Sarpur fyrir júní, 2007rassskellingar

Ég er að rifna úr monti yfir tveimur konum sem eru að ljúka doktorsritgerðum.
Ég er að rifna úr monti yfir vinkonum sem eru orðnar hvílíkar karríergellur að það hálfa væri nóg.
Ég er að rifna úr monti yfir hinu og þessu hjá hinum og þessum.

Ég er að rifna úr monti OG hlátri yfir henni Evu sem setti smáaauglýsingu í Fréttablaðið 8. júní síðastliðinn.

Eva, ég skal borga með í laununum, ekki spurning. Hefur þú fengið svör?

Lifið í friði.

saturday night fever

Ég á mjög auðvelt með að rifna úr monti yfir afrekum annarra. Í alvöru talað. Ég held að þetta sé dálítið sjúkt. En kannski er þetta bara allt í lagi og tengist því að ég er alltumlykjandi móðir alls.

Ég er svo þreytt að ég er að leka niður, það er ekkert í sjónvarpinu, börnin sofnuð og ég get alveg skriðið upp í rúm. Vandamálið er að maðurinn minn er á rugby-leik og ég get ekki sofnað þegar hann er ekki heima. Sem betur fer á hann ekki við þetta vandamál að stríða enda kemur það oftar fyrir að ég skrepp út á lífið án hans og stundum er ég ógurlega seint á ferðinni.
Hann er svona týpa sem sofnar áður en hann leggur höfuðið á koddann. Ég er svona týpa sem ligg og velti mér með hann hrjótandi við hlið mér (og viðurkenni fúslega að stundum langar mig að meiða hann). Svo verð ég ógurlega myrkfælin þegar hann er ekki heima að vernda mig (þá væntanlega með hrotum sínum).

Lifið í friði.

um ákvörðunina

Já, varðandi ákvörðunina sem ég bað um aðstoð við að taka í fyrradag, eru allir, hvort sem þau vita hvað um er rætt eða skjóti út í loftið, sammála um að ég eigi. Svo ég mun. Ég get varla annað.

Lifið í friði.

allt að verða vitlaust

Það er aldrei friður.
Í dag ætti ég að vera að fara í gegnum tölvupósta, taka til í öllu þessu flóði fyrirspurna og pantana svo ég fari nú ekki að klikka á einhverjum stefnumótum. Fékk hvílíka martröð í nótt um einmitt svoleiðis aðstæður. Fæ þannig mjög reglulega en hef, sjö, níu, þrettán, ekki enn lent í miklum vandræðum, a.m.k. ekki þegar ég hef skipulagt dæmið sjálf.
Ég var að vísu einu sinni send með hóp í lokaða Versali. Nóttina fyrir ferðina dreymdi mig að ég kom og höllin var lokuð en það dugði ekki til að ég færi og athugaði málið. Ég hlýddi stúlkunni sem hafði sett upp ferðina lokuð inni á kontór á Ísalandinu góða, í blindni. Lærði mikið af þessari hrottalegu lífsreynslu sem ég reddaði með því að hlaupa með tvo aðstoðarmenn út í búð og kaupa fullt, fullt af áfengi. Garðarnir voru jú opnir og veðrið hið besta. Það glaðnaði örlítið yfir hópnum við það að sitja í garðinum og skála, en ég fæ enn hjartslátt þegar ég hugsa um þetta.
En í staðinn fyrir að geta komið skipulagi á líf mitt sem forstjóri, ritari, símastúlka, sendill, innkaupastjóri, fararstjóri, bílstjóri og gjaldkeri, sit ég hér sveitt og þýði dómsskjöl sem ég skil ekki.
Ég er klikkuð. Vona að ég sé ekki líka að klikka.

Nú verð ég að minna mig reglulega á að taka EKKERT verkefni í júlí. EKKERT!

Lifið í friði.

Bíðið hér

„Bíðið hér eftir kalli gjaldkera“ stendur á skiltum á staurum í Landsbankanum í Mjódd. Eða stóð.
Þetta kætti mig alltaf innan í mér, hvar er kallinn þinn? hefði ég getað spurt gjaldkerann. En ég vissi líka að þetta var einum of mikill aulahúmor til að geta sagt hann upphátt.
Stundum næ ég að halda í mér.
Ekki alltaf.

Lifið í friði.

góðar helgar

Góðar helgar verða einhvern veginn betri þegar þær koma óforvarendis. Það var búið að spá drulluveðri, rigningu og roki en í staðinn var sól og hlýtt án þess að vera of heitt.
Laugardagurinn var fínn, flóamarkaður og stúss og göngutúr í „skóginum okkar“.
Á sunnudeginum létum við ekkert koma okkur á óvart, drifum allan tiltækan mat í nestiskörfu og rukum í alvöru skóginn í Vincennes. Þar lágum við á teppi með vín og osta, börnin hjóluðu, fótboltuðust, frisbíuðust og gáfu öndunum örlítið af dýra fína sveitabrauðinu okkar.

Sólrún hjólar án hjálpardekkja en tókst að detta svo rækilega á hausinn að hún er með svöðusár á fótum og höndum. Lítur allt mjög illa út og mikið var grátið. Sem betur fer voru mömmur með betri útbúnað en ég, hún fékk bæði spritt og plástur á bágtið strax. Það tekur alltaf smá tíma að komast upp á lagið með skógarferðirnar á vorin. Samt á ég lista, sem ég hef dundað mér við að gera í tölvunni, ég bara kíki ekki á hann í látunum við undirbúning.

Ég gerði fæst af því sem ég ætlaði mér þessa helgi, en naut hennar hins vegar til hins ítrasta. Svo það er ekki einu sinni vottur af samviskubiti. En nú eru ermar uppbrettar, vatn í glasi, te á brúsa, ljúfir tónar Kvennakórsins í tækinu og nú skal svara meilum, ganga frá pöntunum, redda málunum. Búin að þvo bílinn og ryksjúga, hann er því tilbúinn í Versalaferðina á morgun.
Hey, ég er alveg eins og launaþrælarnir núna: Mánudagur í vinnunni! Gaman að því svona stundum.

Lifið í friði.

brilljant hugmynd takist strax til athugunar af nefnd

Sjómannadagurinn er alvöru hátíð í mínum huga. Samt er ég næstum fædd og algerlega uppalin í Breiðholtinu af tótal borgarfólki sem aldrei meig í saltan sjó nema kannski einhver af höfninni (íðí) til að geta sagst hafa gert það.
Nú á þessum síðustu og verstu tímum er alls konar viti borið fólk að setja spurningarmerki við frídaga sem tengjast hátíðum kirkjunnar. Það er gott og gilt, en hafandi verið illa launaður ríkisstarfsmaður get ég borið vitni um, og býst við að flestir séu sammála, að frídagar eru góðir dagar, burtséð frá því undan hvaða rifjum þeir renna.
Ég spyr mig, væri möguleiki á að færa sjómannadaginn yfir á virkan dag og sleppa í staðinn einum af kirkjuhátíðunum?

Lifið í friði.

p.s. Niður með útgerðarmenn á Akureyri, megi sjómannadagurinn valda þeim vindgangi og lesi þeir sem flest Moggablogg.

Svar – júnígáta

Á númer þrettán, í sömu götu og ég, í sama húsi og ég.

Ég verandi vitanlega Mr. Arinbjarnarson, Sturla.

Lifið í friði

brosað gegnum tár

Fátt jafnast á við kvöldstund í góðra vina hópi. Ekki verra þegar vertinn er listakokkur og ber eingöngu fram eðalvín. Ég verð nú samt að játa að ég er dálítið mikið þreytt í dag, ég er bara alveg hætt að þola sumbl og blaður fram eftir á kvöldin, dett helst út af upp úr tíu. Aldurinn?

Í dag hófst fasta dagskráin mín. Enginn skráði sig í gönguferð og þess vegna er ég heima að vinna í tölvunni. En það streyma inn bréf og fyrirspurnir fyrir næstu vikur svo ég brosi bara í gegnum tárin eins og hver önnur fegurðardrottning.

Sem minnir mig á að um daginn sá ég krýningu á einhverri japanskri stúlku sem var gerð að Ungfrú heimur eða geimur eða hvað veit ég. Hún skalf og titraði og reyndi að brosa en það gekk ekki neitt hjá blessuðu barninu, svo yfirkomin var hún af tilfinningum. Ég er sannfærð um að það var ekki eingöngu gleði, þær hljóta líka að vera dauðhræddar þegar þetta er tilkynnt.
Ég vorkenni alltaf svona fegurðardísum, eiginlega vorkenni ég þeim á nákvæmlega sama hátt og ég vorkenni prinsessum. Það er ekkert grín að þurfa að leika svona hlutverk, held ég. Ekki það að ég hafi nokkurn tímann þurft að óttast það, verandi ekki nema helmingur af lengdarstaðli fegurðardísar hefur umsóknum mínum um þátttöku í fegurðarsamkeppnum, módelkeppnum og gátuleikjum með prins í vinning, alltaf verið hafnað.

Ég vorkenni sjálfri mér og ykkur hinum líka dálítið í dag vegna niðurrifs Múrsins. Hvað á það að fyrirstilla?

Lifið í friði.