Sarpur fyrir desember, 2006

gleðilegtár

gleðilegt ár
gleðileg tár
gleði leg tár
gleði legtár

Ég læt mér ekki detta í hug að gera upp þetta ár sem er að fara og kemur aldrei aftur, vonandi, en ef einhver nennir að lesa upp bloggárið mitt og gera huggulegan úrdrátt er þeim hinum sama það velkomið. Ef margir bregðast við þessari arfalélegu hugmynd getum við haft þetta ritgerðarsamkeppni.
En í huga mínum núna eru stærstu atburðirnir nýja óléttan í fjölskyldunni og hengingin ógurlega enda er ég með gullfiskaminni eins og aðrir landar mínir og meðbræður á jörðunni ef út í það er farið.

Við erum öll hálfslöpp fjölskyldan en ætlum nú samt að drífa okkur í matarboðið í kvöld. Verst þykir mér að karlinn skuli ekki hafa bílpróf (fyrst skrifaði ég bólpróf, Freud? Ertu að horfa?) því kampavín er svo gott og ég er viss um að í boðinu verður nóg af því.
Ég geymi kannski eina flösku í kælinum hér heima og get þá dreypt á henni ef norski sjóarinn í mér verður viðþolslaus í nótt.

Ég geri fastlega ráð fyrir því að sjá ekki flugeldasýninguna, ekkert útsýni þar sem við verðum og þess vegna líkur á því að við gleymum miðnætti eins og gerðist síðast þegar ég hélt upp á áramótin í París. Þá sátum við yfir eftirréttinum, sein að borða því við höfðum farið í Hammam um eftirmiðdaginn og vorum í hálfgerðri leiðslu að búa til matinn, og einhver hrópaði upp yfir sig að áramótin væru löngu liðin, en þau voru þá einmitt að ganga í garð á Íslandi svo við féllumst öll grátandi í faðma og allt fór vel að lokum. Gvuð var klár gella að finna upp á tímamismuninum.

Jú, nú dettur mér einn stórviðburður í hug, er ÁJ hættur að blogga?

Lifið í friði.

oui

Það er víst nú þegar komið í íslenska stjórnarskrá ákvæðið gegn dauðarefsingu. Vera sagði mér það á blogginu hennar Silju.

Sem er gott.

En auðvelt að sýna tvískinnung með því að styðja ríki með aðrar stjórnarskrár og önnur lög. Auðvitað getum við Íslendingar erfiðlega ætlast til að öll önnur ríki séu með nákvæmlega sömu viðmið og við en við getum a.m.k. tjáð andúð okkar á hlutum sem við höfum séð ástæðu til að banna í okkar stjórnarskrá. En líklega er öllum sama. A.m.k. talsmönnum okkar.

Ég held reyndar að Bush sé búinn að fara yfir eitthvað strik, sýna og sanna að það er ekki eðlilegt ástand að forsetaembætti BNA sé valdamesta staðan í heiminum eins og svo margir hafa viljað vera láta undanfarin ár. Mótstaða gegn ríkjandi ástandi verður sterkari út um allan heim. Og er það vel. Kannski er styttra í byltingu og kreppu en okkur grunar?

Lifið í friði.

leið

Um leið og mig langar að skrifa það veit ég að það er alger óþarfi en þörfin er of sterk

ég er alfarið á móti dauðarefsingum

Ég held að íslensk lög kveði á um að slíkt sé ólöglegt og samt var mannfjandi tekinn af lífi með okkar samþykki samþykkið felst í okkar þáttöku í stríðinu er búið að taka það til baka? ég held ekki

Einhverjir valdakarlar hafa viðurkennt mistökin en vandræðin og viðbjóðurinn heldur áfram börn deyja á hverjum degi líka bandarísk börn sem hafa verið nörruð í herinn börn sem jafnvel eiga börn sem munu alast upp föðurlaus með köggul í hjartanu alla ævi

Sumir vilja meina að stríð séu órjúfanlegur hluti af lífinu að þau séu náttúrulögmál nauðsynleg fyrir einhverja dýnamík í efnahagslífinu eða eitthvað svoleiðis ég veit það ekki ég hef bara aldrei aldrei getað samþykkt þetta ekki einu sinni þegar ég var heimsk og ofvernduð táningsstúlka í Breiðholtinu man eftir rifrildum um þetta strax í menntó alltaf fundist inni í mér sem friður ætti að geta ríkt í heiminum

Kannski hef ég aldrei læknast af því að vera heimsk og ofvernduð vanþroska stelpuskjáta?

Franska þingið er á leiðinni að breyta stjórnarskránni ætla að bæta inn ákvæði gegn dauðarefsingum þar hvað segir okkar stjórnarskrá?

Lifið í friði.

bilun

Það er bilun að vera heima hjá sér með börnin í fríi í tvær vikur samfleytt. Og eftir að hafa eytt með þeim mánuði fyrir mánuði í fríi þar að auki. Ég er að verða gráhærð, reyndar í orðsins fyllstu því í gær kippti ég feitu, hörðu snjakahvítu hári af kolli mínum. Þetta er í annað sinn sem ég geri slíkt. Jú, ég veit að það getur verið voða smart að vera gráhærð gella en mér finnst ég samt of barnslega fögur í framan til að það geti farið mér.
Þið verðið að fyrirgefa, ég get ekki notað broskarla, ykkar að átta ykkur á því hvenær ég er að gantast og hvenær mér er svartasta alvara.

Ég ætla að búa mér til hvítlauks-cayenne-engiferseyði og athuga hvort ég hressist.

Þar sem ég gleymdi alveg að plögga Ömmu Ruth fyrir jólin, geri ég það bara núna. Amma Ruth er lítil búð í heimahúsi í Sundunum. Þar fást alls konar bolla- og matarstell, kökudiskar, rjómaskálar og annað sem t.d. ungri konu eins og mig vantar oft sárlega. Allt antík og gott verð. Farið á tengilinn Ester í tenglalistanum mínum og þar finnið þið allt um Ömmu Ruth. Tilvalið í áramótagjafir, eða afmælisgjafir í janúar. Búðin er með þrælfína heimasíðu, fullri af myndum en ég hef ekki tíma til að setja tengilinn inn núna. Hann fer undir Lyst við fyrsta tækifæri.

Ég sendi inn svar við blómamynd Eyju í gær. Var ekki með rétt gisk. Mér er allri lokið og Eyja er komin með viðurnefni í huga mér.

Og lifið svo í friði.

næstu áramót – ekki þessi núna

Ég er með þá hugmynd í kolli mínum fagra að eyða áramótunum 2007-2008 í Pyrennées-fjöllunum. Leigja stórt hús eða margar íbúðir í litlu þorpi og safna með mér góðum hópi fólks. Ef þér líst vel á þetta og langar að vera með, láttu mig þá vita.
Þú heldur kannski að langt sé í næstu áramót, en finnst þér ógurlega langt síðan síðast?

Lifið í friði.

kalt

Það má París eiga, að þegar verður kalt þá er sko kalt. Varla hundi út sigandi, hvað þá börnum. Gvuði sé lof og dýrð fyrir DVD-tæknina og allt nýja dótið og vatnslitina.
Ég hefði líklega getað nýtt inniveruna í skrif og hugmyndavinnu en ligg þess í stað í sófanum með tölvuna og bölva bloggleti annarra. Alveg bakk í letinni.

Ég var að frétta af óléttu, það er gaman.

Ég var að frétta af nýrri vinnu vinkonu. Það er líka gaman.

Ég er ekki enn búin að fá myndagátuna, treysti á að hún hafi birst í laugardagsmogganum sem hefur enn ekki komið. Mér skilst að hún sé létt núna og er það miður, var alveg fáránlega létt í fyrra.

Jæja, best að leggjast aftur í leti, stara upp í loftið, spá í ekkert, spenna greipar, ropa kannski smá.

Lifið í friði.

að handan

Það er einhverra hluta vegna þannig að á jólunum leitar hugurinn oft til þeirra sem ekki eru lengur meðal vor. Nokkrum dögum fyrir jólin hóf ég að lesa Hannes Pétursson, Rauðamyrkur. Hana las ég á sínum tíma, fékk í jólagjöf frá ömmu minni heitinni, Kristínu Grímsdóttur, en ég hafði aldrei lesið þessa bók aftur síðan þá.
Nú las ég hana á nokkrum dögum, þó ekki sé hún löng þá er það nú þannig að tveggja ungra barna móðir les einfaldlega ekki margar blaðsíður á kvöldin, augnalokin bara leggjast yfir augun, bókin sígur niður á brjóst og einhverjum mínútum síðar hrekkur húsmóðirin þreytta upp, lokar bókinni og slekkur ljósið og svífur yfir í draumaheima.
Rauðamyrkur er ágætis lesning en þegar bókinni var alveg að ljúka datt umslag út úr henni, merkt með skrift ömmu minnar til mín og ég beðin um að opna að lestri loknum. Sem ég og gerði. Þar var lítil klausa sem tengir persónurnar í bókinni við forfeður ömmu minnar (og líka mína, því þó að mamma hafi verið ættleidd var þessi amma mín samt skyld mér, langafasystir ef ég man rétt). Klausan var vélrituð á gömlu ritvél ömmu og afa og svo handundirrituð af ömmu. Þetta var mjög skrýtin tilfinning. Ég mundi alls ekki eftir þessu frá upphaflegum lestri bókarinnar og mér leið dálítið á jóladag eins og ég hefði fengið bréf frá ömmu.

Og nú er ég byrjuð að lesa einu íslensku bókina sem ég fékk í jólagjöf. Hún kom frá sjálfri mér til mín og hefur legið í plasti á náttborðinu síðan ég kom frá Íslandi í byrjun desember. Sumarljós og svo kemur nóttin stenst allar væntingar enn sem komið er. Ég veit ekki hvernig hann Jón fer að þessu, en ég leyfi mér að fullyrða að maðurinn býr yfir galdramætti.
Í gær hraðþýddi ég einn millikafla fyrir manninn minn yfir á frönsku. Honum finnst ég eigi að þýða þessa bók en ég er ekki viss um að ég treysti mér í þýðingu í þessa átt, hef nú ekki einu sinni treyst mér almennilega í bókmenntaþýðingar yfir á íslensku þó vitanlega hafi ég spáð mikið og oft í það og jafnvel sent útgefendum bréf en þeim bréfum hefur ekki verið svarað.
Ég er líka alvarlega að spekúlera í að taka einhverja íslenskukúrsa í fjarnámi, einmitt til að geta kannski betur búið mig undir að leggjast í bókmenntaþýðingar einhvern tímann í framtíðinni.
Það var furðulega auðvelt að hraðþýða þennan litla kafla um tímann sem líður og Jónas og Þorgrím og kynlífið í nútímanum og eftir þá tilraun hélt ég svo áfram að lesa og fékk allt í einu á tilfinninguna að kannski væri bókin upprunalega skrifuð á frönsku. Til dæmis er sögumaðurinn mjög oft ekki ÉG heldur VIÐ á frönsku, það er ópersónulegra og vísar kannski að einhverju leyti í þérun. Þetta er nokkuð algilt í ritgerðum, nemandinn er ekki ÉG heldur VIÐ.

Ég fékk aðra bók í jólagjöf, bók sem ég hef einmitt lesið í íslenskri þýðingu, eða a.m.k. að hluta til. Það er Pétur Gunnarsson sem hóf að þýða hið mikla verk Marcel Proust um leitina að glötuðum tíma en hefur líklega ekki tíma eða efni á að halda því áfram. Eða þá að Proust inspíreraði hann of mikið og hann finnur sig knúinn til að koma sínum eigin sögum á blað meðan honum endist tími og aldur til.
Ég hef lengi vitað að ég yrði að lesa Proust á frummálinu og maðurinn minn ákvað sem sagt að hvetja mig til þess með því að gefa mér fyrsta bindið í jólagjöf en hann hefur einmitt verið að endurlesa þetta verk undanfarið sjálfur.

Annars komst ég að því í morgun að ég er sauður, enda hefur mér ekkert gengið með getraun Eyju.

Lifið í friði.

zzzzzz

Aðfangadagskvöld var yndislegt, það er gaman að endurupplifa gamla alvöru kitlið og gleðina í gegnum börnin. Þau stóðu sig eins og hetjur, Sólrún endurtók „on est gâté“ sem þýðir „við erum fordekruð“ aftur og aftur sem er mun skárra að horfa upp á en græðgissvipur um leið og pakkarnir eru rifnir upp með látum og gjöfinni svo kastað út í horn.
Tengdaforeldrarnir voru hérna ásamt yngri bróður mannsins míns. Hann sagði kærustunni sinni upp á föstudaginn var en var hress og kátur, sem betur fer. Amman át eins og hestur, hef aldrei séð það áður, en afinn fór varlegar í sakirnar, enda er hann ofurhræddur við spik og kólesteról.

Ég fékk fullt af fallegum gjöfum og eins og alltaf fékk ég sting í magann yfir öllu þessu fólki sem þykir vænt um mig og sem mér þykir vænt um og ég skil ekki hvers vegna sumir eiga ekki neitt og ekki neinn og hvers vegna öll þessi fátækt og stríð og… en svo vefur maður um sig nýja ullarsjalinu, setur á sig fínu hanskana og þykist vera búrgeisagella úr 7. hverfi með fínu töskuna úr fínu búðinni á Laugaveginum og alls ekki búa í úthverfi með hinu innflytjendapakkinu og hvað getur maður svo sem gert við fátækt heimsins? Ekki er ég að reka fyrirtæki sem níðist á minni máttar.

Á jóladagsmorgun furðaði ég mig á jólatré sem var komið út á gangstétt, veit ekki hverjum lá svona agalega á að losna við jólin úr stofunni en svo settist ég einbeitt niður og setti saman bílaverkstæði/bílastæði sem Kári fékk frá ömmu sinni. Það er úr tré, enda er amman ekta búrgeisapía úr 7. hverfi og kaupir bara tréleikföng og til að setja herlegheitin saman þurfti að skrúfa 19 skrúfur og ekki mjög stuttar. Ég var afskaplega þakklát fyrir skrúfvélina og fína hólfakassann sem geymir skrúfur í öllum stærðum því skrúfurnar sem fylgdu með leikfanginu voru nú ekki til stórræðanna. Mér varð hugsað til allra vesalings pabbanna í sjálfu 7. hverfi sem geta skrifað greinargerðir og rökstutt mál sitt í þrisvar sinnum þremur liðum án þess að blikna, en vita alls ekki muninn á stjörnuskrúfjárni eða hamri. Það er ansi hætt við að ef mikið seldist af þessu tiltekna verkstæði að nokkrir heimilisfeður hafi rokið út á næsta bar í gær.
Blessaður reiðskólinn sem Sólrún fékk frá þessari sömu ömmu verður að bíða þar til ég er búin að jafna mig andlega og líkamlega, enda nóg af öðru dóti að leika með, og ekki hægt að segja að börnin þjáist.

Svo fórum við í kaffi til tengdó um eftirmiðdaginn, þar var lax og skinka og kökur og rígur milli hjónanna um það hvort hefði þurft bæði salt og sætt og allt eins og vanalega. Fjölskyldulífið er nú alveg indælt, er það ekki?

Lifið í friði.

Gleðilega hátíð

Hvaða orð var aftur mest notað í útvarpinu í dag? Já, hugheilar. Hugheilar óskir. Árs og friðar. Þakkir fyrir hlýhug.

Gott að hlusta á jólakveðjur, áreiðanlega eitthvað jógavænt eða Feng Shui við það.

Ég vona að veðurguðirnir hætti að hrista litlu eyjuna í norðri. Vona að ykkur líði öllum vel, saman eða í sundur, stór, lítil, feit, grönn, rík eða fátæk. Að eitthvað hrærist innan í ykkur á jólanótt, að þið fáið bros og helst koss. Vona að friður ríki í kringum ykkur.

Takk fyrir góðar stundir.

Væmin og ekkert klæmin. Svona er þetta stundum.

Lifið í friði.

snökt

Og nú er ég komin með heimþrá til Íslands. Mig langar miklu frekar að vera þar en hér. En þetta má vitanlega ekki fréttast. Ekki segja neinum. Hver veit nema ég skelli mér uppeftir um áramótin?

Lifið í friði.


Nýlegar athugasemdir

parisardaman um Kveðja
Margrét H um Kveðja
koparskál um Tau frá Tógó
Elín Kjartansdóttir um rafmögnuð kona
juliann um agnetha