Sarpur fyrir september, 2007myndaorðabókin

Ég á afmæli eftir nokkra daga og er ekki í nokkrum vafa um að byrjað sé að safna í pott til að kaupa þessa bók handa mér. Ég uppgötvaði þessa tegund orðabóka fyrir löngu síðan í bókaverslun í París en átti þá engan pening. Svo kom ég síðar og leið eitthvað betur í pyngjunni en þá fríkaði ég út á valkostunum og fór út með það í huga að gúggla upp umsögnum um bækurnar áður en ég splæsti í svona. Þarna hafa verndardísirnar mínar og litlu álfarnir ásamt fylgjunum mínum sameinast um að hjálpa mér að bíða eftir íslensku útgáfunni, því aldrei gekk ég í það mál að bera saman erlendu útgáfurnar. Það hlýtur að vera þess virði að borga helmingi hærra verð fyrir að bæta íslenskunni við, sérstaklega þar sem nú var franskan ekki sniðgengin eins og hún er nú ansi oft í íslenskri útgáfu.

En þar sem ég er ekki illa haldin af því að aldrei megi segja neitt neikvætt, au contraire, verð ég að varpa fram einni spurningu: Hefði ekki verið nokkuð góð og gild ástæða til að leyfa pólskunni að vera með líka?

Lifið í friði.

er þetta ekki grín?

Er aftur kominn sunnudagur?

Lifið í friði.

galdrar

Á miðvikudaginn varð ég ógurlega svartsýn og vældi í vini mínum um að þetta Parísardömudæmi væri kannski bara rugl, nokkrir mjög neikvæðir hlutir hafa verið að gerast og kannski yrði ég bara að hætta.
Hann benti mér réttilega á að ég hefði þó aldrei fengið annað en jákvæð viðbrögð frá viðskiptavinum, að ég vissi það alveg að það sem ég geri er ég að gera eins vel og mér er unnt, að mér er ekki sama og að fólk finni það. Það lifnaði yfir mér. Þetta er náttúrulega alveg rétt hjá honum.
Líklega á sama andartaki og lifnaði yfir mér var sendur tölvupóstur frá Íslandi með ósk um þjónustu. Daginn eftir komu svo fleiri óskir og nú er ég aðallega í vandræðum með að dragast ekki enn meira aftur úr í náminu.
Ég er heppin að eiga þennan góða vin, sem þar að auki færir mér kaffi í rúmið á hverjum morgni.

Það sem er þó enn ferlegt, er að þurfa að fara heim til vina til að hlusta á fyrirlestrana í lánstölvu. Liggur við að ég fari á stúfana og reyni að finna notaða PC druslu á góðu verði. Mig myndi verkja illilega í budduna við þau kaup.

Lifið í friði.

nýtt nám, meiri billy

Ég er búin að fá bókapakkana. Einn frá Íslandi, einn frá Frakklandi. Sá frá Íslandi var mun fljótari að berast, eftir að hann loksins komst af stað.
Ég hef ekkert pláss fyrir meiri Billy, þó það sé alltaf pláss fyrir góða vini á heimilinu.

Lifið í friði.

víst er campari góður drykkur

Auðvitað er hægt að fá hausverk og magapínu af einhverjum ógeðsblöndum. En það breytir því samt ekki að campari er hrikalega góður drykkur, svona við og við til hátíðabrigða. Og að sjálfsögðu minnir Parísardaman á að óhófleg notkun áfengis getur valdið ýmsum vandræðum og kvillum, áfengis er því alltaf réttast að neyta í hófi. Og ef þér er aldrei boðið í hóf skaltu bara muna að þú getur alltaf haldið hóf sjálf(ur).

Þú mátt ekki svara þessu nema þú hafir áður svarað til um nýtt útlit hinnar síðunnar minnar, sjá hér fyrir neðan.

Lifið í friði.

nýtt útlit

Það er komið nýtt útlit á parisardaman.com. Mig vantar álit ykkar.

Sjálf er ég á því að breyta myndunum aðeins. Það sem sést núna eru sem sagt tröppur í La Défense blandaðar við turnana á Notre Dame og svo stóll í Tuileries-görðunum. Ég vil hafa stólinn græna einhvers staðar þarna, hitt er ég ekki viss með.
Ábendingar? Uppástungur? Kíkið á myndirnar hans Einars (sjá tengil t.d. ofarlega til hægri á parisardaman.com.
Einar, ert þú með skoðanir sjálfur, sem hirðljósmyndari?

Lifið í friði.

andlegt skróp

Í staðinn fyrir að vinna sveitt að fyrstu verkefnunum sem ég á að skila á morgun, er ég að flakka um bloggsíður. Ég rakst á þessa skemmtilegu síðu í gegnum Þotustrik. Nú er ég í áfalli, bæði femínísku og málvitundarlegu. Ég held ég blandi mér bara kamparí í órans og hætti þessu streði. Hvort eð er tapað mál, eða hvað?

Lifið í friði.

Loksins

Ég er búin að sitja í tímum í allan dag.
Það er áhugaverð lífsreynsla að sitja svona alein heima hjá sér og heyra allt sem fram fer í skólastofunni, eða réttara sagt sem fram fór í skólastofu fyrir viku síðan. M.a. óskar kennarinn nemendum til hamingju með að hafa fengið að hafa tímana í Árnagarði, á kaffistofunni þar slái nefninlega hjarta íslenskudeildarinnar. Þá leið mér eins og utangarðsmanni, eins og ég væri föst í rangri vídd og kæmist ekki þangað sem ég ætti samt að fara. Nei nei, þetta eru ýkjur. Þó að stundum sé þetta svolítið einmanalegt, sérstaklega fyrir félagsveru eins og mig, er þetta frábært kerfi (FYRIR UTAN AÐ ÚTILOKA MAKKANA) og gaman að heyra allt, líka hóstann, hikið og vandræðaganginn með tæknina. Oft sem maður brosti í kampinn, gjammaði jafnvel frammí. Einu sinni bað ég kennara að hætta að tala of nákvæmlega um lokaprófið (hvað er eiginlega að nemendum sem byrja að spyrja um slíkt í fyrsta tíma?) og þá allt í einu stoppaði hún og sagði að líklega væri of snemmt að vera að tala um þetta. Æði.
Svo getur maður staðið upp og teygt úr sér, borað í nefið, skipt aftur yfir í náttbuxurnar, hengt úr einni vél, allt um leið og maður situr tímann!

Hins vegar á ég eftir að hlusta á einn tíma úr síðustu viku og nú hafa auðvitað tveir tímar bæst við í dag. Og bækurnar lögðu ekki af stað fyrr en í dag úr bóksölunni (eitthvað aðeins of mikið að gera víst) og það kom skýrt fram að engar undantekningar eða afsakanir væru teknar gildar í skilum á heimaverkefnum. Sem gerir það að verkum að ég fæ líklega núll, kannski einn fyrir viðleitni, út úr fyrsta verkefninu. En það skiptir nú ekki öllu máli, aðalmálið er að ég er komin í gang og líst svona líka vel á allt saman.

Næsti höfuðverkur er líklega að athuga hvernig ég get tekið prófin. Helst langar mig náttúrulega til að vera „pínd“ til að koma heim, en ég sé að ég á eftir að þurfa að púnga út fleiru en bara innritunargjöldunum fyrir þetta ævintýri, úff hvað ég sendi stóra millifærslu í Bóksöluna, og það þó ég hefði splæst bæði í Íslenska tungu og Orðabókina fínu í sumar. Djísúss hvað það er dýrt að vera námsmaður. Eins gott að hafa gagn og gaman af þessu brölti. Nám er áreiðanlega lúxus sem ekki allir geta leyft sér.

Lifið í friði.

skjótt skipast

Ég skokkaði út til læknisins í morgun á stuttum appelsínugulum hörbuxum og stuttermabol með létta gullsandala á fæti.
Nú ætla ég að skjótast upp í ráðhús Copavogure með vottorð um að ég megi stunda leikfimi en eitthvað verð ég að klæða mig betur, ekki viljum við að það slái að mér. Trjágreinar feykjast til og frá, himinninn er kolgrár, það gæti jafnvel rignt.
Það er ekki bara í íslenskum stórfyrirtækjum sem veður skipast skjótt í lofti.

Annars er mitt helsta umhugsunarefni þessa dagana (fyrir utan náttúrulega hvernig í ósköpunum ég á að ná að hlusta á fyrirlestrana)er að bæði í Ikea bæklingnum nýja, og í Ikea búðinni stóru, eru föt frá HogM. Þessu hafði ég ekki tekið eftir áður. Eitthvað sænskt plott í gangi?

Að lokum langar mig að deila með ykkur gleði minni yfir því að finna í bókastaflanum í náttborðinu óupptekna bók, Bréf til Maríu. Hana keypti ég á leiðinni frá Íslandi í júlílok, en ákvað að geyma hana aðeins, tímdi ekki að lesa hana alveg strax. Sem varð til þess að ég svona líka steingleymdi því að ég ætti hana eftir. Þannig að eiginlega hef ég eignast bókina tvisvar. Sem er ekkert nema gaman.

Lifið í friði.

sunnudagur aftur? ha? var hann ekki síðast í gær?

Eftir að hafa hlustað á Víðsjá föstudagsins núna í morgunsárið, veit ég að auðvitað þekkti ég hásrödduðu konuna sem fjallaði um frönsku rithöfundadeiluna um daginn. Þetta er engin önnur en fyrrverandi Parísardaman Arndís Hrönn Egilsdóttir, leikkona með meiru.

Þegar eitt mál leysist, kemur annað í staðinn. Þannig á ég nú í stökustu vandræðum með að reikna út hvað ein kampavínsflaska kostar.

Best að snúa sér aftur að heimaverkefninu, mér finnst gaman að vera orðin námsmeyja á ný. Líklega er ég eilífðarstúdent í eðli mínu, eins og manni fannst það nú hallærisleg örlög í gamla daga.

Lifið í friði.