Sarpur fyrir nóvember, 2006tremma

Eitt nýja blaðið auglýsir sig sem Blað fyrir Íslendinga, maður gæti kannski séð svona undirtitil á blaði frá Front National fasistableðlum hér á meginlandinu.
Annað nýtt tímarit segir á netsíðunni sinni að Lífið sé lífsstíll, svona frasar fá grænar bólur til að hlaupa upp á annars óvenju fagurri og sléttri húð minni.
Gvuð mín góð hvað ég er farin að hlakka til að koma heim. Í alvöru. Ég elska að hata og elska Ísland og Íslendinga og lífsgæðakapphlaupið, ég elska það að fólk trúi því í alvörunni að flottasta uppþvottavélin og smartasti ísskápurinn sé virkilega lykill að einhvers konar hamingju. Ég hlakka svo til að koma heim. Ég elska ykkur. Líka ykkur hin sem berjist við að vera hippar, kúl afturhaldshommatittir, farið í strætó og kaupið inn á Laugaveginum. Ég elska að standa hnípin niðri á tjörn með börnin mín stíf úr kulda, horfa á fallegu húsin sem búið er að taka í gegn og seljast á verði sem ég skil ekki. Ég elska það hvernig fólk reynir að glápa á mann út úr bílunum, athuga hvort það þekki mann en verður svo flóttalegt og skammarlegt þegar maður glápir á móti. Ég hlakka mikið til að koma heim. Búin að kaupa vínið, ætlaði reyndar að spyrja Hildigunni, hvað er það sem maður borgar af aukaflöskum, ég held ég þurfi svoleiðis fyrir heilan mánuð.

Lifið í friði og umfram allt, ekki taka mig alvarlega. Eða jú, eða nei, eða jú.

Og p.s: Halló! Ég vann í bókmenntagetraun Tótu pönk, ég er að rifna úr monti yfir því og ég fæ m.a.s. VERÐLAUN. Ég er nú obboponsulítið best, er það ekki? (ég er búin að skrifa ponsuogguorð tvisvar í dag, hvað er í gangi?)