Sarpur fyrir desember, 2006pour une fois

Fyrst Eyja spyr skyndilega spurningar sem ég GET svarað, er best að gera það í pistli svo allir lesi það, ekki bara þeir sem nenna að fylgjast með gömlum athugasemdahölum.
Hornin er langsniðugast að baka og frysta og kippa þeim svo út þegar á að borða þá, þ.e.a.s. ef þeir eiga að vera í morgunverð. Allt of mikið vesen að vera að klína eldhúsið út í bakstri og vera dauðuppgefinn að borða þau. Þau eru alveg eins og ný þegar þau fara frosin beint inn í ofn. Koma þaðan út rjúkandi heit og ilmandi.
En þessi horn er að finna í þeirri frábæru matreiðslubók „Áttu von á gestum?“, sem er þýdd og staðfærð af Guðrúnu Hrönn Hilmarsdóttur. Ég keypti þessa bók án þess að hika (sem er afar sjaldgæf kaupaðferð hjá mér) á bókamarkaði fyrir nokkrum árum en þessi bók hefur verið notuð árum saman á mínu æskuheimili.
Þau eru úr gerdeigi en í morgun svindlaði ég ógurlega í fyrsta skipti. Ég hljóp út í búð (athugið að nauðsynlegt er að hlaupa út í búð ef nota á sama trix, virkar ekki ef farið er á bílnum) og keypti tilbúið smjördeig og líka tilbúið pædeig sem fást hérna rúlluð út í fulllkomna hringi. Þessa hringi lagði ég sem sagt á eldhúsborðið, skar í átta jafna hluta og síðan skellti ég í skál 150 gr. fínt hakkaðri skinku, 100 gr. rjómaosti og 2 vænum msk. af graslauk (sem ég á alltaf hakkaðan í frysti, hvar væri ég án frystitækninnar?). Þessari blöndu skipti ég svo jafnt á deighlutana, næstum alveg við feitari endann og rúlla þessu svo upp og móta í hálfmána. Inn í ofninn í ca 10 mín á 220 gráðu heitan.
Voilà. Heppnaðist mjög vel. Veit ekki hvort ég á nokkurn tímann eftir að gera þessi horn úr hjemmelavet gerdeigi aftur. En mig langar núna alveg ógurlega mikið að gera kanelsnúðana sem eru að mig minnir í „Nú bökum við“ úr sama matreiðslubókaflokki og sú fyrrnefnda. Tívolíísinn sem ég bjó til í morgun er einmitt líka úr einhverri bókanna hennar Guðrúnar. Þær voru alls þrjár, a.m.k. á mínu heimili, en ég get ekki munað hvað sú síðasta heitir.
Ég mæli eindregið með Toscakökunni úr Áttu von á gestum? Alveg skotheld.

Lifið í friði.

sko mig

Fimmtán snúðar eru að kólna í eldhúsinu og ísinn kominn í mót og inn í frysti. Í öllum látunum tókst mér að baka ekki ísinn né hella súkkulaðinu saman við skinku/osta/graslauksblönduna og tel mig hafa staðið mig vel.
Og svo er ég búin að lesa um ýmsa hörkufemínista í tíu mínútur en ekki finn ég þessa mögru síveiku langlífu, né heldur þann sem gerði eitthvað sem ber nafn hans… frekar pirrandi að geta ekki legið og grúskað en ég trúi því staðfastlega að ég eigi enn möguleika á sigri, maður er nú ekki Íslendingur fyrir ekki neitt!

En nú er það sturta, vatnsglas, í fötin og út. Það er ofboðslega kalt og ég er með klink til að gefa betlurum í þessari bæjarferð, klikkaði alveg á því í gær.

Lifið í friði.

piparkökur og úlfakreppa

Piparkökur Framtíðarlandsins seljast grimmt, en þú hefur samt ennþá tíma til að sýna stuðning í verki og splæsa í nokkur stykki.
Kökum hefur verið dreift í nokkrar búðir í miðbænum (þ.á m. Kisuna, 3hæðir, Yggdrasil og Hljómalind) en þær fást sem fyrr á skrifstofu Framtíðarlandsins, Óðinsgötu 7, og í bakaríinu Brauðhúsið í Grímsbæ þar sem þær voru einmitt bakaðar. Opið er í Brauðhúsinu 10-18 virka daga og á skrifstofu Framtíðarlandsins 9-16 virka daga. Hver kaka kostar 500 krónur.

Annars er ég í mikilli úlfakreppu einmitt núna. Sko, klukkan er 09:03, börnin og kallinn farin út og búið að opna matvörubúðina og ég gæti skotist þangað og keypt hráefni í ís og skinkuhorn og bakað og hrært þar til ég þarf að hlaupa út um hádegisbilið, en ég á stefnumót við góða og sjaldséða vinkonu í hádeginu. Fallafel-grænmetisbuffpíta á Rue des Rosiers í Mýrinni (4. hverfi) er langbesti skyndibitinn í París. Og þar í hverfinu ætla ég einmitt líka að kaupa afmælisgjöf mannsins míns. Hann á að fá litla gjöf og skinkuhorn í morgunmat á Þorláksmessu, en móðir hans var svo ósmekkleg að fæða hann á þeim degi. Við myndum sko fara í skötuveislu ef við værum á Íslandi, maðurinn minn fékk margar stjörnur í kladdann hjá pabba mínum fyrir að biðja um meira þegar hann gaf honum skötu í fyrsta skipti, en við látum okkur annað góðgæti duga í þetta sinn.
EN það er bara svo mikið um að vera hjá Eyju, getraunin er nú þríréttuð og skemmtilegar vísbendingar sem vekja vissulega hugrenningatengsl.
Hvað á ég að gera? Sleppa bakstri og stússi og hafa aðkeypt efni í veislunum? Sleppa getrauninni og dekra við manninn minn sem fær svo ódýrar gjafir að mig langaði að bæta það upp með heimabökuðu hornunum sem honum finnst svo góð?

Fylgist með.

Lifið í friði.

ahhhh

Reyndar ekki alveg ah bú, en næstum því. Bæjarferðin var löng og strembin en gekk samt vel, glerkúlan mín hélst heil og inni í henni sönglaði ég blús og var með uppbrettar andans ermar og gekk í málið. Tók m.a.s. ákvarðanir og allt.
Keypti barn handa barninu mínu. Skoðaði fullt af börnum sem segja arrheu eða pissa eða hlæja eða grenja, sum svo ljót að manni er spurn, hver í fjandanum býr þetta til? og önnur svo falleg og í svo fínum fötum að mann langar mest að skipta sínum eigin horlekandi, marblettóttu krógum út fyrir þessi blóð- og hjartalausu undur.
Dóttir mín fær bláeygða (bláeyga?) dóttur, sú eina með brún augu var svertinginn Caramel, ægilega sæt en dýrari en sú með bláu augun! Og mér fannst það eitthvað svo hallærislega gervi open minded að kaupa svart barn.
Drengurinn fær Playmobil og kallinn fær inniskó sem ég kaupi á morgun því ég hikaði eins og bjáni í dag.
En ég er hetja! Og það var nú ekki alveg á búðunum að sjá að dótið væri búið, nóg til í BHV, alla vega.

Ég er í svo miklu jólaskapi að mig langar mest að halda jólin strax í dag.

Lifið í friði.

p.s. ég hélt mér því miður ekki alveg innan eyðslurammans. Er ég þá ekki alveg ekta?

halelúja

Morgninum hef ég eytt í að flakka um veraldarvefinn í heimi leikfanganna. Ég neyðist víst til að fara í dótabúð og kaupa dót fyrir börnin í jólapakkann, það er engin undankomuleið, pakkarnir eru jú áreiðanlega stór ástæða fyrir því að jólabarnið lifir í mér, það væri hræsni að reyna að trúa sjálfri sér um annað.
Og ég verð að rækta upp þetta jólabarn í börnunum því ekki tekur maðurinn minn þátt í þessu standi og fussar helst og sveiar, steinhjartað bærist ekki við fallegar skreytingar eða ilminn af jólatrénu. „Er ekki hægt að slökkva á þessu?“ spurði hann, ekki önuglyndur því það er hann sjaldan, þegar við settumst niður að horfa á 24 sama kvöldið og tréð hafði verið sett upp og fagurlega skreytt af mæðgunum, og ég held ég fari ekki með fleipur, það er eina athugasemdin sem tréð fagra hefur fengið frá honum. Ég verð sem sagt að rækta jólabarnið í afkvæmunum því annars verð ég ein á heimilinu gegn þremur púkum og þá verður erfitt að halda helgisvipnum á fésinu, ljósinu í hjartanu logandi og skipuleggja veislur og útbúa góðan mat með skapið í lagi. Nei, það líst mér ekki á.
Ég er því búin að skoða heilan helling af viðbjóði og nokkuð af vel heppnuðu dóti og held ég hafi fundið það sem ég vil gefa þeim. En eftir samtal við tengdamömmu sem vildi fá hugmyndir frá mér líka, enda er hún hálfhrædd við mig og þorir ekki lengur að gefa gjafir sem fara í taugarnar á mér, er ég komin með hjartslátt, hvað er allt er búið?
Hvað ef allt þetta fólk um allan bæ, fólk sem virðist nú bara hafa það ágætt, miðað við pokamagnið og þrátt fyrir hryllingssögur af kreppunni, er búið að kaupa allt dótið? Verður þá kannski ekkert eftir handa okkur? Verð ég eins og persóna í bíómynd sem lifir einhvern hryllingsdag í leit að ákveðnu dóti?
Ég veit að þessa helgi verður dótið rifið úr búðunum. Það er ekki séns að ég fari með börnin með mér í búðir, enda er ég að fara að kaupa fyrir þau svo það er ekki einu sinni hægt. Kannski á morgun. Sunnudagur í búðum finnst mér ein sú mesta viðurstyggð sem núkapítalisminn hefur fundið upp en líklega verð ég að lúffa. Enda verð ég áreiðanlega með smá verk í hárinu svo það verður kannski bara ágæt leið til að eyða annars hvort eð er ónýtum degi. Eða ég tek séns á að eitt dót hafi dottið úr hillu í látunum og rúllað undir og liggi þar í ryki þar til ég skríð um gólfin og finn það á mánudag. Fylgist með.

Lifið í friði.

uppboð og piparkökur

Já, humm, já. Meira plögg, það er ótrúlega erfitt að vera svona góðhjörtuð.

Það er uppboð hjá EOE (sjá tenglalistanum) tilvalið að kaupa jólagjafir sem styrkja gott málefni.

Og auðvitað eiga allir að eignast a.m.k. tvær piparkökur Framtíðarlandsins, eingöngu 500 krónur, eina sem á að geyma alltaf og aðra til að skreyta að vild og borða svo. Það er til dæmis tilvalið að gefa kökuna í fallegu boxi til geymslu.

Fyndið að fyrir jólagjafatillögur passar orðið tilvalið alveg ógurlega vel. Auglýsingamáttur hvað?

Lifið í friði.

Margrét Frímannsdóttir

Ég get óhikað mælt með ævisögunni um Margréti Frímannsdóttur eftir Þórunni Hrefnu Sigurjónsdóttur, Tótu pönk.
Stelpan frá Stokkseyri fræddi mig heilmikið um pólitíska sögu sem ég hafði ekki fylgst nógu vel með úr mínum fjarska.
Kaflinn um krabbameinið er líka vel heppnaður, aldrei of væminn. Ég hafði ekki hugmynd um að Margrét hefði komið fram sköllótt, það taldist greinilega ekki fréttnæmt í minni fjölskyldu. Ég er mjög hissa en um leið alveg yfir mig ánægð með hana fyrir þetta.
Ég þarf endilega að finna út meira um húsið sem þau hjónin leigðu sér í Vosges-héraðinu, það hljómar spennandi kostur fyrir ferðalanga.
Í Lesbók síðasta laugardags (9. des) birtist svo grein eftir Jón Baldvin Hannibalsson um bókina. Hann hefur ekkert sérstakt út á bókina að setja fyrir utan það sem Margrét ásakar hann sjálfan um í einum kaflanna. Ég veit allt of lítið um það mál til að skipa mér í lið.
Hins vegar er það góður punktur hjá Jóni Baldvini að benda á ofbeldisþáttinn, eineltið sem Margrét lendir í fyrir kyn sitt og prófskírteinaskort. Vonandi vaknar almennileg umræða um það. Helst vona ég að gerendurnir biðjist afsökunar.
En Jón Baldvin fer út á tún þegar hann hnýtir í höfund fyrir að rukka Margréti ekki um framtíðina. Ég næ því alls ekki að manneskja sem segist vera á förum og ætli nú að fylgjast spennt með á hliðarlínunni eigi að skilja eftir sig einhvers konar fyrirmæli fyrir eftirmenn sína. Margrét er einfaldlega ekki nógu hrokafull til að ætlast til þess að hún hafi áfram einhver tögl og haldir þó hún sé að hætta. Og það er einmitt það sem gerir hana að stórmenni.
Ætli megi ekki segja að Jón Baldvin opinberi eigin hroka með þessari athugasemd?

Lifið í friði.

brotabrot

Mér sýnist samyrkjubú/kommúna í Pyrenées-fjöllunum draga að sér eðalfólk. Hvers vegna ekki að prófa í svo sem eins og eitt, tvö ár? Eftir svo sem eitt, tvö ár? Setjast niður og vinna hugmyndavinnuna, hvað hefur hver fram að færa, hvað vill hann/hún gera. Svo leigir maður bara út íbúðina sína, fyllir bíl af húsgögnum og dóti, hendir slatta eða gefur og heldur á vit fjallaloftsins. Ha? Er eitthvað að því?

Í dag ætla ég sannarlega að liggja í símanum því ég hef hvílíkt verið að ýta undan mér ýmsu nauðsynlegu að gera.
Ég SKAL hringja þau í dag. Ég skal! En fyrst ætla ég að fara og reyna að finna lítið jólatré. Fann bara stór tré niðri í búð í gær. Engir Flugbjörgunarsveitarflokkar að selja tré hér.

Ég er í mikilli fýlu út í sjálfa mig vegna getraunar Eyju. Hvað var ég að pæla að fara að tékka á mynd? Ég sá alveg saffranþræðina og átti bara að treysta á eigið innsæi alveg eins og Gunnlaugur skrifaði í stjörnukortið mitt fyrir tuttugu árum.

Í nótt dreymdi mig furðulega drauma um innréttaða skútu með sjónvarpsherbergi sem var með skökku gólfi svo sjónvarpið væri beint í veltingnum. Skútan var í eigu manns og konu sem nú eru víst skilin. En ekki í draumnum. Svo var líka einhvers konar félagsheimili/gistiheimili og þar var maður á svaðalegum leður-reiðbuxum, snjáðum að framan upp að hnjám. Það reyndist vera Málbeinið á leið út að skokka. Í draumnum horfði ég á hann út um gluggga og byrjaði strax að ímynda mér bloggfærslu um buxurnar og fannst ég ægilega hnyttin. Aðrir í draumnum voru vinkonur sem ekki blogga. Ég skálaði við niðurfallið úr Grafarvogi í göróttan(-um?) drykk, gin í greip eða eitthvað álíka.

Hættið að trufla mig.

Lifið í friði.

vírus í excel

Ég held að excel forritið í heilanum á mér sé með vírus. Mér líður mjög undarlega og næ ekki að gera neitt skipulega. Ekkert. Ég er ekki að tala um að fara fram í eldhús og gleyma hvað mig langaði í standandi gapandi við ísskápinn. Ég er ekki að meina þetta venjulega alzheimer light ástand okkar allra. Nei. Bara allt er í móðu, ég er þreytt og rugluð.

Það var brotist inn hjá vinafólki okkar í húsinu á móti í gær. Hún skrapp að ná í börnin í skólann og var í um 40 mínútur í burtu. Þau tóku tölvuna með öllum gögnum síðastliðins mánaðar, m.a. glósum fyrir risapróf sem hún er að fara í núna 15. janúar og auðvitað öllum myndum o.s.frv. Og allt í rúst náttúrulega. Ömurlegt. 2. skiptið á nokkrum mánuðum og alltaf á þessum sama tíma dagsins. Djöfulsins helvítis þjófapakk sem rænir af fólki sem er ekkert sérstaklega ríkt og vinnur hörðum höndum við að kenna litlum börnum og fær skítalaun fyrir. Djöfulsins skítaríkisstjórn sem ræður ekki neitt við neitt og rekur óhæfa skóla sem mega ekki lengur láta sitja eftir heldur gefa tveggja daga frí sem refsingu og helvítis foreldrar sem hafa gefist upp á uppeldi, alltaf of þreytt, æ, hann má núna. Oh, hann er svo óþekkur. Eh, ég bara meika þetta ekki. Djöfull er ég orðin leið á þessum plebbum út um allt og alls staðar.

Nú er spurning hvort maður eigi bara að láta slag standa og stofna kommúnu í Pyrenées-fjöllunum eins og rætt var lengi um í síma á dögunum. Þar eru kindur og birnir sem éta þær. Þar er gras og þar er snjór. Þar er Lourdes. Þar er stutt í ódýrt bús í Andorra. Þar verð ég kannski bráðum. Ertu með?

Lifið í friði.

prinsessur

Vúúú, eitraður og kaldhæðinn, prinsessupistilinn hjá Ármanni.
Þar sem ég geri ráð fyrir að tilheyra prinsessuhópnum hef ég eftirfarandi að segja:
Undanfarið ár eða svo hef ég átt við flösuvandamál að stríða. Það hefur tekið á sálina (viðkvæm), ég er mikið í svörtu (grennandi) og það er ekki gaman að líta í spegil (sem ég geri vitanlega í hvert skipti sem ég get) og sjá axlirnar alsettar hvítum flögum. Eiginlega alveg óþolandi. Ég hef prófað ýmis sjampó og meðferðir sem færustu sérfræðingar mæla með en þetta hefur verið upp og ofan. Greinilegt samband hefur mér þótt milli álagstíma og flösunnar, ef ég er mjög stressuð klæjar mig meira en þegar allt er í rólegheitum.
Á Íslandi hvarf flasan alveg núna, sem og kláði í hársverði. Ég var að vonum ánægð með það en nú er hún komin aftur með öllum aukaverkununum. Það að ég sé að skrifa jólakortin sjötíu neita ég að sé nógu stressandi til að koma af stað flösunni. Ekki er ég heldur í gjafainnkaupastressi, næstum búin með allt því ég skildi þær eftir á Íslandi og við maðurinn minn ætlum ekki að gefa hvoru öðru gjafir þetta árið. Börnin fá eitthvað smotterí og þá er það upptalið og hef ég litlar áhyggjur af því.
Fjárhagurinn er nokkuð bágur en þar sem ég veit að það lagast eins og alltaf nenni ég varla að stressa mig á því. Mér er alveg sama þó ég fái ekki foie gras þessi jólin og get alveg eins eldað kartöflurétt handa þessu hálfanoreksíska liði sem föðurfjölskydla barnanna er.

Á Íslandi fór ég í sund á hverjum degi, ætti ég kannski að þvo mér upp úr klór? Reyndar var mér sagt um daginn að konur ættu að ganga í ljósum fötum eftir fertugt, það dregur víst úr hrukkunum svo kannski er þetta ekkert vandamál, bara henda fatalagernum eins og hann leggur sig og kaupa nýjan?

Lifið í friði.