Hvert fór þá sólkonungurinn?

Fyrir nokkrum mánuðum síðan hófust miklar framkvæmdir á speglasalnum margfræga í Versölum. Þetta er einn af hápunktum heimsóknar í höllina, slær görðunum vissulega ekki við, en þessi salur er mikil listasmíð og dásamlega fagur í góðu veðri þegar sólin speglast í tjörnunum fyrir framan höllina og geislarnir endurkastast inn um gluggana, í speglana og þaðan í kristalinn og gullið sem nóg er af í þessum ágæta viðhafnarsal.
Viðgerðirnar taka sinn tíma en þau hafa komið vinnupöllum haganlega fyrir bak við þil. Pallarnir ná yfir hálfan salinn og á endana hafa verið settir speglar, hvað annað, þannig að þegar þú horfir inn salinn, virðist hann jafnlangur og vanalega, þú nærð svona að mestu leyti áhrifunum sem Loðvík 14. og arkitektinn hans ætluðu sér með hönnuninni.
En auðvitað er þetta samt ekki eins flott og gaman og þegar allt er opið og ekki má gleyma því að fyrir utan eru líka vinnupallar sem hylja helming fallegu 17. aldar framhliðarinnar út í garðana. Það er því alls ekki það sama að horfa upp til hallarinnar, sú sýn er mikið skemmd.
Þegar ég byrjaði að fara með fólk í heimsóknir til Versala fyrir nokkrum árum síðan ákvað ég strax að leggja meiri áherslu á garðana en höllina. Reka fólkið hratt og örugglega í gegnum aðalíbúðir konungs og drottningar, kíkja við hjá Napóleon og í stríðssigragalleríið þegar það var opið, en eyða svo góðum tíma í garðinum, borða nesti og skoða litlu hallirnar og enska garðinn hennar Marie-Antoinette og sveitaþorpið hennar þar. Lesa blóm og tré þegar einhver í hópnum getur það, ekki er ég mikil þekkingarkona jurtaríkisins, því er nú ver og miður, og bara njóta þessarar paradísar sem konungarnir bjuggu til meðan þeir tróðu á lýðnum, skattpíndu hann og leyfðu honum að deyja í hópum úr alls konar pestum og óþverra.
Ég hef alltaf litið svo á að ég hafi haft einhvers konar „pacte“, samning, við sólkonunginn Loðvík 14. því það var alveg sama í hvaða suddaveðri höllin var skoðuð, það brást ekki að þegar gengið var út í garðinn, braust sólin fram og yfirleitt endaði göngutúrinn í því að hörðustu íslensku sóldýrkendurnir voru farnir að flýja hana og gengu heldur í skugga linditrjánna.
En síðan viðgerðir hófust á speglasalnum hefur þetta ekki gengið eftir. Skemmst er að minnast komu söngmannanna af Kjalarnesi, hvílík rigning buldi á okkur að við urðum að gerast hústökufólk og borða og syngja undir súlnagöngum Grand Trianon hallarinnar, afdreps sólkonungsins þegar hann varð þreyttur á því að vera fígúra í stóru höllinni og þó við næðum að borða vel og halda skemmtilega tónleika sem kættu bæði japanska túrista og kolsvartar krákur, endaði veislan á því að vörðurinn kom og sagði okkur að allt sem við hefðum verið að gera væri bannað. Þegar ég sagði honum að ég vissi það spurði hann mig hvaðan við værum eiginlega, svona stórskrýtið fólk að voga sér að gera svona og varð svo allur upptendraður yfir því að fá loksins að hitta fólk frá trúaðasta landi heimsins þar sem ekki þarf að læsa húsum eða bílum, svo lág er glæpatíðnin. Ég brosti mínu blíðasta og staðfesti þetta allt saman, við tókum saman föggur okkar og héldum syngjandi og rennblaut í rútuna.
Þetta var fyrsti hópur ársins 2006 og ég er næstum viss um að síðan hef ég næstum alltaf verið með fólk í frekar slæmu veðri fyrir utan þegar við frænkurnar fórum þangað í sól og blíðu í byrjun júní, en það er líklega því að þakka að móðir mín ferðast alltaf í góðu veðri.
Í gær gekk ég um garðana með konur góðar og ég get svarið að það stytti aldrei upp allan daginn. Við fórum að ræða þetta og ég kvartaði yfir fjarveru sólkonungsins og komumst við að þeirri niðurstöðu að hann hefði flúið vegna viðgerðanna á speglasalnum. Þá er spurningin bara sú sem ég bar upp í titli þessa pistils sem átti að vera þrjár línur og er að gera það að verkum að ég er að verða of sein í göngutúr í dag. Hvert fór hann?

Lifið í friði.

0 Responses to “Hvert fór þá sólkonungurinn?”  1. Færðu inn athugasemd

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: