Sarpur fyrir ágúst, 2006ókeypis í París og frelsun undan áruánauð

Á síðunni minni um París eru komnir tveir nýjir kaflar. Annar fjallar um ókeypis staði í París sem vert er að heimsækja og hinn segir frá Giverny, hvar hægt er að skoða hús og garð impressjónistans Claude Monet.
Að auki er ég að smíða betri kafla um fatakaup í París, með „eitthvað fyrir alla“ að leiðarljósi, þar verður kafli um notuð föt, annar um nýja hönnuði og dýru þekktu merkin fá sinn stað.
Kaflinn um börnin er einnig í smíðum en gengur ekkert sérlega vel, hann er enn svo til eingöngu til sem krot á notuðum umslögum.
Ég virðist samt vera að losna undan oki örþreytunnar sem hefur hrjáð mig undanfarna mánuði. Ég hef alveg ráðið við lífið, ráðið við að gefa börnunum að borða og aðstoða fólk á leið til Parísar og bara held ég hafi alltaf staðið undir daglegum kröfum umhverfisins. En ég átti ekki snefil af orku í að gera neitt annað en þetta nauðsynlega og oft þegar ég hafði eftirmiðdaga hér ein heima, lagðist ég bara niður í sófa með bók í staðinn fyrir að taka til eða setjast við tölvuna og skrifa allt þetta sem brýst um í mínum fagra kolli.
Þegar ég var síðast á Íslandi, um jólin, hitti ég tvær vinkonur sem höfðu einhvern veginn gerbreyst síðan síðast. Báðar grennst og voru bara miklu kátari og kröftuglegri að sjá. Einhver nýr, skemmtilegur og þægilegur þokki sem þær báru með sér. Við ræddum þetta og þær voru sammála um að þegar yngstu börnin verða þriggja ára breytist margt. Það er víst sagt í fræðunum sem svo margir hata, svona árufræðum eða slíku, að ára barnsins sé samtvinnuð áru móðurinnar fyrstu þrjú árin. Ég ætla ekki að tjá mig um mína skoðun á árutilvist þar sem ég á svo marga vini í hvorum hóp, þeim sem hata svona fyrirbrigði og þeim sem lifa samkvæmt þessum fræðum að ég hef fyrir löngu lært að vera bara sveigjanleg og ber jafnmikla virðingu fyrir öllum vinum mínum hvort sem þeir hafa árur eða hata árur.
Hins vegar held ég að margt geti verið til í þessu þriggja ára tímabili sem barnið hangir meira utan í móðurinni og held m.a.s. að þar sé bæði móðirin með ákveðnar áhyggjur og verndunarþörf gagnvart barninu og svo barnið með meiri þörf fyrir vernd og umhyggju áður en það tekur sig til og ákveður að breytast úr barni (bébé) í krakka (enfant).
Þessi stökkbreyting tekur vitanlega ákveðinn tíma og stundum er barnið með sömu flækjur og unglingurinn, veit ekki hvort það á að vera barn eða krakki við ákveðnar aðstæður og bregst við með hysteríukasti eða fýlu. Kári er á þessu tímabili núna. Hann hefur sem sagt lært að pissa og kúka í klósett og við það breytist ýmislegt og hann finnur það alveg. Hann getur verið óþolandi, grenjaði og vældi stöðugt í klukkutíma í gær og talaði eingöngu barnamál, gagagagúgú. Ég var að verða alveg ga ga og um leið og maðurinn minn kom heim lokaði ég mig inni í herbergi með bók. Tíu mínútur dugðu mér til að ná úr mér pirringnum en það er alveg með ólíkindum hvað börn geta tekið á taugar manns. Ég veit ekki hvað hefði gerst ef maðurinn minn hefði ekki komið heim þarna, líklega hefði ég nú haldið í mér og ekki framið ódæðisverk en ég lofa ykkur því að þarna fannst mér mjög erfitt að halda aftur af mér.
En hluti af þessari breytingu sem ég finn á sjálfri mér (vonandi er þetta ekki bara þriggja daga maníukast sem bráir síðan af mér og aftur verð ég dauðyfli) kemur fram í því að í gær fórum við í Villette-garðinn og þar léku börnin sér út um allan barnagarðinn án þess að ég væri alltaf með augun á þeim. Ég gat setið og gónað út í loftið og gleymdi mér stundum alveg. Þetta er í fyrsta sinn, held ég örugglega, sem ég geri þetta í almenningsgarði. Yfirleitt vil ég alltaf vita nákvæmlega hvar þau eru stödd og bæði sjá þau og heyra. Þarna vaknaði ég upp af dagdraumum við það að þau voru komin í önnur tæki og öllu erfiðari til klifurs og ég stóð ekki einu sinni upp til að hjálpa þeim, ákvað bara að sitja kyrr og bíða og sjá hvort Kári gæti þetta ekki bara alveg. Sem hann og reyndist geta.
Næst vaknaði ég upp af dagdraumum við að pabbi fór að banna barni sínu að afklæða sig og sá þá að Kári var kominn úr buxunum sínum og hljóp alsæll um á nærbrók og bol. Lítill kútur vildi gera slíkt hið sama en pabbinn vildi það ekki. Ég fór og náði í buxur Kára sem hann hafði raðað snyrtilega í skemmtilega hrúgu á miðjum leikvellinum og leyfði honum að skottast á naríunum, enda eru þessar buxur ómögulegar og flækjast fyrir honum.
Það verður spennandi að sjá hvort nú fari ég aftur að hekla, skrifa meira, út að hjóla og taki kannski til í fleiri skápum. Hvort áran mín ef hún er þarna sé loksins laus úr viðjum áru Kára míns ef hann er með slíkt.
Mér líður a.m.k. vel í dag. Hress og kát. Kát og glöð.

Lifið í friði.

blendnar tilfinningar gleraugnagláms

Það vekur hjá manni blendnar tilfinningar að lesa um sjálfboðaliða í tíu vikna tjaldbúðum á Íslandi við að laga ýmislegt í umhverfinu, t.d. göngustíginn upp á Esjuna.
Annars vegar skömmustutilfinning. Erum við ekki nógu rík til að greiða fólki laun sem vinnur í okkar þágu? Þurfum við virkilega á ölmusu góðhjartaðra útlendinga að halda?
Hins vegar gleðitilfinning. Mikið er til gott fólk í heiminum sem gerir góða hluti fyrir ekki neitt. Vonandi geta einhverjir lært af þeim að það er líka hægt að lifa án þess að hugsa í sífellu um peninga og gróða, að suma hluti er bara hreinlega ekki hægt að verðleggja, svo mikils virði eru þeir.

Annars eru helstar fréttirnar af mér að ég fór í gær og valdi mér gleraugu. Ég hef ekki hætt að dáðst að sjálfri mér síðan. Í fyrsta lagi að hafa drifið mig út í gleraugnabúðina með uppáskriftina frá í janúar síðastliðnum og í öðru lagi að ég valdi gleraugun alveg sjálf, án þess að henda mér nokkru sinni í gólfið grenjandi. Bara stóð föstum fótum og mátaði og mátaði og mátaði aftur og valdi svo eitt par sem ég held að hljóti bara að verða fínt á mér. Sjáið þið mig í anda með Chanel gleraugu? Nei, ekki ég heldur en ef þið hefðuð komið með mér í gær hefðuð þið getað séð slíka dýrð á nefi mínu. Það þyrfti nú samt að borga mér stóran aur fyrir að ganga með c-in tvö, steinum skreytt, á gjörðinni. Ég er allt of snobbuð fyrir svona fansí merkingar. Mátaði meira að segja Gucci sem fóru mér vel en þar er merkið líka allt of áberandi svo þau voru útilokuð. Hins vegar eru þau sem urðu fyrir valinu líka voða fínt og þekkt merki en það sést hvergi utanfrá sem mér finnst mun smartara og meira klassí.
Það var 50 prósent afsláttur í búðinni og sú staðreynd hjálpaði vissulega til þess að þrekvirkið var unnið. Þegar tryggingarnar hafa greitt sinn hluta standa eftir 34 evrur sem ég greiði sjálf. Vel sloppið? Ég greiði 100 evrur á mánuði í blessaðar tryggingarnar svo þetta er sossum ekki neitt þannig lagað séð ókeypis.

Lifið í friði.

svona er þetta undarlegt

Á föstudaginn kvaldist ég allan daginn yfir því að vera versta mamma í heimi. Kári pissaði fjórum sinnum niður, m.a. í sófann og var þetta mjög niðurlægjandi fyrir hann allt saman.
Á laugardeginum pissaði hann allan daginn í klósett og kúkaði í koppinn. Hann hrópar og klappar fyrir sjálfum sér og virðist hækka um nokkra sentímetra, svo rogginn er hann. Mikil seremónía er orðin úr því að sturta niður og þvo sér um hendurnar og er harðbannað að hjálpa honum nokkurn skapaðan hlut með þetta.
Eitt slys varð í gær, en ég get að vissu leyti sjálfri mér um kennt, hann var of spenntur í leik til að vilja viðurkenna að hann þyrfti að fara á klósettið og ég hefði átt að gabba hann til þess. En öll hin skiptin pissaði hann í klósettið og kúkaði svo í koppinn. Pissaði m.a.s. einu sinni úti í garði og var það lítið mál.
Það rifjaðist upp fyrir mér að portúgölsk kona sagði mér að þar í landi hættu börn yfirleitt um 1 og hálfs árs á bleiju. Hún væri einfaldlega tekin af þeim og yfirleitt tæki þetta stuttan tíma og þessar portúgölsku hlæja að vandræðaganginum í frönskum mömmum sem fara eftir einhverjum sjónvarpssálfræðingum sem græða múltípening á að skrifa bækur og eru jafnvel styrktir af bleijusölum, hvað veit maður, sem náttúrulega myndu tapa stórfé ef öll börn hættu 18 mánaða á bleiju.
Mér fannst hún ægilegt hörkutól og er yfirleitt nokkuð sátt við að láta barnið ráða ferðinni með það hvað það er tilbúið að gera.
En alla helgina er ég mikið búin að hugsa um þetta með að sinn er siður í landi hverju, að það sem einum þykir sjálfsagt þykir öðrum fjarstæða og hvernig getur maður opnað huga sinn algerlega og reynt að skilja hina?
Þess vegna var gaman að lenda á greininni hennar Eyju um gagnkvæman skilning og tillitsemi og fleira. Hún er á Múrnum, nýleg, stutt og laggóð.
Maður verður að plögga hana fyrst hún gerir það ekki sjálf!

Lifið í friði.

ég elska þig

Á gönguferð minni um Montmartre fjallið er komið við undir vegg þar sem „ég elska þig“ stendur á ýmsum tungumálum, kannski öllum eða kannski er ekkert til sem heitir öll tungumál?
Ég man að þegar ég var einhvern tímann fengin til að fara með íslenskuna fyrir einhvern CD-Rom sem átti að innihalda öll heimsins mál neyddist ég til að hryggja þau með því að á listann vantaði færeyskuna. Þau reyndu að þræta fyrir það að til væri tungumálið færeyska og ekki nennti ég að gera nokkuð í því að sanna mitt mál en ráðlagði þeim að hafa samband við danska sendiráðið.

Ef einhver getur skrifað fyrir mig „ég elska þig“ á færeysku get ég athugað hvort hún fékk að vera með á þessum vegg.

Fyrir ofan ástarjátningarnar hefur annar götulistamaður límt upp fagra konu í eggjandi stellingu og leggur henni eftirfarandi setnignu í munn: Verum raunsæ, krefjumst hins ómögulega.
Þetta er, ég held ég fari ekki með fleipur, slagorð sem vinnuhópur sem barðist gegn fátækt, heimilisleysi og hungurdauða fyrir nokkrum árum í Frakklandi, notaði.
Þetta á sérlega vel við í dag þegar verið er að reyna að koma fleiri heimilislausum inn á hótel þar sem tjöldin sem þau fengu úthlutað í vetur þykja allt of áberandi í skúmaskotum borgarinnar og fleiri og fleiri gera því athugasemdir við þennan óvelkomna hóp. Borgaryfirvöld eru því á fullu núna að reyna að sigra hið ómögulega, að koma öllum í skjól. Næsta verkefni verður þá væntanlega: matur fyrir alla.

Slagorðið er alla vega mjög gott:
Verum raunsæ, krefjumst hins ómögulega.

Lifið í friði.

fínn afli

í HogM. Haldiði ekki bara að daufa skapilla konan hafi ekki fundið sér haustjakka? Ég ætti náttúrulega alls ekki að gefa upp þá örmu staðreynd að hann var í BB deildinni og ætla ekki að gefa þeim sem ekki vita hvað BB stendur fyrir, útskýringu á því.
En rauður er hann, jamm og já.
Og svo þarf ég náttúrulega að bretta upp á ermarnar af því það eigum við Barbie vaxtarlega sameiginlegt að við erum báðar afar armstuttar, en svo vel vill til að fóðrið er skrautlegt sem náttúrulega kætti mig mikið og sætti mig við uppábrotið um leið.

Við þetta komst ég í svona kaupvímu og keypti 6 nærbuxur á vesalings Kára til að pissa í, 2 köngulóarmannsboli því þó köngulóarmannslínan fáist eingöngu í drengjadeildinni langar dóttur mína líka í svoleiðis bol, 2 köngulóarmannsregnhlífar því þó Kári hafi aldrei lagst í götuna og sagt mér snöktandi að hann hafi aldrei átt regnhlíf (eins og Sólrún gerði í hitabylgjunni í júlí) þá veit ég að ekki þýðir að gefa öðru en ekki hinu þegar um dót er að ræða og ekki reyna að koma með þá lausn að hann hefði getað fengið bolinn og hún regnhlífina, ó nei, virkar ekki þannig, trefil og húfu á Sólrúnu og vettlinga handa mér (í barnadeildinni líka, stuttir handleggir, stuttir fingur). Ætlaði að kaupa trefil og húfu á Kára, en viti menn, bara til Köngulóarmannshúfur og treflar og einhvern veginn var ég komin með upp í kok af þeim gaur þegar þarna var komið sögu og reyndar komin með nett upp í kok af búðinni og grenjandi krökkum líka svo ég lét þetta duga en þykir þetta góður afli.

Byrjuð að kaupa haustvörur, manni finnst það frekar ógeðfellt en eins og ég sagði ykkur í fyrra er sko eins gott að vera snemma í því ef maður vill ná í þetta ódýra og góða hjá vinum okkar Svíunum í HogM. Jamm og jæja. Og læt ég nú þetta raus mitt duga og bið ykkur að…

… lifa í friði.

helv…

bannað að blóta

ég er asni

svo sem ekkert nýtt

Best að fara út, kannski ég skreppi í HogM í hughreystingarinnkaup? Sem gætu náttúrulega endað í gvuðogégerlíkasvofeit niðurlægingartilfinningaklemmu. Mig langar svo í kjól. Hippaþægileganmjúkanhversdagskjól.

Ég færi út í garð að róla ef ég væri einmitt ekki með of feitan rass í þessar helv… frönsku rólur. Og út að hjóla ef það væri ekki helv… íslenskur hryssingur hérna núna.

Kannski ég fari bara og drekki mér í hylnum. Eða fái mér í glas. Eða sæki Sólrúnu og við förum og kaupum regnhlíf með köngulóarmanninum handa henni. Í HogM. Strunsa bara gegnum fullorðinsdeildina og máta ekki neitt og beint í barnadeildina í köngulóarmannsrekkann. Þá er það ákveðið.

Lifið í friði.

gleymdi nöfnu minni

Gleymdi að þakka nöfnu minni Ómarsdóttur fyrir titilinn á síðustu færslu. Titill á skáldsögu eftir hana sem ég hef ekki lesið en alltaf langað til þess út af titlinum.
Á gúgglinu komst ég að því núna áðan að bókin er til á frönsku, T’es pas la seule à être morte! Útgefandi Idées reçues og fæst bókin í öllum betri bókabúðum, m.a. Fnac en líka hinum fjölmörgu litlu búðum út um alla borg. Og fáist hún ekki er auðvelt að láta panta hana.
Ég veit þá a.m.k. núna hvað ég ætla að gefa tengdamömmu í jólagjöf. Hún á eitthvað erfitt með La cloche d’Islande, kannski er Kristín auðmeltari. Tengdamamma er reyndar orðin mikill aðdáandi glæpasagnahöfundarins okkar sem er akkúrat núna stolið úr mér hvað heitir. Ha, nú er ég komin með sniðuga keðju. Byrja næstu færslu á nafni hans og tala svo um eitthvað… nei, þarna kom það: Arnaldur Indriða heitir hann eins og þið vissuð líklega öll langt á undan mér en samt ekki þar sem ég er ekki enn búin að publisha færslunni svo þið hafið ekki enn lesið hana en samt núna. Hm. Nú fæ ég höfuðverk.

Lifið í friði.

elskan mín, ég dey

úr hlátri þegar ég les upphaf greinar Björns Björnssonar sem fer yfir starfslýsingu Guðna Elíssonar í einni af Lesbókargreinunum um kalt stríð og umræðuhefð. Hann talar um að Guðni kenni um hrollvekjuhefð og fleira og maður hreinlega finnur hrollinn á baki Björns við lesturinn, háðið yfir þessu brölti Guðna í draslheimi bókmenntanna á að láta lesandann skilja að svona mönnum sé hreinlega ekki mark takandi á.
Kemur upp um helvítis gamla kallinn í sér hann Bjössi.

Viðbót:
Þökk sé Hönnu litlu, bý ég nú yfir slóð að senda ykkur á. Þar er grein og umfjöllunin um Guðna er í 2. kafla, eftir feita millifyrirsögn.

Lifið í friði.

þung

Þung í höfðinu, þung í maganum og þung á vigtinni.
Lofa mér líkamsræktarátaki en ekki alveg strax. Verð að fara að hætta reykfikti en ekki alveg strax.
Verð að fara að setjast niður og vinna skipulegar og það strax.

Fyrsti dagurinn í langan tíma að mér virðist sem ég er ein með börnin og það er mikið fjör hjá okkur. Kári sefur næstum aldrei þegar ég er ein með þau, þrjóskast algerlega við, svo gaman að vera með mömmu og svo er hann ómögulegur um kvöldið en sofnar þá yfirleitt snemma sem er kostur. Hvað er ég að röfla hérna? Ferlega hlýtur lesendum að leiðast svona sjálfhverft bull.

Annars vantar mig ráð til að fá hann til að hætta með bleiju eða bleiu eða hvernig sem þið viljið skrifa þetta, það er frjálst. Ég tek hana oft af honum og set hann í nærbuxur og hann pissar í kopp einu sinni en pissar svo niður í næsta skipti. Þetta hefur gerst mörgum sinnum og það finnst mér svo leiðinlegt að ég freistast alltaf til að setja aftur á hann bleijuna. Mér leiðast pissublaut föt og pissupollar á gólfum.
Þetta verður að gerast. Ég get ekki beðið mikið lengur, skólinn byrjar 4. september og ekki verður tekið við honum ef hann er ekki þurr og bleijulaus.
Þannig er það.

Djöfull er ég þung. Þung og þung og þung. Best að drífa liðið í einhver föt og fara út áður en mitt fagra höfuð springur endanlega.

Ef einhver getur hjálpað mér að koma haloscan í lag aftur er það líka vel þegið. Mér skilst að fólk sé jafnvel hætt að sjá nokkuð þarna fyrir neðan, eins og ég hafi tekið kommentakerfið út, en það var ekki ætlun mín.

Mikið vona ég að vopnahlé haldist í Líban(on). Mér finnst Líban fallegra en Líbanon. Af hverju er þetta on í ensku og á íslensku?
Samt er sagt líbanskur, er það ekki?

Lifið í friði.

þétting byggðar

Ef ég skil grein Landsvirkjunarmannsins um Kárahnjúkavirkjun er fyrirtækið hans nú að vinna gott starf í þéttingu byggðar… hjá heiðargæsum.
Er kannski málið að mynda eitt stykki góða almennilega stóra tjörn í Reykjavík, sökkva húsum í Kvosinni og sjá hvort fólkið tekur sér ekki bara bólfestu aðeins þéttar umhverfis nýja stærri og betri tjörn?

Það sem ég skil alls ekki í greininni er hvort Dettifoss er í minnstu hættu eða hvort það er bara helber lygi og alls ekki á dagskrá að hann hverfi.

Og varðandi næstsíðasta pistil: Ég man ekki hvort ég sá Wag the Dog. Bara get ekki munað það. Sem hlýtur að þýða að ég sá hana ekki. Man samt vel eftir plakatinu og er vön að bera mig eftir myndum með De Niro. Þess vegna er ég á báðum áttum.

Lifið í friði.