Sarpur fyrir september, 2006mannlýsing

„always talking, never listening, sure of everything, speaking only of force, not of negotiations“.

Hverjum var svona lýst?

Lifið í friði.

lestir og bátar, hugsjónir og hnöttur blár

Lestir eru fullkominn ferðamáti, a.m.k. stundum. Í gær missti ég af lest. Ekki svona metafórískri lest heldur alvöru lest sem rann af stað út af brautarpallinum og skildi mig eftir í lestinni við hliðina, ásamt tveimur öðrum konum. Okkur leið örlítið eins og fávitum.
Um kvöldið var ég búin að panta fyrir 14 manns í bátsferð með dinner á Signu en það hefur líklega orðið „bilun vegna véla“ eins og einu sinni var sagt og engin kom rútan og enginn fékkst leigubíllinn og ekkert varð af bátsferð. Þar sem þetta var jákvæðasti hópur sem ég held ég hafi nokkurn tímann kynnst, hlógu þau bara að þessu og borðuðu annars staðar.

Ég legg til að þið lítið í moggann og ef það stendur í stjörnuspá vogarinnar í gær að hún eigi að liggja undir sæng, dagurinn sé einfaldlega ekki þess virði, er eitthvað að marka stjörnuspá. Líklegra er að þar standi eitthvað um að vogin þurfi að huga að sambandi sínu við samstarfsfélaga því júpíter í húsi þýði sterk vinatengsl sem einmitt er svo mikilvægt að eiga með samstarfsfélögum. Verst að ég á eiginlega enga samstarfsfélaga. Nema kannski blessuð Emilie hjá rútufyrirtækinu sem hefur enn ekki sent mér útskýringu á klúðri þeirra í gær og er því ekki að treysta vinaböndin einmitt núna.

Á dögunum las ég stutta skáldsögu eftir Patrick Besson sem er hálfur Rússi og hálfur Króati en samt franskur rithöfundur og blaðamaður ef maður á að trúa wikipedia sem ég geri alveg í þessu tilfelli. Besson þessum sinnaðist við kollega sinn, rithöfundinn Didier Daeninckx, upp kom ósætti í pólitískri grúppu sem leiddi af sér einhvers konar bilun í kolli Didier sem fór að „afhjúpa“ fyrrverandi vini sína rithöfunda í grúppunni, m.a. Patrick Besson sem hann ásakar um að vera afneitunarsinni (ég held að þetta hljóti að vera íslenska orðið yfir negasjónisma).
Skáldsagan sem ég las heitir Didier dénonce eða Didier afhjúpar og fjallar um tólf ára strák sem fær tölvu og byrjar að safna upplýsingum um skólafélaga, kennara og alla sem hann umgengst, upplýsingum á borð við að afinn var í öfgahægriflokki o.fl.
Allar samræður í bókinni eru milli persóna sem eru mjög skoðanaríkar og hafa sett sig í ákveðinn flokk og þarna er sem sagt kommúnistinn, hægrisinninn, fasistinn o.s.frv. Bókin er á léttum nótum en samt frekar óhugnaleg á köflum, bæði vegna morðsins á litlu arabastelpunni og vegna þess hvað það er óþægilegt að horfa upp á svona fullkomnar staðalmyndir af hugsjónafólki sem í kjaftæði sinnar hugmyndafræði verður stundum svo fáránlegt. Dæmi eftir minni, ekki sem sagt orðrétt þýðing úr bókinni,né listræn á nokkurn hátt: „Ég er á móti hatri á heimskingjum. Heimskingjar fæðast bara svona og geta ekkert að því gert að vera heimskir, þess vegna er ekki hægt að vera á móti þeim.“
Gvuð hvað mér líður stundum eins og það að hafa skoðanir á málunum sé að vera heimskur og fáránlegur. Stundum. Ekki alltaf. Er skoðanleysi endilega merki um fáfræði? Þarf að melta þetta.

Annars er að kólna. Ennþá fallegt veður en mun svalara í dag en aðra daga. Mér er kalt á puttunum hér við tölvuna. Það á nú samt að hlýna aftur en spáin fyrir Drôme, en þar verð ég um helgina í tjaldi, er alls ekki nógu góð fyrir minn prinsessusmekk.

Ég keypti barnabókina eftir Andra Snæ á frönsku á Íslandssýningunni í Caen í gær.

Lifið í friði.

margt í gangi

Það er svo mikið að gera hjá mér að mér líður stanslaust eins og ég sé að gleyma einhverju. Bólur springa út á höku minni, hver annarri stærri og fegurri. Maginn er í hálfgerðum hnút.
Panta rútur, panta veitingastaði, ákveða matseðla og dagskrá fyrir ókunnuga.
Þvo þvotta, ganga frá þvotti.
Hringja í rafvirkja (hvar í fjandanum finnur maður góðan slíkan hér í borg ljósanna?)
Fundur í ráðhúsinu á miðvikudag því ég er orðin harðákveðin í að gera allt sem ég get til að eignast svalir eða garð, segi ykkur betur frá því seinna).
Skrifa grein.
Skipuleggja helgina, boðið í fertugsafmæli í S-Frakklandi, börnin fara til ömmu og við verðum með tjald og maður veit ekki hvernig veðrið verður og hvað þarf að hafa með sér og og og…
Kannski maður bara fari yfir um og láti leggja sig inn?

Annars var ekkert smá gaman í göngutúr með þjóðdönsurum í morgun.

Og bara alltaf gaman að vera til, næstum því, stundum bara smá læti.
Ég sofnaði í metró á leiðinni heim.
Ég borðaði fallafel í Rue des Rosiers í hádeginu mmmmm… ennþá svo gott bragð upp í mér að ég tími ekki að fá mér neitt þó ég sé orðin hálfsvöng og það sé kominn drekkutími.
Ég hef klukkustund þar til ég þarf að sækja börnin: sofa meira, skrifa smá, lesa áfram skáldsöguna, lesa áfram Marie Antoinette, baka vínartertu, skrifa nokkra meila, ha, sagði ég sólarhring? Nei, klukkustund. Best að leggja sig.

Lifið í friði.

þið munuð öll

þið munuð öll
þið munuð öll – deyja.
Gamað að rónum sem lýsa öllu fólkinu sem gengur hjá. Geta stundum hitt naglann svo skemmtilega á höfuðið með lýsingum á fólki. Ekki það að mér finnist það á nokkurn hátt eðlilegt að þetta fólk sé ekki lokað á þartilgerðum stofnunum (lesist með bogguhreim og takist ekki alvarlega, rónar eru óaðskiljanlegur hluti Parísar og varla hægt að ímynda sér borgina án þeirra).

Er að lesa afskaplega áhugaverða bók sprottna af afskaplega áhugaverðu tilefni. Læt ykkur vita meira þegar rennur af mér… víman yfir því hvað hún er áhugaverð…

Lifið í friði.

Kennarar óskast

Kennarar óskast í Íslenska skólann í París. Annar er með 3-6 ára börn, hinn með 6 ára og upp úr.
Kennt á laugardögum (ca 9 laugardagar yfir veturinn) frá 10.30-12.30.
Mjög skemmtileg félagsheimilisleg stemning, mömmurnar (og stundum einhverjir pabbar) spjalla frammi yfir kaffi og meððí og gefa vitanlega kennurunum góðgæti í kaffipásunni. Tilvalið aukadjobb fyrir námsmenn.

Hafið samband við Unni í sendiráðinu, unnur[at]mfa.is
Munið einnig síðu sendiráðsins sem er í tenglasafni mínu á http://www.parisardaman.com

niðurskurður

Nú skal vera skorið við nögl á þessari síðu.

Lifið í friði.

nútíminn

Ég galopnaði alla glugga og ætlaði að fá nútímann hingað inn en ekkert gerðist.

Lifið í friði.

montin

Ég er mjög montin með mig núna. Björn Friðgeir benti mér fyrir þó nokkru síðan á Bloglines. Ég innritaði mig en gerði svo ekkert meira þar sem ég skildi hvorki upp né niður í þessu.
Nú er svo komið að allt of stór hópur á listanum mínum er utan Mikka vefs og mín svo þreytt á þessu að í gær fór ég inn á Bloglines og bara af minni alkunnu snilld sem felst aðallega í heimskulegu áræði en svoleiðis virkar einmitt svo fínt í tölvuheiminum, tókst mér að „rassa“ flesta nýliðana.
Ég er líklega gersamlega ófær um að lýsa því hvað ég gerði, en ég gerði það samt. Mæli með þessu.

Í dag ætla ég að vera ýkt dugleg að skrifa og þegar ég er búin að vera ýkt dugleg ætla ég í metró niður í bæ að skoða veitingahús utan frá og sækja um eitt lítið hlutastarf. Þó ég skuldi ekki milljónir í afborganir eins og sumir frílansarar nenni ég ekki að upplifa aftur of magra mánuði í vetur. Hins vegar veit ég ekki hvort gáfulegt sé sækja um vinnu núna þar sem ég er á leiðinni til Íslands í mánuð fljótlega. Well. Sakar ekki að prófa.

Munið að inni í okkur öllum er feit og glöð kona með blóm í hárinu. Þetta á líka við um ykkur, strákar.

Lifið í friði.

sumt fólk

Ég gæti kvalið ykkur með nákvæmlegri frásögn af ferð minni með bílinn í skoðun, 9 mánuðum of seint. Og að ég mun þurfa að reiða fram 700 evrur í viðgerðir, reyndar eru bara 400 evrur til að ná skoðun, hitt bara svona stöff sem hefur lengi þurft að gera og þar sem ég missi alltaf alla skynjun og rökvísi þegar talað er um péninga ákvað ég að láta bara gera þetta allt. Jánkaði öllu og sagðist m.a.s. vilja aðeins það besta fyrir bílinn minn þegar hann fór að spá í olíurnar! Hvaðan í fjandanum kom það eiginlega?
Ég hlýt að vera hinn fullkomni kúnni í huga bílaviðgerðarmanna um heim allan, það ætti að gefa út dagatal fljótlega með myndum af mér bláeygðri, ógreiddri í skítugum buxum og útslitinni treyju kinkandi kolli stanlaust í stað íturvaxinna fáklæddra meyja, ég er viss um að ég örva þá meira en einhverjar bimbógellur sem eiga ekki einu sinni bíl heldur aka um á kostnað klámframleiðenda með einkabílstjóra á allt of fínum bílum til að þurfa á bílaverkstæði. EN ég ætla ekki að blogga um þetta heldur hvað það er gaman að ganga heim frá bílaverkstæðinu, bíllaus þar til á morgun (sem þýðir áreiðanlega fram yfir helgi).
Á leiðinni sá ég nokkrar götur sem ég hef aldrei tekið eftir þegar ég þýt um hverfið á mengunarspúandi bíldruslunni. Litlar og vel faldar götur með stórum einbýlishúsum og görðum. Eitt húsið var með þetta líka flotta hlið með prjónandi hestum á stöplum til hliðanna. Minnti bara á hégómann og mikilmennskubrjálæði konunganna á 17. öld. Ég var frekar svekkt að hafa tekið myndavélina úr töskunni í morgun.
Á ljósum við stóru gatnamótin sat akfeit kona í eldgömlum Renault (eða einhverjum gömlum, skítugum og skrámuðum bíl sem gæti allt eins verið Citroën eða Jagúar, hvað veit ég?). Hún var í hvítum blúndukjól með stórt hvítt blóm í dökku hárinu. Máluð í skærum litum, varir, kinnar og augnalok. Í afturgluggann (hvað kallar maður þetta spjald sem hylur skottið í fimm dyra bílum?) var hún búin að klippa út skrautlegan plastdúk og leggja yfir þetta spjald/gluggakistuna og á því var plastpottur með fallegum plastblómum, litlir bangsar og styttur og fleira dúllerí. Einnig héngu bangsar víðsvegar um bílinn og efast ég um að útsýni hennar til allra átta hafi verið óskert. En þetta kom mér í hið fínasta skap og fékk mig til að hætta að hugsa um það hvernig í ósköpunum ég eigi að leysa bílinn út á morgun eftir helgina.
Sumt fólk bara hreinlega kann að lifa lífinu meðan aðrir búa til púl og leiðindi úr minnstu smámunum. Hvor týpan ert þú?

Lifið í friði.

hafragrautur

Í hvert skipti sem ég fæ mér hafragraut spyr ég sjálfa mig hvers vegna ég geri það ekki á hverjum degi. Málið er að ég er léleg morgunmatmanneskja og á það til að þamba bara kolsvart kaffi fram eftir morgni og setja ekkert ofan í magann fyrr en ég er orðin viðþolslaus af hungri í hádeginu. Ég er ekki stolt af þessu, þetta er bara staðreynd.
Stundum set ég ávexti í hafragrautinn, elda hann með banana eða epli, rúsínum eða döðlubitum. Stundum langar mig bara í hann alveg eintóman eins og Lauga gamla bar hann fram á Útnyrðingsstöðum. Hún var nú reyndar oft með slátur með en það er ekki til hér og kannski er það vel. Amma Helga bar hann fram með rjómanum sem hún fleytti af mjólkurbrúsanum í Kjósinni.

Ekki nóg með að grauturinn sjálfur er ljúfmeti og fer vel í maga minn heldur fyllir hann mig af minningum um horfnar miklar konur sem settu mark sitt á æsku mína og unglingsár.

Verð að gera þetta að reglu. Börnin vilja orðið ekkert annað. Pabbinn býður þeim kornfleks en þau taka grautinn fram yfir það.

Lifið í friði.

p.s. ég ætlaði að skrifa eitthvað allt annað en grauturinn fór líklega með blóðinu beint upp í heila.