Sarpur fyrir ágúst, 2007



sitt lítið

Umræður um Saving Iceland og mótmæli almennt urðu mun líflegri og umfangsmeiri en orðaskipti mín og Björns Fr. í morgun, hjá Stefáni Pálssyni í gær. Ekki misskilja mig Björn, gaman að ræða þetta við þig.
Hjá Stefáni er m.a. hnýtt í léleg kröfuspjöld og get ég ekki verið meira sammála. Hér sjáið þið slagorð sem er bæði hnyttið og oddhvasst.
Mér finnst að Stefán eigi að taka út fyrsta kommentið hjá sér. Það er moggabloggslegt sem hefur sömu merkingu og orðið ósmekklegt.

Annars varð ég fyrir ógurlega smáborgaralegu áfalli sem snertir matta málningu í stað glansandi, núna í hádeginu.

Ég er búin að fá tvö sms á skömmum tíma, en nenni ekki að leita að farsímanum mínum. Annað smáborgaravandamál. Hvað er eiginlega að mér?

Hvað er svo með hann Hrein Hjartahlý Rafauga Ingólf? Þarf hann að dreifa sér um alnetið eins og krabbamein? Er þetta eitthvað stærðfræðikennarakomplexasyndróm? Svona ó, nei, það má ekki blanda öllu saman, það verður að vera röð og regla. Hvílíkt og annað eins. Þrjár bloggsíður handa einum karlmanni. Kommon. Well, núna fáum við sem sagt einn fyrir þrjá:
a) Rafaugað ljóðræna
b) Heilasull um kennslufræði
c) Pólitík

Lifið í friði.

Félagsmenn athugið

Hvar ég stóð með rúllu og pensil og gerði fyrrverandi hvítan vegg aftur hvítan hlustaði ég á Rás 1, en það var orðið ansi langt síðan síðast.

Ég veit um fullt af fólki sem á hænur en er samt ekki í félaginu.

Það getur verið afskaplega þægilegt að detta inn í spjall við mann sem lifir í allt allt öðrum veruleika en maður gerir sjálfur. Og róandi, fróandi er að heyra í fólki sem gerir hlutina af alvöru áhuga, ég er að leita að íslenskunni fyrir passíon, ástríðu já. Fólk sem nær að vera drifið áfram af ástríðu hlýtur að vera heilbrigðara en hinir.

Í gær hlustaði ég á Rás 1 allan morguninn. Það voru a.m.k. þrír fréttatímar, þar af stóri hádegisfréttatíminn. Ekki minnst orði á stúlku á leið í fangelsi. Gerðist það? Var henni stungið í steininn fyrir að berjast af ástríðu gegn stóriðjustefnunni? Og telst það ekki fréttnæmt? Ég veit hún er ekki sú fyrsta. Ég veit ekki hversu margir hafa setið inni hingað til né hvort það hefur talist frétt að slíkt gerist. Viljum við að heilbrigt ungt fólk sitji í fangelsi fyrir skoðanir sínar?

Ég veit um fullt af fólki sem er náttúruverndarsinnað og er á móti stóriðjustefnu stjórnvalda en er samt ekki í Saving Iceland. Né Framtíðarlandinu.

Veggir í barnaherbergjum geta orðið ótrúlega skítugir. Fótaför og hor voru mest áberandi, þetta var veggurinn sem kojan stendur við.

Lifið í friði.

minning um menn

Jaques Villeret var einn af mínum eftirlætisleikurum. Maðurinn minn gaf mér einu sinni miða í afmælisgjöf á leiksýningu sem skartaði honum í aðalhlutverki. Þegar við mættum á sýninguna voru allir ægilega alvarlegir og miður sín. Sýningin var felld niður vegna veikinda Mr. Villeret. Við fréttum síðar að hann hefði verið lagður inn á spítala vegna ofneyslu áfengis og lyfja. Og einhverju síðar var hann bara dáinn. Sisona.

Ég er með ofnæmi fyrir Bergman, því miður. Maðurinn minn hefur verið að reyna að fá mig til að horfa á svo sem eins og eina mynd í minningu hans, en ég hef enn ekki látið undan. Hann er nú dáinn. Sisona.

Hér getið þið séð Villeret taka Bergman, ég hef ekki hugmynd um það hver konan er:

Lifið í friði.

Gleðiganga og reiðifundur

Helginni er hægt að skipta í tvennt í Reykjavík:

GLEÐI OG GAMAN
Gleðiganga með hommum, lellum, trönsum og öllum hinum sem taka þátt og nú vil ég biðja fólk um að hætta að röfla um hræsnina, mætið og verið glöð, það skiptir máli hvort sem alla hina dagana þú sýnir þessu málefni áhuga eða ekki. Þessi leiðindaómur um hræsnina gerir ekkert annað en að hefta baráttu hinsegin fólksins fyrir eðlilegum mannréttindum.
Gangan hefst klukkan tvö í dag, laugardag, á Hlemmi og fer niður Laugaveginn.

FRUSSANDI REIÐI (fundið að Fjallabaki):

Tónleikar, bíó og baráttufundur

Steinunn Gunnlaugsdóttir er 24 ára listamaður og róttæklingur. Hún var sakfelld fyrir mótmæli gegn stóriðju á Íslandi í desember 2006 og mun hún hefja afplánun dómsins 13. ágúst næstkomandi.

Sunnudagskvöldið 12. ágúst verður haldið baráttukvöld henni til stuðnings. Þar verður forsýnd heimildamyndin Viðfangið litla a sem byggir á ævi Steinunnar og verkum.

Að myndinni lokinni verða haldnir tónleikar þar sem koma fram hljómsveitirnar Morðingjarnir, Johnny and the rest og Retron og tónlistarmennirnir Pakku og The Diversion Sessions.

Atvinnumótmælendur verða á staðnum, halda uppi fjörinu og bjóða upp á veitingar. Ýmsir listamenn, pólitíkusar, merkilegt og hugsandi fólk hefur þegar boðað komu sína. Tónlist, óvæntir gjörningar er tengjast því fréttnæmasta í sumar og bíó. Ádeila og andóf er stuð!

Allt ókeypis málstaðnum til stuðnings.

Skemmtileg framtak sem vert er að veita athygli.

Dagskrá kvöldsins

20.30 Húsið opnar. Paku spilar, veitingar.
21.00 Forsýning á heimildamyndinni Viðfangið litla a
22.30 Tónleikar. Morðingjarnir, Johnny and the rest, Skátar og Retron.

http://www.myspace.com/frelsum_steinunni

Lifið í friði.

enn

Mér er ennþá óglatt.
En kannski vegna þess að ég hef ekkert borðað utan smá skammt af hrísgrjónum fyrr í dag.
En ég get ekki borðað því mér er svo óglatt.

Það sést best hvað ég var lasin áðan á því að ég gleymdi galdraformúlunni í lokin. Það hefur, að ég held, ekki gerst fyrr.

Lifið í friði.

hringt sig inn veika

Það hlaut að koma að því: Mígrenikast á vinnudegi.
Þetta er í fyrsta sinn sem ég svík fólk um göngutúr. Ferlega sárt. Næstum verra en höfuðverkurinn og uppköstin.
Muna héðan í frá: Ekki fara í matarboð eftir dag í Versölum, ég er einfaldlega örþreytt eftir slíka daga og ligg yfirleitt heima eins og slytti og fer snemma að sofa. Mig langaði ekki vitund en þetta var frænka karlsins míns sem ég hef svikið nokkrum sinnum á þessu ári, bara þorði það ekki í gær.

Sem betur fer náði ég í alla, tvær alnöfnur á fengu undarlegt símtal: Góðan daginn, Kristín heiti ég, ekki ert þú stödd í París? Ha nei, ég er í Vesturbænum. Ha nei, ekki núna í augnablikinu alla veganna (ég held hún hafi vonast eftir að hafa unnið ferð).
Lenti á þeirri réttu í þriðju tilraun.

Ég er eiginlega alveg hætt að fá mígreniköst. Þau koma út frá vöðvabólgu og mér tekst að halda þessu niðri með reglulegum tímum hjá osteópata-sjúkraþjálfara-hnykkjaranum mínum. Hann var farinn í frí þegar ég kom frá Íslandi og ég hef verið ómöguleg og skökk eftir tjaldferðir og töskuburð. Heit böð, teygjur og æfingar hafa ekki nóg að segja.

Martröð

í morgun vaknaði ég upp með andfælum.
Mig dreymdi að ég skildi börnin eftir í bílnum og fór eitthvert. Kom svo til baka og þá sat afi minn heitinn með bók í aftursætinu í stað Kára í bílstólnum sínum, ég hrökk illilega við og lét mig vakna meðan ég var samt að reyna að kíkja betur inn í bílinn til að sjá hvort börnin væru þar líka eða hvort þau væru horfin.

Og allur dagurinn er búinn að vera hálfskrýtinn, ferlega sakna ég barnanna og ferlega er ég hrædd um þau.

Svo er ég eitthvað lost í sambandi við allt þetta helvítis dæmi.

Ég er í fýlu.

Það er rigning.

Lifið í friði.

busi

í spaslvinnu morgunsins rann upp fyrir mér að ég er háskólanemi á ný og líklega fer önnin bráðum að hefjast. Allt í einu helltist yfir mig kvíði. Ég veit ekkert, hef ekki græna glóru um það hvernig þetta mun fara fram, hvort ég get þetta yfirleitt, né hvað ég á að gera.
Verður haft samband við mig eða á ég að hafa samband og þá hvert?
Og auðvitað, þegar ég fór að athuga hvort eitthvað kæmi fram á síðunni minni hjá Uglu, get ég ómögulega munað hvaða blessaða notendanafn þau gáfu mér þegar ég skráði mig þar inn.
Mér líður eins og busa.

Lifið í friði.

ferðadagur

Dagurinn í gær var fínn. Nú VERÐ ég að koma almennilega til Brussel, sá ekki einu sinni litla pissandi drenginn, það var réttsvo tími til að koma hópnum niður á Miklatorg í hádegismat.
Franskar kartöflur eru upprunnar í Belgíu, við vorum á svo mikilli túristabúllu að þær voru ekki einu sinni neitt spes. En þær voru bornar fram með majónesi. Í Frakklandi eru þær bornar fram einar og sér en sumir vilja sinnep, örfáir fá sér majónes. Íslendingarnir heimtuðu tómatsósu og engar refjar og var það auðsótt mál. Hamborgararnir komu brauðlausir, ég þarf að rannsaka það mál nánar.
Grande Place er sannarlega fallegt torg, kannski það fegursta í heiminum?

Eindoven er ekta hollensk borg, en ég sá enn minna af henni en Brussel. Sniðugir undirgangar, bæði fyrir hjólandi og gangandi, breiðir og notendavænir. Mollið sem ég villtist óvart inn í á leiðinni á lestarstöðina er eins og moll eru út um allt.
Lestarstöðin eins og lestarstöðvar, fólk að fara, fólk að koma, fólk að týna veskinu sínu, fólk að kaupa sér nesti, fólk að kyssast dramatískum blautum kossum, Kristín grúfir sig yfir Sudoku og þykist ekkert sjá eða heyra en er með öll loftnet úti af forvitni. Engin tala bættist í þrautina alla ferðina.

Lestin var frábær, búið að taka THALYS hraðlestirnar milli Parísar, Brussel, Rotterdam og Amsterdam í gegn og annað farrými jafnast alveg á við það fyrsta.
Ég hleraði tvo unga og sérlega fríða drengi í næsta bás. Þeir gáfu ekki mikið fyrir nám á borð við listasögu eða bókmenntafræði. Fínt til að kúltívera sig upp fyrir kaffihúsaferðir en til að lifa af, no way!
Ég hleraði ýmislegt fleira en man ekkert sérstakt í augnablikinu. Saurugar hugsanir skutu upp í kolli mínum, hvernig ætli það sé, fyrir konu eins og mig, komin þó á þennan aldur (nota bene, mér finnst alls ekki farið að slá í mig, er bara ekki lengur tvítug), að vera í ástarsambandi við einn tvítugan? Væri það ekki bara kynferðislegt, gæti ég virkilega náð einhverju öðru úr sambandinu? Ég hló með mér og huggaði mig við að ég á minn karl sem er nú alveg bara hreint ágætur og uppfyllir þarfir mínar á ýmsum sviðum.

Það er mjög kósí að sitja í hraðlest að kvöldi, einhver dumbungsleg stemning, ljósin þjóta hjá eins og strik. Gott ég var með aukapeysu, hefði alveg þegið lopapeysuna. Dottaði stundum og las þess á milli úr Lesbókinni. Er ekki greinin um þýska (ungur og fríður, hné hné hné) innflytjendarithöfundinn eitthvað hroðvirknislega skrifuð?

Lifið í friði.

faraldsfótur

Á morgun vakna ég í París, borða hádegismat í Brussel, fæ kaffi í Eindoven og sofna svo aftur í örmum mannsins míns í París. Starfið getur stundum falið í sér ferðalög annað en um stræti Parísar. Þetta gæti hljómað spennandi en verður aðallega: hossast í rútu klukkutímum saman og sitja svo í lest heim.
Það er að hefjast Heimsmeistaramót íslenska hestsins í Hollandi. Vissuð þið að það væri til? Ekki vissi ég það fyrr en í gær.

Lifið í friði.