Sarpur fyrir janúar, 2007

franskan mann á öll heimili

Ég var að frétta af frönskum 19 ára dreng sem kemur til að vinna á Íslandi í mánuð í tengslum við viðskiptanámið í París og vantar herbergi að láni.
Hann er besti vinur hálfíslensks drengs en fjölskylda vinarins á Íslandi hefur ekki aðstöðu fyrir hann (þau eru flest í sveitinni sko). Málið er að hann kemur núna á laugardaginn!
TIlvalið tækifæri til að læra smá frönsku en ekki er ætlast til neins sérstaks utan venjulegra heimilissamskipta. Hann verður í vinnu kl. 9-17 og verður eitthvað með fjölskyldu vinarins á kvöldin um helgar.

Ég þekki til hálfíslenska drengsins og get borið honum afskaplega vel söguna.

Áhugasamir geta sent mér póst.

Lifið í friði.

knowing me

Ég vissi og fann að ég gæti ekki gert neitt af viti fyrr en ég væri búin að laga þetta og VOILA! Gerði það alveg sjálf.
Hér kemur sem sagt viðvörun til allra sem ætla að færa sig:
Farðu fyrst inn í template-ið og taktu afrit af því. Gerðu „Select All“ og „Copy“ og límdu afrit inn í textaskjal sem þú vistar svo.

Þegar þú ert búin að flytja þig getur það sem sagt gerst að íslensku stafirnir brenglast eins og gerðist í listunum mínum. Ég skoðaði þá í template-inu og þar voru þeir brenglaðir. Þá fór ég yfir í textaskjalið mitt og valdi þessa lista alveg frá fyrstu fyrirsögn og niður í síðasta tengil, tók afrit, fór yfir í template og valdi þar allt þetta sama (sem var ruglað) og límdi úr textaskjalinu yfir.
Ef þú skilur þetta ekki, er það ekki vegna heimsku, ég kem ekki alveg orðum að þessu og ætla núna að drífa mig í annað.
Ef þú þarft nánari útskýringar er nóg að biðja um þær.

Lifið öll í friði og spekt.

hjálp hjálp

Ég sé alla tenglana mína brenglaða. Hvað á ég að gera?
Hvernig sérð þú þá?

Hjálpið mér þið sem kunnið svo margt og ég ekki neitt.

Lifið í friði en ekki fyrr en mér hefur verið bjargað.

Handbolti

Þrátt fyrir algert áhugaleysi á handbolta er ég nú farin að kíkja eftir niðurstöðum og bera saman gengi Íslands og Frakklands og ræða þetta við manninn minn.
Mér finnst gaman að fylgjast með bloggurum eins og Kolbrúnu og Elmu sem eru gagnteknar af þessu, þó ég skilji ekki beint þessa ástríðu. Í raun hef ég bara alltaf gaman af fólki sem er ástríðufullt og helst eiga þau að vera nördar (nirðir? nerðir? hvað var aftur íslenska orðið?) Þó ég nái ekki að smitast, smitar gleðin eða tilfinningaþrunginn samt einhvern veginn undarlega út frá sér.

Ég var að færa mig yfir á nýja Blogger (þó ég hefði ekki verið pínd til þess eins og Hildigunnur, bara ákvað að gera það einmitt núna vegna þess að ég hafði í raun ekki tíma til að vera neitt í tölvunni, var að stelast og það eru einmitt kjöraðstæður fyrir mig til að bretta upp ermar og skella mér í hluti sem ég hef látið sitja á hakanum).

Í dag ætla ég að ljúka við tiltekt í barnaherberginu, klára einn meil með verðum, gera tvær ítrekanir, pakka niður fyrir fjögurra manna fjölskyldu sem verður í burtu í fjóra daga, svara vonandi frönskum blaðamönnum sem munu hringja unnvörpum út af bréfstúf sem þau fengu í gærkvöld út af væntanlegum mótmælum við Þjórsá 3. febrúar, hlaða inn myndum og prenta út fyrir restir af áramótakorti, borða eitthvað…

Með þessu öllu saman hlusta ég kannski á Tom Waits, fékk hann í jólagjöf og hef ekki tekið úr plastinu. Og diskurinn sem ég keypti á Íslandi og ætlaði að hlusta vel á og dæma hefur legið hér og safnað ryki, kannski nafni minn Níelsson fari líka undir geislann?

Eða kannski ég leggist upp í rúm með Henning Mankell og pakki svo bara í svitabaði í fyrramálið og láti annað sitja á hakanum áfram?

Veit ekki til hvers ég er að skrifa þetta, langaði bara að prófa að skrifa í nýja bloggernum.

Lifið í friði.

moggafletting

Eftir hraðflettingu á Mogga síðasta laugardags hef ég þetta að segja:

Það er kona í svörtum brúðarkjól á einum stað og maður í hvítum brúgðumafötum á öðrum.

Enn kemur ekkert svar frá leikhúsrýnum eftir frábæra grein í Lesbókinni 6. janúar. Sú grein er eftir konuna sem skapaði og leikstýrði sýningunni Þjóðarsálin í reiðhöll nokkurri fyrr í vetur. Því miður er ég ekki lengur með blaðið þar sem ég vildi dreifa boðskapnum og man hvorki nafn konunnar góðu né reiðhallarinnar.
Þegar ég hóf lesturinn í flugvél á leið til Danmerkur fór fyrst um mig einhvers konar kjánahrollur. Ó, nei. Sár listamaður að svara lélegri gagnrýni. En þessi grein var svo miklu miklu meira en það og gersamlega yfir einhver sárindi hafin. Vel skrifuð og útpæld. Mig langar í þessa grein aftur. Og mig langar að biðja ykkur öll sem hafið snefil af áhuga á einum af eftirtöldum málaflokkum: leiklist, list og tilgangi hennar eða fordómum í garð fatlaðra, að lesa þessa grein. Ég ætlaði að vera búin að benda á þetta fyrir löngu síðan en tíminn rennur mér úr greipum hraðar en hönd á festir (hey, má maður leika sér á fimmtudagsmorgni?).

Lifið í friði.

þoli ekki

dót dót dót
mig langar svo að taka herbergi barna minna og tæma það af dóti og drasli en samt get ég það ekki því stundum leika þau með eitt og annað tími einhvern veginn eða kann ekki við að taka frá þeim
best fannst mér um daginn þegar dóttir mín tilkynnti mér að hún ætlaði að búa til súkkulaðiköku og tók legóplastdunkinn sinn einn hest nokkra kubba eitthvað af öðru dóti og hristi dunkinn vel og vandlega og færði mér svo disk ég sagði namminamm og allir voru ánægðir til hvers er verið að búa til leikföng sem líta út alveg eins og alvörudót þegar maður er barn þarf maður ekkert annað en ímyndunaraflið
til hvers að tala um þetta þið vitið þetta öll
bara varð að fá það á tilfinninguna að ég væri að tala við fullorðna
ég á eftir að setja upp dagsrká með verðum fyrir tvo hópa sem bíða eftir bréfum frá mér en það er ekki smuga að gera slíkt með þrjú börn yfir sér verkfall í skólanum svo bæði mín heima plús vinkonan á móti

Lifið í friði.

Ísland-Frakkland

Nei, ég horfði ekki á handboltann. Það hefur áður komið fram hérna að áhugi minn á íþróttum er, á skalanum núll til tíu, sirkabát í núlli. En ég óska nú samt Íslendingum til hamingju með sigurinn í gær og bravó fyrir að halda ykkur innan við tólf marka sigurinn til að tryggja ykkur forskot í næsta riðli (er það ekki rétta orðið annars?). Já, ég get alveg endurtekið þetta hérna eftir nokkur símtöl frá sigurvímaðri fjölskyldunni sem horfði vitanlega á leikinn í gær þó ég skilji alls ekki þessar flóknu reglur né langi til þess að skilja þær.
Það hefur líka komið fram hér áður að stundum, í gamla daga, þegar ég horfði á móður mína, föður og systur stökkva samtaka upp úr sófanum og klappa og öskra, þar sem ég stóð í dyragættinni með tja, til dæmis stærðfræðibókina í hendi, íhugaði ég alvarlega möguleikana á því að kannski væri ég ættleidd.

En ekki nóg með að Íslendingar rústi Frökkum í handbolta einhvers staðar í Þýskalandi, einhverra hluta vegna hafa þeir fundið sig knúna til þess að senda okkur ískalt loft í nótt, hitastigið hrundi úr þægilegu rúmlega tíu gráðunum niður í núllpúnktinn og rokið sem skók húsið að utan í nótt vakti mig nokkrum sinnum. Takk fyrir það.
Ég get ekki annað en spurt mig að því hvort þetta hafi eitthvað með Nicolas Hulot að gera. Hann tilkynnti í gær að hann ætlar ekki að bjóða sig fram í forsetaembættið (og varpa nokkrir öndinni léttar yfir því, allt of vinsæll fyrir þetta pólitíkusapakk sem ætti varla séns í hann) en er hins vegar alsæll með hve margir frambjóðendur skrifuðu undir umhverfissáttmála hans og lofar hann að fylgjast vel með kosningabaráttunni í vor og vekja samstundis þá kandídata sem honum finnst sofna á verðinum, sem gleyma umhvefisþættinum eða koma með loforð sem standast ekki sáttmálann. Ó, ef Ísland ætti svona Nicolas Hulot, ha? já, alveg rétt, við eigum jú Ómar Ragnarsson og vonandi verður hann jafnharður áfram og hann hefur verið hingað til. Það er alveg hægt að líkja þeim saman, vinsælir sjónvarpsmenn sem þekkja fullt af pólitíkusum, brennandi áhugi á umhverfismálum.
Ef þú hefur ekki græna glóru um hvað ég er að tala þýðir það að þú ert ekki skráð(ur) á póstlista Framtíðarlandsins. Það er hreinasta firra, nýja fyrirkomulagið þeirra er flott og gaman að fá 2. tölublað í pósthólfið í gær. Flottar myndir af Steinunni Sigurðardóttur í Frakklandi og fínar greinar og alls ekki of mikið.
Skyldi íslenska ríkisstjórnin vera hrædd við Nicolas, nógu hrædd til að refsa Frökkum svona svakalega með sigri í handbolta og ískulda sem kemur og truflar vorlegan veturinn okkar?

Og undarleg tilviljun er líka að daginn fyrir þetta kuldakast (ég get sagt ykkur það að á morgun er spáð snjókomu) deyr maðurinn sem „REYNDI AÐ ELSKA“, Abbé Pierre. Hann sagði í viðtali fyrir nokkrum árum að hann vildi fá þessi orð á legsteininn: „Hann reyndi að elska“. Abbé Pierre var ungur munkur sem yfirgaf regluna í harða kuldakastinu vetrinn 1954 til að bjarga heimilislausum frá dauða á götum Parísar. Hann stofnaði Emmaüs, sterk og mikil hjálparsamtök sem hafa barist með kjafti – Abbé Pierre leit út fyrir að vera hinn blíðasti, en gat sko látið það vaða þegar honum misbauð – og klóm fyrir réttindum fátækra og heimilislausra. Abbé Pierre er einn af þessum mönnum sem sýna skýrt að ekki gerir trúin fólk alltaf að einhverjum skrýmslum eins og trúlausir vilja sífellt vera láta og beita fyrir sér geðsjúklingum og valdafíklum því til sönnunar.
Ég grét ekki þegar ég heyrði af andláti Abbé Pierre, hann var saddur lífdaga og getur ekki hafa verið annað en ánægður með verk sín hér á jörð. Hins vegar fór ég næstum því að grenja af reiði þegar ég sá helvítis félagsmálaráðherra sitja með hræsnissvip, kipra munninn eins og hann væri klökkur og spyrja sig hvort hann hefði kannski getað gert meira fyrir þennan langmest elskaða Frakka okkar tíma. Ég gæti ælt þegar þetta jakkafatalið vogar sér svona lýðskrum, sitjandi í sínum ofurlaunuðu stöðum með börnin í einkaskólum, lið sem borgar hvorki glæsihúsnæði sitt né skatta. Gubb.

Lifið í friði.

kvennakvöldið

Á laugardaginn hittumst við konurnar íslensku í Frakklandi enn og aftur og fórum saman út að borða. Við vorum 47 talsins og efa ég ekki að stundum fór hávaðinn vel yfir hættumörk á veitingastaðnum. Við vöktum líka enga smáræðis athygli þegar við gengum út í einfaldri röð, fólkið í fremri salnum trúði ekki sínum eigin augum, hvílíkur fjöldi fagurra kvenna hefur sjaldan sést samankominn. Eftir matinn fórum við allar heim til eðalparísardömu og drukkum kampavín.

Mikið hefur verið rætt um það hvort við ættum að hleypa körlunum með okkur. Ég hef í sjálfu sér aldrei haft neitt á móti því, en ég veit að það mun breyta andrúmsloftinu aðeins. Það er allt öðruvísi stemning í blönduðum hópum.
Eiginlega er ekki hægt að bjóða mökum með, hugmyndin upprunalega var að geta einu sinni, eitt kvöld, hist og talað saman í friði á íslensku. Ef franskir makar koma með verður það vonlaust. Í raun og veru eru þessi kvöld ákveðið frí frá því að vera útlendingur, við þurfum náttúrulega að eiga við þjónustufólkið á staðnum en burtséð frá því líður okkur öllum eins og við séum bara komnar heim.

Í menntaskóla umgekkst ég aðallega stráka, vinahópurinn minn fasti og þröngi var fjórir strákar og ég. Ég man alltaf að mæður þeirra spurðu þá stundum hvort ég ætti enga vinkonu, þær höfðu einhverjar áhyggjur af mér í þessum karlahópi. Ég man líka að ég heyrði sögur um það að ég væri kærasta þeirra allra og fannst okkur það svo fyndið að lengi var ég kölluð dráttarvélin.
Ég held að mér hafi ekkert orðið meint af þessu tímabili, síður en svo. Ég tel mig skilja karlmenn ágætlega og hef oft fussað yfir hæfni kvenna til að gera aðeins of mikið úr hlutunum, kann ágætlega við karlmennskulegan áhuga (lesist: algert áhugaleysi) á afmælisdögum og heimboðum sem þarf að endurgjalda og fleira í þeim dúr. Ég get stundum geispað golunni yfir fjasi vinkvenna minna um hegðun og skyldur og hver sagði hverjum hvað fyrst.
En ég á samt góðar vinkonur sem ég kynntist m.a. í menntaskólanum og jafnvel fyrr og svo hef ég náttúrulega kynnst ógrynni af konum hér í París, sem ég tel svo góða vini að ég myndi vaða eld og brennistein fyrir þær.
Ég held í raun að ég hafi aldrei pælt neitt sérstaklega í kynjamismun og fyrir mér er þetta afskaplega lítið mál allt saman. Ég held að ég hafi ákveðið KVENNAkvöld eingöngu vegna þess að það eru svo hrikalega fáir karlmenn hérna og eins og kona góð benti á í sambandi við þetta, það er allsendis óvíst að þeir myndu nenna að koma þó þeim væri boðið.
Sú kona stakk upp á því að hægt væri að hafa barhitting fyrir alla einu sinni á ári en halda kvennakvöldinu óbreyttu. Það gæti bara meira en verið að í haust verði öll Íslendinganýlendan boðuð öll saman út á lífið. Þarf samt aðeins að hugsa þetta betur og auðvitað er fáránlegt að vera að spá í þetta núna meðan ég er enn örmagna eftir laugardagskvöldið, jesús maría jósep, ég var að til klukkan fimm um morguninn!

Lifið í friði.

lesist

Þetta er áhugaverð grein

Til hamingju með nýja vefinn.

Og Grasagudda (nenni ekki fleiri tenglum) er líka þrælfínn vefur, lifandi og skemmtilegur.

Lifið í friði.

Mikki, kemurðu aldrei aftur?

Mér leiðast Bloglines, ég vil Mikka vef aftur. Núna!

Lifið í friði.


Nýlegar athugasemdir

parisardaman um Kveðja
Margrét H um Kveðja
koparskál um Tau frá Tógó
Elín Kjartansdóttir um rafmögnuð kona
juliann um agnetha