Sarpur fyrir september, 2007

hjólað í París

Noh, Ferðalangur.net var á undan mér að segja frá hjólunum í París.

Um daginn var ég á leið um 7. hverfi að kvöldlagi. Á gatnamótum birtast þrír jakkafataklæddir karlar á fimmtugsaldri, ægilega fínir og smart, örugglega með feit veski og „falleg“* úr, allir á Vélib’ hjólum. Ég fékk kökk í hálsinn. Svona álíka og fólk lýsir að gerist þegar það horfir á Gay Pride. Ég kannast nefninlega líka við það. Það er einhver ótrúlega góð byltingartilfinning að sjá fólk sem óvanalegt er að sjá hjólandi, hjólandi.

Vélib’ er frábær viðbót við flotta borg og gengur svo vel að farið er að nefna borgarstjórann sem tilvonandi forsetaefni sósíalistanna. Verst hvað það er stutt síðan núverandi forseti var kjörinn, Delanoë verður ekkert endilega á stalli fyrir þetta í fjögur ár, en hann er helvíti góður í baráttunni gegn einkabílnum, leggur borgarstjórastöðu sína hiklaust að veði í því stríði, og hefur rifið upp almenningssamgöngur sem er einmitt það sem allar nútímaborgarstjórnir ættu að einbeita sér að, vilji þær geta kallast nútímalegar og framsæknar.

Lifið í friði.

*mér finnst í raun undarlegt að tala um fegurð úra. A.m.k. á ég hér við að þeir séu með dýr úr og, trúið mér, það er ekki beintenging milli verðs og fegurðar úra.

lyst á list?

Ég á vinkonu sem er listakona, listamaður, listaálfur, lífslistakonumaður, köttur sem fer sínar eigin leiðir, trúuð en ekki kirkjurækin eða undirgefin, stundum grænmetisæta, stundum ekki, leitandi en samt með allt sem er inni í sjálfri sér.
Hún hefur málað og leirað um nokkurt skeið og er nú komin með verkin sín á netið. Dömur mínar og herrar, njótið heil.

Lifið í friði.

kíghósti

Nágrannakona mín og móðir þriggja aukabarna minna er búin að vera lasin og dauf í tvær vikur. Í gær fór hún til læknis sem sagði henni að rífa þetta úr sér með panódíl(i?). Í gærkvöld fór hún svo að hósta með soghljóðum og eftir símtal við lækninn í morgun á að taka sýni til ræktunar því honum finnst þetta hljóma eins og kíghósti.
Meðgöngutími kíghósta er 5-15 dagar. Ég er búin að vera hálfslyttisleg alla þessa viku, skilaði óvart hálfkláruðu verkefni, áttaði mig á því um nóttina að það sem ég hafði geymt hafði ég svo gleymt, ég lá í sófanum og las blogg og leysti sudoku í heilan dag og fékk þann úrskurð frá góðri konu að líklega væri ég maníusjúklingur, komin niður úr maníunni sem ég hef verið í undanfarnar vikur, ég nennti ekki út með skemmtilegu fólki í gærkvöld og mér er illt í hálsinum og það leiðir út í eyra.
Ég trúi því samt ekki að ég sé komin með kíghósta. Ekki það. Ekki ég. Ekki núna.

En ég held að ég fari kannski að spá í endurbólusetningu. Maðurinn minn fór í slíkt fyrir ári síðan, hann er mun duglegri en ég að hlýða læknum.

Lifið í friði.

þegar ég vakhnaði um morguninn

Ég finn til í öllum skrokknum. En mér líst vel á þessa tíma. Við vorum þrjár nýjar, allar hinar þekktust sín á milli og þekktu kennarann sem er unaðslega sætur með tröllalokka og allt.
Kellingarnar flestar eldri en ég og flissuðu eins og smástelpur þegar hann gantaðist í þeim. Svo töluðu þær hver í kapp við aðra og stundum þurfti kennarinn að sussa á þær. Það er ekki bara í verkefnavinnu í fjarnámi sem mér líður eins og ég sé aftur komin í ellefu ára bekk. Hlýtur að vera gott fyrir húðina allt saman, ég ætti kannski að hafa áhyggjur af því að verða enn barnalegri í útliti?
Allar erum við sammála um að vilja ekki hlaupa neitt of mikið en kennarinn segist þó vilja sjá árangur og auðvitað viljum við allar gera honum til geðs, hann er svo sætur. Reyndar er einn karlmaður í hópnum en hann fílar sig svo vel að hann er alveg eins og einn af stelpunum svo ég mun tala um kvennahópinn minn áfram.
Og stemningin milli kvennanna kom mér á óvart, alveg sama fjörið og í Baðhúsinu hjá Lindu í denn. Ég man ekki eftir að hafa lent í svona hérna, það var mun stífari stemning í leikfiminni sem ég fór í inni í París í fyrra. Fullt af indælu fólki þar, en ekki svona stanlaust stuð og grín eins og þarna í gær.
Ég var samt töluvert fúl yfir því að lummufötin mín skáru sig ekkert úr. Allar voru þær bara í óskaplega venjulegum íþróttabuxum og bolum, ekkert merkja- eða tískusnobb í gangi. Mér finnst nefnilega svo gaman að vera eins og lúði innan um íþróttafrík í flottu göllunum sínum. En ég er ekki nógu svekkt til að það hafi áhrif á mætinguna, ég SKAL vera dugleg í vetur. Áfram Kristín!

Lifið í friði.

tvær sögur

Samkvæmisleiknum er lokið. Alvaran tekin við:

Fyrst skaltu lesa þessa.

Síðan þessa hér.

Af hverju er það svo að manni finnst maður þurfa að skammast sín fyrir að vera Íslendingur oftar og oftar? Var þetta kannski líka svona í gamla daga? Verð að muna að spyrja mömmu og pabba að þessu næst.

Lifið í friði.

grundvallagata 12

Það er samkvæmisleikur í gangi hjá norninni Evu. Gaman að leika. Tek sénsinn á því að vera tekin alvarlega. Það er allt of algengt að fólk taki mig alvarlega. Slæm mistök, stundum.
Ég er á kafi í kvíslgreiningu, kyni tölu föllum háttum tíðum og öðru slíku og það getur leitt til mikillar þarfar fyrir að bulla, það er eitthvað svo hátimbrað athæfi að kvíslgreina. Vinkonu minni heyrðist ég vera að hvíslgreina. Samt var ég ekki að hvísla þegar ég sagði henni það. Svona er þetta undarlegt stundum.

Ég hef ekki heyrt neitt um þátt tvö. Var hann svona góður eða var hann svona slæmur? Er hann kannski ekki vikulegur? Var ég annars búin að kvarta yfir brussuganginum í þætti eitt með að margendurtaka að titillinn er margræður? Gereyðilagði margræðnina. Dæmigerð byrjendamistök, sem er furðulegt í ljósi reynslu mannsins.

Annars hef ég pælt í því í nokkra daga hve erfitt er að greina milli brussugangs og dónaskapar. Lenti nefninlega í samtali um daginn þar sem mér þótti viðmælandinn mjög dónalegur. Held samt að viðmælandanum hafi fundist hann mjög eðlilegur og það sem beðið var um mjög sjálfsagt. Hef varla hætt að hugsa um þetta og naga mig í handarbökin bæði yfir því að hafa orðið kjaftstopp í staðinn fyrir að segja: Mér misbýður. Og nú er það of seint.
Hvað gerir lítil kvíslgreind kona þá?

Lifið í friði.

ciel mon mari!

Maðurinn minn segir börnunum sögur af Le petit lutin á hverju kvöldi. Þessi hefð byrjaði í tjaldútilegu á Normandí fyrir nokkrum öldum síðan. Þá áttu börnin eitthvað erfitt með að róa sig niður í spenningnum yfir því að vera í tjaldi og brá karl á það ráð að segja sögu. Síðan hefur eingöngu verið sleppt úr þeim fáu kvöldum sem hann er ekki heima þegar farið er í rúmið og auðvitað þegar við erum stödd í öðru landi en pabbinn.

Það hefur gengið á ýmsu hjá Le petit lutin. Hann á góðan vin sem heitir Haraldur og vinkonu líka sem ég man samt ekki hvað heitir. En í sögunni hafa undanfarið verið persónurnar David Beckham og Yasmina Reza. Ég heyri bara undan og ofan af atburðarrásinni og hef alveg gleymt að spyrja hann hvað hún Yasmina sé að gera þarna, ég held að Beckham sé lélegur í fótbolta í sögunni, eða er hann að kenna litla álfinum? Ekki viss.
Yasmina Reza var nýlega að gera pínulítið á sig í hópi intellóelítunnar með bók um Sarkozy og kosningabaráttuna þar sem hún sleikir mest rassa, skilst mér og kafar ekki nógu djúpt í pælingar um vald, valdafíkn og einsemdina sem fylgir völdum.
Ég væri alveg til í að sjá Listaverkið aftur. En nenni ómögulega að lesa óð um Sarkozy.

Lifið í friði.

Ég játa eitt á mig

Ég sagði einhvers staðar í athugasemd(held að það hafi verið hjá Hildigunni) að mér þætti fyndið að einhver karl væri að tala um að mæta með trúboð í miðbæinn um helgar til að bjarga „ástandinu“. Ég hafði þá ekki græna glóru um að þessi karl væri háttsettur hjá lögreglunni, taldi hann vera frá Ómega eða Krossinum, Veginum, Síðari daga heilögu eða einhverri slíkri menningarstofnun. Ég bið hér með forláts. Þetta er ekkert svo rosalega fyndið.
Og þó… kannski hægt að hlæja „gulum hlátri“ eins og Frakkar kalla þann bitra?
Þetta ætti að kenna mér að hætta að gaspra um hluti sem ég veit nákvæmlega ekki neitt um. En það mun þó að öllum líkindum ekki gera það.

Lifið í friði.

það er ekki það

að mig langi ekki til að blogga, það er bara svo brjálað að gera hjá mér. Tímanum er skipt milli náms og vinnu, barna og karlinn fær svo sjúskaða rest sem felst í fósturstellingu í sófa eða uppi í rúmi með tilheyrandi hrotum.
Það er gaman að læra en ferlega er þetta nú erfitt fyrir svona gamlar kerlingar.
Ég er búin að hlusta á einn af fyrirlestrum þriðjudagsins og ætti að ná að hlusta á hina þrjá á morgun. Þá er ég væntanlega búin að ná upp réttum takti. Í bili. Verst að ég hef næstum aldrei tíma til að lesa neitt að ráði, gríp niður hingað og þangað svona meðan ég hræri í pottum.
En ég er að springa, hef svo mikið að segja um konurnar sem komu til Íslands um daginn og kenna íslam um allt, um bókmenntaþátt sem á heima í útvarpinu, enda sjónvarpið bara ruslmiðill og hana nú og bara um ditten og datten en það verður að bíða betri tíma.
Fáið ykkur rjóma.

Lifið í friði.

ég veit ekki með Björn og Friðrik,

en þið hin ættuð að skella ykkur á þykka og væna ljóðabók á þúsundkall núna strax.

Lifið í friði.


Nýlegar athugasemdir

parisardaman um Kveðja
Margrét H um Kveðja
koparskál um Tau frá Tógó
Elín Kjartansdóttir um rafmögnuð kona
juliann um agnetha