Sarpur fyrir september, 2006

frasarnir loksins á íslensku!

Er þessi fyrirsögn ekki alveg í anda Séð og heyrt?

Hvernig líst ykkur á þetta:

Sé óvinur þér ofviða í lið með honum gakk.

Á þverhausa bítur uggurinn einn.

Lifið í friði.

rétt að geta margs

Mér finnst rétt að geta þess að frasanum enska úr síðustu færslu skaut upp í huga mér þar sem ég lá í baði og var að hugsa um allt þetta mál með mótmælin síðbúnu á Íslandi og hvort við myndum læra einhverja lexíu af þessu eða yppa bara öxlum.
Leiddist hugurinn þá m.a. að atriðinu sem ég var búin að pirra mig á hér áður, að náttúruverndarsinnarnir skyldu nota hræðsluáróðursaðferðina à la valdhafar um allan heim sem með aðstoð fjölmiðla stunda slíkan áróður á öllum vígstöðvum til að geta kúgað okkur aðeins betur.
Datt mér þá í hug frasinn „If you can’t beat them, join them“ sem er einmitt það sem andstæðingar stíflunnar gerðu þarna. Og af honum leiddist frasinn „If you can’t convince them, scare them“. Mér þótti hann góður og hugsaði með mér að hann hlyti að vera til nú þegar en ég finn hann ekki á gúgglinu sem sannfærir mig þó ekki um að ég hafi verið fyrst en kitlar samt hégómagirnd mína. Ég reyndi að setja frasann yfir á íslensku en það gekk ekki, ekki frekar enn hinn fyrri frasi um að sigra eða ganga í lið með óvininum.
Ef einhver kemur með góða íslenska þýðingu á þessum tveimur ágætu klisjufrösum fær sú hin sama verðlaun. Hver þau eru veit nú enginn, vandi er um slíkt að spá.

Annars er líka rétt að geta þess að í gær hitti ég bloggara á flugvellinum ásamt fríðu föruneyti og mun ég hitta þau betur á morgun. Og ég fékk fríðan hóp kvenna, fór með þær niður að Eiffel-turni þar sem við settumst í grasið með samlokur og rósavín og nutum sólarinnar. Hitinn fór upp í 24° í gær. Sumarið sem týndist í ágúst er alveg áreiðanlega komið til baka.

Að síðustu finnst mér líka hárrétt að geta þess að ég ætla að taka saman pistil um allt sem er jólalegt í París fyrir þá sem gæti langað til að koma hingað á aðventunni sem byrjar snemma í nóvember ef ég man rétt. Ekki verður hægt að treysta á gönguferðir með mér í nóvember þar sem ég verð í Jólasveinalandi þann mánuðinn, en í desember verð ég mætt, hress að vanda.
París er góð á öllum árstíðum, það er engin spurning.

Lifið í friði.

if you can’t convince them

Hvar ég lá í baði í gær, rétt áður en ég þurfti að sækja skrýmslin í skólann eftir langan dag við tölvuna, datt mér þessi frasi í hug:

If you can’t convince them, scare them.

Lifið í friði.

myndir

Ég þoli ekki kommentakerfin þar sem myndin af manni birtist. Ég setti mynd af mér á bloggið strax vegna þess að ég vissi ekki að það var ókúl. Svo hefur myndin orðið til þess að gömul vinkona, þýsk, fann mig aftur eftir margra ára viðskilnað svo ég ákvað að hafa hana áfram í von um að t.d. nokkrar danskar, amerískar og írskar vinkonur detti hingað inn einn góðan veðurdag. En mér finnst alltaf óþægilegt að sjá myndina af mér birtast þarna hjá hinum, eitthvað sem fer í mig við það.

Ég var að breyta prófílnum mínum og setti netfangið þar inn. Bæði vegna þess að ég er búin að átta mig á því fyrir löngu að fólk hefur ekki rænu á að kíkja á parisardaman.com í leit að því og vegna þess að rétt í þessu sendi ég póst á eina bloggvinkonu sem ég ætla hvílíkt að misnota ef það er hægt.

Annars er ég bara allt allt allt of bissí til að vera að þvaðra hér um allt og ekkert. Farin að vinna.

Gaman að lífinu. Gaman gaman. Samt er bakið á mér í hakki eftir setu í tvo daga við tölvuna. Sé fram á þriðja daginn heilan og engin miskunn (hjá Guðmundi).

Lifið í friði.

skordýr

Á dögunum útrýmdi ég ættbálki silfurskotta sem hafðist við á baðherberginu. Ég var í marga mánuði að spekúlera hvort ég ætti að vera að þessu, var búin að lesa um skaðleysi vesalings silfurskottanna sem eru þar að auki með elstu verum jarðarinnar svo mér fannst næstum eins og þetta væru fallegar eðlur og bara lét þær ekki trufla mig mikið. En svo fór að þær voru orðnar aðeins of margar fyrir minn smekk og einhvern daginn þegar börnin fóru snemma út og áttu ekki að koma heim fyrr en seint og um síðir tók ég upp Baygon-bombu ógurlega og sprautaði í öll horn og skúmaskot á baðherbergi og klósetti (sem er ekki eitt og sama herbergið í Frakklandi, hér þykir ósmekklegt að þvo sér í sama herbergi og maður kúkar í).
Aðkoman eftir nokkurra klukkutíma virkni var ekkert sérlega skemmtileg og tók mig smá hugrekki að sópa upp líkunum. En ég hef ekki séð tangur eða tetur af þessum dýrum síðan.
Mér fannst ég ekkert sérstaklega undarleg að vera með ákveðna væmni gagnvart þessum dýrum, þekki konu sem náði aftur í könguló sem hún hafði hent út þegar hún fann hvað það var skítkalt úti og veit að stór hluti mannkyns er miklir dýravinir.
Hins vegar finnst mér nágrannakona frænku mannsins míns ekki alveg vera með fulla fimm: Henni finnst ekkert tiltökumál að öll fjölskyldan er með lús. Þetta eru nú bara lítil sæt skordýr sem gera svo sem ekkert mein! Frænkan og hennar fjölskylda fengu þarafleiðandi aftur og aftur lús, sem og væntanlega restin af skólabörnum hverfisins og þar með líklega hverfið allt.
Mig klæjar við tilhugsunina um að þurfa að hringja í frænkuna í kvöld og öll plön um að hitta þau bráðum voru lögð niður um óákveðinn tíma.

Lifið í friði.

p.s. skilaboð til Hildigunnar sem ég get ekki lengur kommentað hjá: Ég kem sko á tónleika í nóvember. Ekki spurning. Strax farin að hlakka til.

gangið ykkur upp að hnjám

með Ómari á morgun.
Það myndi ég gera stolt.
Munið að Frakkar létu afturkalla lög sem búið var að troða í gegnum þingið í neyðarflýtiafgreiðslu með því að mótmæla. Og látið ykkur ekki dreyma um að það hafi verið vegna þess að einhverjum bílum var snúið á haus eða kveikt í einhverjum ruslatunnum. Það var vegna þess að fullt af „venjulegu“ fólki kom og sagði nei takk. NEI TAKK.

Lifið í friði.

skammartilfinningin

Ég skammast mín svo mikið að ég veit ekki hvernig ég á að snúa mér út úr þeirri argans vitleysu sem ég gerði.
Ég ákvað strax að sleppa afmælisdögum vina og fjölskyldu á þessari síðu, svona fyrir utan okkur fjögur kannski.
En þar sem systir mín átti afmæli á föstudaginn og fékk hvorki póstkort, símtal, tölvupóst, skeyti, sms né kveðju í gegnum einhvern annan á afmælisdaginn né hefur hún fengið nokkuð frá mér enn þá ætla ég að brjóta hefðina og segi:

Elsku Guðlaug mín, eftir allt það sem við höfum gengið í gegnum, bit, klór, öskur og grát, faðmlög, kossa, ástúð, stolt og væntumþykju langar mig að segja þér enn og aftur að mér þykir ógnarlega vænt um þig, ég er montin af þér og er handviss um að þó ég ætti tíu systur værir þú alltaf sú besta.
Til hamingju með afmælið og ég hlakka til að hitta þig eftir mánuð.

Lifið í friði.

ofsalega

Ofsalega væri ég til í að vera á leið til Andalúsíu með Nönnu og Dominique. Mér finnst sérrí ákaflega góður drykkur en drekk hann ekki mikið því hann er líklega mun meira fitandi en t.d. kampavín og rauðvín. Held ég.
En mér líður alltaf eins og fínni frú þegar ég fæ gott sérrí í fallegu glasi. Finnst ég næstum verða jafn fín alvöru frú og amma mín heitin nafna mín sem spilaði bridds með öðrum dömum í Norðurmýrinni og þær dreyptu á sérrí með.

Brottför í sérríferð er á laugardaginn, allt um þetta á síðu vínskólans hér til hliðar.

Maðurinn sem Fersen, sænski ljútenantinn sem svaf hjá mörgum aðalskonum á 18. öld og var m.a.s. bendlaður við drottningu Frakklands, Marie Antoinette, lýsti svo skemmtilega (sjá pistil aðeins neðar) var enginn annar en Comte d’Artois, bróðir Loðvíks XVI sem varð síðar Karl X konungur Frakka eftir fall Napóleons og andlát Loðvíks XVIII (hinn bróðir XVI).
Þess má að gamni geta að eftirlifandi dóttir Marie Antoinette og Loðvíks XVI, sú eina úr fjölskyldunni sem lifði byltinguna af, giftist síðar elsta syni þessa d’Artois og varð í smá tíma krónprinsessa Frakklands.
Svona getur lífið verið skrýtið, sérstaklega lífið í gamla daga.

Lifið í friði skrýtin jafnt sem óskrýtin.

p.s. fékk allt í einu efasemdir varðandi stafsetningu skrýtið, fannst allt í einu það vera skrítið. Google gefur 273000 flettingar með skrítið en 172000 með skrýtið. Jón Hilmar Jónsson býður ekki upp á skrítið svo ég læt þetta standa skrýtið. Skrýtið samt. Ég nota oft þessa leið að gúggla orðum sem ég er í vafa með og þarna sannast (líklega) að það er ekki örugg leið að rétta svarinu.

dagatal

Það eiga allir að kaupa dagatal af Landvernd. Ég er búin að panta tvö.

Ef Eimskip les enn bloggið mitt og ákveður að senda mér aftur dagatal (2006 dagatalið vekur alltaf jafnmikla gleði í mínu hjarta. Myndirnar hver annarri fallegri og ég tek glöð við 2007) þá bara gef ég bæði hin.

En hér er slóðin:

Dagatöl Landverndar

Lifið í friði og sátt við náttúruna og ykkur sjálf.

þegar stórt er spurt

verður fátt um svör

Enginn svaraði spekúlasjónum mínum um skoðanaleysi og fáfræði.

Baun svaraði Bush en það var rangt þó það væri svo rétt.

Sólin er úti, ég er inni.

Lifið í friði.


Nýlegar athugasemdir

parisardaman um Kveðja
Margrét H um Kveðja
koparskál um Tau frá Tógó
Elín Kjartansdóttir um rafmögnuð kona
juliann um agnetha