tenglalaus texti en fullur af ábendingum

Ég var að reyna að lesa frétt um að fyrirtæki er að biðja um endurreikning á gróðanum sem fékkst við samráð olíufyrirtækjanna. Ég gafst upp. Ég skil ekki svona hluti, skil ekki orðin sem eru notuð, skil ekki upphæðir sem skipta þúsundum milljóna (eru það þá milljarðar?). Ég vorkenni köllum og kellingum sem eiga svona fyrirtæki og þurfa að vera á fundum með lögfræðingum, hagfræðingum og framámönnum alla daga. En hugga mig við að þau vorkenna mér kannski líka svo allir eru jafnir. Kommúnískt.

Um daginn var mér ekið niður í bæ á ægifínni rennireið sem ber þriggja stafa nafn og er af þýsku bergi (stáli?) brotin. Hvar við vorum í kyrrstöðu á ljósum sá ég strák og stelpu, pönkara, með rakað hár eða upp í loft, í hermannagrænum bolum, slitnum gallabuxum og hermannaklossum, sitjandi á útflöttum pappakössum undir vegg stórmarkaðar með hund hjá sér. Líklega var dolla fyrir smápeninga fyrir framan þau, en ég sá það ekki, ljósið frá hannaðri lýsingu verslunarinnar náði ekki að lýsa nema þau sjálf. Þau voru í djúpum samræðum og greinilega mjög skemmtilegum. Töluðu bæði með miklu handapati og tóku stundum bakföll af hlátri. Engar áhyggjur, engin örvænting, ekkert stress. Ég er ekki að segja að mér hafi dottið í hug að hoppa út úr bílnum, setjast hjá þeim, stinga sikkerisnælu í gegnum eyrnasnepilinn og vera bara með þeim upp frá því. Hætta að hugsa um börnin mín, kallinn minn, túristana, foreldrana, vinina, allt þetta lið sem treystir á mann og treystir því að maður hegði sér vel, að maður hegði sér í samræmi við reglurnar sem þau sjálf leggja svo mikið upp úr að fara eftir. Ég er ekki að segja það að ég geti svo auðveldlega losað mig úr mínum þægilega og mátulega smáborgarahætti. Né að ég vilji það endilega. En ég get alveg sagt þér það að í örskotsstund fylltist ég nostalgískri afbrýðisemi og langaði til að vera með þeim, kannski bara þetta eina kvöld. Djamma með þeim, hlæja og láta eins og allt hitt skipti engu máli.

Ég hef undanfarið flakkað um lendur alnetsins og lesið margt skemmtilegt. Meðal annars þetta:
Grein eftir Rafaugað Ingólf á Múrnum um einmitt þessa peningafirringu og samkeppnisþörf mannskeppnunnar.

Grein eftir Eyju um launamisjafnrétti.

Frábær gagnrýni Internetmömmunnar rooosalega spes Unnar á Kistunni á einhverri sjálfshjálparbók eftir eða um hann Greg, Hann er ekki nógu skotinn í þér minnir mig að bókin kallist. Mæli með lestri gagnrýninnar og svo umræðunni á Barnalandi sem þið komist á í gegnum síðuna hennar (sjá tengil í listanum, Internetmamman).

Og tengla á Eyju og Rafauga greinarnar finnið þið líka á þeirra síðum frá tenglinum í listanum mínum. Sorrí, er á gamla bláa Grána og get ekki föndrað tengil í texta.

Klukkan er farin að ganga fimm. Kominn tími til að vekja börnin af værum blundi og gera eitthvað smáborgaralegt með þeim, förum örugglega að skoða kameldýrin, flóðhestinn, póníana, svarta svínið og öll hin dýrin sem hafa komið sér upp sirkustjaldi í almenningsgarðinum okkar. Við erum búin að skoða þau næstum daglega en hvorki þau né ég fá nóg af því. Ótrúlega skemmtilegt. Dýr eru skemmtileg. Sundurskorinn hvalurinn sem við Íslendingar sendum heimsbyggðinni á dögunum var líka flottur. Eða hvað?

Lifið í friði.

0 Responses to “tenglalaus texti en fullur af ábendingum”  1. Færðu inn athugasemd

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: