Sarpur fyrir apríl, 2007

ekki hlýða manninum sínum daglega

Í gær ráðlagði Arnaud mér að kaupa helgarmiða í Versali því ég sá á netinu að verð hafði hækkað. Ég var mjög ánægð með að hafa ekki tekið neina áhættu, hef aldrei vitað aðra eins mannmergð og var þar í gær. Við flugum inn framhjá röðinni.

Síðar þann dag fór að rigna í fyrsta sinn eftir sól og hita síðustu vikna. Ég hafði gripið regnstakkinn minn með, aftur að ráði mannsins míns.

Það borgar sig að hlýða. Stundum.

Í morgun fórum við svo á boðaðan fund hjá bankaráðgjafafjármálafulltrúaaðilanum okkar. Ég nennti ekki að fara, taldi okkur ekki eiga neitt erindi við hann, enda höfum við hvorki unnið í lottó né stofnað til skulda, við tjillum bara þarna í kringum núllpúnktinn, jú, víst erum við búin að fá 8 evrur í vexti af þessum sparireikningi sem á að tryggja okkur rólegt ævikvöld (þ.e.a.s. það verða vín og villtir piltar, bara rólegt fjárhagslega sko).
Ég hlýddi manninum mínum og kom með.
Ráðgjafinn, sem er besta skinn, rauðhærður og fer fitnandi, heitir M. Viking og man alltaf eftir því að ég er íslensk og að Arnaud selur bækur, hafði nákvæmlega ekkert við okkur að tala. Þetta eru markaðsblöffarar sem hringja og láta mann samþykkja tíma, krakkarnir þar fá kannski prósentur af öllum stefnumótum sem þeim tekst að narra fólk á. En þó við hefðum ekkert að ræða tókst honum samt að halda okkur í 40 stiga heitri skrifstofunni sinni með vælandi viftu og másandi tölvu (hver þolir PC?) í rúm þrjú korter.

Það borgar sig ekki að hlýða. Stundum.

Lifið í friði.

Leitað að brúðhjónum

Ung frönsk kona sem er að skrifa doktorsritgerð um fiskveiðistjórnun á Íslandi hefur fengið aukavinnu fyrir einhvers konar Þjóðminjasafn í Marseille sem ætlar að halda sýningu um evrópskar brúðkaupshefðir. Hún þarf því að finna verðandi brúðhjón sem ætla að gifta sig milli 15. júní og loka september. Það má vera hefðbundið eða óhefðbundið brúðkaup en þarf þó að vera lúterskt, haldið hvar sem er á landinu og brúðhjónin mega vera á hvaða aldri sem er. Það eina sem þau þurfa að samþykkja er að veita viðtal við konuna um veisluvenjur og kirkjuvenjur á Íslandi, sem og einhverjir fleiri í kringum þau, ættingjar, veislustjórar, svaramenn… Svo þarf hún að fá að vera viðstödd sjálfa athöfnina og veisluna með myndavél en lofar að láta brúðhjónin og gesti samt alveg í friði.
Þessi kona talar íslensku og er afskaplega geðug og klár að mínu mati.

Ég get komið skilaboðum á framfæri. Setjið ábendingar í athugasemdakerfið eða sendið mér póst, meilið mitt á að sjást hérna einhvers staðar og sést þá a.m.k. á http://www.parisardaman.com

Lifið í friði.

Mánudagur ekki til mæðu

Í dag ætla ég nákvæmlega eingöngu að gera hluti sem ég ÞARF að gera:

Fara á fund með einhverju fjármálahálfvita í banka mannsins míns (maðurinn minn er að pína mig í þetta og þar sem það reyndist svo farsælt að hlýða honum í gær mun ég halda því áfram í dag).

Senda tölvupósta til nokkurra viðskiptalega mikilvægra manna sem ég hef trassað að gera í allt of langan tíma.

Renna hægt og rólega í gegnum tölvupósta síðustu vikna til að athuga hvort ég hafi skilið einhver bréf eftir ósvöruð. Henda þá í leiðinni út bréfum sem ekki þarf að geyma.

Reyna að ná í mann sem á lítið sveitagistiheimili rétt fyrir utan París. Hvað er þetta með fólk sem svarar ekki í síma dögum saman?

Hringja í vinkonu sem bað um að ég hringdi í hana í gær en ég datt niður sofandi ofan í kvöldmatinn svo ekkert varð úr símtölum.

Fylla út nokkur eyðublöð fyrir sjúkratryggingarnar, ég hef nýlega þróað í mér eyðublaðafælni, líklega of langt síðan ég vann hjá Fóstri og Slíma og las úr illa útfylltum eyðublöðum daginn út og daginn inn milli þess sem ég hlustaði á fólk skammast yfir lélegu fyrirtæki eða drakk ódrekkandi kaffi og hlustaði á tuðið í samstarfsfélögum og tuðaði svo sjálf.

Önnur verkefni væru að kaupa vask á baðið ásamt mubblu undir hann. En það verður að bíða betri tíma.
Ég er örþreytt eftir hlaup og læti síðustu vikna. Mér er illt í hnénu.

Mig langar ógurlega til að elda góðan mat í kvöld. Skera niður slatta af grænmeti og hakka hvítlauk. Hugmyndir? Rétturinn verður að ilma vel.

Segó vinnur. Segó er miklu fallegri en Sarkó, er það ekki alltaf kostur í svona kosningabaráttu?

Lifið í friði.

jiminn

hvað hún á sko eftir að sigra þessar kosningar. Rétt vika núna í þær. Ségolène Royal, forseti Frakklands.

Lifið í friði.

veður

Var ég búin að segja ykkur að veðrið heldur áfram að vera frábært? Nei, en ég er þá alla vega búin að því núna. Það eru flogið svo til daglega hingað í tæpar 30 gráðurnar og sólskinið. Drífa sig.
Reyndar er ég ansi hrædd um að nú þurfi að fá smá skúr ef flóran á að lifa áfram.
Bílstjórabrúnkan hefur alveg lagast og fallegi gulbrúni liturinn dreifist nú nokkuð jafn á handleggi, andlit og háls. Fæturnir halda áfram að vera hvítir eitthvað áfram, til að ná lit á þá þarf ég að liggja í sólbaði og maka smjöri á húðina. Og það dettur mér ekki í hug að gera. Knútur Björnsson sem saumaði einu sinni húð á mig sagði að það væru eingöngu apaheilar sem gerðu húð sinni það að liggja í sólbaði. Ég er ekki apaheili. Ónei.

Lífið er fallegt og Ségolène sigrar í forsetakosningunum eftir rúma viku. Ójá.

Lifið í friði.

á ég?

Á ég að vera stolt af sögu Íslands? Mér finnst ég bara algerlega hafa eigið val um það. Mér líður alls ekki eins og ég þurfi að vera mjög stolt af fortíðinni. Hvað með Drekkingarhyl?
Jú, jú, ég er stolt af sumu og þakka oft fyrir það að koma frá litlu krúttlandi í fjarska. Mér finnst í raun leiðtt hvað við rembumst við að hætta að vera krútt, hvað okkur langar að verða stór. Íraksstríðsstuðningur er allt of mikið ókrútt fyrir minn smekk. Er ég vondur Íslendingur vegna þess að ég er á móti núverandi ríkisstjórnarstefnu í flestum, ef ekki öllum, málum? Nútímasagan er bara ekki að gera það fyrir mig. Er ég þá andíslensk?

Og hvaða fjandans vesen er þetta svo á ÞJÓÐkirkjunni? Ef ég væri ekki löngu búin að því myndi ég finna mig knúna til að segja mig úr henni. Er ekki kominn tími á aðskilnað ríkis og kirkju þarna uppi á krúttlandi?

Ségolène verður áreiðanlega næsti forseti Frakklands. Hún burstar ekki Sarkó en hún mer út sigurinn.

Lifið í friði.

vondi kallinn

Sarkó var í sjónvarpinu mínu í kvöld að segja að hann hefði ekkert á móti innflytjendum. Bara innflytjendum sem kunna ekki frönsku og eru ekki stoltir af sögu Frakklands.

Segó verður næsti forsetinn okkar. Það er engin spurning. La Générale Royale.

Lifið í friði.

bara rétt að minna á

Ségolène verður næsti forseti Frakklands.

Lifið í friði.

það var fleira

sem mig langaði til að setja hingað inn en ekkert kemur

allt hringsnýst í mínum fagra kolli

ég þarf endilega að smala

fólki í kampavín ef konan slær karlinn út í næstu umferð ekki bara því hún er kona heldur líka vegna þess að hún er þrátt fyrir allt sósíalisti og að með henni mun koma flokkur fólks í Elysée-höllina sem ráðgjafar og talsmenn og það fólk er líka sósíalistar

Það hlýtur að vera betra að fá sósíalista þó hann sé svolítið frjálslyndur fyrir annarra sósíalista smekk heldur en að fá Sarkozy með sína drauma um að henda rumpulýðnum sem truflar hann við að maka eigin krók, úr landi.

En svo er líka eitthvað unaðslega skemmtilegt við að ímynda sér forsetann hér sem konu. Madame la Présidente? Madame le Président? La générale Royale?

Ef ég skrifa þetta á síðuna mína á hverjum degi í tvær vikur, haldið þið að það auki líkurnar á sigri hennar?

Annars er ég búin að eyða svo til öllum tímanum síðasta færsla var skrifuð í blogglestur. Mikið sem ég hafði dregist aftur úr. Skemmtilegur rúntur og tel ég kvöldinu betur varið en að horfa á frambjóðendur eða talsmenn frambjóðenda eða stjórnmálafræðinga segja ekki neitt í míkrófóna. Veit líka að á morgun get ég horft á zapping og séð hápunkta ef einhverjir voru.

Af hverju skrifaði ég fyrst hápúnkta?

Við blogglesturinn rifjaðist upp fyrir mér í gegnum pælingar hjá Hryssu að einhvern tímann ætlaði ég að halda stóra brúðkaupsveislu. Það var reyndar áður en ég kynntist manninum mínum en ég var sem sagt að láta mig dreyma um stórt brúðkaup með risaveislu.
Svo fór ég að spá í það að ég myndi ekki geta boðið öllum sem ég myndi samt ætlast til að kæmu í jarðaförina mína eða þið skiljið hvað ég meina, ég ætlast ekki til eins né neins af einum né neinum heldur frekar ímynda ég mér að þessi eða hinn kæmi í jarðaförina mína létist ég fyrir aldur fram frá ungum börnum og eiginmanni. Mér varð einhvern veginn svo um og ó við þessa tilhugsun að brúðkaupið mitt endaði með að fara fram næstum því í kyrrþey.
Ég hef ekki gert erfðaskrá þannig að ég hef ekki enn óskað eftir jarðaför í kyrrþey enda vil ég að fólk safnist saman, að það verði umferðarhnútar og kannski brjótist út einhvers konar brjálæði í líkingu við það sem gerðist þegar Zola (eða var það Hugo? viðbætur að morgni: Já, það var víst Victor Hugo) dó en þá trylltist París, fólk gerðist ofurölvi og vændiskonur gáfu drætti hægri vinstri.
Nú eða þá að útförin mín verði með konunglegu og afskaplega hátíðlegu og langdregnu ívafi og verði sjónvarpað beint og öryrkjarnir sitji með viskustykki í stað vasaklúta horfandi á.

Svo vil ég koma því á framfæri eftir lestur Reykvískrar sápuóperudrottningar að ég sæti ávallt færis á að gefa bílastæðamiða sem á tíma eftir, að brosa framan í manneskju sem virðist sérlega grá og guggin, að róa barn sem grenjar með því að gretta mig til þess í laumi, að gefa metrómiðann minn sem gildir í tvo tíma ef ég sé einhvern stökkva yfir hliðið þegar ég er á leið út, að gefa fólki skiptimynt í búðinni þegar kassadaman er í vandræðum með að gefa til baka og bara alls konar svona litla greiða og ég trúi því statt og stöðugt að ég fái þetta til baka í einhverju formi og ég fæ alveg hrikalega, HRIKALEGA mikið kikk út úr svona góðverkum þó smá séu. Stærðin skiptir nefninlega ekki alltaf máli.

Lifið í friði.

Sego-Sarko

Helvítis fauskurinn fékk 29,6 prósent núna í fyrstu tölum, Segolène 25,1. Nú þarf hún að taka á honum stóra sínum. Kannski er einmitt bara ágætt að hann fái svona miklu betri tölur en hún, þá brjóta þeir sem finnst hún ekki nægilega langt til vinstri kannski odd af oflæti sínu og mæta á kjörstað til að koma a.m.k. í veg fyrir að ríkið fari of langt til hægri.
Þess er skemmst að minnast að þegar Chiraq fagnaði sigri sínum gegn Le Pen fyrir fimm árum, voru það helst krakkar af arabískum uppruna sem hylltu hann á Place de la République. Það sést vel í upptökum að konan hans vissi ekki alveg hvernig hún átti að vera í framan.

Lifið í friði.


Nýlegar athugasemdir

parisardaman um Kveðja
Margrét H um Kveðja
koparskál um Tau frá Tógó
Elín Kjartansdóttir um rafmögnuð kona
juliann um agnetha