Sarpur fyrir mars, 2007

klukkan er níu

Klukkan er níu að morgni laugardags. Ég kom heim rúmlega eitt í nótt. Lögðum af stað fjögur upp úr ellefu, týnd einhvers staðar í innviðum hins ógurlega 16. hverfis Parísar, en þar býr fína fólkið. Þar sem enginn leigubíll var sjáanlegur stukkum við upp í strætisvagn sem var að fara í sömu átt og við gengum, í góðri trú um að við værum að ganga í rétta átt. Eftir nokkrar stoppistöðvar var hins vegar ljóst að við vorum á leið út úr borginni, í þveröfuga átt við það sem við vildum. Þá var stokkið út úr vagninum (ekki á ferð) og reyndumst við vera fyrir framan einhvern ægilega IN bar, þennan nýjasta í bænum. Stórir og flottir dyraverðir stóðu fyrir utan og glitti í mikið fjör fyrir innan. Okkur fannst ekki úr vegi að kíkja þangað í einn drykk, búumst ekki við að eiga leið um þessar slóðir næstu mánuðina og tilvalið að geta nú slett kæruleysislega fram í næstu partýum: „Já, TSE á Porte d’Auteuil, jú jú, alveg ágætur staður, frekar flott fólk og kúl stemning. Tónlistin dálítið hávær en góð. Kokkteilarnir dýrir en smart frambornir með jasmínublómi fljótandi ofan á. Alvöru rommbragð af Daiquiri. Get svo sem alveg mælt með honum.“
Fólk mun horfa á okkur í forundran: „Vá, hvað þið eruð lífsreynd.“

En klukkan er nú ellefu mínútur gengin í tíu, þessi skrif tóku svipaðan tíma og dráttur hjá hóru samkvæmt Paulo Coelho. Og nú er líklega tími kominn til að fara að pota fötum í tösku og loka. Panta leigubílinn (sjúkraþjálfarinn bannaði mér að fara með töskuna í metró upp á völl) og kveðja kall og börn. Matur hjá mömmu í kvöld. Ég hlakka til.

Lifið í friði.

tölvunerðirnir á Njálsgötunni

Ég er búin að opna wordpress síðu og mun líklega flytja mig héðan á næstu dögum. Ég sagði engum frá því en tölvunerðirnir á Njálsgötunni eru bæði búin að bjóða mig velkomna! Og Hildigunnur aka Corleone er farin að segja mér fyrir verkum þar.

Annars er þetta einmitt eitthvað sem ég geri þegar ég á að vera að leita að upplýsingum um Frakkland. Í dag hef ég þefað uppi tölur og staðreyndir til að skreyta fyrirlesturinn, hann var orðinn einum of væminn, ég bætti inn hvílíkum prósentutölum um fólksfjölda, skiptingu atvinnugreina og þéttingu byggðar að fólk á eftir að flýja æpandi út úr salnum og beint á næsta bar. Sem er einmitt mjög hentugt, mér finnst gaman á bar svo ég elti þau bara þangað.

Svo gelti ég.

Lifið í friði.

bitur

Í gær var ég spurð hvers vegna ég væri svona bitur. Ég varð hálfhvumsa, ég tel mig ekki bitra. Ég er stundum ægilega reið út af óréttlætinu, launaþrælkuninni, endalausri rangri forgangsröð og frumskógarlögmálum. Ég er stundum pirruð út af því að mér finnst bæði ég sjálf og fólkið í kringum mig vera syndandi um í þessari óáran án þess að gera neitt í málunum, mér finnst að við eigum að vera að gera eitthvað en ég veit bara ekki hvað.
Og svo sér maður svona:
skoðaðu myndbandið

er nema von að við séum ráðalaus?

Lifið í friði.

umhugsun

Eftir langa umhugsun hef ég ákveðið að á netsíðunni minni verður talað um nörð og nerði. Ekki það að ég sé að vinna nokkuð í narðarkaflanum núna en það er alveg dæmigert fyrir mig að vera að hugsa um annað en það sem ég á að vera að einbeita mér að. Ef þú ert nörður máttu deila þínu áhugasviði með mér, hver veit nema það komi kafli fyrir þig á síðuna. Það hefur áður komið fram að ég fíla nirði í botn og er í fullkominni sátt við eigin njarðareinkenni. Nerðir eru alls ekki lúðar, bara svo það sé á hreinu. Nörðum þykir alls ekki gaman að vera ruglað saman við Barnalandslúða eða Moggabloggarabjána (he he, bara varð). Nú er ég búin að koma öllum föllum orðsins að nema einu. Hvaða fall skyldi það nú vera? En þetta með nerðir/nirðir er helvíti erfitt. Ef ég væri Málbein, væri ég búin að hýða mig nokkrum sinnum fyrir villu. Ætti ég að merkja þessa færslu sem fall (þriðji valmöguleikinn í hugmyndum blogspot)? Nei, ég held ég merki þetta þeim fyrsta, scooters. Mér finnst það eiga betur við.

Fyrirlesturinn finnst mér núna alveg hrottalega leiðinlegur, þurr og gagnslaus. Ég held að það sé nokkuð eðlilegt, ég hef verið að grufla í þessu í rúma viku og gert lítið annað enda má ég ekki mikið hreyfa mig. Þrátt fyrir annir og veikt hné ætla ég út í kvöld, stundum er bara of mikilvægt fólk á ferð um borgina sem maður verður að heiðra með nærveru sinni. En ég fæ bílfar niður í bæ og ef ég verð lengur en bílstjórinn, sem er með ennþá verra hné en ég, fer ég bara heim í leigubíl.

Ég hlakka til að komast aðeins út, ég er orðin næstum jafnleið á íbúðinni minni og á fyrirlestrinum. Og reyndar nett leið á sjálfri mér líka, eins og þessi pistill hlýtur að sýna.

Lifið í friði.

stundum

Stundum er nóg að leggjast í slakandi bað og allt í einu er það deginum ljósara í hvað þú ætlar að fara í kvöld.

Lifið í friði.

álfur, ekki mennsk

Í foreldraflórunni á leikskólanum er þessi manneskja: litla feita unga mamman sem alltaf rífst hæst yfir öllu, er alltaf mætt löngu áður en opnar (ég hef lent í því einu sinni fyrir smá misskilning, þess vegna veit ég það) og er svo aldrei farin fyrr en hurðinni er læst, ég er oftar þarna í síðara lagi og alltaf stendur hún þarna fyrir utan, sjálfumglöð með nýjasta barnið í kerrunni, malandi og vælandi, hún, ekki barnið. Kannski bíður hún líka til að sjá hverjir koma of seint og reyna bljúgir að kría út inngöngu og fá skammir frá skólastýrunni, ekki yrði ég hissa.
Þessi kona fer ógnar mikið í taugarnar á mér og hefur gert það frá því ég sá hana fyrst. Í morgun var mikið um að vera í skólanum, kennari veikur og enginn til að leysa af. Foreldrar beðin um að taka börnin heim. Allir ægilega reiðir, fólk glennti upp augun, hnussaði, horfði á óræðan punkt í loftinu og þrumaði athugasemdir um lélega þjónustu, tilætlunarsemi bæjarfélagsins og þar fram eftir götunum. Það er náttúrulega ekki hægt að þruma yfir vesalings illa launuðu konunum sem skeina og mata börnin okkar alla daga en skilaboð um óánægju þurfa samt að komast út. Litla feita stóð þarna á sínum stað fyrir utan og sárhneykslaðist með öðrum mæðrum.
Það rann upp fyrir mér ljós. Barnaland er alls ekki séríslenskt fyrirbrigði, það er til í ýmsum myndum á mörgum stöðum. Mér finnst það óþægileg staðreynd.

Lifið í friði.

Frakkland – ferðamannaland

Ég á sem betur fer að tala um það sem mér er hugleikið í fyrirlestrinum, þetta ferðaráðstefna í tengslum við Pourquoi Pas – franska menningarvorið (sjá tengil hér til hliðar einhvers staðar). Ég mæti og mæri Frakkland.
Ég er búin að sitja dag eftir dag með mitt beyglaða hné við tölvuna og lesa um Frakkland, skoða ferðamöguleika og ég get sagt ykkur það í óspurðum fréttum að ég held að Frakkland hljóti að vera eitt af bestu löndum í heiminum. Á köflum hætti ég næstum því að hata peninga (þetta er vísun í frétt um útskýringar kennara hjá HR á því hvers vegna konur græða minna en karlar) og langar frekar að verða ríkur forstjóri risafyrirtækisins Parísardaman (í stað krúttfyrirbærisins sem hún er í dag) sem getur boðið fjölskyldunni upp á alls kyns spennandi frí, á bátum, á hjólum, í kastölum uppi á fjallstindum, í gljúfrum eða skógum.

Ég vildi óska að ég gæti sagt ykkur að ég yrði niðri í bæ eitthvert kvöldið og hvar og gert blogghitting en ég veit ekki alveg hvernig hnéð á mér verður svo ég þori ekki að lofa neinu strax. Ég verð samt í rafleikfimi og hnykkingum hjá sjúkraþjálfara fram að helgi svo kannski verð ég skrallfær, en kannski verð ég bara heima hjá mömmu að prjóna.

Lifið í friði.

tiltekt

Ég lagaði nokkra bloggtengla, Hildigunnur er komin á WordPress og fólkið sem þrjóskast við að vera á moggablogginu fær nú tengil þangað hjá mér (fordómaleysi mínu og umburðalyndi eru engin takmörk sett), láttu mig vita ef ég gleymdi þér. Svo bætti ég Skruddu og Stefáni Arasyni sem er að koma með Stöku til Parísar bráðum, við.

Ég hvet ykkur til að lesa pistilinn hans Davíðs (sjá tenglalista) um lygarnar sem berast frá Straumsvík. Og vitanlega hvet ég ykkur til að mæta á fundinn í Hafnarfirði á morgun og auðvitað að drífa ykkur í að skrifa undir sáttmálann (sjá nánar hjá Framtíðarlandinu, tengill undir Móðir jörð).

En undirbúningur fyrirlestursins sækist seint og kemur í veg fyrir almennar pælingar og gáfulega pistla um það og hitt.
Ég var mjög hissa á litlum undirtektum eftir síðustu færslu, takk Baun, skilur enginn að ég er að koma til Íslands? Þarf að tyggja allt ofan í ykkur?

Lifið í friði.

málið

Nú hlýtur málið að vera að rífa sig upp úr slappleika og veikindum.
Allt of mikið að gera til að leyfa sér þetta áfram.

Fyrst sem ég auglýsingu sem þarf að faxa í dag svo sem ég fyrirlestur sem ég ætla að flytja á mánudaginn kemur í öðru landi en samt mínu landi.

Lifið í friði.

norsk fyndni

Fyrirsögnin er tengill sem hjálpar okkur við að hverfa frá hugsunum um börn sem send eru í burtu frá velmegunarþjóðfélögunum. Ekki það að við eigum að gleyma því, síður en svo. En það er líka hollt að hlæja.

Lifið í friði.


Nýlegar athugasemdir

parisardaman um Kveðja
Margrét H um Kveðja
koparskál um Tau frá Tógó
Elín Kjartansdóttir um rafmögnuð kona
juliann um agnetha