alltaf gaman að læra nýja og nothæfa frasa. Hver segir að bandarískt sjónvarpsefni sé rusl?

Lifið í friði.

er ég ég?

Hvert fór þá sólkonungurinn?

Fyrir nokkrum mánuðum síðan hófust miklar framkvæmdir á speglasalnum margfræga í Versölum. Þetta er einn af hápunktum heimsóknar í höllina, slær görðunum vissulega ekki við, en þessi salur er mikil listasmíð og dásamlega fagur í góðu veðri þegar sólin speglast í tjörnunum fyrir framan höllina og geislarnir endurkastast inn um gluggana, í speglana og þaðan í kristalinn og gullið sem nóg er af í þessum ágæta viðhafnarsal.
Viðgerðirnar taka sinn tíma en þau hafa komið vinnupöllum haganlega fyrir bak við þil. Pallarnir ná yfir hálfan salinn og á endana hafa verið settir speglar, hvað annað, þannig að þegar þú horfir inn salinn, virðist hann jafnlangur og vanalega, þú nærð svona að mestu leyti áhrifunum sem Loðvík 14. og arkitektinn hans ætluðu sér með hönnuninni.
En auðvitað er þetta samt ekki eins flott og gaman og þegar allt er opið og ekki má gleyma því að fyrir utan eru líka vinnupallar sem hylja helming fallegu 17. aldar framhliðarinnar út í garðana. Það er því alls ekki það sama að horfa upp til hallarinnar, sú sýn er mikið skemmd.
Þegar ég byrjaði að fara með fólk í heimsóknir til Versala fyrir nokkrum árum síðan ákvað ég strax að leggja meiri áherslu á garðana en höllina. Reka fólkið hratt og örugglega í gegnum aðalíbúðir konungs og drottningar, kíkja við hjá Napóleon og í stríðssigragalleríið þegar það var opið, en eyða svo góðum tíma í garðinum, borða nesti og skoða litlu hallirnar og enska garðinn hennar Marie-Antoinette og sveitaþorpið hennar þar. Lesa blóm og tré þegar einhver í hópnum getur það, ekki er ég mikil þekkingarkona jurtaríkisins, því er nú ver og miður, og bara njóta þessarar paradísar sem konungarnir bjuggu til meðan þeir tróðu á lýðnum, skattpíndu hann og leyfðu honum að deyja í hópum úr alls konar pestum og óþverra.
Ég hef alltaf litið svo á að ég hafi haft einhvers konar „pacte“, samning, við sólkonunginn Loðvík 14. því það var alveg sama í hvaða suddaveðri höllin var skoðuð, það brást ekki að þegar gengið var út í garðinn, braust sólin fram og yfirleitt endaði göngutúrinn í því að hörðustu íslensku sóldýrkendurnir voru farnir að flýja hana og gengu heldur í skugga linditrjánna.
En síðan viðgerðir hófust á speglasalnum hefur þetta ekki gengið eftir. Skemmst er að minnast komu söngmannanna af Kjalarnesi, hvílík rigning buldi á okkur að við urðum að gerast hústökufólk og borða og syngja undir súlnagöngum Grand Trianon hallarinnar, afdreps sólkonungsins þegar hann varð þreyttur á því að vera fígúra í stóru höllinni og þó við næðum að borða vel og halda skemmtilega tónleika sem kættu bæði japanska túrista og kolsvartar krákur, endaði veislan á því að vörðurinn kom og sagði okkur að allt sem við hefðum verið að gera væri bannað. Þegar ég sagði honum að ég vissi það spurði hann mig hvaðan við værum eiginlega, svona stórskrýtið fólk að voga sér að gera svona og varð svo allur upptendraður yfir því að fá loksins að hitta fólk frá trúaðasta landi heimsins þar sem ekki þarf að læsa húsum eða bílum, svo lág er glæpatíðnin. Ég brosti mínu blíðasta og staðfesti þetta allt saman, við tókum saman föggur okkar og héldum syngjandi og rennblaut í rútuna.
Þetta var fyrsti hópur ársins 2006 og ég er næstum viss um að síðan hef ég næstum alltaf verið með fólk í frekar slæmu veðri fyrir utan þegar við frænkurnar fórum þangað í sól og blíðu í byrjun júní, en það er líklega því að þakka að móðir mín ferðast alltaf í góðu veðri.
Í gær gekk ég um garðana með konur góðar og ég get svarið að það stytti aldrei upp allan daginn. Við fórum að ræða þetta og ég kvartaði yfir fjarveru sólkonungsins og komumst við að þeirri niðurstöðu að hann hefði flúið vegna viðgerðanna á speglasalnum. Þá er spurningin bara sú sem ég bar upp í titli þessa pistils sem átti að vera þrjár línur og er að gera það að verkum að ég er að verða of sein í göngutúr í dag. Hvert fór hann?

Lifið í friði.

keðja

Þessi færsla kemur frá Heiðu (sjá tengil í listanum) sem fékk hana frá Elvari.

Keðjufærsla

Ef þú lest þessa færslu og rekur bloggsíðu skaltu koppí/peista hana þangað. Annars gerist eitthvað ömurlegt:
Siggi var starfsmaður í kýsilvinnslunni við Mývatn. Hann sá þessa færslu en fygldi ekki fyrirmælum og nú hefur vinnslunni verið lokað og nú er hann atvinnulaus fáviti.
Katrín er einstæð móðir frá Hveragerði. Hún rak jólaþorpið-hveragerði við mikinn hagnað. Hún sá þessa færslu og rétt eins og Siggi þá fygldi hún ekki fyrirmælum. Nú er ekkert jólaþorp í hveragerði. Hún fékk vinnu í tývolíinu til skamms tíma en nú hefur því verið lokað. Sigga er núna aumingi.
Hannes starfaði sem prentsmiður hjá Prenntsmiðju suðurlands. Hannes fylgdi fyrirmælum, en ekki allveg. Hann leiðrétti stafsetningarvillur áður en hann ýtti á „publish“ takkann. Vikublaðið Selfossfréttir er nú algerlega unnið á stafrænan hátt. Hannes kann ekkert á tölvur og eyddi sínum lífdögum þaðan af sem fáráðlingur. Þegar hann dó fór hann til helvítis.

Kárahnjúkavirkjun og trú

Ég er hætt að geta hugsað um þetta virkjunarmál allt saman. Hætt að botna almennilega í þessu. Ég er hrikalega illa að mér í öllu sem viðkemur að sjá og skilja HAG þjóðarinnar, þjóðarbúsins, heimsins, með orðið HAG í peningalegu tilliti.
Þannig finnst mér það hljóti að vera hagur heimsins (og þá um leið Íslands) að vernda náttúruna. En kannski ekki peningalegur hagur. Peningalegur hagur hlýtur að vera að framleiða, framleiða og framleiða og hvetja neytendur með öllum tilteknum ráðum til að neyta, njóta, þurfa, neyta meira, vilja stærra, meira, betra.
En náttúran er orðin verðmæti sem auðvelt er að selja, það sé ég mjög vel hér í Frakklandi sem er ofurbyggt og ofurræktað land, troðfullt af fólki sem leitar stöðugt að möguleikum til að komast í ósnerta náttúru.
Frakkar sem koma upp á hálendi Íslands eiga ekki orð. Þau trúa því ekki að til sé allt þetta flæmi án nokkurra hótela, veitingahúsa, búða og annars sem tilheyrir menningunni og daglegu lífi. Og að ekki sé búið að finna eitthvað notagildi, ræktun eða iðnað til að nýta svæðið til peningagróða. Ég veit um tvö dæmi þar sem Frakki fékk skelfingarkast, froðufelldi og öskraði og æpti og þurfti í öðru tilfellinu að fá þyrlu með lækni til að sprauta konu niður sem varð svo yfirkomin af tilfinningum í öllu þessu tómi að henni fannst lífnauðsynlegt að komast í hraðbanka NÚNA.
Þegar ekið er um hið fagra og gróna Suður-Frakkland er maður sjaldan meira en tíu mínútur milli þorpa og öruggt er að öll leiðin liggur gegnum ræktaða akra sem tilheyra einhverjum og eru hluti af lífsafkomu þeirra hinna sömu. Þessir akrar eru því augnayndi en harðbannað er að fara og leggjast í þá.
HAGkerfi peninganna fer illilega í taugarnar á mér og berst ég með öllum tiltækum ráðum gegn því að verða auglýsingagerviþarfagrýlunni að bráð. Það er alls ekki alltaf auðvelt, ég er líklega alveg ágætis neytandi og neyti ýmis konar óþarfa munaðarvöru án þess að blikna.
En ég er líka einhvers konar rómantíker, blómabarn, aflóga kommi eða hvað annað sem ég hef séð notað um „fólk eins og mig“ í blöðum og á bloggum undanfarið. Ég trúi því að virkjunarframkvæmdir til stóriðju séu tímaskekkja og hægt sé að finna aðrar lausnir til að tryggja fólki örugga lífsafkomu. Ég trúi því að hægt sé að selja náttúruna þó það fari í taugarnar á mér að nota það orðalag. Ég get samt alls ekki reiknað út fyrir hvað mikið við getum selt hana, hvort meiri gróði sé af því en af virkjun og stóriðju. Ég get ekki borið fyrir mig nein almennileg rök, og alls ekki betri en þau sem t.d. Andri Snær Magnason setur fram í bókinni um Draumalandið. Í raun er þetta bara trú, eitthvað í litla vöðvanum þarna í vinstra brjósti og ekkert meira en það. Eitthvað sem mér bara FINNST.
Ég skil alveg fólkið sem talar með þessu, skil að þeim finnist við hin ekki skilja neitt. En mér virðist öll umræða komin í einhvers konar hnút og nú sé bara málið að vera í öðru hvoru trúfélaganna. MEÐ eða Á MÓTI virkjun og stóriðju. Stóriðjutrú eða náttúrutrú. Báðir hóparnir nota hræðsluáróður til að fá fylgismenn. Virkjunin brestur, fólkið flýr. Mér leiðist svona tal. Virkjunin brestur-umræðan er næstum nóg til að ég skrái mig úr trúfélaginu. En hvert á ég að leita? Því þó ég sé blómabarn er ég samt allt of meðvituð til að vera utan trúfélaga og án skoðana.

Lifið í friði.

Spænskt þema

Í gær var spænskt þema. Fór í Bercy Village sem er eiginlega eins og útlönd í París, a.m.k. eins og maður sé kominn út í sveit á einhvern sumardvalastað. Veðrið var í besta lagi, óforvarendis varð frekar hlýtt og hægt að sitja úti. Fengum okkur gazpacho og salat og hrátt kjöt, ég skinku, vinkona mín naut. Drukkum spænskt vín með. Svo fórum við að sjá Volver eftir góðvin minn Pedro Almodovar.
Penelope er ekki af þessum heimi, hún er svo falleg. Við vinkonurnar vorum í vímu eftir myndina og töluðum varla um annað en fegurð hennar og fullkomleika. Hvað í fjandanum voru konur eins og hún og Nicole að gera með Tom Cruise?

Í dag er grátt, rigning og sól til skiptis, frekar svalt og ég er í vondu skapi. Ein með börnin í allan dag og það er bara hreinlega leiðinlegt þegar veðrið er svona og allir fúlir.
En vonandi lagast það í kvöld. Ég ætla að prófa að horfa á DH með kallinum mínum. Við erum spennt að vita hvort við fílum þetta illa eins og SIC eða vel eins og F.

Lifið í friði.

hvad er det for noget?

Það er brjálað partý í húsinu. Sem er bara fínt nema að ég er andvaka og heyri því lætin. Myndi væntanlega geta sofið þau af mér, hefði ég sofnað þegar ég ætlaði. En núna fara þessi læti í liðinu í taugarnar á mér. Ég vildi að William Shatner og Nick Cave væru hérna hjá mér og gætu sungið mig í svefninn. Góðir gaurar með þægilegar raddir.
En það er ekki á allt kosið í lífinu. Ég er alla vega ekki að óttast loftárásir eða annan viðbjóð.

Hef það því væntanlega bara gott.

Bara. Þreytt.

Lifið í friði.

karma fokkið mikla

Ég er að heyra Karma Cameleon í 100. skipti núna. Þetta eyðileggur gersamlega fyrir mér fatakaupakaflann, hann verður ekki kláraður í dag. Best að drulla sér út að ná í gleraugun.
Ég er búin að komast að þeirri niðurstöðu að þetta er gamla góða útgáfan, mér fannst hún bara eitthvað undarleg. En hvað er eiginlega að hjá þessu fólki sem endurspilar sama lagið aftur og aftur? Ókei, þetta er frábært lag en fyrr má nú aldeilis fyrrvera.

Lifið í friði.

venjulegt fólk

Í gær heyrði ég í útvarpinu í bílnum alveg ferlega góða útgáfu af Common People með Pulp og einhverjum karli sem mér heyrðist geta verið Hr. Cash og í lokin kom þarna heill barnakór við sögu. Ég fékk gæsahúð og allt við hlustunina, fannst ég bara þeytast yfir á unglingsárin á ný.
Svo heyri ég núna, úr íbúðinni við hliðina, hið bráðfína lag Karma Cameleon í einhverri nýrri útgáfu, flatri og ljótri nema veggirnir séu að breyta sándinu eitthvað, veit ekki alveg. Ég þeytist aftur yfir á unglingsárin í smá stund en það er bara ekki nærri því eins gott og í gær. Fékk meira svona óþægindaminningar um ömurlega aðstöðu í Seljaskóla og ömurlegt lið sem ég er svo fegin að þurfa ekki að hitta lengur.

Það er greinilega betra að finnast maður vera unglingur með nýlegu efni unglingsins í dag en gömlu endurteknu efni unglingsins í skóginum.

Lifið í friði.

rifnaði úr monti

Rétt í þessu rifnaði ég úr monti. Vonandi næ ég að sauma mig saman aftur, ef ekki mun ég sækja um að fá að leika í næstu mynd herra Cronenberg.

Montið er yfir því að ég lagaði Haloscan alveg alveg sjálf. Ég fór inn í haloscan og í staðinn fyrir að velja sjálfvirku uppsetninguna fór ég í handvirku uppsetninguna og afritaði og límdi allar html-skipanirnar sjálf inn í módelið mitt (ég er alls ekki með íslenskan orðaforða yfir þetta sem ég var að gera, fyrirgefið mér ef þetta er illskiljanlegt, ég er að reyna, módel er slangur úr frönsku sem mér finnst betra en templeit sem er slangur úr ensku og þýðir nákvæmlega ekki neitt á íslensku).

Nú er ég að reyna að setja inn nýja mynd af mér, en það gengur ekki enn. Já, ég á að vera að vinna í innkaupaleiðbeiningunum en bara datt óvart í þetta í staðinn og það kemur engum nema sjálfri mér við, enda á ég mig sjálf.

Lifið í friði.


Nýlegar athugasemdir

parisardaman um Kveðja
Margrét H um Kveðja
koparskál um Tau frá Tógó
Elín Kjartansdóttir um rafmögnuð kona
juliann um agnetha