Sarpur fyrir maí, 2007

Það er sífellt minnst á París í Víðsjá í fyrradag og svo aftur í gær.
Merkilegt.

Ég er svo þreytt en næ ekki að sofa. Ég get ekki lengur hvílt mig á daginn.
En kemst ekki út heldur því ég sit og bíð eftir að karlmaður hringi í mig. Ekki af því ég þarf hans hjálp, heldur einmitt þarf hann mína hjálp og ég lofaði að vera til taks. Hefði átt að gefa farsímann minn, næstum viss um að hann hringir ekki í dag. Karlar eru óáreiðanlegir í svona hringja seinna í dag – málum. Kannski konur líka. Veit það ekki og er eiginlega kannski bara sama.

Og svo get ég ekki unnið heldur af því ég er þreytt. Tölvupóstar bíða svara, veggur bíður pússningar, gluggar krefjast þrifa en ég ligg yfir gömlum útvarpsþáttum. Gömlum. Ja, sólarhringsgömlum næstum því.
Eiríkur beygði nafn Sartre. „Hvernig finnst þér boðskapur Sartr(e)s núna?“

Góð vinkona mín er sorgmædd. Ég henti sígarettum til hennar út um gluggann. Hún vildi bara þær, ekki mig. Ég hefði svikið símasvikarann fyrir hana en maður getur aldrei pínt fólk til að gráta á öxl manns, bara sagt að öxlin sé þarna.

Lifið í friði.

alsæla

Tónleikarnir í gær voru vitanlega frábærir. Við komum allt of seint, fyrst var rútan föst í umferð svo vorum við fastar í umferð með rútunni og svo lenti rútan í árekstri. En sem betur fer er þetta svo meðvitaður hópur um eigin hrakföll að þær voru tilbúnar og uppáklæddar og gátu byrjað með eingöngu tíu mínútna seinkun. Slatti af Íslendingum og Íslandsvinum voru mætt til að hlusta. Tengdapabbi lét sig ekki vanta frekar en fyrri daginn. Fullt af túristum sátu og hlustuðu allan tímann, sumir komu og hlustuðu á eitt til tvö lög, allir virtust hrifnir.
Ég þurfti að berjast við tárin allan tímann, bæði fallegur söngur og falleg ljóð og svo bara sú staðreynd að hafa komið kór inn í þessa kirkju. Nú vil ég fá Stöku aftur, þau eiga líka að komast þangað inn.
Restin af deginum var líka fín, boð í bústað sendiherra, stutt rútuferð um borgina og svo frjáls tími í Mýrinni fram að brottför.

Næturlestin vakti mikla kátínu (lesist hrylling). Minnti á aðkomu í sumarbúðir fyrir börn, kojurnar passa eflaust ágætlega fyrir litlar ítalskar og franskar konur, íslenskar velbyggðar konur þurfa aðeins meira pláss og mýkra undir sig. Ég vona að þær séu komnar heilar til Ítalíu og hafi náð að sofa eitthvað í þessum sardínudósum.
Ég var kvödd með fallegum gjöfum, 2 geisladiskar (sé nafn Hildigunnar bloggvinkonu út um allt á öðrum þeirra) og fagurblá spiladós með vísum Vatnsenda-Rósu.

Ég endurtek það sem ég hef svo oft sagt: Kórsöngur hlýtur að vera ein besta Íslandskynning sem völ er á. Söngurinn fyrir utan kirkjuna dró fjölda fólks að sem spurði hvaðan við værum. Leitt að íslensku flugfélögin skyldu ekki sjá sér leik á borði að vera með bæklingadreifingu á staðnum.

Svo er ekki verra að sitja hér í dag, þreytt og sæl, og skoða sjálfa mig í Fréttablaðinu á netinu. Ég er sem sagt í miðvikudagsblaði Fréttablaðsins. Flott mynd, flott grein. Ég er sátt og sæl. Takk… mammon? Ég sjálf? Emilía? Allt þetta samanlagt kannski?

Lifið í friði.

jiminn eini

segi á innsoginu frá því að það eru tónleikar sem heita reyndar ekki tónleikar heldur áheyrn, í Notre Dame á morgun.

Þetta átti að sjást á parisardaman.com fyrir mörgum dögum en eitthvað er netstjórinn í verkfalli. Kannski hann vilji bara hætta að vera bróðir minn?

Kvennakór Reykjavíkur í Notre Dame kl. 11-11.30 á morgun. Ókeypis inn.

Set þá líka hina auglýsinguna sem átti að vera komin inn líka:

Föstudaginn 1. júní, mun Guðný Einarsdóttir organisti, halda tónleika
í kirkju danska safnaðarins, Frederikskirken, 17, rue Lord Byron,
75008 Paris.

Tónleikarnir hefjast kl. 20 og er aðgangur ókeypis.

Á efnisskrá tónleikanna verða m.a. verk eftir Jehan Alain, Jean
Langlais, J.S. Bach og Matthias Weckmann.

Allir eru hjartanlega velkomnir!

Lifið í friði.

ljóð

Ég er alltaf voðalega „svag“ fyrir ljóðum, ljóðskáldum, ljóðrýnum… en hef samt aldrei getað almennilega þóst skilja ljóð.
Ég skil alveg sum íslensk ljóð, næ Tómasi, Megasi og Steini Steinarri, hjálpi mér hamingjan, jú, ég fæ kitl og sting þegar ég les sum ljóð en ég hef t.d. aldrei náð almennilega að skilja frönsk ljóð.
Jú, ég lýg, ég geri lítið úr sjálfri mér, ég hef fengið fiðringinn, kitlið, stinginn við lestur franskra ljóða, stundum. En oftast sit ég bara stúmm, les og les aftur og aftur eitthvað sem vinir hafa ráðlagt mér, gefið mér, með fallegum áritunum um að þetta hljóti að höfða til mín, ég les í þriðja sinn og finn enn ekki neitt. Ljóðið er bara röð af orðum, skil hvert og eitt orðanna en ekkert samhengi.
Ég ber einhvers konar fáránlega virðingu fyrir fólki sem berst fyrir ljóðinu.

Um daginn las ég upphátt þýðingu vinar míns, Sigurðar Ingólfssonar, á ljóði eftir Yves Bonnefoy. Ljóðið er málað á vegg sem verður á vegi mínum í Latínuhverfistúrnum. Viðtakendur voru fertugar konur úr ýmsum starfsgreinum, áreiðanlega ekki sérlegir ljóðaneytendur, ekki frekar en ég og þú, en þetta heppnaðist mjög vel. Það glaðnaði yfir hópnum við hverja nýja línu, þetta var gaman. Ég mun héðan í frá lesa ljóðið í hvert skipti.
Og næst ætla ég að reyna að veiða franskan vegfaranda til að fara með ljóðið á frummálinu fyrir okkur. Hver veit nema í sumarlok verði ég farin að skilja franskt ljóð? Eitt ljóð er betra en ekki neitt.

Lifið í friði.

p.s. svag er skemmtilegt orð.
p.p.s. stúmm er líka skemmtilegt orð.

Bent á mig

Gaman að finna þessa grein. Ekki eins gaman að ástæðan fyrir því að ég er að flakka á netinu er sú að börnin neita að fá sér blund og úti rignir og rignir.

Lifið í friði.

nasl

Í Frakklandi er þessi hvítasunnuhelgi ekki lengur þriggja daga helgi, mánudagurinn er vinnudagur og allur arður af honum á að renna til aldraðra og annarra sem minna mega sín. Ákvörðun sem tekin var að þýskri fyrirmynd eftir hitabylgjusumarið mikla 2003.
Enn er þó allur gangur á því hvort þetta er vinnudagur eða frídagur. Skóli barnanna minna er lokaður í dag svo hjá okkur er sunnudagsstemning, allir á náttfötunum enn klukkan hálfellefu. Við vitum ekki hvað er opið og hvað er lokað, er hægt að komast á pósthúsið, er hægt að fara að kaupa mjólk? Þetta er sem sagt alger rugldagur og allt fráfarandi ríkisstjórn að kenna.

Um daginn fór ég að hitta nokkrar konur sem ég tók í ferð um Latínuhverfið. Eina þeirra þekkti ég vel en áttaði mig ekki strax á því hver hún var. Við spiluðum saman fjórhent á tónleikum einhvern tímann í fyrndinni. Já, ég er kona með fortíð.

Í gær sagði dóttir mín allt í einu upp úr þurru: Le corps, c’est partout. Þetta mætti útleggjast á íslensku sem: Líkaminn, hann er alls staðar. Þetta þótti foreldrunum ljóðræn og skemmtileg pæling.
Hún er farin að spá mikið í ýmsa hluti, komin með Ara-syndrómið. T.d. er henni umhugað um þá staðreynd að kjöt er af dýrum. Af hverju þurfum við að borða dýr? Ég er því búin að taka góða kennslustund í grænmetisætulífsstíl, hún veit að fullt af fólki ákveður að vilja ekki borða dýr og hvers vegna. Hún veit líka að foreldrar hennar eru ekki hluti af þeim hópi, en að henni er velkomið að taka þessa ákvörðun sjálf, núna eða síðar.

Lifið í friði.

erlendur

maður liggur meðvitundarlaus á spítala eftir líkamsárás. Ekki er vitað hver maðurinn er. Samt er hann erlendur. Mig ekki skilja?

Lifið í friði.

Leit að glötuðum tíma

Á virkilega ekki að láta Pétur Gunnarsson halda áfram/ljúka þýðingunni á Proust?

Nú geri ég fastlega ráð fyrir að þetta sé peningaspursmál, að Pétur fái ekki almennilega greitt fyrir og neyðist því til að vinna önnur verkefni í staðinn fyrir þýðinguna á þessu stórvirki.
Ég hef ekkert fyrir mér í þessu.

Lifið í friði.

bla bla bla

Ég talaði í tvo klukkutíma í síma áðan við vinkonu mína. Ég hefði svo sem getað haldið áfram í allan dag og alla nótt en hendin á mér var í maski, ég hafði ekki einu sinni hirt um að skipta um hendi og eyra við og við. Sat bara eins og klessa með tólið límt við sama eyrað í 120 mínútur án þess að hreyfa fingurna. Geri aðrir betur.
Kannski má líka taka fram að netsíminn minn slítur samtali eftir 120 mínútna samtal og hefur nokkrum sinnum gert það við mig, annars vissi ég það ekki, döh.
Svo má náttúrulega líka upplýsa ykkur um að við leystum ekki lífsgátuna. Ég endurtek: Við leystum ekki lífsgátuna. En við höfum vaxið og þroskast, um það getum við báðar verið sammála.

Lifið í friði.

thíhí

Hann gerir villu í pistlinum beint á eftir afhjúpun fordóma sinna.
Ekki ypsílon villa, sem hefði náttúrulega verið mun fyndnara. En fyndið samt.

Lifið í friði.


Nýlegar athugasemdir

parisardaman um Kveðja
Margrét H um Kveðja
koparskál um Tau frá Tógó
Elín Kjartansdóttir um rafmögnuð kona
juliann um agnetha