þriðja hæð

(eða fjórða ef þú Íslendingur vilt).
Á þriðju hæðinni býr líklega frekasta fólkið í blokkinni.
Fyrst má nefna vesalings fólkið sem er svo óheppið að búa beint undir okkur. Þau hafa nokkrum sinnum spurt okkur hvort við ætlum ekki að skipta parketinu út fyrir teppi en það kemur ekki til mála. En ég segi nánar frá okkur síðar, einbeitum okkur að þeim. Þetta er fjögurra manna fjölskylda, börnin orðin unglingar, stúlkan líklega 14 ára og strákurinn kannski 16. Ég á reyndar mjög erfitt með að aldursgreina fólk og sel þessa greiningu því ekki dýru sérfræðingsverði. Þau búa, eins og við, í 70 fermetrum og sofa foreldrarnir í innri stofunni, líkt og ég ímynda mér að við hjónin munum gera einn góðan veðurdag, ef okkur tekst ekki að vinna í lottó.
Konan er frekar feitlagin og ekkert sérlega dugleg að halda sér til. Hún vinnur hjá einhverri félagsmálastofnun og segir mér stundum hryllingssögur af fólki sem hleður niður börnum án þess að eiga fyrir því og sagði mér um daginn frá konu sem eignaðist tvenna tvíbura og síðan þríbura. Mjög djúsí blaður við hana stundum hérna úti á stétt. Mig grunar að hún sé ekkert sérlega hamingjusöm, en hef þó ekkert fyrir mér í því annað en eigin fordóma og hvöt til að draga ályktanir. Ég hef þó séð hana fara uppstrílaða út að kvöldi til, kannski tvisvar.
Karlinn er hressilegur, kubbslegur og óhugnalega frekur við bæði konuna og börnin sem hann rekur áfram harðri hendi, greinilega afar óþolinmóður. Einu sinni sá ég hann næstum eyðileggja dyrasímann niðri, honum lá svo á að hringja að hann þrýsti aftur og aftur á nafnið en ekki hnappinn, skildi ekkert í því að eitthvað stæði á sér og missti sig algerlega. Það munaði litlu að hann færi í gegn um spjaldið og svo bölvaði hann hressilega þegar hann áttaði sig.
Dóttirin er inni í sér og þjáist örugglega af minnimáttarkennd, hún virðist samt ágætlega fríð, miðað við það litla sem maður hefur getað séð framan í hana og verður eflaust bráðfalleg þegar hún nær að vinna upp sjálfstraust, sem ég vona að henni takist síðar. Drengurinn er í gítartímum og spilar stundum sama hljóminn aftur og aftur og stundum spilar annað hvort þeirra hræðilega nýlega popptónlist en ég er með afbrigðum skilningsrík gagnvart þessu og þetta pirrar mig ekki vitund.
Það er oft hamagangur á Hóli, stundum rífast börnin sín á milli, svo heyrist hvína í pabbanum og mamman reynir að róa liðið niður. Stundum öskra þau hjónin hvort á annað. En aftur, skilningsríkir nágrannar þeirra pirra sig ekki neitt á þessu enda eru þetta bara svona hressilegar kviður sem standa yfirleitt ekki lengur en mínútu. Ég lofa ykkur því að ef ég hefði minnsta grun um að honum væri laus höndin væri ég farin að skipta mér af.

Á móti þeim búa eldri hjón sem eru þau sem ég hef best kynnst af öllum í blokkinni. Þau eru blandað par, hann er kolbikasvartur. Mig hefur lengi langað til að spyrja þau út í hvernig líf þeirra var þegar þau voru að draga sig saman og hvernig börnum þeirra gekk í lífinu en hef aldrei þorað að gera það.
Hann er líka hálfheyrnalaus, mikið af slíku fólki í blokkinni minni greinilega, fyrrverandi rafvirki og fékk að tengja dyrabjölluna okkar hérna þegar hann komst að því að hún virkaði ekki. Var hér tímunum saman að tengja þetta og spyr mig reglulega hvort bjallan virki vel. Ég lýg því alltaf að hún virki ógurlega vel, málið er að það hringir aldrei neinn þessari bjöllu. Við opnum alltaf hurðina um leið og við hleypum einhverjum inn niðri. En ég hef ekki brjóst í mér að hryggja hann með því.
Hann spyr mig alltaf hvort karlinn sé hress og í vinnunni, ég held að þeim finnist afar dularfullt hvað hann er mikið með börnin og ég úti og hann hefur aldrei samþykkt það að ég sjái um viðhaldið hérna, hlær bara góðlátlega þegar ég segi honum það. Honum var líka illa brugðið þegar hann þurfti að kyngja því að maðurinn minn væri bílprófslaus og því væri það ég sem hann þyrfti að aðstoða þegar bílinn minn neitaði í gang á dögunum.
Konan hans er reffileg appelsínugulhærð með bleikan varalit. Hún spyr alltaf mikið um Ísland, þau hafa bæði brennandi áhuga á því landi og eru m.a.s. með víkingaskip á plakati á vegg hjá sér. Þau horfa mikið á sjónvarpið og hún er sérlega viðkvæm fyrir hávaða á kvöldin, það er einmitt hún sem stoppaði söng ljóskunnar kvöldið forðum og ég hef heyrt þau koma upp og skammast í ungu drengjunum á okkar hæð, m.a. fyrir að setja þvottavél af stað eftir klukkan níu. Miðað við heyrnarleysi karlsins geri ég ráð fyrir að hún standi fyrir því þó hann standi vitanlega alltaf með henni.
Þau eru mikið í burtu, eiga lítið hús á Normandí og tala stanslaust um að flytja alfarin í sveitina bráðum, hér sé orðið ólíft, allt of mikið af glæpum og svona. Mig grunar samt að þau njóti borgarlífsins betur en flest okkar, þau eru dugleg að skreppa í leikhús og á tónleika og ég hitti hana iðulega í neðanjarðarlestinni á leið í bæinn.
Það yrði sannarlega missir að þeim úr blokkinni, þau eru svo skemmtileg þrátt fyrir viðkvæmnina.

Lifið í friði.

0 Responses to “þriðja hæð”  1. Færðu inn athugasemd

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: