Sarpur fyrir október, 2006

Hnakkus verður barinn

Ég var að rekast á þennan pistil eftir einn af mínum fyrrverandi eftirlætis bloggurum:
Hnakkus í París

Reyndar, eins og ég segi í kommenti hjá honum, fær hann eiginlega fyrirgefningu vegna myndarinnar sem er milljón.

Til að svara umræðu á villigötum um staðsetningu Picasso-safnsins, þá er það í einu af mínum eftirlætishverfum, Mýrinni sem Hnakkus hefði getað skoðað út og inn með mér undir léttum fróðleik. Ég biðst afsökunar á málvillunni efst á þessari síðu sem ég er að tengja ykkur á, þetta verður lagað ásamt ýmsu öðru núna í nóvember.

Ég er algerlega sammála Hnakkusi um Louvre safnið og reyndar öll frönsku þjóðarsöfnin. Það er dónaskapur að selja inn en veita litlar sem engar upplýsingar á ensku. Persónulega finnst mér ömurlega leiðinlegt að ganga um safn með heyrnatól og missi alltaf af því sem vélræn röddin reynir að segja mér. Eina stóra safnið í París sem er með allar skýringar á ensku er Herminjasafnið.

Ég er líka sammála því að París er dýr.

Fólk hér er ekkert geðveikara en annars staðar en ég er ekkert móðguð yfir því, bara sármóðguð og virkilega leið yfir almennum óánægjutóni Hnakkusar og að París skuli lenda fyrir neðan London í svona vinsældarkeppni er náttúrulega óþolandi. París er miklu betri. Madrid hins vegar er líklega best þeirra þriggja, við sættum okkur alla vega við að lenda fyrir neðan þá fallegu, skemmtilegu og ódýru borg.

Lifið í friði.

þetta er svo satt

fyrirsögnin er tengill í pistil sem ég ætlaði að nefna líka um daginn þegar ég benti á áhugaverða hluti. Áttaði mig líka á því að ég talaði um Rafauga, en kannski vita ekki allir að hann heitir Hreinn og hjartahlýr í tenglalistanum mínum. Það tengdu reyndar svo margir á þessa grein hans um péninga að líklega hafa flestir lesið.
Hvernig gekk teikniborð Framtíðarlandsins um helgina? Þarf að kíkja á það. Vandamálið er að maður er alltaf dóni að hanga í tölvunni þegar það eru gestir á heimilinu. Þess vegna vanræki ég ykkur en get huggað ykkur með því að ég sakna ykkar ógurlega.
Þessi pistill er númer 701.

Lifið í friði.

Ó

Var það ekki sjónvarpsþáttur?

Lifið í friði.

Á

Á maður (kona) að pæla í því sem er ekki pælandi í. Ekki vildi meistarinn meina það.

Lifið í friði.

sól og sumar aftur

Daginn sem litla systir kom með litlu frænku mína, dóttur sína, í heimsókn, fór hitinn upp í 20 stig. Nú skín sólin og því verður áreiðanlega lítið messað yfir ykkur aðdáendum mínum næstu daga. Hver veit hversu dugleg ég verð eftir að til Íslands verður komið, í lok næstu viku? Ekki veit ég það. Alltaf nóg að gera þar.
Næst á dagskrá: Fara með börnin í sirkúsinn. Ekki hægt að leyfa þeim bara að klappa blessuðum skepnunum, þau verða víst líka að fá sýninguna sjálfa þó persónulega finnist mér verðið níðingsskapur. En það er líklega þetta fróma sparnaðarnáttúra mín sem kemur upp í mér þegar ég þarf að spandera peningum í eitthvað sem ég sjálf er kannski ekkert sérlega spennt fyrir. Ekki það að mér finnist ekki gaman í sirkús, bara of stutt síðan síðast og ég vil heldur fullorðinssirkús. Þið spyrjið ykkur kannski hvað það gæti verið, það er ekki neitt dónaldegt, ekki akróbatar hangandi á hreðjum sínum eða neitt slíkt, bara svona raffíneraðra, nútímalegra, meiri „hönnun“ og „konsept“ og svona fínerí.
En ég er að rugla enda er ég ölvuð af gleði yfir endurkomu sumarsins.
Farin út.
Eigið ykkar erfiðu getraunir og aðrar raunir sjálf.
En umfram allt:
Lifið í friði.

tenglalaus texti en fullur af ábendingum

Ég var að reyna að lesa frétt um að fyrirtæki er að biðja um endurreikning á gróðanum sem fékkst við samráð olíufyrirtækjanna. Ég gafst upp. Ég skil ekki svona hluti, skil ekki orðin sem eru notuð, skil ekki upphæðir sem skipta þúsundum milljóna (eru það þá milljarðar?). Ég vorkenni köllum og kellingum sem eiga svona fyrirtæki og þurfa að vera á fundum með lögfræðingum, hagfræðingum og framámönnum alla daga. En hugga mig við að þau vorkenna mér kannski líka svo allir eru jafnir. Kommúnískt.

Um daginn var mér ekið niður í bæ á ægifínni rennireið sem ber þriggja stafa nafn og er af þýsku bergi (stáli?) brotin. Hvar við vorum í kyrrstöðu á ljósum sá ég strák og stelpu, pönkara, með rakað hár eða upp í loft, í hermannagrænum bolum, slitnum gallabuxum og hermannaklossum, sitjandi á útflöttum pappakössum undir vegg stórmarkaðar með hund hjá sér. Líklega var dolla fyrir smápeninga fyrir framan þau, en ég sá það ekki, ljósið frá hannaðri lýsingu verslunarinnar náði ekki að lýsa nema þau sjálf. Þau voru í djúpum samræðum og greinilega mjög skemmtilegum. Töluðu bæði með miklu handapati og tóku stundum bakföll af hlátri. Engar áhyggjur, engin örvænting, ekkert stress. Ég er ekki að segja að mér hafi dottið í hug að hoppa út úr bílnum, setjast hjá þeim, stinga sikkerisnælu í gegnum eyrnasnepilinn og vera bara með þeim upp frá því. Hætta að hugsa um börnin mín, kallinn minn, túristana, foreldrana, vinina, allt þetta lið sem treystir á mann og treystir því að maður hegði sér vel, að maður hegði sér í samræmi við reglurnar sem þau sjálf leggja svo mikið upp úr að fara eftir. Ég er ekki að segja það að ég geti svo auðveldlega losað mig úr mínum þægilega og mátulega smáborgarahætti. Né að ég vilji það endilega. En ég get alveg sagt þér það að í örskotsstund fylltist ég nostalgískri afbrýðisemi og langaði til að vera með þeim, kannski bara þetta eina kvöld. Djamma með þeim, hlæja og láta eins og allt hitt skipti engu máli.

Ég hef undanfarið flakkað um lendur alnetsins og lesið margt skemmtilegt. Meðal annars þetta:
Grein eftir Rafaugað Ingólf á Múrnum um einmitt þessa peningafirringu og samkeppnisþörf mannskeppnunnar.

Grein eftir Eyju um launamisjafnrétti.

Frábær gagnrýni Internetmömmunnar rooosalega spes Unnar á Kistunni á einhverri sjálfshjálparbók eftir eða um hann Greg, Hann er ekki nógu skotinn í þér minnir mig að bókin kallist. Mæli með lestri gagnrýninnar og svo umræðunni á Barnalandi sem þið komist á í gegnum síðuna hennar (sjá tengil í listanum, Internetmamman).

Og tengla á Eyju og Rafauga greinarnar finnið þið líka á þeirra síðum frá tenglinum í listanum mínum. Sorrí, er á gamla bláa Grána og get ekki föndrað tengil í texta.

Klukkan er farin að ganga fimm. Kominn tími til að vekja börnin af værum blundi og gera eitthvað smáborgaralegt með þeim, förum örugglega að skoða kameldýrin, flóðhestinn, póníana, svarta svínið og öll hin dýrin sem hafa komið sér upp sirkustjaldi í almenningsgarðinum okkar. Við erum búin að skoða þau næstum daglega en hvorki þau né ég fá nóg af því. Ótrúlega skemmtilegt. Dýr eru skemmtileg. Sundurskorinn hvalurinn sem við Íslendingar sendum heimsbyggðinni á dögunum var líka flottur. Eða hvað?

Lifið í friði.

léttir

Ég var eiginlega farin að kvíða heimkomu. Langar að sjá Mýrina en fer í taugarnar á mér miðaverðið. Langar að sjá Börn en missi líklega af þeim. Langar að gera svo margt og hitta svo marga og veit að ég fer aftur frústreruð út og veit líka að það er fáránlegt að kvíða því áður en farið er af stað í ferðina. En þannig er ég. Kvíðin og áhyggjufull.
En þegar ég les lýsingar af hörkufrosti sé ég mig alveg í anda rjóða í kinnum eftir ókeypis Laugavegsandlitsnudd og hlakka ekkert smá til að nota loksins húfuna sem falleg íslensk kona prjónaði og gaf mér í haust. Og fínu vettlingana sem vinkona mín prjónaði. Og trefilinn sem önnur vinkona prjónaði. Og vera í ullarsokkum og stórum skóm.
Kannski bara hætti ég að kvíða og fer alveg að snarhlakka til í staðinn.

Lifið í friði.

blokkin


blokkin
Originally uploaded by parisardaman.

Mér fannst við hæfi að birta mynd af blokkinni minni. Þetta er að vísu á bakvið hús, við bílskúrana. Ég fann enga mynd framan við sem er mun huggulegra. Þar sem ég er sárlasin og ekki er hundi út sigandi fer ég ekki út að redda því núna.
Á myndini er Sólrún að hjóla. Gluggarnir okkar sjást ekki nema að örlitlu leyti á myndinni, efsta hæð lengst til vinstri, grillir í eitt hornið af svefnherbergi okkar hjóna.

Lifið í friði.

fjórða og síðasta hæð

(og sú fimmta fyrir þau sem ekki byrja að telja á núllinu).
Fimmta hæðin er vitanlega langskemmtilegasta hæðin. Þar býr svalasta liðið, því þó unga prúða parið með nýja barnið á fyrstu hæð sé yngra en við hjónin, þá eru þau bara svo settleg að það mætti segja að þau séu orðin karl og kerling, í það minnsta kona og maður meðan við hjónin berjumst við að vera stelpa og strákur áfram þrátt fyrir mjög breyttan lífsstíl (það er gersamlega búið að skemma þetta orð fyrir manni með leiðindaofnotkun auglýsinga- og markaðsgúrúa á því undanfarið) frá því sem var fyrir tíma barneigna.
Þið þekkið okkur nú svolítið, ég veit satt best að segja ekki hvernig ég á að draga upp mynd af okkur því vissulega er annað sjónarhorn en á hina íbúana sem við höfum aldrei drukkið kaffibolla með, hvað þá meir.
Við erum sem sagt með tvö börn og búum á franskfjórðu hæð án lyftu en þegar við ákváðum að kaupa okkur íbúð var það einmitt til að losna við að búa á fimmtu hæð án lyftu. Þá var ég með væna bumbu og þegar ég kom upp götuna hvæsti ég á manninn minn að við værum sífellt að skoða íbúðir sem kæmu ekki til greina. Svo kom ég másandi og blásandi hingað inn og vissi um leið að þetta væri íbúðin mín. Parket, hvítmálaðir veggir, skemmtilega sveitalegt eldhús með skrautlegum flísum, ágætt baðherbergi og frábært útsýni til tveggja átta. Annars vegar í suðvestur, yfir skógi vaxna hæð og yfir til Parísar (við sjáum glitta í Sacré Cœur þó háhýsi skyggi reyndar á hana) og hins vegar yfir einbýlishúsahverfið hér á bakvið og svo langt í norðaustur sjást viðbjóðsblokkarskógarnir, þar sem allt of margar og allt of háar blokkir hafa verið byggðar á allt of litlu svæði. En að horfa á slíkt úr fjarska heldur manni kannski við efnið, minnir okkur á hvað við höfum það nú gott eftir allt saman þó vitanlega hefðum við heldur viljað kaupa íbúð í París sjálfri á sínum tíma, enda svona 101-týpur í okkur þó ég sé reyndar alin upp í Breiðholtinu.
Við erum alltaf mjög brosmild og gefum okkur tíma í óþarfa spjall við nágrannana. Við gefum húsverðinum og skúringakonunni gott þjórfé um jólin. Við reynum af fremsta megni að sýna tillitssemi, erum meðvituð um parketið og hávaðann sem berst niður (þó að seljandinn hafi reyndar lofað því að hann væri með rokna hljóðdeyfi undir því) og erum dugleg að fara út með börnin á daginn, bæði okkar geðheilsu vegna og hinna íbúanna í blokkinni. Ég er þó farin að spá í mottur, hvort ég eigi að setja eitthvað slíkt á gólfin hérna því ekki léttast börnin og ekki hætta þau að hlaupa hér um, sérstaklega á kvöldin fyrir matartímann. Ég vil alls ekki að fólk þjáist okkar vegna en ég verð að segja að mér vex það í augum að fara að setja stórar mottur á gólfin, það hlýtur að vera vesen fyrir þrifin.
Við völdum fólkinu í hverfinu miklum heilabrotum vegna undarlegrar verkaskiptingar, Arnaud fær oft að heyra það í umhyggjutóni að hann sé svo natinn við börnin, á tímabili var hann hálfhræddur við konuna á framköllunarstofunni, hún var hreinlega að reyna við hann, sannfærð um að hann hlyti að vera ekkill. Þess vegna splæsti ég í digital myndavél. Múahaha.
Ég fæ aldrei að heyra að ég sé natin við börnin mín. Þó að Arnaud fari með þau í skólann flesta dagana er það ég sem sæki þau og er með þau fram að kvöldmatnum sem ég elda um leið og þau eru böðuð. Ég er ekki að kvarta, en það fer samt auðvitað í mínar fínustu femínistataugar að þetta skuli ekki þykja tiltökumál, um leið og að allt sem pabbinn gerir er ofmetið.
Við vinnum bæði frekar óreglulega og erum fullmeðvituð um að allir voru að drepast úr forvitni yfir lífi okkar. Flestir vita þó núna, eftir tvö og hálft ár í hverfinu, hvað við gerum og hafa samþykkt okkur sem nágranna þó að ég sé of stutthærð og gangi stundum um í Afríkukjólum.
Á móti okkur búa tveir drengir. Annar þeirra er nýlegur húseigandi og mamma hans býr í næsta stigagangi. Þeir eru rúmlega tvítugir og í háskóla. Spila mikið tónlist, frekar góða (þunga) og ganga aldrei um öðruvísi en með þræði úr eyrunum. Skemmtilega hirðulausir, ég tók einu sinni mynd af ruslapokunum þeirra sem stóðu heilan dag á stigapallinum eftir tiltekt en ég þori ekki að birta mynd hérna, né hef ég nafngreint fólkið því ég er svo hrædd um að einhver nágrannanna geti gúgglað sig hingað inn. Þetta voru þrír svartir plastpokar, tveir kassar af bjór og þrír, fjórir pizzakassar.
Þeir heilsa okkur alltaf kurteislega og þykjast m.a.s. hafa áhuga á Sólrúnu þegar hún lætur þá dást að kjólnum sínum eða skónum. A.m.k. annar þeirra á kærustu sem er frekar mikið hérna. Þau sofa lengi frameftir og vaka eftir því. Ég heyri þau oft koma heim seint á næturnar með látum, í fyrsta lagi greinilega ofurölvi, einu sinni var m.a.s. blómapotti granna minna á þriðju hæð rutt um koll og lá þar með mold út um allt morguninn eftir, í öðru lagi stendur hurðin hjá þeim á sér og heyrist því vel þegar reynt er að loka og læsa. Ég held að bréfið niðri sé aðallega ætlað þeim, mér skilst að þau eigi það til að spila tónlist frameftir (íbúðirnar eru svo vel hannaðar að svefnherbergin snertast ekki, heldur er það innri stofan okkar sem nær að stofunni þeirra og stundum heyri ég í þeim ef ég fer í tölvuna seint að kveldi en aldrei þannig að það trufli mig, svefnherbergi reffilegu appelsínugulhærðu grönnu þeirra er alls ekki undir stofunni en kannski spila þau tónlist í svefnherbergjunum, unga fólkið). Svo er það nú bara þannig að þessir ungu menn með ofurlíf tóku við af manni sem bjó einn, ljúfum homma sem vann á gufubaðstofu, stundum á næturnar og heyrðist aldrei múkk í. Það er erfitt að koma í staðinn fyrir slíka nágranna, sérstaklega ofan á appelsínugulhært ofurviðkvæmt höfuð.
Við vorum einmitt í sömu aðstöðu, maðurinn sem seldi okkur bjó hér einn, fráskilinn með uppkomin börn, kvikmyndatökumaður sem var oft í burtu. Örugglega ferlega fúlt fyrir þau hér undir okkur að skipta honum út fyrir okkur.

Það er gaman að búa í blokk. Eins og öll sambönd, getur það verið krefjandi en eitthvað fær maður samt til baka líka. Ég skil alveg Íslendinga að vilja heldur búa í húsi, hafa garð og allt þetta pláss, enda er það til staðar.
Ég mæli þó með því að fara við og við í almenningssamgöngum milli staða, þar rekst maður oft á kynlega og skemmtilega kvisti. Og fátt er hollara í lífinu en að átta sig á því hvað það er fjölbreytilegt og skemmtilegt.

Lifið í friði.

þriðja hæð

(eða fjórða ef þú Íslendingur vilt).
Á þriðju hæðinni býr líklega frekasta fólkið í blokkinni.
Fyrst má nefna vesalings fólkið sem er svo óheppið að búa beint undir okkur. Þau hafa nokkrum sinnum spurt okkur hvort við ætlum ekki að skipta parketinu út fyrir teppi en það kemur ekki til mála. En ég segi nánar frá okkur síðar, einbeitum okkur að þeim. Þetta er fjögurra manna fjölskylda, börnin orðin unglingar, stúlkan líklega 14 ára og strákurinn kannski 16. Ég á reyndar mjög erfitt með að aldursgreina fólk og sel þessa greiningu því ekki dýru sérfræðingsverði. Þau búa, eins og við, í 70 fermetrum og sofa foreldrarnir í innri stofunni, líkt og ég ímynda mér að við hjónin munum gera einn góðan veðurdag, ef okkur tekst ekki að vinna í lottó.
Konan er frekar feitlagin og ekkert sérlega dugleg að halda sér til. Hún vinnur hjá einhverri félagsmálastofnun og segir mér stundum hryllingssögur af fólki sem hleður niður börnum án þess að eiga fyrir því og sagði mér um daginn frá konu sem eignaðist tvenna tvíbura og síðan þríbura. Mjög djúsí blaður við hana stundum hérna úti á stétt. Mig grunar að hún sé ekkert sérlega hamingjusöm, en hef þó ekkert fyrir mér í því annað en eigin fordóma og hvöt til að draga ályktanir. Ég hef þó séð hana fara uppstrílaða út að kvöldi til, kannski tvisvar.
Karlinn er hressilegur, kubbslegur og óhugnalega frekur við bæði konuna og börnin sem hann rekur áfram harðri hendi, greinilega afar óþolinmóður. Einu sinni sá ég hann næstum eyðileggja dyrasímann niðri, honum lá svo á að hringja að hann þrýsti aftur og aftur á nafnið en ekki hnappinn, skildi ekkert í því að eitthvað stæði á sér og missti sig algerlega. Það munaði litlu að hann færi í gegn um spjaldið og svo bölvaði hann hressilega þegar hann áttaði sig.
Dóttirin er inni í sér og þjáist örugglega af minnimáttarkennd, hún virðist samt ágætlega fríð, miðað við það litla sem maður hefur getað séð framan í hana og verður eflaust bráðfalleg þegar hún nær að vinna upp sjálfstraust, sem ég vona að henni takist síðar. Drengurinn er í gítartímum og spilar stundum sama hljóminn aftur og aftur og stundum spilar annað hvort þeirra hræðilega nýlega popptónlist en ég er með afbrigðum skilningsrík gagnvart þessu og þetta pirrar mig ekki vitund.
Það er oft hamagangur á Hóli, stundum rífast börnin sín á milli, svo heyrist hvína í pabbanum og mamman reynir að róa liðið niður. Stundum öskra þau hjónin hvort á annað. En aftur, skilningsríkir nágrannar þeirra pirra sig ekki neitt á þessu enda eru þetta bara svona hressilegar kviður sem standa yfirleitt ekki lengur en mínútu. Ég lofa ykkur því að ef ég hefði minnsta grun um að honum væri laus höndin væri ég farin að skipta mér af.

Á móti þeim búa eldri hjón sem eru þau sem ég hef best kynnst af öllum í blokkinni. Þau eru blandað par, hann er kolbikasvartur. Mig hefur lengi langað til að spyrja þau út í hvernig líf þeirra var þegar þau voru að draga sig saman og hvernig börnum þeirra gekk í lífinu en hef aldrei þorað að gera það.
Hann er líka hálfheyrnalaus, mikið af slíku fólki í blokkinni minni greinilega, fyrrverandi rafvirki og fékk að tengja dyrabjölluna okkar hérna þegar hann komst að því að hún virkaði ekki. Var hér tímunum saman að tengja þetta og spyr mig reglulega hvort bjallan virki vel. Ég lýg því alltaf að hún virki ógurlega vel, málið er að það hringir aldrei neinn þessari bjöllu. Við opnum alltaf hurðina um leið og við hleypum einhverjum inn niðri. En ég hef ekki brjóst í mér að hryggja hann með því.
Hann spyr mig alltaf hvort karlinn sé hress og í vinnunni, ég held að þeim finnist afar dularfullt hvað hann er mikið með börnin og ég úti og hann hefur aldrei samþykkt það að ég sjái um viðhaldið hérna, hlær bara góðlátlega þegar ég segi honum það. Honum var líka illa brugðið þegar hann þurfti að kyngja því að maðurinn minn væri bílprófslaus og því væri það ég sem hann þyrfti að aðstoða þegar bílinn minn neitaði í gang á dögunum.
Konan hans er reffileg appelsínugulhærð með bleikan varalit. Hún spyr alltaf mikið um Ísland, þau hafa bæði brennandi áhuga á því landi og eru m.a.s. með víkingaskip á plakati á vegg hjá sér. Þau horfa mikið á sjónvarpið og hún er sérlega viðkvæm fyrir hávaða á kvöldin, það er einmitt hún sem stoppaði söng ljóskunnar kvöldið forðum og ég hef heyrt þau koma upp og skammast í ungu drengjunum á okkar hæð, m.a. fyrir að setja þvottavél af stað eftir klukkan níu. Miðað við heyrnarleysi karlsins geri ég ráð fyrir að hún standi fyrir því þó hann standi vitanlega alltaf með henni.
Þau eru mikið í burtu, eiga lítið hús á Normandí og tala stanslaust um að flytja alfarin í sveitina bráðum, hér sé orðið ólíft, allt of mikið af glæpum og svona. Mig grunar samt að þau njóti borgarlífsins betur en flest okkar, þau eru dugleg að skreppa í leikhús og á tónleika og ég hitti hana iðulega í neðanjarðarlestinni á leið í bæinn.
Það yrði sannarlega missir að þeim úr blokkinni, þau eru svo skemmtileg þrátt fyrir viðkvæmnina.

Lifið í friði.


Nýlegar athugasemdir

parisardaman um Kveðja
Margrét H um Kveðja
koparskál um Tau frá Tógó
Elín Kjartansdóttir um rafmögnuð kona
juliann um agnetha